Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2020 Ægisgata, Stykkishólmi

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 39/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að framkvæmdir verði stöðvaðar og mannvirki fjarlægð á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 í Stykkishólmsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2020, er barst nefndinni 25. s.m., kærir lóðarhafi Ægisgötu 3, Stykkishólmi, drátt á afgreiðslu erinda kæranda, sem ítrekuð voru með bréfi, dags. 22. apríl 2020, um að framkvæmdir á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 verði stöðvaðar og girðing þar fjarlægð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Stykkishólmsbæ að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 27. maí 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 6. maí 2019 var samþykkt byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Ægisgötu 1. Í lok nóvember 2019 mun kærandi, eigandi Ægisgötu 3, hafa haft samband bréflega við bæjaryfirvöld í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3. Í bréfinu kom fram að kærandi teldi steypta veggi á lóðamörkum vera of háa og of nálægt lóðamörkum. Þá vakti kærandi athygli á að til stæði að breyta hæð lóðarinnar. Með tölvupósti til bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar 8. janúar 2020 var þess krafist að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Byggingarfulltrúi tók málið til skoðunar og í bréfi hans til kæranda, dags. 20. janúar 2020, kom fram að girðingar á lóðamörkum við Ægisgötu 1 væru ekki í samræmi við reglur og að framkvæmdir við þær hefðu verið stöðvaðar.

Kærandi tekur fram að þrátt fyrir bréf byggingarfulltrúa frá 20. janúar 2020 hafi framkvæmdir á lóðinni nr. 1 við Ægisgötu haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Lóðin hafi verið hækkuð og búið sé að fylla að skjólveggjum og þeir þá í raun orðnir stoðveggir. Bæjaryfirvöld hafi ekkert aðhafst þrátt fyrir að hafa verið vel upplýst um framkvæmdirnar. Hinn 22. apríl 2020 hafi kærandi sent bréf til byggingarfulltrúa og bæjarstjóra og krafist þess að þvingunarúrræðum yrði beitt vegna framkvæmda á lóð nr. 1. Því hafi ekki verið svarað.

Af hálfu Stykkishólmsbæjar er tekið fram að erindi kæranda frá 22. apríl 2020 hafi nú verið svarað með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 26. maí s.á. Dráttur á afgreiðslu erindisins skýrist m.a. af því ástandi sem uppi hafi verið vegna Covid-faraldursins o.fl., eins og fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda. Líkt og fram komi í gögnum málsins hafi verið óskað eftir því við lóðarhafa að Ægisgötu 1 að hann geri grein fyrir umræddum framkvæmdum og hvernig hann hyggist ljúka málinu með fullnægjandi hætti. Hafi honum verið gefinn kostur á að gera grein fyrir framkvæmdunum bæði skriflega og með uppdráttum. Tekið hafi verið fram að nauðsynlegt væri að fram kæmi á uppdráttum fjarlægð veggja frá lóðamörkum, hæð þeirra og jarðvegshæð beggja megin við til þess að hægt væri að taka afstöðu til þess hvort um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir sé að ræða.

Eins og áður hafi verið rakið hafi ekki tekist að ljúka málinu vegna ýmissa ástæðna, svo sem sóttkvíar byggingarfulltrúa í apríl, páskahátíðar o.fl. Þegar endanleg gögn berist byggingarfulltrúa muni sveitarfélagið senda kæranda uppdráttinn og gögn til skoðunar og umsagnar. Berist gögn ekki innan tíðar muni byggingarfulltrúa grípa til nauðsynlegra aðgerða til að knýja á um málalok í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannviki.

Niðurstaða: Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hefur kærandi um nokkurra mánaða skeið beint athugasemdum til stjórnvalda í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á mörkum lóðar sinnar nr. 1 við Ægisgötu og nágrannalóðar nr. 3 við sömu götu. Framkvæmdir við stoðveggi á lóðinni nr. 3 við Ægisgötu voru stöðvaðar 20. janúar 2020, en ekki hefur verið tekin ákvörðun af hálfu Stykkishólmsbæjar um hvort fjarlægja beri umrædd mannvirki. Beindi kærandi þeim kröfum aftur að bænum, með bréfi, dags. 22. apríl 2020, að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar og að mannvirki yrðu fjarlægð.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, enda liðið um hálft frá því að kærandi setti fyrst fram kröfur sínar gagnvart sveitarfélaginu. Erindi hans frá 22. apríl 2019 hefur nú verið svarað og hafa verið færðar fram skýringar á töfum svaranna. Málið er í vinnslu hjá sveitarfélaginu sem hefur upplýst um að til meðferðar sé mál lóðarhafa Ægisgötu 1 hjá embætti byggingarfulltrúa og þurfi lóðarhafi að gera grein fyrir framkvæmdunum, meðal annars m.t.t. byggingarleyfisskyldu þeirra Gefa upplýsingar sveitarfélagsins tilefni til að ætla að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.