Vegna COVID-19 faraldursins fór starfsemi skrifstofu nefndarinnar fram í fjarvinnu að langmestu leyti frá fyrri hluta mars og fram í maí og voru nefndarfundir haldnir í gegnum fjarfundabúnað á sama tíma. Ánægjulegt er að segja frá því að þetta hafði ekki áhrif á afköst nefndarinnar.
Starfsemin hefur nú færst í fyrra horf en viðbragðsáætlun gerir ráð fyrir að fjarvinna verði tekin upp að nýju ef tilefni gefst. Aðilar eru áfram eindregið hvattir til þess að nýta sér möguleika til rafrænnar málsmeðferðar með því að senda kærur, umsagnir, gögn og annað með rafrænum hætti til uua@uua.is fremur en að senda nefndinni framangreint bréflega.
Á öðrum ársfjórðungi bárust úrskurðarnefndinni 33 kærumál en 47 var lokið. Á tímabilinu voru kveðnir upp 40 úrskurðir og var mikill meirihluti þeirra efnisúrskurðir. Í lok annars ársfjórðungs voru hjá nefndinni 38 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 83 talsins. Staðan heldur því áfram að batna að þessu leyti og er málahali nefndarinnar nú í eðlilegu horfi.
Lögbundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er ýmist allt að þrem mánuðum eða allt að sex mánuðum í viðameiri málum og telst frá því tímamarki er henni berast gögn frá viðkomandi stjórnvaldi. Nefndinni hafa ekki borist gögn í 15 málum af þeim 38 sem eru óafgreidd og einu öðru hefur verið frestað með samkomulagi aðila. Því eru 23 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau komin mismunandi langt í vinnslu.
Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 3,7 mánuðir á öðrum ársfjórðungi (5,7 mánuðir á fyrsta ársfjórðungi, 4,8 mánuðir að meðaltali fyrsta helming ársins og 8,2 mánuðir allt árið 2019). Því markmiði úrskurðarnefndarinnar hefur því verið náð að meðalafgreiðslutími verði kominn undir fimm mánuði í árslok, en viðaminni mál taki skemmri tíma. Alls var 91% mála lokið innan sex mánaða, en á fyrsta ársfjórðungi var 55% mála lokið innan þeirra tímamarka.
Öllum kærumálum frá árinu 2019 er nú lokið utan eins sem frestað var með samkomulagi aðila. Aldur elsta óafgreidda málsins frá árinu 2020 er ríflega fjórir mánuðir miðað við hvenær gögn bárust nefndinni, en það er ekki í flokki viðaminni mála. Í öllum öðrum málum, þ. á m. viðamiklum málum, eru ekki liðnir þrír mánuðir frá gagnaskilum stjórnvalda. Að meginstefnu til hefur lögbundnum málsmeðferðartíma því verið náð, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þótt búast megi við minni háttar frávikum næstu tvo til þrjá mánuði sökum sumarorlofa.
Áhugasömum er sem áður bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.