Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2018 Langabrekka

Árið 2019, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2018, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 15. janúar 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 15. janúar 2018 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að byggingarfulltrúa Kópavogs verði gert að veita leyfi fyrir viðbyggingu við bílskúrinn að Löngubrekku 5.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 20. júlí 2018.

Málavextir: Kærandi hefur um árabil óskað eftir leyfi bæjaryfirvalda Kópavogs fyrir byggingu við bílskúr sinn að Löngubrekku 5. Hefur því erindi hans ítrekað verið hafnað af bæjaryfirvöldum, auk þess sem íbúar á aðliggjandi lóð hafa ætíð andmælt þeim byggingar­áformum. Umrædd fasteign er á ódeiliskipulögðu svæði.

Kærandi lagði fram umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu bílskúrs að Löngubrekku 5 hinn 8. júní 2015. Á fundi skipulagsnefndar 22. s.m. var samþykkt að grenndarkynna umsótta breytingu, með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir bárust frá íbúum Álfhólsvegar 61. Að lokinni grenndarkynningu hafnaði skipulagsnefnd umsókninni 26. október s.á. Bæjarráð tók afgreiðslu skipulagsnefndar fyrir hinn 29. s.m. og vísaði henni til bæjarstjórnar, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar 10. nóvember 2015. Byggingarfulltrúi hafnaði í kjölfarið byggingarleyfisumsókn kæranda hinn 12. s.m. með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi, dags. 10. desember 2015, kærði kærandi þá ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 16. nóvember 2017. Kærandi sótti að nýju um leyfi fyrir viðbyggingu við áðurgreindan bílskúr 20. s.m. og vísaði byggingarfulltrúi umsókninni til skipulagsráðs á fundi sínum 7. desember s.á., með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Skipulagsráð hafnaði erindinu 15. janúar 2018 og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi skipulagsráðs fyrir ákvörðuninni 17. s.m. Bæjarráð og bæjarstjórn staðfestu afgreiðslu skipulagsráðs hinn 18. og 23. janúar 2018 og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 30. s.m. Með vísan í afgreiðslu skipulagsráðs og bæjarstjórnar hafnaði byggingarfulltrúi byggingarleyfisumsókn kæranda hinn 6. júlí 2018.

Málsrök kæranda: Kærandi telur augljóst að engin frekari rannsókn hafi farið fram vegna byggingarleyfisumsóknar hans, s.s. með því að afla umsagnar sérfróðra aðila um málið, og með því hafi verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sé kveðið á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Í þessu máli hafi verið sérstakt tilefni fyrir skipulagsyfirvöld til frekari rannsóknar á málinu eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa úr gildi. Skipulagsráð hafi ákveðið að hundsa niðurstöðu úrskurðarnefndar. Í umsögn bæjarskipulags Kópavogs um stækkun bílskúrs frá 16. mars 2007 sé mælt með því að leyfið verði veitt og í umsögn frá 26. október 2015 séu ekki tilgreind nein atriði sem valda ættu því að umsókninni yrði hafnað.

Rökstuðningur skipulagsráðs fyrir ákvörðuninni sé vægast sagt sérkennilegur. Látið sé að því liggja að umsókn um byggingarleyfi hafi eingöngu snúist um að grenndarkynna umsóknina og að ekki hafi þurft að taka afstöðu til annars. Synjunin hafi eingöngu byggst á mótmælum lóðarhafa Álfhólsvegar 61 og fullyrðingum þeirra um að kærandi muni nota viðbygginguna á annan hátt en getið sé um í umsókn. Í rökstuðningi sé fullyrt að viðbyggingin muni hafa veruleg grenndaráhrif gagnvart aðliggjandi lóð, en hvorki sé vitnað í rannsóknir á málinu né rök eða útskýringar færðar fyrir fullyrðingunni. Í engu sé tekið undir þessar fullyrðingar í fyrrnefndum umsögnum bæjarskipulags Kópavogs.

Í lóðarleigusamningi frá 1. janúar 2008 sé hvergi getið um að hafa skuli samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóðar við framkvæmdir við lóðamörk, eins og fullyrt sé í rökstuðningi skipulagsráðs. Samkvæmt núgildandi byggingarlögum sé ekki krafist samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða vegna framkvæmda á lóðamörkum. Þá sé fullyrt í rökstuðningnum að umrædd viðbygging sé ekki í samræmi við tilgang og markmið skipulagslaga og mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þessi fullyrðing sé ekki útskýrð nánar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær vísar til þess að samkvæmt 14. gr. lóðarleigusamnings Kópavogsbæjar fyrir Löngubrekku 5 skuli lóðarhafi hafa samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum. Af því leiði að séu framkvæmdir fyrirhugaðar á lóðamörkum þurfi samþykki aðliggjandi lóðarhafa að liggja fyrir. Ljóst sé að hin umdeilda viðbygging muni liggja að lóðamörkum Álfhólsvegar 61 og framkvæmdir á lóðamörkum því óhjákvæmilegar. Þar sem lóðarhafi Álfhólsvegar 61 hafi ítrekað mótmælt umræddum framkvæmdum hafi skipulagsráð ekki þótt ástæða til að grenndarkynna tillöguna að nýju enda væri byggingarleyfisumsóknin efnislega samhljóða fyrri umsókn, sem hafi verið grenndarkynnt. Af þeirri ástæðu hafi skipulagsráð hafnað grenndarkynningu framlagðrar tillögu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds-ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðar­nefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda nefndarinnar að leggja fyrir byggingarfulltrúa að veita hið umsótta byggingarleyfi. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda í máli þessu.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Verður því svo litið á að í máli þessu sé kærð fyrirliggjandi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. júlí 2018 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekkur 5, enda er hin kærða ákvörðun skipulagsráðs liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er tekið fram að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd, sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Verður ekki ráðið af orðalagi ákvæðisins að sú skylda sé fyrir hendi þegar sveitarstjórn, eða öðrum aðila sem falin er fullnaðarafgreiðsla máls, leggst gegn því að veita umsótt leyfi.

Í rökstuðningi Kópavogsbæjar fyrir hinni kærðu ákvörðun er rakið að umsókn kæranda sé efnislega sú sama og grenndarkynnt hafi verið árið 2015. Hafi það verið mat skipulagsráðs að ekki væri forsenda fyrir annarri grenndarkynningu þar sem lóðarhafi aðliggjandi lóðar hefði verið mótfallinn fyrirhugaðri viðbyggingu frá upphafi og að samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi skuli hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna framkvæmda við lóðamörk. Fyrir hafi legið að samþykki þeirra fengist ekki fyrir umsóttum framkvæmdum. Verður að telja rök þessi málefnaleg fyrir þeirri ákvörðun að synja um grenndarkynningu umsóknar kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggur fyrir að aðstæður hafi breyst eftir grenndarkynningu fyrri umsóknar kæranda, verður kröfu kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 6. júlí 2018 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5 í Kópavogi.