Árið 2020, föstudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 36/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 um að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 28. s.m. um að veita slíkt byggingarleyfi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2019, er barst nefndinni 24. s.m., kærir landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júní 2019, er barst nefndinni 7. s.m., kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 28. maí 2019 að veita byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Er þess krafist að báðar ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Þá fer kærandi fer fram á að aðrir nefndarmenn fjalli um málið en þeir sem hafi komið að kærumáli nr. 105/2016 hjá úrskurðarnefndinni.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 16. júlí 2019.
Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Á árinu 2014 hófst vinna við gerð nýs deiliskipulags fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells og á grundvelli þeirrar vinnu var tillaga að deiliskipulagi samþykkt á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 12. febrúar 2015. Auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. með yfirskriftinni „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425“. Í greinargerð deiliskipulagsins kom fram að skipulagssvæðið væri á bæjarhlaði Húsafells 1. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst s.á. var samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina að Bæjargili í landi Húsafells og hinn 12. janúar 2016 samþykkti byggingarfulltrúi leyfi til byggingar húss fyrir legsteinasafn að Bæjargili. Skaut kærandi síðargreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem og samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag Húsafells 2. Fór hann fram á ógildingu beggja ákvarðananna. Skírskotaði kærandi m.a. til þess að auglýst hefði verið röng tilgreining hinnar skipulögðu lóðar. Hinn 23. september 2016 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu. Var þeim hluta kærunnar er laut að ógildingu deiliskipulagsins vísað frá nefndinni þar sem kæran hefði, hvað það varðaði, borist að liðnum kærufresti. Sætti byggingarleyfið hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar og hafnaði hún kröfu um ógildingu þess.
Með bréfi, dags. 27. september 2016, fór kærandi fram á endurupptöku málsins en því var synjað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október s.á. Kvartaði kærandi yfir afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar til umboðsmanns Alþingis og lá álit setts umboðsmanns fyrir 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016. Taldi settur umboðsmaður að nefndinni hefði borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort deiliskipulag það sem hefði verið grundvöllur byggingarleyfis fyrir legsteinasafni hefði verið gilt, þar með talið hvort það hefði verið birt með fullnægjandi hætti. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir endurupptöku kærumálsins með vísan til álitsins. Með hliðsjón af fyrrnefndu áliti setts umboðsmanns var það ákvörðun nefndarinnar að málið skyldi endurupptekið og úrskurður kveðinn upp í því að nýju. Í kjölfar frekari málsmeðferðar var það og gert og með úrskurði uppkveðnum 6. desember 2018 var vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina að Bæjargili í landi Húsafells þar sem krafan var of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Einnig var vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan, þar sem skipulagið hefði ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Að lokum var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn að Bæjargili í landi Húsafells þar sem hið kærða byggingarleyfi ætti sér hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né hefði málsmeðferð þess farið að undantekningarákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 um grenndarkynningu.
Hinn 22. janúar 2019 sótti leyfishafi um byggingarleyfi til að reisa skála að Bæjargili í landi Húsafells. Í umsókninni kom fram að skálinn yrði reistur til að varðveita legsteina og minnismerki sem höggvin hefðu verið úr steinum. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 1. febrúar 2019 samþykkti nefndin að grenndarkynning færi fram. Fól hún umhverfis- og skipulagssviði að kynna nágrönnum sem hagsmuna hefðu að gæta fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 44. gr. skipulagslaga, og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 14. s.m. Með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. s.m., var fyrirhuguð framkvæmd kynnt kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum til 1. apríl 2019, sem hann og gerði með bréfi, dags. 29. mars s.á. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 5. apríl s.á. voru athugasemdir kæranda og svör við þeim lögð fram og samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja erindið. Staðfesti sveitarstjórn bókun nefndarinnar á fundi sínum 9. maí s.á. og samþykkti að fela byggingarfulltrúa að afgreiða umsóknina í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Hinn 28. s.m. áritaði byggingarfulltrúi byggingarleyfisuppdrætti til samþykktar og gaf leyfið út sama dag.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að þrátt fyrir að ekki sé til neitt gilt deiliskipulag fyrir svæðið Bæjargil sé þegar búið að reisa skemmu á svæðinu. Byggingarleyfi vegna skemmunnar sé frá hausti 2015 og byggi á deiliskipulagi sem hafi aldrei tekið gildi samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Bygging legsteinaskála sé langt á veg komin án byggingarleyfis og sé því verið að bæta við öðru húsi á lóðina án deiliskipulags. Ekki hafi verið leyfilegt að grenndarkynna framkvæmdina vegna umfangs hennar. Sér í lagi vegna þess að þegar hafi verið búið að byggja eitt hús á lóðinni án deiliskipulags, en einnig vegna þess að fyrirhuguð notkun nýbyggingarinnar sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Enn fremur hafi ranglega verið staðið að framkvæmd grenndarkynningarinnar. Fordæmi séu fyrir því að umsókn um byggingarleyfi án skipulags hafi verið hafnað þar sem þegar hafi verið búið að byggja eitt hús á lóð, t.d. hafi því verið hafnað þegar beðið hafi verið um byggingarleyfi fyrir sumarhús í landi Húsafells 1.
Sveitarstjóri Borgarbyggðar og sviðsstjóri skipulagssviðs sveitarfélagsins hafi verið vanhæfir til að koma að grenndarkynningu. Sveitarstjóri hafi lýst því yfir í blaðaviðtali áður en grenndarkynning hafi farið fram hver niðurstaða hennar yrði. Hann hafi setið fundi þar sem ákvörðun hafi verið tekin um að láta gefa út byggingarleyfi. Sviðsstjóri skipulagssviðs Borgarbyggðar hafi haft yfirumsjón með grenndarkynningunni. Hann sé eiginmaður hönnuðar sem hafi gert deiliskipulagið fyrir leyfishafa sem hafi verið talið ógilt í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Líkur séu á að hönnuðurinn sé bótaskyldur gagnvart leyfishafa fáist ekki byggingarleyfi fyrir legsteinahúsinu, en sviðsstjóri hafi ekki vikið af fundi við afgreiðslu skipulagsnefndar í máli þessu.
Framkvæmd grenndarkynningarinnar hafi verið með þeim hætti að gera sem minnst úr mótmælum eina aðilans sem hagsmuna hafi að gæta. Skipulagsnefnd hafi ákveðið að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir til 15 aðila en aðeins þrjár lóðir liggi að umræddu svæði, þar af ein í eigu leyfishafa. Aðrir sem hafi fengið grenndarkynningu séu nánir ættingjar leyfishafa. Sömu aðilar hafi vegna umsóknar um byggingarleyfi í landi Húsafells 1 lagt ríka áherslu á að ekki yrði byggt á svæðinu án skipulags, en núna bregði svo við að engar athugasemdir komi frá þeim vegna byggingar án skipulags Bæjargils. Fram komi í svari skipulagssviðs við athugasemdum um grenndarkynningu að skálinn sé í 10 m fjarlægð frá lóðamörkum en hið rétta sé að samkvæmt teikningum sé fjarlægðin undir 10 m.
Leyfishafi hafi breytt nafni hússins úr legsteinasafni í legsteinaskála og fullyrði að aðeins standi til að geyma þar steina. Hann hafi reyndar fjarlægt steina í leyfisleysi úr kirkjunni þar sem þeir hafi verið geymdir og ekki fengið leyfi Minjastofnunar Íslands til flutninganna. Vísað sé til yfirlýsingar starfsmanns stofnunarinnar um að ekki hafi verið veitt leyfi til að fjarlægja steinana af sínum stað, sbr. 3. og 21. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Einnig sé vísað til 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ítrekað hafi komið fram hjá leyfishafa að til standi að setja upp safn á svæðinu. Hann hafi fengið styrki hjá opinberum aðilum og einkaaðilum vegna uppsetningar á legsteinasafni. Til dæmis hafi framkvæmdin fengið styrk fimm ár í röð frá Kirkjugarðasjóði til undirbúnings á uppsetningu legsteinasafns.
Yfirlitsmynd af svæðinu sýni hversu mikið sé búið að þrengja að Gamla bæ. Bílastæðum hafi verið fækkað í fimm og aðkoma að þeim bílastæðum sem nú séu til staðar verði ekki lengur fyrir hendi. Erfitt muni verða að reka gistiheimilið í nálægð við mikinn átroðning gesta og því verði kærandi fyrir tjóni vegna verri reksturs og lægra verðgildis eignarinnar og rekstursins. Auk þess séu möguleikar á stækkun úr sögunni vegna skertrar aðkomu.
Úrskurðarnefndin hafi margsýnt að hún dragi taum leyfishafa með því að komast ítrekað að augljóslega rangri lagalegri niðurstöðu. Þegar nefndarmenn hafi neyðst til að leiðrétta fyrri úrskurð hafi það verið gert með hangandi hendi og leyfishafa verið bent á vægast sagt vafasama útgönguleið. Krefjast verði þess að aðrir nefndarmenn verði fengnir til að fjalla um málið.
Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á frávísun kæru vegna samþykktar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 þar sem ekki sé um lokaákvörðun máls að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kveðið upp úr með það að ákvarðanir skipulagsnefnda sveitarfélaga eða sveitarstjórna séu ekki lokaákvarðanir í málum hvað varði útgáfu byggingarleyfa á grundvelli grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í kærumáli nr. 166/2016.
Verði ekki fallist á frávísun þessa hluta málsins gerir sveitarfélagið þá kröfu að sjónarmiðum kæranda verði hafnað. Líta verði fram hjá allri umfjöllun hans um pakkhúsið þar sem byggingarleyfi þess sé enn í gildi, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði hennar frá 6. desember 2018 í kærumáli nr. 105/2016, þar sem kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfisins var vísað frá á grundvelli þess að kærufrestur hefði verið liðinn. Bent sé á að upphaflegt byggingarleyfi vegna legsteinaskálans hafi verið afgreitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2016. Á grundvelli þess leyfis hafi leyfishafi hafið framkvæmdir en það hafi ekki verið fellt úr gildi af úrskurðarnefndinni fyrr en 6. desember 2018, en eins og komi fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fresti kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Um leið og leyfið hafi verið fellt úr gildi hafi leyfishafi hætt öllum framkvæmdum og ekki hafið þær á nýjan leik fyrr en byggingarleyfi það sem nú sé kært hafi verið gefið út 28. maí 2019. Því sé bygging legsteinaskálans langt á veg komin.
Sveitarfélagið fái ekki séð af hverju óheimilt hafi verið að veita hið kærða byggingarleyfi á grundvelli málsmeðferðar 44. gr. skipulagslaga, en engar skýringar um þessa málsástæðu koma fram í kæru, t.a.m. hvað sé nákvæmlega við framkvæmdina sem geri hana svo umfangsmikla að óheimilt hafi verið að grenndarkynna hana. Sótt hafi verið um leyfi til að reisa skála yfir legsteina. Slík bygging samræmist gildandi aðalskipulagi á svæðinu þar sem lóðin Bæjargil sé á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Að mati sveitarfélagsins þýði það að bygging skálans sé í samræmi við gildandi aðalskipulag en skálinn sé byggður sem geymsluhúsnæði. Á bls. 27 í greinargerð með aðalskipulagi Borgarbyggðar sé einungis kveðið á um skyldu til að deiliskipuleggja lóðir á skilgreindum landbúnaðarsvæðum ef til standi að byggja tvö íbúðarhús eða fleiri á sömu jörð. Þar sem ekkert íbúðarhús sé á lóðinni Bæjargili, og þar sem skálinn teljist heldur ekki sem slíkt hús, telji sveitarfélagið að útgáfa byggingarleyfisins á grundvelli grenndarkynningar hafi ekki brotið gegn gildandi aðalskipulagi. Í athugasemdum með lagafrumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 7/2016 um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 komi fram að nauðsynlegt hafi verið að gera breytingu á 44. gr. laganna, um grenndarkynningu, til að ljóst væri að heimila mætti útgáfu byggingarleyfis á grundvelli grenndarkynningar ef fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við aðalskipulag hvað varðaði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Sveitarfélagið telji að öll þessi atriði séu til staðar. Þá hafi breytingarlögin fellt úr gildi það ákvæði laganna sem hafi kveðið á um að þessi aðferð væri einungis fær í þegar byggðum hverfum.
Sveitarstjóra sé skylt að sitja fundi sveitarstjórnar sem starfsmaður sveitarfélagsins. Þar hafi hann tillögurétt en engan atkvæðisrétt þar sem hann sé ekki kjörinn fulltrúi, sbr. 15. gr. samþykktar nr. 884/2013 um stjórn Borgarbyggðar. Sveitarstjóri hafi því ekki komið með óeðlilegum eða ólögmætum hætti að þeirri ákvörðun sveitarstjórnar frá 14. febrúar 2019 að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá 1. febrúar þess efnis að grenndarkynna hið umsótta byggingarleyfi. Þá hafi sviðsstjóri umhverfissviðs setið fundinn, eins og hann geri jafnan, en hvergi sé bókað um sérstaka aðkomu hvors aðila fyrir sig að þeirri tillögu sem kjörnir fulltrúar hafi greitt atkvæði um á umræddum fundum. Þá leiði kærandi engar líkur að því að sú staðreynd að rangt nafn hafi verið notað fyrir deiliskipulag svæðisins hafi nokkur áhrif á það hvort sviðsstjórinn uppfylli hæfisreglur í því máli sem nú sé kært. Ákaflega langsótt tengsl sviðsstjórans við gerð deiliskipulagsins, sem hafi verið afgreitt áður en hann hafi tekið til starfa hjá sveitarfélaginu, hafi ekki nokkur einustu áhrif á hæfi hans til að annast störf fyrir sveitarfélagið.
Sveitarfélagið hafi grenndarkynnt umsókn um leyfið fyrir þeim í næsta nágrenni við lóðina Bæjargil sem hún hafi talið eiga hagsmuna að gæta. Leyfishafi sé fæddur og uppalinn á Húsafelli og séu skyldmenni hans mörg á svæðinu og því eigendur margra þeirra lóða og jarða sem næst Bæjargili standi. Það sé því ekkert óeðlilegt við það að grenndarkynnt hafi verið fyrir viðkomandi aðilum. Þá hafi bréf umræddra aðila til skipulagsyfirvalda vegna eldri umsóknar kæranda um byggingarleyfi á lóðinni Húsafelli 1 ekkert gildi í þessu máli. Viðkomandi aðilum sé fullkomlega heimilt að hafa aðrar skoðanir á því máli en því sem nú sé til meðferðar hjá nefndinni.
Umsókn hafi borist frá leyfishafa um legsteinaskála. Í þeim gögnum sem lögð hafi verið fyrir sveitarfélagið liggi ekkert fyrir um áætlanir leyfishafa um síðari notkun hússins. Sveitarfélaginu sé skylt að afgreiða umsóknir í samræmi við efni þeirra, en ekki það sem kunni mögulega að eiga sér stað síðar. Þá sé bent á að mögulegur flutningur legsteina úr kirkjunni án leyfis sé ekki málefni sem falli undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar.
Yfirlitsmynd sem kærandi vísi til sé aðeins afstöðumynd sem lögð hafi verið fram með hönnunargögnum í upplýsingaskyni. Sem slík sé hún ekki bindandi í málinu, hvorki fyrir eigendur Gamla bæjar né leyfishafa, enda nái hið kærða byggingarleyfi og grenndarkynning vegna þess aðeins til þess að reisa skála yfir legsteina. Leyfið nái ekki til framkvæmda á lóð við húsið. Umrædd yfirlitsmynd nái aðeins til lóðarinnar að Bæjargili og kærandi sé ekki með nokkru móti skuldbundinn til að haga bílastæðum á sinni lóð í samræmi við uppdráttinn. Jafnframt bendi sveitarfélagið á að aðkoma að stæðum á lóð Gamla bæjar sé ekki frá sameiginlegu svæði, eins og kærandi haldi fram. Sjá megi af umræddri yfirlitsmynd og lóðarblaði Bæjargils frá 4. febrúar 2013 að aðkoma að bílastæðum við Gamla bæ sé yfir lóðina Bæjargil. Það sé því rangt að um sameiginlegt svæði sé að ræða. Leyfishafa sé því heimilt að ráðstafa lóðinni eins og hann kýs, innan þeirra marka sem talist geti eðlilegt, án þess að kærandi hafi neitt um það að segja. Engar kvaðir hvíli á leyfishafa sem skikki hann til að taka sérstakt tillit til bílastæðamála við Gamla bæ við ráðstöfun eignar sinnar. Einnig sé bent á að hin framlagða yfirlitsmynd sýni glögglega að fyrirhugað sé að setja upp nýtt stæði fyrir bíla og rútur austan megin að Bæjargili. Því sé ljóst að umferð ökutækja og ferðamanna fyrir framan Gamla bæ verði ekki með þeim hætti sem lýst sé í kæru og að möguleg áhrif þeirrar umferðar fyrir rekstur í Gamla bæ séu stórkostlega ofmetin hjá kæranda. Ekkert liggi fyrir í málinu sem sýni fram á það að rekstur gistiheimilis muni líða fyrir það að reistur verði legsteinaskáli á lóð leyfishafa.
Vegna kæru á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 28. maí 2019 um að veita hið umrædda byggingarleyfi vísi sveitarfélagið til fyrri umfjöllunar. Einnig sé bent á að hvorki í lögum nr. 160/2010 um mannvirki né lögum nr. 80/2012 um menningarminjar sé kveðið á um að Minjastofnun Íslands þurfi að veita samþykki sitt fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir nýju húsi á svæði sem ekki falli undir lög nr. 80/2012. Ítrekað sé að hafi legsteinar verið fluttir án samþykkis Minjastofnunar falli það atriði ekki undir valdsvið nefndarinnar.
Ekkert komi fram í kærunni hvaða máli það eigi að skipta að umræddur legsteinaskáli sé nær lóðamörkum en 10 m. Engin ákvæði skipulagslaga, skipulagsreglugerðar, mannvirkjalaga eða byggingarreglugerðar mæli fyrir um að óheimilt sé að byggja skálann nær lóðamörkum en 10 m. Eina ákvæði framangreindra laga- og reglugerðabálka sem kveði á um lágmarksfjarlægð byggingarreits frá lóðamörkum sé gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem segi að í frístundabyggðum skuli ekki byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Þar sem hið kærða byggingarleyfi sé ekki veitt fyrir byggingu innan frístundabyggðar telji sveitarfélagið þetta atriði ekki skipta máli.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að stjórnsýslumeðferð byggingarleyfisumsóknar hans hafi ekki verið háð neinum annmörkum sem valdið geti ógildingu leyfisins. Byggingarleyfið hafi verið grenndarkynnt, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem ekki hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Einungis hafi borist ein athugasemd á kynningartíma og hafi hún verið frá kæranda. Aðrar athugasemdir hafi ekki borist þrátt fyrir að byggingarleyfisumsóknin hafi sannanlega verið grenndarkynnt fyrir öðrum aðilum. Engu breyti hvort tengsl kunni að vera á milli byggingarleyfishafa og annarra fasteignaeigenda á áhrifasvæði grenndarkynningar. Framkvæmdir hafi legið alfarið niðri frá úrskurðardegi 6. desember 2018 fram til þess að nýtt byggingarleyfi hafi verið gefið út. Fullyrðingum kæranda um annað sé mótmælt sem röngum. Fyrir liggi að fallið hafi verið frá áformum um að byggja safn og sé einungis verið að byggja skála, enda samræmist bygging safns vart gildandi aðalskipulagi Borgarbyggðar.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að pakkhúsið sé hluti af þeim byggingum sem séu á lóðinni og verði að skoðast með öðrum byggingum sem séu til staðar. Varðandi umræddan kærufrest vegna byggingarleyfis hússins þá sé bent á þá niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að deiliskipulagið hafi aldrei tekið gildi. Að sögn starfsmanns Borgarbyggðar hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út. Fundargerð afgreiðslufundar þar sem byggingarleyfið hafi verið samþykkt finnist ekki á vef sveitarfélagsins og því hafi það aldrei öðlast gildi. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi komið fram að kæranda hafi ekki mátt vera ljóst að framkvæmdir hafi átt sér stað fyrr en 26. júlí 2016. Það sé því ekki hægt að halda því fram að kærufrestur hafi ekki átt að hefjast fyrr en í júlí 2016, en þá hafi framkvæmdir verið kærðar og þess krafist að vinnu við pakkhús yrði hætt tafarlaust. Tekið sé fram að þegar talað sé um legsteinasafn í upphaflegri kæru hafi að sjálfsögðu verið átt við alla framkvæmdina í heild, ekki bara eitt hús.
Í athugasemdum kæranda sem bárust vegna grenndarkynningarinnar hafi Borgarbyggð verið bent á hvers vegna ekki mætti grenndarkynna tillöguna, en m.a. hafi verið vísað til leiðbeiningarblaða og fjölda og stærð bygginga á lóðinni. Því sé mótmælt að nýtt samþykkt byggingarmynstur á lóð Bæjargils sé í samræmi við byggðamynstur á svæðinu. Með nýjustu byggingunni séu komin sex á hús á lóðina, alls um 455 m2 að flatarmáli. Spurt sé hvort leyfilegt sé að byggja ótakmarkaðan fjölda húsa af ýmsum gerðum á lóð ef þau séu ekki skráð sem íbúðarhús. Sex hús á 9.104 m2 svæði með nýtingarhlutfall 0,05 sé talsvert annar þéttleiki en á öðrum lóðum í nágrenni Bæjargils. Mun færri hús og lægra nýtingarhlutfall sé á aðliggjandi lóðum Húsafells 1, 2 og 3.
Sveitarfélagið hafi ekki skýrt val sitt á þeim sem hafi fengið grenndarkynninguna. Flestir þeirra eigi ekki land sem liggi að Bæjargili. Sveitarfélagið verði að skoða málið með tilliti til jafnræðisreglu og meðalhófs. Sömu aðilar sem hafi fengið grenndarkynningu í tveimur málum varðandi tvær aðliggjandi lóðir séu ýmist sammála því að byggt sé án skipulags á Húsafellstorfunni eða eindregið á móti því.
——
Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Kærandi máls þessa fer m.a. fram á að aðrir nefndarmenn en þeir sem hafi komið að kærumáli nr. 105/2016 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála verði fengnir til að fjalla um málið með þeim rökum sem áður greinir. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um þær ástæður sem leiða til þess að starfsmaður eða nefndarmaður sé talinn vanhæfur til meðferðar máls. Þær vanhæfisástæður sem tíundaður eru í 1.-5. tl. 1. mgr. ákvæðisins eiga ekki við um nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar. Þá eiga þeir ekki hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og engar aðrar þær aðstæður eru til staðar sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu í skilningi 6. tl. nefnds lagaákvæðis, enda verður nefndarmaður ekki talinn vanhæfur við það eitt að hafa fjallað um sömu deilumál aðila í fyrri úrskurði nefndarinnar. Breytir þar engu þótt málið hafi verið endurupptekið á grundvelli álits umboðsmanns Alþingis. Þar sem ekki eru lagaskilyrði til þess að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar víki sæti í máli þessu ákveður formaður, líkt og endranær, hvernig nefndin er skipuð í málinu, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Jafnframt er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um að veita greint byggingarleyfi. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulagi liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Í samræmi við framangreind lagaákvæði var það ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákvörðun sveitarstjórnar var því ekki lokaákvörðun í því máli sem hófst með umsókn leyfishafa, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þeim hluta kærunnar verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Umsókn um hið kærða byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn og svör við athugasemdum kæranda voru send honum með bréfi, dags. 17. maí 2019. Umsókn um hið umrædda byggingarleyfi var síðan samþykkt af byggingarfulltrúa 28. s.m.
Samkvæmt gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta, leyfisumsókn. Skal skipulagsnefnd leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar, sbr. gr. 5.9.3. reglugerðarinnar. Verður það ekki talinn annmarki á grenndarkynningu umsóknar leyfishafa að grenndarkynnt hafi verið fyrir fleiri en lóðarhöfum aðliggjandi lóða, enda verður hugtakið nágranni ekki skilgreint svo þröngt. Eftir sem áður er það hlutverk þeirra sem að leyfisveitingu koma að gæta samræmis við skipulag og jafnræðis milli aðila í sambærilegum tilvikum, en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað séð en að svo hafi verið gert í þessu máli.
Í 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga til þátttöku í meðferð eða afgreiðslu mála þar sem á, eða til greina kemur, að taka stjórnvaldsákvörðun skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, gildi ákvæði stjórnsýslulaga sé ekki öðruvísi ákveðið í sveitarstjórnarlögunum. Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga er starfsmaður talinn vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Samkvæmt 54. gr. sveitarstjórnarlaga ræður sveitarstjórn framkvæmdastjóra, þ.e. sveitarstjóra, og er hlutverk hans skv. 1. mgr. 55. gr. laganna að sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna skal hann sitja fundi sveitarstjórnar og þar hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi. Hann skal sjá um að fundir sveitarstjórnar, byggðaráðs og annarra nefnda sveitarstjórnar séu vel undirbúnir, m.a. í þeim tilgangi að mál sem þar eru afgreidd séu vel upplýst, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna. Verður að líta svo á að þáverandi sveitarstjóri Borgarbyggðar, sem var ekki kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni, hafi komið að undirbúningi málsins með setu á fundum sveitarstjórnar Borgarbyggðar í málinu með hliðsjón af lögmæltu hlutverki hans samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum sveitarstjórnarlaga.
Í kjölfar niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar 6. desember 2019 um ógildingu byggingarleyfis legsteinasafns lýsti sveitarstjóri því yfir í blaðaviðtali að vinna yrði nýtt byggingarleyfi sem standast myndi kröfur, fara í grenndarkynningu og gefa leyfið út aftur. Þau ummæli gátu verið til þess fallin að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu í skilningi 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Hins vegar verður að líta til þess að hann hafði ekki atkvæðisrétt á fundum sveitarstjórnar og gat því ekki með beinum hætti komið að þeim ákvörðunum hennar að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar um að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina annars vegar og hins vegar staðfesta bókun sömu nefndar um fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umþrætta byggingarleyfi. Þá má sjá af afritum ræða af fundi sveitarstjórnar 9. maí 2019, þar sem samþykkt var að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi legsteinaskálans, að sveitarstjórinn tók ekki til máls. Að því virtu verður að telja þátt hans í meðferð málsins það lítilfjörlegan að ekki hafi verið hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á á ákvarðanir sveitarstjórnarinnar, sbr. 4. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna, og því ekki um vanhæfi hans að ræða. Sviðsstjóri skipulagssviðs Borgarbyggðar mun vera kvæntur hönnuði deiliskipulags þess sem úrskurðarnefndin taldi ógilt í úrskurði uppkveðnum 6. desember 2018 í kærumáli nr. 105/2016. Sá hönnuður telst ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og er því ekki um vanhæfi sviðsstjórans að ræða á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna. Þá verður heldur ekki séð að þau fjölskyldutengsl leiði til vanhæfis sviðsstjórans á grundvelli annarra vanhæfisreglna stjórnsýslulaga eða sveitarstjórnarlaga.
Að framangreindu virtu verður ekki séð að þeir formannmarkar hafi verið á meðferð málsins að varði ógildingu hins kærða byggingarleyfis.
Svo sem frá er greint í málavöxtum er forsaga máls þessa nokkur og hafa bæði deiliskipulag og byggingarleyfi vegna umdeildra framkvæmda að Bæjargili verið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni. Deiliskipulag það sem í tvígang hefur ratað til nefndarinnar hefur ekki fengið efnislega skoðun af hálfu hennar, enda var því vísað frá í bæði skiptin. Í fyrra skiptið þar sem kærufrestur var útrunninn og í það seinna þar sem skipulagið hafði ekki tekið gildi. Í nefndu deiliskipulagi var veitt heimild fyrir byggingu sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss, sem meðal annars gæti hýst steinhörpur og önnur listaverk. Fram kom í greinargerð skipulagsins að það samræmdist ekki þeirri stefnu sem fram kæmi í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 en það væri hins vegar í samræmi við þá starfsemi sem þar hefði verið stunduð um árabil. Þar sem deiliskipulagið öðlaðist ekki gildi átti byggingarleyfi það sem til umfjöllunar var í kærumáli nr. 105/2016 ekki stoð í því. Var jafnframt rakið í seinni úrskurði vegna þess máls að hvort sem byggingarleyfið ætti sér stoð í aðalskipulagi eða ekki lægi fyrir að málsmeðferð skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði ekki farið fram. Var byggingarleyfið því ógilt vegna formannmarka og hlaut ekki efnislega athugun af hálfu úrskurðarnefndarinnar.
Byggingarleyfi, þó ekki samhljóða, hefur nú verið gefið út að nýju á grundvelli áðurnefndrar 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem heimilar að veitt sé byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Þar sem nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að á hinu kærða byggingarleyfi séu ekki þeir formannmarkar að ógildingu varði kemur næst til skoðunar hvort skilyrði samkvæmt nefndu ákvæði hafi verið uppfyllt svo veita mætti leyfi að afstaðinni grenndarkynningu.
Í gildi er Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 og samkvæmt því er Bæjargil á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er landbúnaður, sbr. e-lið greinarinnar, og er þar m.a. átt við þróun landbúnaðar og megináhrifaþætti, helstu einkenni landbúnaðarsvæða, þ.e. búrekstrar sem þar er stundaður, þ.m.t. ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi sem tengist búrekstrinum, og helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Fjallað er um stakar framkvæmdir í k-lið sömu greinar, þ.e. að eftir því sem við eigi skuli gera grein fyrir og marka stefnu um hvernig farið skuli með stakar skipulagsskyldar framkvæmdir, sem ekki sé talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir, enda sé um að ræða framkvæmdir sem ekki séu taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Gefin eru dæmi og tekið fram að þetta geti einnig átt við um stök frístundahús, stök íbúðarhús og aðra mannvirkjagerð á landbúnaðarsvæðum án tengsla við búrekstur. Í gr. 6.2. í reglugerðinni er nánar kveðið á um stefnu um landnotkun og er landbúnaðarsvæði nánar skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað og matvæla- og fóðurframleiðslu, sbr. q-lið greinarinnar.
Af framangreindum ákvæðum verður ráðið að á skilgreindum landbúnaðarsvæðum skuli mannvirki fyrst og fremst tengjast búrekstri en í aðalskipulagi sé heimilt að mæla fyrir um byggingu mannvirkja án tengsla við búrekstur. Í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 er í kafla 4.6 að finna stefnumörkun varðandi landbúnaðarsvæði, m.a. heildarfjölda leyfilegra íbúða- og frístundahúsa á lögbýlum. Þá er í kaflanum mælt fyrir um að byggingar sem tengist annarri atvinnustarfsemi séu ekki heimilaðar á landbúnaðarsvæðum ef undanskildar séu byggingar vegna minniháttar verktakastarfsemi út frá bújörðum, vindmylla með hámarks rafafli 25 kW og vatnsaflsvirkjana með rafafli allt að 200 kW, enda sé svæðið ekki á náttúruminjaskrá eða skilgreint sem hverfisverndarsvæði. Hið kærða byggingarleyfi heimilar ekkert þeirra mannvirkja sem í aðalskipulagi eru tilgreind heldur byggingu skála til að varðveita legsteina. Slíkur skáli tengist hvorki búrekstri né fellur undir fyrrgreindar undanþáguheimildir aðalskipulagsins.
Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi er hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skilmála Aðalskipulags Borgarbyggðar 2010-2022. Verður byggingarleyfið því fellt úr gildi með hliðsjón af kröfu 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um samræmi byggingarleyfis við aðalskipulag, sbr. og ákvæði 11. gr. og 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga sem jafnframt áskilja samræmi mannvirkja og notkun þeirra við skipulagsáætlanir svo slíkt leyfi verði veitt.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. maí 2019 um að fela byggingarfulltrúa að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 28. maí 2019 um að veita byggingarleyfi fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells.