Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2019 Þúfukot

Árið 2019, fimmtudaginn 21. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 115/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 8. október 2019 um að samþykkja að breyta landnotkun Þúfukots 4, Nýjakoti, úr sumarbústaðarlóð í íbúðarhúsalóð.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Dap ehf., eigandi lögbýlisins Þúfukot í Kjósarhreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 8. október 2019 að breyta landnotkun Þúfukots 4, Nýjakoti, úr sumarbústaðarlóð í íbúðarhúsalóð. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þangað til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Kjósarhreppi 11. nóvember 2019.

Málsatvik: Hinn 8. október 2019 staðfesti hreppsnefnd Kjósarhrepps afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 29. ágúst s.á. um að samþykkja að breyta landnotkun Þúfu­kots 4, Nýjakot, lnr. 213977, úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni og fyrir lægi staðfesting byggingarfulltrúa á að hús það sem á henni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði.

Málsástæður kæranda: Kærandi bendir á að hin kærða ákvörðun hafi bæði veruleg og íþyngjandi áhrif fyrir sig, en hann hefur ekki teflt fram málsástæðum sem snúa að frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar. Þykir ekki tilefni til að rekja málsástæður kæranda sem snúa að efnisþætti málsins að svo stöddu.

Málsástæður sveitarfélagsins: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að það sé meginregla að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála. Þessi regla sé í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttarins sem fram komi í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því þurfi að vera fyrir hendi sérstakar ástæður og röksemdir sem geri það að verkum að kærandi geti orðið fyrir óafturkræfri skerðingu á hagsmunum sínum sem hann gæti ekki fengið bætta eftir reglum skaðabótaréttar, sbr. m.a. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 50/2018. Hvergi í umfjöllun kæranda sé að finna málsástæður er snúi að þeim ríku ástæðum sem leiða ættu til frestunar réttaráhrifa eða veigamikil rök fyrir því að slík ákvörðun skuli tekin.

Hin kærða ákvörðun sé ekki endanleg um það hvort landnotkun Nýjakots verði breytt, enda sé ákvörðun um þá breytingu háð þeim fyrirvara að eigendur umræddrar fasteignar leggi fram hnitsettan uppdrátt með afmörkun landspildunnar og að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins staðfesti að hús það sem sé á spildunni uppfylli skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Hvorugt þessara skilyrða hafi verið uppfyllt og sé umrædd landspilda því enn skráð sem sumarbústaðaland. Réttaráhrif hinnar kærðu ákvörðunar séu því ekki fram komin og óvíst hvort breytingin nái fram að ganga.

Ekki verði séð að geti valdið kæranda óafturkræfri skerðingu á réttindum hans sem eiganda Þúfukots eða óbætanlegu tjóni ef réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað. Myndi enda ekki annað gerast, ef framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar væri lokið með skráningu á breyttri landnotkun og úrskurðarnefndin síðar fallast á aðalkröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar, en að landnotkunin myndi falla úr gildi og fyrra réttarástand komast á að nýju.

Þá mæli það gegn því að fallist verði á kröfu um frestun réttaráhrifa að um gagnstæða hagsmuni sé að ræða.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er deilt um breytingu á landnotkun úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð. Hin kærða ákvörðun er skilyrt á þann veg að breytingin taki ekki gildi fyrr en afhentur verði hnitsettur uppdráttur af spildunni og fyrir liggi staðfesting byggingarfulltrúa á því að hús það sem á henni standi uppfylli skilyrði laga og reglugerða til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Endanleg réttaráhrif hinnar kærðu ákvörðunar eru því ekki enn komin fram. Verður ekki séð að breytt landnotkun hafi ein og sér óafturkræf áhrif á hagsmuni kæranda eða valdi honum tjóni, enda myndi úrskurður nefndarinnar kæranda í hag hafa þau áhrif að landnotkun yrði breytt aftur í sumarbústaðalóð. Þá eiga aðilar gagnstæðra hagsmuna að gæta sem mælir gegn því að réttar­áhrifum sé frestað.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu hans um stöðvun framkvæmda á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.