Á síðasta mánuði þessa fyrsta ársfjórðungs stóð úrskurðarnefndin, líkt og aðrar stofnanir, frammi fyrir þeirri áskorun að laga starfsemi sína að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu sökum COVID-19 faraldursins. Starfsemi skrifstofu nefndarinnar fer nú fram í fjarvinnu að langmestu leyti og nefndarfundir eru haldnir í gegnum fjarfundabúnað.
Til að auka skilvirkni hefur úrskurðarnefndin á síðustu árum beint því til aðila að nýta sér möguleika til rafrænnar málsmeðferðar með því að senda kærur, umsagnir, gögn og annað með rafrænum hætti til uua@uua.is. Eru aðilar eindregið hvattir til þess að nýta sér þann möguleika fremur en að senda nefndinni framangreint bréflega. Öll þjónusta nefndarinnar er óbreytt og breyttar aðstæður hafa ekki dregið úr afköstum hennar.
Á fyrsta ársfjórðungi ársins bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 24 kærumál en 55 var lokið. Þá var eitt mál endurupptekið og því lokið að nýju. Á tímabilinu voru kveðnir upp 46 úrskurðir og var mikill meirihluti þeirra efnisúrskurðir.
Í lok fyrsta ársfjórðungs voru hjá nefndinni 52 óafgreidd mál, en í upphafi ársins voru þau 83 talsins. Er þetta betri staða en áður hefur sést hjá úrskurðarnefndinni frá stofnun hennar árið 2012 og má glöggt sjá þessa jákvæðu þróun á stöplaritinu hér að neðan.
Nefndinni hafa ekki borist gögn í 12 málum af þeim 52 sem eru óafgreidd og öðrum 7 hefur verið frestað á meðan beðið er niðurstöðu dómstóla. Því eru 33 mál tæk til meðferðar hjá nefndinni og eru þau öll í vinnslu. Ef frá eru talin þau mál sem sætt hafa frestun er aldur elsta óafgreidda málsins tæpir sex mánuðir frá því að gögn bárust nefndinni frá viðkomandi stjórnvaldi, en lögbundinn málsmeðferðartími nefndarinnar telst frá því tímamarki.
Meðalafgreiðslutími lokinna mála var 5,7 mánuðir á fyrsta ársfjórðungi þessa árs (6,4 mánuðir á 2019-4F og 8,2 mánuðir allt árið 2019) og var 55% mála lokið innan sex mánaða (52% á 2019-4F).
Úrskurðarnefndinni er áfram tryggð viðbótarfjárveiting fyrir árið 2020 og er markmið nefndarinnar að meðalafgreiðslutími verði kominn undir fimm mánuði í árslok, en viðaminni mál taki skemmri tíma. Meginreglan er sú að mál eru afgreidd í þeirri röð sem þau berast en nefndin hefur einnig hliðsjón af sjónarmiðum sem fram koma í álitum umboðsmanns Alþingis um heimildir til forgangsröðunar mála, t.a.m. þegar miklir hagsmunir eru í húfi. Þá er veitt flýtimeðferð að beiðni framkvæmdaraðila þegar framkvæmdir eru stöðvaðar í kjölfar kæru, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Áhugasömum er bent á að á heimasíðu úrskurðarnefndarinnar www.uua.is er að finna upplýsingar um málafjölda og meðalafgreiðslutíma nefndarinnar í gegnum tíðina og eru nýjar upplýsingar birtar ársfjórðungslega.