Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

111/2019 Svarfhólsskógur

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2019, kæra vegna gjaldtöku fyrir hreinsun rotþróa í Svarfhólsskógi í Hvalfjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarbústaðar að Hátröð 9, Hvalfjarðarsveit, gjaldtöku fyrir hreinsun rotþróa í Svarfhólsskógi. Er þess krafist að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu fyrir hreinsun rotþróa hjá sumarbústaða­eigendum í Svarfhólsskógi eða endurgreiði þeim „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Til vara er þess krafist að næsta árlega greiðsla kæranda vegna hreinsun rotþróar verði felld niður eða að sveitarfélagið endurgreiði honum „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 10. febrúar 2020.

Málavextir: Hinn 15. mars 2017 sendi kærandi, fyrir hönd Svarfhólsskógar, félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar tölvupóst þar sem bent var á að rotþrær í Svarfhólsskógi, sem síðast hefðu verið hreinsaðar árið 2013, hefðu ekki verið hreinsaðar árið 2016. Því myndu líða fjögur ár á milli hreinsana þrátt fyrir að í 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit væri kveðið á um að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ára fresti. Í bréfinu kom einnig fram að margir sumar­bústaðaeigendur hefðu látið í ljós óánægju sína með hækkun á hreinsunargjaldi fyrir rotþró, en með gjaldskrá nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit hækkaði hreinsunar­gjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús úr kr. 8.440 í kr. 11.650. Kom kærandi þeim tilmælum á framfæri við sveitarstjórn að hún freistaði þess að ná hagstæðari samningi um hreinsun rotþróa. Svaraði sveitarstjóri samdægurs og þakkaði ábendingarnar, benti á að farið yrði yfir málin heildstætt og að þjónustugjöld skuli standa undir kostnaði við veitta þjónustu. Í kjölfarið áttu frekari samskipti sér stað milli kæranda og sveitarfélagsins.

Hinn 11. apríl 2018 barst félagi eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi bréf frá skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins þar sem útskýrt var skipulag sveitarfélagsins á hreinsun rotþróa og að árið 2013 hefðu verið gerðar breytingar á fyrirkomulaginu. Bent var á að sveitarfélagið hefði gert samning um hreinsun rotþróa árið 2014 sem gilti til ársins 2019 og væri hann ekki uppsegjanlegur á samningstímanum. Einnig kom fram að undanfarin ár hefði hreinsun rotþróa verið rekin með halla og nauðsynlegt hefði reynst að hækka gjöldin árið 2016 til að mæta raunkostnaði við hreinsun rotþróa.

Hinn 21. apríl 2018 var á aðalfundi félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhóls­skógi skorað á sveitarstjóra að svara erindi formanns félagsins er varðaði forsendur gjaldtöku fyrir sorp- og rotþróarhreinsun og hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumar­bústaðaeigenda fyrir rotþróahreinsun. Á fundi sveitarstjórnar 8. maí s.á. var samþykkt að hafna kröfu um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Hinn 21. mars s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra frá félaginu vegna gjaldtöku „fyrir sorp- og rotþróahreinsun í frístundabyggðinni Svarfhólsskógur […] í Hvalfjarðarsveit.“ Með úrskurði 22. október 2019, í kærumáli nr. 90/2018, var kæru félagsins vísað frá sökum aðildarskorts. Kæra í máli þessu barst 28. s.m., eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í álagningarskrám Hvalfjarðarsveitar á fyrri árum hafi þess verið getið að gjald fyrir hreinsun rotþróar væru uppreiknuð milli ára miðað við vísitölur. Því hafi verið hætt fyrirvaralaust árið 2017 og án nokkurrar útskýringar. Það ár hafi gjald fyrir hreinsun rotþróar verið hækkað um 35%, haldist óbreytt 2018 en hækkað um 6,3% árið 2019. Meintur kostnaður sveitarfélagsins vegna hreinsun rotþróa hafi verið innheimtur með fasteignagjöldum en skipt niður á þrjú ár fyrir hverja hreinsun. Samkvæmt greiðslu­fyrirkomulagi og reglum sveitarfélagsins, sbr. 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit, þar sem kveðið sé á að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ári fresti, hefði átt að hreinsa rotþrær í Svarfhólsskógi árið 2016, en það hafi ekki verið gert. Hvorki hafi verið haft samráð við sumarbústaðaeigendur né þeim verið tilkynnt um breytingu á tíðni hreinsunar, svo sem sveitarfélaginu hafi borið að gera samkvæmt sömu grein samþykktarinnar þar sem segi að sveitarstjórn ákveði að fengnum tillögum framkvæmdaaðila tíðni hreinsunar og skuli ákvörðun tilkynnt íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins.

Kærandi hafi á árinu 2017 haft samband við fyrirtæki er sjái um hreinsun rotþróa og spurst fyrir um kostnað við hreinsun á rotþróm í eignarlóðum í Svarfhólsskógi ásamt öllum rotþróm á samliggjandi svæði leigulóða í skóginum. Niðurstaðan hafi verið rúmlega einni milljón króna lægri upphæð en það sem sveitarfélagið innheimti á sama svæði. Kærandi hafi kynnt þá niðurstöðu fyrir sveitarstjóra félagsins með bréfi, dags. 15. mars 2017, og hvatt hann til að reyna að ná betri samningi, en það hafi hann ekki gert. Þá hafi kærandi ítrekað óskað eftir rökstuddri og sundurliðaðri gjaldtöku vegna rotþróarhreinsunar. Skipulagsfulltrúi sveitar­félagsins hafi svarað þeirri beiðni 11. apríl 2018 með mjög ófullkominni sundurliðun og hafi því verið óskað eftir nákvæmari sundurliðun, en þeirri beiðni hafi verið vísað til sveitarstjóra. Á aðalfundi félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi 21. apríl 2018 hafi verið skorað á sveitarstjóra að svara erindi kæranda. Áskorunin hafi verið afgreidd með bókun á sveitarstjórnarfundi 8. maí s.á., en þar hafi ranglega verið sagt að gerð hafi verið krafa um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Aðeins hafi verið spurt um hvernig sveitar­félagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarbústaðaeigenda á gjaldinu. Þá sé þeirri staðhæfingu í bókuninni mótmælt að aðilar í Svarfhólsskógi hafi ekki ofgreitt umrætt gjald.

Nýtt tæmingarskipulag hafi verið tekið upp árið 2013, en sumarbústaðaeigendum í Svarfhóls­skógi hafi ekki verið tilkynnt um það. Vegna misskilnings milli forsvarsmanna sveitar­félagsins og verktakans hafi rotþrær ekki verið hreinsaðar fyrr en árið 2017 eða fjórum árum síðar. Eigi að síður hafi sumarbústaðaeigendum verið gert að greiða eina ársgreiðslu í viðbót og hafi þeir því greitt 37,5% meira en allir aðrir í sveitarfélaginu, eða 31.625 kr. fyrir eina hreinsun með fjórum árgjöldum á meðan allir aðrir hafi greitt 22.995 kr. Í greinargerð sveitarfélagsins í kærumáli nr. 90/2018 komi fram að ný þriggja ára lota í Svarfhólsskógi hafi byrjar að líða árið 2014. Sú túlkun sé fráleit þar sem ný þriggja ára lota hafði byrjað um leið og rotþrær hafi verið tæmdar árið 2013.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í kæru komi ekki fram hvaða stjórnvaldsákvörðun sveitarfélagsins sé verið að kæra, sbr. áskilnað þar um í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé vísað til neinnar einnar ákvörðunar sveitarfélagsins sem kveði einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli. Ekki liggi fyrir nein kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu. Athuga­semdir kæranda snúi ýmist að ákvörðunum sveitarfélagsins sem varði fleiri en einn aðila sem teljist vera stjórnvaldsfyrirmæli og heyri því ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar eða að tiltekinni ákvörðun stjórnvalds einkaréttarlegs eðlis, þ.e. samningi við verktaka um hreinsun rotþróa eða að framsetningu upplýsinga. Ákvörðun um breytingu á fyrirkomulagi á hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu, sem gengið hafi í gildi árið 2014, sé ekki stjórnvalds­ákvörðun. Fyrirkomulaginu hafi verið breytt með hliðsjón af rekstrarlegum forsendum en augljóst sé að slík ákvörðun varði ekki bara kæranda í afmörkuðu máli heldur alla eigendur fasteigna í sveitarfélaginu sem séu með rotþró.

Aðalkrafa kæranda sé sett fram af hálfu kæranda fyrir hönd allra sumarbústaðaeigenda í Svarfhólsskógi. Vísa verði þeirri kröfu frá þar sem kærandi sé eini eigandi sumarbústaðar í Svarfhólsskógi sem sé aðili að kærumálinu. Hvað varði varakröfu kæranda, þess efnis að næsta ársgreiðsla hans verði felld niður eða að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða kæranda „fjórðu ársgreiðsluna“ með vöxtum, sé hvorugur liður kröfunnar þess eðlis að nefndin geti úrskurðað um þá. Nefndin geti ekki kveðið á um niðurfellingu álagningar rotþróargjalds sem ekki hafi enn verið lagt á. Þaðan af síður geti nefndin úrskurðað að sveitarfélaginu sé skylt að endurgreiða kæranda „fjórðu ársgreiðsluna“ þar sem hún geti ekki úrskurðað um kröfur sem séu af fjárhagslegu eðli. Því beri að vísa kærunni frá í heild sinni þar sem hún uppfylli hvorki þá kröfu sem lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geri til kröfugerðar né almennar reglur stjórnsýsluréttar um að stjórnsýslukæra skuli varða tiltekna stjórnvaldsákvörðun.

Sveitarfélaginu sé skylt skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að ákveða fyrirkomulag tæmingar á rotþróm í sveitarfélaginu og beri ábyrgð á flutningi þeirrar seyru sem úr rotþróm komi. Til að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af því að uppfylla þá skyldu innheimti sveitarfélagið rotþróargjald á grundvelli gjaldskrár nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit. Gjaldskráin sé sett á grundvelli samþykktar nr. 583/2008 um fráveitu í Hvalfjarðarsveit, en samþykktin hafi sjálf verið sett á grundvelli ákvæða 3. málsl. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nú 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna, og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna. Í 23. gr. samþykktarinnar komi fram að sveitarstjórn skuli setja gjaldskrá til að standa undir kostnaði við söfnun og förgun seyru. Gjaldið skuli standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli en skuli aldrei vera hærra en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða fram­kvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Söfnun og meðhöndlun á heimilis- og rekstrarúrgangi og sé grunnþjónusta sveitarfélags sem þurfi að vera í föstum skorðum. Hún megi ekki falla niður þótt einhverjir fasteignaeigendur nýti sér hana eða ekki eða þótt þörf til að nýta sér hana sé mismikil. Almennt geti því sá sem greiði þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hljótist af því að veita honum viðkomandi þjónustu sé reiknaður sérstaklega út. Sveitarfélagi sé þannig ekki skylt að reikna út kostnað við hreinsun hverrar rotþróar í sveitarfélaginu, heldur sé því heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á fjölda þeirra, eins og skýrt sé tekið fram í 2. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, en þar segi: „Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.“ Með vísan til þess sé heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja rotþró í sveitarfélaginu. Vísað sé til eldri úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumálum nr. 17/2013, 31/2013 og 43/2013.

Álögð gjöld fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit séu ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og teljist gjaldið því lögmætt þjónustugjald. Í gjaldskránni komi fram að hreinsunar­gjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús skuli vera 11.650 kr., en gjaldið hækki þó árlega í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs, sbr. 4. mgr. 2. gr. gjaldskrárinnar og hafi því verið 12.381. kr. vegna ársins 2019. Innheimt hreinsunargjald samkvæmt gjaldskránni hafi hins vegar ekki staðið undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli vegna hreinsunar rotþróa. Í þeim skjölum sem skipulags- og umhverfisfulltrúi hafi sent kæranda megi sjá að kostnaður vegna hreinsun rotþróa á árunum 2012-2017 hafi verið 9.500.000 kr. lægri en tekjur af hreinsunargjaldi á sama tímabili, en 5.600.000 kr. tap hafi verið af sömu starfsemi árin 2015-2017 án þess að innri afnot hafi verið tekin með við framsetningu þeirra fjárhæða. Þá hafi tekjur sveitarfélagsins vegna rotþróargjalds á árinu 2018 verið 8.010.726 kr. en kostnaður, án bókfærðra innri afnota, verið kr. 7.282.371 kr. Á árinu hafi innri afnot numið 1.362.233 kr. og hafi því heildartap af starfseminni verið 633.878 kr. Ef ekki sé tekið tillit til innri afnota hafi heildartekjur af rotþróargjaldi vegna áranna 2016-2018 verið 21.929.189 kr. en heildar­kostnaður 22.616.121 kr. Við álagningu rotþróargjalds hafi verið farið eftir fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, sem og 23. gr. áðurnefndar samþykktar þess efnis að rotþróargjaldið skuli ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem falli til í sveitar­félaginu við meðhöndlun úrgangs og tengdri starfsemi.

Tæmingarfyrirkomulag sveitarfélagsins hafi verið breytt árið 2014. Rotþrær hafi verið tæmdar í sumarbústaðahverfinu í Svarfhólsskógi árið 2013 og af augljósum ástæðum hafi sveitar­félagið ekki talið þörf á hreinsun rotþróa á svæðinu með aðeins árs millibili. Hafi því verið miðað við að þriggja ára lota hæfist í Svarfhólsskógi árið 2014. Sveitarfélagið hafi þó verið meðvitað um það að þar sem fjögur ár myndu líða á milli tæminga kynni að koma upp sú staða að hreinsunarbíll þyrfti að fara sérstakar ferðir til að tæma þær rotþrær sem kynnu að fyllast. Hafi því verið komið til móts við allar slíkir beiðnir sem borist hafi árið 2016 án þess að sérstakt gjald væri tekið fyrir það, en minnihluti sumarhúsaeigenda á svæðinu hafi kallað eftir slíkri þjónustu. Sveitarfélagið þurfi að hafa svigrúm til að geta gert breytingar á atriðum sem tengjast rekstri sveitarfélagsins á meðan slíkar breytingar komi ekki niður á íbúum þess eða þeirri þjónustu sem lögboðið er að þeir skuli njóta. Þá sé bent á að í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm, hljóti jafnframt að felast heimild sveitarstjórnar til að gera þær breytingar á kerfisbundinni tæmingu sem hún telji nauðsynlegar. Hafi breyting á tæmingarfyrirkomulagi sveitarfélagsins árið 2014 verið innan þeirrar heimildar. Hið nýja fyrirkomulag frá árinu 2014 hafi tekið við af gamla fyrirkomulaginu sem hafi gert ráð fyrir að ný þriggja ára lota hæfist árið 2013. Eldra fyrirkomulagið hafi þar með fallið niður samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann dragi ekki í efa að valdið sé hjá sveitarfélaginu að ákveða tíðni hreinsana, en sveitarfélaginu beri skylda til að tilkynna slíkar breytingar til íbúanna líkt og kveðið sé á um 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit. Krafa kæranda snúist um að vera ekki látinn greiða fyrir þjónustu sem ekki sé veitt. Með „fjórðu árgreiðslunni“ sé kærandi að vísa til rotþróargjaldsins ársins 2017 sem sveitarstjórn hafi lagt á sumarbústaði í Svarfhólsskógi með óréttmætum hætti. Breyting á fyrirkomulagi tæminga rotþróa í Svarfhólsskógi hafi haft þau áhrif á fasteignareigendur þar að þeir hafi verið krafðist um 37,5% hærra gjald en allir aðrir í Hvalfjarðarsveit. Sveitarfélaginu hafi borið að fella niður gjald fyrir tæmingu rotþróar árið 2017 til að laga það að breyttu skipulagi þegar það hafi einhliða og án nokkurrar tilkynningar þar um ákveðið að fresta þá fullgreiddri þjónustu um eitt ár. Sveitarfélagið vísi sjálft til þess að með nýju fyrirkomulagi á tæmingu rotþróa árið 2014 hafi eldra fyrirkomulag verið fellt úr gildi en hafi þrátt fyrir það hefði verið haldið áfram að innheimta gjaldið.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð gjaldtaka af hálfu Hvalfjarðarsveitar vegna hreinsunar rotþróa í Svarfhólsskógi. Gerir kærandi aðallega þá kröfu að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu fyrir rotþróahreinsun hjá sumarbústaðaeigendum í Svarfhólsskógi eða endurgreiði þeim „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Aðrir sumarbústaðaeigendur en kærandi eru ekki aðilar að kærumáli þessu og er hann ekki til þess bær að gera kröfu í málinu fyrir þeirra hönd.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu hans fyrir rotþróarhreinsun eða endurgreiði honum „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Hlutverk hennar er því að taka afstöðu til lögmætis kæranlegra ákvarðana tiltekinna stjórnvalda og fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að leggja fyrir sveitarfélagið að endurgreiða kæranda „fjórðu árgreiðsluna“.

Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður að líta svo á að kærð sé álagning rotþróargjalds á fasteign kæranda að Hátröð 9 vegna ársins 2019 og að krafist sé ógildingar álagningarinnar. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda kæranda fyrir árið 2019 er dagsettur 8. febrúar það ár. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 28. október 2019. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Á álagningarseðlinum er ekki að finna slíkar leiðbeiningar en vísað er á tiltekna slóð á vefsíðu sveitarfélagsins til nánari upplýsinga án þess að tekið sé fram að þær upplýsingar taki jafnframt til kæruleiðbeininga. Sé slóðin sett inn í vafra opnast skjal með upplýsingum um álagningu gjalda árið 2019, m.a. kæruleiðbeiningum, en það fyrirkomulag þykir ekki fullnægja framangreindum áskilnaði stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af því, sem og vegna þess að á árinu 2019 var kærumál nr. 90/2018 til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi, fyrir hönd Svarfhólsskógar, félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, kærði gjaldtöku sveitar­félagsins vegna hreinsun rotþróa á sömu forsendum og í þessu máli, verður talið afsakanlegt að kæran hafi borist að loknum kærufresti. Kom enda kærandi kæru að í máli þessu skömmu eftir uppkvaðningu úrskurðar í máli nr. 90/2018 þar sem því var vísað frá. Verður mál þetta er varðar álagningu rotþróargjalds á fasteign kæranda því tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, skal sveitarfélag ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrar­úrgangi í sveitarfélaginu og ber ábyrgð á flutningi heimilsúrgangs, en seyra úr rotþróm sumarbústaða telst vera heimilisúrgangur í skilningi laganna. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á grundvelli nefndra lagaákvæða setti Hvalfjarðarsveit samþykkt nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðar­sveit og var hún í gildi þegar hið umdeilda gjald var lagt á fasteign kæranda.

Sveitarfélög skulu skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málslið ákvæðisins. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna og þágildandi 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, nú 5. mgr. 59. gr. Er gjaldskrá sú sem hin kærða álagning byggir á nr. 1145/2016 um hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við hreinsun hverrar rotþróar heldur er því heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 mælir fyrir um. Í gögnum málsins er m.a. að finna sundurliðaðar tekjur og útgjöld sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa fyrir árin 2012-2018 og af þeim sést að útgjöld sveitarfélagsins á umræddu tímabili voru talsvert hærri en tekjur. Hin umdeilda álagning, sem fram fór á grundvelli gjaldskrár nr. 1145/2016, er því í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að innheimt gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður sem fellur til við að veita þjónustuna.

Samkvæmt 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 ákveður sveitarstjórn að fengnum tillögum framkvæmdaaðila tíðni hreinsunar og skal hún tilkynnt íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins, svo og ef um breytingar er að ræða, með hæfilegum fyrirvara. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að rotþró skuli hreinsa eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Fyrir liggur að árið 2013 voru rotþrær sumarbústaða í Svarfhólsskógi hreinsaðar. Svo sem segir í málavaxtalýsingu kemur fram í bréfi skipulags- og umhverfisfulltrúa til félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi að breytt fyrirkomulag við hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu hafi verið tekið upp árið 2013. Hafi verið gert ráð fyrir að rotþrær í Svarfhólsskógi yrðu hreinsaðar árið 2014, en það hafi þó ekki verið gert „hugsanlega vegna þess að hreinsað var árið 2013.“ Á árinu 2016 hafi verið komið til móts við fólk sem hafi haft samband við skrifstofu sveitarfélagsins vegna fullrar rotþróar og yrði hreinsunarbíll sendur. Mun hreinsun rotþróa hjá öðrum en þeim sem samband höfðu við sveitarfélagið því ekki hafa átt sér stað næst fyrr en árið 2017.

Af fyrrgreindri 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 verður ráðið að sveitarfélaginu hafi borið að tilkynna, m.a. kæranda, um breytt fyrirkomulag á hreinsun rotþróa, en fyrir liggur að það var ekki gert. Breytingin leiddi til þess að fjögur ár liði á milli þess að rotþró kæranda var hreinsuð og er það ekki í samræmi við nefnda 2. mgr. 15. gr. samþykktarinnar. Til þess er þó að líta að sveitarfélagið mun á árinu 2016 hafa sent hreinsunarbíl til þeirra sem óskuðu eftir hreinsun á rotþró. Þá verður að játa sveitarfélagi ákveðið svigrúm til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar við að veita þá grunnþjónustu sem því er á herðar lagt, s.s. með breytingum á fyrirkomulagi söfnunar og meðhöndlunar úrgangs, svo fremi að skilyrði til töku þjónustugjalds sé uppfyllt, en eins og fyrr greinir voru álögð gjöld sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa talsvert lægri en kostnaður af veittri þjónustu. Að framangreindu virtu verður fyrrgreindur annmarki á breytingu fyrirkomulags við hreinsun rotþróa ekki talinn geta valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu álagningar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu álagningar rotþróargjalds Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2019 vegna fasteignarinnar að Hátröð 9.