Árið 2019, þriðjudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.
Fyrir var tekið mál nr. 111/2017, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 um að eldi á allt að 1.200 tonnum af seiðum á ári á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2017, er barst nefndinni 2. október s.á., kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Fnjóskár og Veiðifélag Eyjafjarðarár, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 að eldi á allt að 1.200 tonnum af seiðum á ári á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 2. nóvember 2017.
Málavextir: Aðdragandi máls þessa er sá að 31. janúar 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá framkvæmdaraðila um fyrirhugaða seiðaeldisstöð við Þorvaldsdalsárós, Dalvíkurbyggð, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 1.11 í 1. viðauka laganna. Stefnt var að framleiðslu á allt að 1.200 tonnum af sjógönguseiðum og/eða unglaxi á ári. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar. Umsagnir bárust í febrúar og mars 2017. Hinn 7. apríl 2017 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að hin fyrirhugaða framkvæmd væri háð mati á umhverfisáhrifum. Byggði niðurstaðan m.a. á eðli framkvæmdar, sbr. 1. tl. í 2. viðauka, að teknu tilliti til þess að upplýsingar hefði vantað um ýmsa þætti framkvæmdarinnar sem hefðu getað ráðið miklu um hvaða áhrif hún myndi hafa á einstaka umhverfisþætti. Skort hefði upplýsingar um útfærslu og umfang ýmissa þátta framkvæmdarinnar, s.s. aðkomuvegar, flóðvarna, hreinsun frárennslis og afhendingu seiða. Niðurstaðan var einnig reist á viðmiðum um staðsetningu framkvæmdar, sbr. 2. tl. í 2. viðauka. Var tiltekið að framkvæmdin hefði verið fyrirhuguð á svæði sem væri hverfisverndað sem útivistarsvæði í aðalskipulagi. Einnig hefði verið óljóst hvernig vatnstöku myndi vera háttað og hvaða áhrif hún myndi hafa á vatnsból og getu þeirra til endurnýjunar. Þá hefði vantað upplýsingar um áhrif framkvæmda á Þorvaldsdalsá, bakka árinnar og lífríki.
Hinn 3. maí 2017 barst Skipulagsstofnun að nýju tilkynning frá framkvæmdaraðila skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Laut hún að fyrirhugaðri seiðaeldisstöð við Árskógssand, Dalvíkurbyggð. Þar kemur fram að framkvæmdin feli í sér tvo áfanga. Í fyrstu sé ætlunin að byggja ferskvatnshlutann, sem kallist seiðadeildin, í einni byggingu, sem eigi að hýsa klakdeild, startfóðursdeild, seiðadeild o.fl. Þessi hluti eldisins muni aðeins nota ferskvatn en ekki sjó og verði staðsettur á hluta lóðarinnar Öldugötu 31. Hinn hlutinn, sjógönguseiðadeild, sem sé síðari byggingaráfanginn, verði á þar til gerðri fyllingu sem verði næst höfninni. Lagnir fyrir frárennsli og flutning seiða þurfi að liggja frá seiðadeild og niður í sjógöngudeild og þaðan til sjávar. Gengið sé út frá því að borað verði eftir fersku vatni á tveimur til þremur völdum stöðum. Einnig liggi fyrir heimild til að koma fyrir drenlögn við bakka Þorvaldsdalsár og að teknir verði 100 l/s í febrúar, mars og apríl ár hvert og allt að 180 l/s aðra mánuði ársins svo að tryggt verði að ekki muni skorta ferskvatn ef borholurnar gefi minna en vonast sé eftir. Sótt verði um svæði og lóð til þess að reka eldi á laxaseiðum og sjógönguseiðum af Sagastofni frá Stofnfiski hf., sem síðan fari í sjókvíar eða áframeldi á landi í öðrum eldisstöðvum, innanlands eða utan. Miðað sé við að hægt verði að framleiða allt að 1.200 tonn af lífmassa sjógönguseiða og/eða unglaxa á ári. Aðkoma að svæðinu verði um Hafnargötu, sem sé þjóðvegurinn niður á Árskógssand, liggi um Öldugötu þar sem seiðastöðin muni verða, og svo áfram niður á hafnarsvæðið. Gert sé ráð fyrir að landfylling verði um 6.750 m2 og að sjóvarnargarður sem fyrir sé verði færður út allt að 45 m á u.þ.b. 200 m kafla þegar fyllingin verði gerð.
Gert sé ráð fyrir að allt ferskvatn komi úr landi Dalvíkurbyggðar, sem nái um 1,5 km frá strönd og ósum Þorvaldsdalsár og upp með ánni að vestanverðu. Gert sé ráð fyrir að vatnsöflun fari fram á svæðum merktum A, B og C. Á svæði A verði sett niður drenlögn í malarjarðveg nálægt ánni, en á þessu svæði sé möl í miklum mæli. Á svæðum B og C séu mýrarkeldur með uppsprettum og því talið vænlegt að bora þar eftir vatni. Allar vatnslagnir verði grafnar í jörðu, þannig að þær verði ekki sýnilegar og að framkvæmdum loknum verði lítil ummerki um jarðrask. Við hámarksframleiðslu, 1.200 tonna lífmassa á ári, verði meðalheildarrennsli á ári að hámarki 300 l/s og hönnun vatnskerfisins muni taka mið af því. Þar af sé áætlað að 120 l/s verði hreinn sjór og 180 l/s samtals teknir úr borholum og ánni. Ekki hafi tekist að finna haldbærar upplýsingar um veiði í ánni þrátt fyrir fund með Veiðifélagi Þorvaldsdalsár. Þorvaldsdalsárfoss sé um 1,8 km fyrir ofan ósinn og sé ekki fiskgengur. Fyrir ofan fossinn sé náttúrulegur bleikjustofn og áður fyrr hafi verið náttúrulegur sjóbleikjustofn fyrir neðan fossinn, en hann virðist að mestu horfinn. Samkvæmt heimamönnum hafi ekki orðið vart við lax í ánni síðustu ár. Áin sé því fátæk af fiski enda meðalhitastig hennar lágt, ekki sé náttúrulegur villtur laxastofn í ánni og lítið hafi sést til bleikju síðustu ár fyrir neðan foss. Tekjur af veiði séu þar litlar eða engar. Rennslismælir sýni að rennsli árinnar geti sveiflast frá u.þ.b. 50.000 l/s yfir sumartímann niður í 418 l/s yfir vetrartímann, á mælingarstað fyrir ofan foss, um 2 km fyrir ofan ós. Vatnstakan hafi augljóslega engin áhrif á ána og lífríki hennar fyrir ofan foss og erfitt sé að sjá að hún geti haft einhver neikvæð áhrif á lífríki árinnar þennan síðasta u.þ.b. 1,5 km sem eftir sé til sjávar enda lítið um fisk á þessum slóðum. Vatnsmagnið sem áætlað sé að taka sé um 10% af heildarrennsli árinnar að meðaltali og geti í einstaka toppum nálgast 25%.
Í tilkynningu framkvæmdaraðila kom enn fremur fram að öll ker verði útbúin með fiskhelda rist sem passi stærð viðkomandi seiða og til viðbótar verði allt frárennsli frá öllum deildum leitt í gegnum fiskhelda rist eða ristar, sem verði útbúnar þannig að aðskotahlutir í vatninu yfir ákveðinni stærð komist ekki í gegnum þær og afl straumsins ýti aðskotahlutnum út fyrir ristarsvæðið þar sem vatnið streymi í gegn. Svona frágangur komi í veg fyrir að ristin geti stíflast og sé hann til staðar í nokkrum strandeldisstöðvum á Íslandi. Útilokað sé að fiskur af sjógönguseiðastærð komist í gegn um slíkar ristar. Að auki sé áformað að allt frárennsli fari í gegnum tromlur sem fjarlægi korn stærri en 1/1000 úr millimetra. Laxaseiði muni ekki komast í gegnum ofangreindan þrefaldan öryggisbúnað.
Munur á fóðri fyrir seiði og fyrir eldislax sé nær eingöngu sá að próteinþörfin minnki og fituþörfin aukist eftir því sem laxinn verði stærri. Þetta hafi nánast engin áhrif við útreikning á hlutdeild lífrænna efna, sem gegni lykilhlutverki í vexti gróðurs og svifs í hafinu eins og köfnunarefni (nitur) og fosfór, enda komi langstærsti hluti úrgangsins frá seiðunum í formi þvags og saurs. Sá hreinsibúnaður sem sé áformaður muni hreinsa nánast allt fóðrið sem fari út úr kerjum, stóran hluta af saur en lítið af þvagi. Hreinsunarhlutfallið sé aðallega spurning um þörf fyrir hreinsun, tæknistig og kostnað, en síður um getu. Við útreikningana sé ekki skilið á milli úrgangsefna frá fiskinum og fóðurleifa og sé miðað við þekktar forsendur um næringarefnainnihald laxafóðurs. Miðað við að lágmarki 50% verði hreinsað fari ekki meira en 78 tonn af lífrænum úrgangsefnum á ári í sjóinn. Tromlur verði notaðar sem sigti allan hringinn og sé gefið upp að hreinsitæknin geti fjarlægt korn sem séu allt niður í 1/1000 mm í þvermál. Frárennsli verði leitt í lögn sem nái 20 til 80 m út frá stórstraumsfjöruborði í norðausturátt niður á 6 til 8 m dýpi.
Skipulagsstofnun leitaði umsagna Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Orku-stofnunar, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar. Umsagnir bárust í maí 2017. Taldi Vegagerðin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og sama sinnis var Minjastofnun að því gefnu að samráð yrði haft við stofnunina um legu vatnslagna frá vatnstökustaðnum að seiðaeldisstöðinni. Veðurstofa Íslands benti á að mikilvægt væri að kanna hvort sprungur eða misgengi leyndust undir eða við byggingarreitinn. Samgöngustofa tók ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum en tók fram að upplýsa þyrfti Sjómælingar Íslands þegar framkvæmdir hæfust og gera grein fyrir nánar tilgreindum atriðum.
Dalvíkurbyggð taldi í umsögn sinni að gerð væri fullnægjandi grein fyrir áhrifum stöðvarinnar á næstu byggð og umhverfi í tilkynningunni. Í umsögn Matvælastofnunar, dags. 17. maí 2017, kom fram að hún teldi ekkert fram koma í tilkynningu um framkvæmdina sem gæfi tilefni til nauðsynjar á mati á umhverfisáhrifum þegar horft væri til útgáfu rekstarleyfis, rekstrarleyfisskilyrða eða sjúkdómavarna. Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2017, kom fram að stofnunin teldi ekki líklegt að umrædd framkvæmd myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, dags. 16. maí 2017, kom fram að eftirlitið teldi að gera þyrfti ítarlegri grein fyrir ýmsum þáttum í tilkynningu umsækjanda með fyrirhugaðri framkvæmd, s.s. fyrirkomulagi mannvirkja og mótvægisaðgerðum gegn hugsanlegri sjónmengun af völdum lausamuna sem tilheyri starfseminni. Umferð til og frá sjógönguseiðadeild, þ. á m. umferð vörubíla með tengivagn, muni fara í gegnum bílastæði sem sé ætlað farþegum Hríseyjarferjunnar og skapa hugsanlega hættu þar. Einnig teldi eftirlitið að gera þyrfti ítarlegri grein fyrir hreinsun frárennslis og meðferð lífræns úrgangs úr tromlum ásamt því að huga að hugsanlegri lyktarmengun frá söfnunartanki. Þá væri það álit heilbrigðiseftirlitsins að rekstur sjógönguseiðastöðvar með framleiddan 1.200 tonna lífmassa á ári og losun a.m.k. 78 tonna af lífrænum úrgangi í sjó á ári væri háður mati á umhverfisáhrifum.
Í umsögn Orkustofnunar, dags. 23. maí 2017, kom fram að stofnunin teldi til verulegra bóta þær breytingar sem gerðar hefðu verið á tilkynningu um fyrirhugað seiðaeldi frá fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar. Var tekið fram að umsókn framkvæmdaraðila um leyfi til nýtingar grunnvatns væri í biðstöðu hjá Orkustofnun á meðan umsækjandi endurskoðaði hana, m.a. með tilliti til vatnsbóla og sjóhola og með tilliti til þess magns af fersku og söltu grunnvatni sem sótt væri um nýtingu á. Í tilkynningunni þyrftu að vera nánari upplýsingar um aðra starfsemi á hafnarsvæðinu og hvernig fyrirhugað seiðaeldi samrýmdist þeirri starfsemi.
Vísað var til umsagnar við fyrri tilkynningu framkvæmdaraðila í umsögn Fiskistofu, dags. 23. maí 2017, og kom þar fram að sömu atriði skiptu enn máli. Búnaður þyrfti að vera þannig gerður að ekki yrði hætta á því að fiskur slyppi lifandi frá stöðinni með frárennsli eða vegna dælingar í brunnbát. Tryggja þyrfti að frárennsli verði með þeim hætti sem lýst sé í tilkynningunni. Það fyrirkomulag ætti að koma í veg fyrir að seiði myndu berast lifandi með frárennsli stöðvarinnar, en óhöpp geti orðið við dælingu seiða í brunnbát. Eins og Fiskistofa hafi nefnt í fyrri umsögn sinni mætti læra af reynslu Norðmanna við að meta áhættu af starfseminni. Taka verði mið af því þegar metið verði hvort framkvæmdin þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum, eins og Fiskistofa hafi bent á í fyrri umsögn sinni vegna málsins.
Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 15. maí 2017, kom fram að miðað við framkomnar tölur um vatnstöku úr Þorvaldsdalsá væri full ástæða til að þær forsendur yrðu kannaðar frekar, líkt og áður hefði komið fram hjá Orkustofnun, en vatnsnotkun væri ein stærsta forsenda framkvæmdarinnar. Þá væri eindregið mælt með því að gerð yrði rannsókn á fiskistofnum í fiskgenga hluta Þorvaldsdalsár svo meta mætti hvað þar gæti verið í húfi. Ekki kæmi fram áætlun um vöktun á áhrifum frárennslis. Þeir þættir sem settir hefðu verið fram gætu talist sem neikvæð áhrif fyrir viðkomandi framkvæmd og full ástæða væri til að upplýsa frekar um þá með mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hefði lagt til að aldrei yrði tekið meira en 25% af rennsli árinnar til að vernda lífríki hennar. Í frekari umsögn Hafrannsóknastofnunar, sem veitt var í tölvupósti 26. júlí 2017, var bent á að minnsta mælda rennsli í ánni á árinu 2016 hefði verið 416 l/s í mars og vetrarrennsli væri almennt lítið og að í fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar hefði verið greint frá efasemdum Orkustofnunar um að fyrirhuguð vatnstaka væri möguleg á umræddu svæði. Hver sem framleiðsla, þéttleiki og tegundasamsetning væri á neðsta hluta Þorvaldsdalsár mætti gera ráð fyrir að 25% vatnstaka í lágrennsli hefði áhrif á lífríki. Ef af framkvæmdum og vatnstöku yrði gæti verið full ástæða til að koma á reglulegri vöktun á þessu svæði og mati á áhrifum vatnstöku á lífríkið. Í tölvupóstinum var enn fremur bent á að þrátt fyrir búnað á frárennsli væri möguleiki á að fiskar slyppu úr eldisstöðvum. Vísbendingar væru um að greinst hefðu laxar af norskum uppruna í á í nágrenni seiðaeldisstöðvar, þar sem boðað hefði verið að notaður yrði búnaður á allt frárennsli þegar metin hefðu verið möguleg umhverfisáhrif. Skipti því miklu að búnaður væri virkur og umhirða og eftirlit skilvirkt.
Framkvæmdaraðili veitti frekari upplýsingar og svaraði framkomnum umsögnum með tölvupóstum í maí, júlí og ágúst 2017. Í svörum sínum við umsögn Fiskistofu áréttaði framkvæmdaraðili þær upplýsingar sem fram kæmu í tilkynningu hans um öryggisbúnað til að tryggja að seiði slyppu ekki. Áréttaði framkvæmdaraðili jafnframt að einungis sjógönguseiði að lágmarki 60 g að þyngd ættu möguleika á að lifa það af að fara með frárennsli til sjávar og að slík seiði leituðu ekki í ferskvatn heldur til hafs og væru ólíkleg til að snúa þaðan. Hvað varðaði dælingu seiða í brunnbát benti framkvæmdaraðili á að litið væri til reynslu Norðmanna og væru dæmi um slysasleppingar þar vandfundin við þessar aðstæður. Ástæðan væri sú að um staðlaðan búnað væri að ræða sem væri algjörlega lokaður. Hvergi væri opið nema þar sem seiðin fari í lestar bátsins. Seiði myndu ekki geta sloppið frá stöðinni, hvorki með frárennsli né við afhendingu sjógönguseiða, eða á nokkurn annan hátt. Ef það myndi gerast sé ítrekað að óseltuvanin seiði deyi í sjó og ef sjógönguseiði sleppi þá fari þau til hafs og dvelji þar í 2 til 4 ár, eða þar til þau verði kynþroska. Þessir eldislaxar væru mun ólíklegri til að snúa til baka upp í ferskvatnsá en villtir laxar. Nánast öll tilvik þar sem kynþroska eldislax hefði gengið í á væru þegar um væri að ræða eldislax sem hefði sloppið meira eða minna fullvaxta og ekki þurft að aðlagast fullkomlega villtu umhverfi til að geta vaxið og þroskast. Nánast ómögulegt væri að sjógönguseiði af eldislaxastofni sem slyppu úr landeldisstöð lifðu slíkt af. Með bréfi, dags. 5. júlí 2017, veitti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun einnig nánari upplýsingar um fyrirhugaða efnistöku í sjó vegna landfyllingar þar sem m.a. var vísað til skýrslu um botndýrarannsóknir við Árskógssand í Eyjafirði.
Hinn 31. ágúst 2017 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð seiðaeldisstöð á Árskógssandi væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kom fram í niðurstöðu stofnunarinnar að færi rennsli árinnar undir 500 l/s þá yrði vatnstakan að hámarki 20 l/s og færi aldrei yfir tilgreindar magntölur, sem fram kæmu í ákvörðuninni, óháð því hvort vatn fengist úr borholum eða ekki. Þá myndi framkvæmdaraðili halda skrá yfir rennslismælingar og um vatnstöku sem aðgengileg yrði eftirlitsaðilum.
Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að umrædd framkvæmd, sem falli undir B-flokk í tölulið 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar, sbr. 1. viðauka við sömu lög og viðmiðanir við mat á framkvæmdum í B-flokki, sbr. 2. viðauka við sömu lög. Slíkt valdi ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Sé um þetta vísað til a-liðar 1. gr. laga nr. 106/2000, þar sem segi að markmið laganna sé „að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar.“
Vísað sé til fyrri ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 7. apríl 2017 þar sem stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Margar af forsendum fyrri ákvörðunar séu enn óbreyttar, svo sem „að huga þurfi sérstaklega að því hvort líkur séu á því að slys geti orðið við dælingu seiða í brunnbát“ og „að framkvæmdaaðili geri vel grein fyrir því hvernig afhending seiða fari fram“. Þá segi að í umsögn Hafrannsóknastofnunar komi fram að stofnunin telji að ekki sé ljóst hver raunveruleg losun næringarefna til sjávar verði og að uppleyst næringarefni muni ekki minnka að ráði þó svo vatnslosun minnki með endurnýtingu eldisvatns. Síðan segi að það sé álit Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Þá segi að Orkustofnun hafi sett umsókn framkvæmdaraðila um nýtingarleyfi fyrir 120 l/s af grunnvatni vegna seiðaeldisins í biðstöðu og bendi sú stofnun síðan á að yfirfall úr rotþróm gæti haft áhrif á gæði vatns sem tekið yrði neðarlega úr áreyrum. Í fyrri ákvörðun sinni fjalli Skipulagsstofnun um náttúruvá, svo sem um ábendingu Veðurstofu Íslands um að mikilvægt sé að kanna hvort sprungur eða misgengi leynist undir eða við fyrirhugað byggingarsvæði. Einnig sé nefnt hugsanlegt tjón af völdum jarðskjálfta, sem og að framkvæmdin sé ekki í samræmi við aðalskipulag Dalvíkurbyggðar. Ekki sé minnst á náttúruvá í síðari ákvörðun Skipulagsstofnunar.
Framkvæmdin falli undir B-lið í tölulið 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, eins og áður hafi komið fram. Undir þann lið falli þauleldi á fiski, þar sem ársframleiðslan sé 200 tonn eða meira og fráveita sé til sjávar. Í þessu máli sé um að ræða 1.200 tonna framkvæmd, sem sé langt yfir 200 tonna lágmarksmörkum, sem eitt og sér gefi tilefni til ákvörðunar um að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum. Enn fremur sé vísað til hins gífurlega seiðamagns framkvæmdarinnar, sem verði allt að 5 milljón seiði í eldi samtímis miðað við 1.200 tonna ársframleiðslu. Skipulagsstofnun „telur litlar líkur á að seiði sleppi til sjávar úr kerjum“, en segi svo „[s]tofnunin telur ekki vera hægt að útiloka að óhöpp geti átt sér stað þannig að seiði sleppi við dælingu seiða í brunnbát.“ Þá segi Skipulagsstofnun „[h]afa ber í huga að eldisfiskur getur synt upp í ár í hundraða kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem hann slapp frá. Næsta laxveiðiá við fyrirhugaða eldisstöð er Fnjóská sem er í um 13 km fjarlægð í beinni loftlínu en minni laxastofna er einnig að finna í öðrum ám í Eyjafirði. Þá eru einnig þekktar laxveiðiár sem renna í Skjálfanda og Húnaflóa.“ Þessu til viðbótar sé rétt að geta um Hörgá í 21 km fjarlægð og Eyjafjarðará í 35 km fjarlægð frá fyrirhugaðri eldisstöð. Framkvæmdaraðili áætli að stöðin muni losa allt að 78 tonn af lífrænum efnum í viðtaka á ári. Þetta magn sé alrangt. Alkunna sé að árlegur úrgangur saurs og fóðurleifa frá fiskeldi nemi um helmingi ársframleiðslunnar. Hér nemi hann 600 tonnum miðað við 1.200 tonna ársframleiðslu. Enda þótt takist að hreinsa helming þessa magns úr frárennsli stöðvarinnar, sem Hafrannsóknastofnun dragi reyndar í efa, nemi úrgangurinn 300 tonnum. Það magn jafngildi skolpfrárennsli frá 5.000 manna byggð.
Í umsögn sinni frá 15. maí 2017 segi Hafrannsóknastofnun m.a. að full ástæða sé til að forsendur vatnstöku verði kannaðar frekar eins og fram hafi komið hjá Orkustofnun. Enn fremur mæli stofnunin eindregið með því að gerð verði rannsókn á fiskistofnum á fiskgenga hluta Þorvaldsdalsár. Loks segi stofnunin að þrátt fyrir búnað á frárennsli og góð fyrirheit sé sú hætta fyrir hendi að lifandi fiskar „leki“ frá eldisstöðvum. Reynslan hér á landi hafi sýnt að svo sé í einhverjum mæli. Þá hafi það svæði sem um ræði í Eyjafirði ekki verið nýtt til eldis á norskum eldislaxi áður og þurfi að huga að áhrifum þess sérstaklega. Niðurstaða Hafrannsóknastofnunar sé þannig: „Þeir þættir sem hér hafa verið settir fram geta talist sem neikvæð áhrif fyrir viðkomandi framkvæmd og full ástæða til að skoða og upplýsa frekar með mati á umhverfisáhrifum.“ Í umsögn sinni 16. maí 2017 segi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra að gera þurfi ítarlegri grein fyrir ýmsum þáttum í tilkynningu umsækjanda um fyrirhugaða framkvæmd og að það sé álit eftirlitsins að rekstur sjógönguseiðastöðvar með 1.200 tonna lífmassa á ári sé háður mati á umhverfisáhrifum. Í umsögn sinni frá 23. maí 2017 segi Fiskistofa að óhöpp geti orðið við dælingu seiða í brunnbát og vísi í fyrri umsögn um að læra megi af reynslu Norðmanna í því efni til að meta áhættu af starfseminni. Taka verði mið af því þegar metið verði hvort framkvæmdin þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Orkustofnunar frá 23. maí 2017 vísi hún til fyrri ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 7. apríl s.á. um að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Við mat á því hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af því hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, m.a. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé. Hin tilkynnta framkvæmd hafi nú verið flutt annars vegar á iðnaðarlóð í þéttbýli byggðarlagsins og hins vegar á risavaxna 47.000 m3 og 6.750 m2 nýja stranduppfyllingu við hafnarsvæði byggðarinnar með grjótvörn sjávarmegin. Bent sé á að hluti framkvæmdarinnar sé enn á hverfisverndarsvæði fyrir útivist. Enn sé óljóst hvernig vatnstöku verði háttað og hvaða áhrif hún kunni að hafa á vatnsból. Ekki liggi fyrir leyfi Orkustofnunar til nýtingar á grunnvatni, enda rannsóknum ábótavant m.a. varðandi gæði ferskvatnsins. Hvorki liggi fyrir leyfi til nýtingar á jarðhita, eins og framkvæmdaraðili áætli, né leyfi til töku malar og sands af hafsbotni. Engar upplýsingar liggi fyrir um staðsetningu og stærð fyrirhugaðs efnistökusvæðis á hafsbotni. Að auki hafi Hríseyjarhreppur veitt leyfi árið 2001 til töku á allt að 20.000 m3 af möl og sandi af hafsbotni utan netlaga á allt að 40.000 m2 svæði út af ósum Þorvaldsdalsár. Framkvæmdaraðili fyrirhugi að lögn vegna afhendingar á sjógönguseiðum í brunnbát verði lögð og grafin eða plægð niður í botn hafnarinnar. Sú framkvæmd setji möguleika á síðari dýpkun hafnarinnar í óvissu. Þá kunni eldisstarfsemi á hafnarsvæðinu að trufla umferð og daglegar siglingar Hríseyjarferjunnar. Loks virðist ekki liggja fyrir heimild til vatnstöku úr Þorvaldsdalsá frá eigendum árinnar og formaður veiðifélagsins hafi lýst áhyggjum sínum af væntanlegri framkvæmd og áhrifum hennar á lífríki árinnar.
Ljóst sé af framansögðu að sjálfstæðum rannsóknum Skipulagsstofnunar hafi verið mjög ábótavant, sem og rökstuðningi niðurstöðu um fyrirhugaða framkvæmd. Hvað varði rannsóknar- og rökstuðningsskyldu Skipulagsstofnunar sé vísað sérstaklega til b-liðar 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB enda sé meðferð málsins hjá Skipulagstofnun hluti af leyfisveitingarferli framkvæmdarinnar. Þá sé vísað til margvíslegra síðari leyfisumsókna og síðara „samráðs“ sem framkvæmdaraðili vísi til á mörgum stöðum í tilkynningu sinni að muni verða viðhaft. Vegna þessara annmarka og upplýsingaleysis sé enginn grundvöllur fyrir þeirri staðhæfingu að framkvæmdin muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
Miðað við þá þætti sem þó liggi fyrir varðandi framkvæmdina sé hins vegar hægt að slá því föstu að framkvæmdin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hafi reyndar komist að þeirri niðurstöðu í fyrri ákvörðun sinni 7. apríl 2017.
Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er ekki tekið undir að margar af forsendum fyrri ákvörðunar standi enn óbreyttar. Hin fyrirhugaða framkvæmd sé ekki á sama stað og sú sem fjallað hafi verið um í fyrri ákvörðuninni. Einn hluti framkvæmdarinnar, sjógönguseiðadeildin, verði á landfyllingu sem næst höfninni, eins og vikið sé að á bls. 4 í tilkynningu framkvæmdaraðila, dags. 18. apríl 2017. Fyrri tilkynning framkvæmdaraðila hafi ekki gert ráð fyrir slíkri tilhögun heldur hafi verið gert ráð fyrir að mannvirki yrðu á bökkum Þorvaldsdalsár. Færsla mannvirkja af árbakka og yfir á athafnasvæði annars vegar og á landfyllingu við höfnina hins vegar hafi breytt forsendum umtalsvert. Meðal annars hafi ekki lengur verið gert ráð fyrir því að dæla seiðum um borð í brunnbát sem myndi leggjast að festubóli við ós Þorvaldsdalsár. Þess í stað myndi brunnbátur leggjast að höfninni. Hafi Skipulagsstofnun talið þá tilhögun mun tryggari og draga verulega úr hættu á slysasleppingum. Að auki hafi verið óljóst hvaða þýðingu hætta á flóðum og klakahlaupi í Þorvaldsdalsá myndi hafa á endanlega útfærslu framkvæmdarinnar. Til að mynda hafi framkvæmdaraðili nefnt að hugmyndir hafi verið uppi um að færa farveg árinnar. Jafnframt hafi verið óljóst hvernig aðkomu að seiðaeldisstöðinni myndi verða háttað og áhrif vegagerðar á landslag og gróður. Þá hafi fyrirætlanir framkvæmdaraðila varðandi vatnstöku verið breyttar frá fyrri ákvörðun. Í fyrri framkvæmd hafi staðið til að taka vatn úr borholum en ákveðin óvissa hafi verið uppi um hvort mögulegt væri að fá nægt vatn með þeim hætti. Framkvæmdaraðili hafi nú tilgreint hvernig hann muni taka vatn úr Þorvaldsdalsá ef ekki gangi að taka vatn úr borholunum. Þar af leiðandi hafi Skipulagsstofnun ekki talið óvissu ríkja um vatnsöflun líkt og áður. Varðandi rök kærenda sem lúti að náttúruvá bendi stofnunin á að við vinnslu fyrri ákvörðunarinnar hafi hún talið rétt að leita umsagnar Veðurstofu Íslands vegna mögulegrar flóðahættu í Þorvaldsdalsá eftir að Hafrannsóknastofnun hafi vakið athygli á að fyrirhuguð framkvæmd væri innan þess svæðis sem teldist til farvegs árinnar. Veðurstofan hafi hins vegar ekki fjallað um flóðahættu í sinni umsögn heldur um jarðskjálftahættu. Í hinni kærðu ákvörðun hafi Skipulagsstofnun ekki talið tilefni til að víkja að náttúruvá þar sem flóðahætta hafi ekki lengur verið atriði sem horfa þyrfti til og jarðskjálftahætta hafi ekki haft þýðingu við úrlausn málsins.
Umfang framkvæmdarinnar geti ekki leitt til þess að um matskylda framkvæmd sé að ræða. Í því sambandi þurfi að hafa í huga að framkvæmdin þurfi að uppfylla það skilyrði að geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Með slíkum áhrifum sé átt við „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin fái ekki séð að framangreint sé uppfyllt þegar litið sé til umfangs framkvæmdarinnar.
Kærendur láti þess ógetið að í ákvörðun stofnunarinnar segi að litlar líkur séu á að seiði sleppi til sjávar úr kerjum „enda verði ker útbúin með fiskheldum ristum sem hæfa stærð viðkomandi seiða, einnig verði allt frárennsli leitt í gegnum fiskheldar ristar auk þess að fara í gegnum tromlur sem fjarlægja korn yfir 1/1000 úr millimetra.“ Enn fremur láti kærendur þess ógetið, í tengslum við umfjöllun Skipulagsstofnunar um útilokun á óhöppum, að í ákvörðun stofnunarinnar segi að „unnt [sé] að í starfsleyfi sé kveðið á um að notaður verði besti fáanlegi búnaður við flutning seiða yfir í brunnbát og að virkt eftirlit verði haft með búnaði sem notaður verði við flutning seiða.“ Ítrekað sé það sem fram komi í ákvörðun stofnunarinnar að þrátt fyrir að ástæða sé til að gæta fyllstu varúðar við laxeldi þá sé ekki raunhæft að vegna þeirrar framkvæmdar sem hér um ræði verði lagt í umfangsmiklar rannsóknir á lífríki í straumvötnum í Eyjafirði og víðar. Hin fyrirhugaða framkvæmd sé í meginatriðum staðsett á landi en ekki í sjó. Hætta á sleppingum seiða og að þau syndi upp í veiðiár sé töluvert minni en í sjókvíaeldi.
Um losun á lífrænum efnum sé bent á að í kafla 5.3 í tilkynningu framkvæmdaraðila sé um það fjallað og möguleg áhrif þessa á umhverfið. Þar komi fram að miðað við að lágmark 50% verði hreinsað fari ekki meira en 78 tonn af lífrænum úrgangsefnum á ári í sjóinn. Framkvæmdaraðili byggi útreikninga sína um losun næringarefna á grein Wang o.fl., frá árinu 2012, en algengt sé að styðjast við þá grein þegar komi að slíkum útreikningum. Skipulagsstofnun hafi farið yfir útreikninga framkvæmdaraðila með tilliti til umræddrar greinar Wang o.fl. 2012 ásamt því að bera framsettar losunartölur saman við áætlaða losun frá öðru fiskeldi. Hafi það verið mat Skipulagsstofnunar að ekki væri ástæða til að efast um þær tölur sem framkvæmdaraðili hefði sett fram. Þá bendi Skipulagstofnun á að kærendur vísi ekki til neinna heimilda sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að alkunna sé að árlegur úrgangur saurs og fóðurleifa frá fiskeldi muni nema um helmingi ársframleiðslu. Þá sé í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar, dags. 22. maí 2017, ekki að finna sjónarmið sem styðji umrædda fullyrðingu.
Skipulagsstofnun sé ekki bundin af umsögn Hafrannsóknastofnunar heldur leggi sjálfstætt mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Að afla umsagna annarra stjórnvalda sé liður í rannsókn máls áður en matsskylduákvörðun sé tekin. Í ljósi þess sem fram hafi komið í umræddri umsögn Hafrannsóknastofnunar og þess sem hafi komið fram í svarbréfi framkvæmdaraðila vegna umsagnarinnar hafi Skipulagsstofnun með tölvupósti 14. júlí 2017 óskað eftir afstöðu stofnunarinnar og hvort hún teldi áætlun framkvæmdaraðila um að taka aldrei meira en 25% af rennsli árinnar ásættanleg viðbrögð til að tryggja nægilegt rennsli Þorvaldsdalsár yfir veturna. Í svari Hafrannsóknastofnunar frá 26. s.m. sé vikið að því að hver sem framleiðsla, þéttleiki og tegundasamsetning í neðsta hluta árinnar sé mætti gera ráð fyrir því að 25% vatnstaka í lágrennsli myndi hafa áhrif á lífríki og gilti það einnig yfir veturinn. Ekki lægi fyrir þekking á því hversu mikið það geti orðið og sé vandséð að hægt væri að áætla slíkt með nákvæmni. Mögulega væri það hlutfallslegt við það svæði sem færi á þurrt. Ef um einstaka atburði væri að ræða geti áhrifin verið staðbundin og tímabundin en líklegt sé að þau verði meiri eftir því sem lágrennsli og þurrir kaflar séu lengri og tíðari. Ef af framkvæmdum og vatnstöku verði geti verið full ástæða til að koma á reglulegri vöktun á svæðinu og mati á áhrifum vatnstöku á lífríkið. Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til framkvæmdaraðila 14. ágúst 2017 hafi m.a. verið óskað eftir upplýsingum um hversu mikið vatn að hámarki yrði tekið úr Þorvaldsdalsá fengi framkvæmdaraðili ekki leyfi til að taka vatn úr borholum. Í tölvupósti framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar sama dag segi að ef framkvæmdaraðili fengi ekki slíkt leyfi þá myndi að hámarki verða teknir 180 l/s úr ánni þegar rennslið í henni væri u.þ.b. 1000 l/s eða meira, eins og það sé megnið af árinu. Ef rennsli færi niður í u.þ.b. 400 l/s þá yrðu teknir að hámarki 20 l/s, sem væri þá 5% af rennsli árinnar. Byrjað yrði að minnka vatnstökuna við 800 l/s. Af gögnum að dæma myndi ekki vera raunhæft að álíta að rennsli færi mikið lægra en í 400 l/s.
Með tilliti til þess að vatnsþörf seiðaeldisins verði mest 20 l/s við lágrennsli, og þess að boðaðar mótvægisaðgerðir í Þorvaldsdalsá séu fullnægjandi að mati Skipulagsstofnunar, sé fyrirhuguð vatnstaka ekki líkleg til að hafa umtalsverð áhrif á lífríki árinnar. Í ljósi orða Hafrannsóknastofnunar um rannsókn á fiskstofnum í fiskgenga hluta árinnar þá telji Skipulagsstofnun ekki þörf á slíkri rannsókn með tilliti til framangreindrar vatnsþarfar miðað við lágrennsli og þess að samkvæmt umsögn Fiskistofu til Skipulagsstofnunar 23. maí 2017 sé Þorvaldsdalsá ekki mikil veiðiá. Þessi afstaða sé í fullu samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, sem hafi m.a. verið lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Skipulagsstofnun sé ekki heldur bundin af umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Stofnunin leggi sjálfstætt mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Umrædd umsögn sé ekki studd haldbærum rökum, þ.e. engan rökstuðning sé að finna fyrir þeirri afstöðu að mat á umhverfisáhrifum eigi að fara fram. Kærendur vitni til umsagnar Fiskistofu frá 23. maí 2017 þar sem segi að óhöpp geti orðið við dælingu seiða í brunnbát. Af þessu tilefni bendi Skipulagstofnun á að í ákvörðun hennar segi að ekki sé hægt að útiloka að óhöpp geti átt sér stað þannig að seiði sleppi við dælingu seiða í brunnbát. Síðan segi: „Unnt er að lágmarka áhættuna með því að nota þann búnað og viðhafa það verklag sem framkvæmdaraðili lýsir, þ.e. staðlaðan búnað sem er hvergi opinn nema þar sem hann tengist lest brunnbátsins. Mikilvægt er að í starfsleyfi sé kveðið á um að notaðir verði besti fáanlegi búnaður við flutning seiða yfir í brunnbát og að virkt eftirlit verði haft með búnaði sem notaður verður við flutning seiða.“
Eins og fram komi í hinni kærðu ákvörðun muni áhrif framkvæmdarinnar á verndarsvæði vera óveruleg, þar sem einungis sé um að ræða borholur og lagnir sem grafnar verði í jörðu á hverfisverndarsvæðinu. Framkvæmdirnar séu því hvorki til þess fallnar að hafa neikvæð áhrif á landslag né rýra útivistargildi svæðisins. Skipulagsstofnun fái ekki séð að önnur atriði, sem vikið sé að á bls. 4 í kærunni, geri það að verkum að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fyrirhuguð landfylling og eldisstöð muni óumflýjanlega breyta ásýnd hafnarsvæðisins, auk þess sem fyrirhugaðri uppbyggingu fylgi aukin umferð um höfnina. Hinar fyrirhuguðu framkvæmdir og starfsemi falli hins vegar vel að þeirri landnotkun sem fyrir sé, enda um að ræða hafnarsvæði þar sem gera megi ráð fyrir sambærilegri starfsemi. Vegna þeirra orða kærenda að engar upplýsingar liggi fyrir um staðsetningu og stærð fyrirhugaðs efnistökusvæðis á hafsbotni bendi Skipulagsstofnun á svarbréf framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar frá 5. júlí 2017. Í bréfinu hafi verið gerð grein fyrir þremur mögulegum efnistökusvæðum, staðsetningu þeirra og stærð.
Loks hafni Skipulagsstofnun því að sjálfstæðum rannsóknum hennar hafi verið ábótavant. Ákvörðun stofnunarinnar beri með sér að efni rökstuðnings fullnægi kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi stofnunin sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslu-laga. Þau gögn sem fylgi með þessari kæruumsögn leiði það í ljós. Nægi að láta við það sitja að nefna tölvubréfasamskipti stofnunarinnar við Hafrannsóknastofnun, sem og samskipti við framkvæmdaraðila vegna umsagnar síðarnefndu stofnunarinnar. Varðandi tilvísun til b-liðar 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, þá taki umrædd grein til yfirvalds sem sjái um leyfisveitingar. Þar segi að þegar ákveðið hafi verið að „veita leyfi til framkvæmda eða synja um það“ skuli lögbært yfirvald eða yfirvöld tilkynna almenningi um það í samræmi við viðeigandi málsmeðferð. Hin kærða ákvörðun lúti ekki að leyfisveitingu heldur að matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Málsmeðferð sem fari fram áður en slík ákvörðun sé tekin sé ekki hluti af leyfisveitingarferli framkvæmdarinnar.
Skipulagsstofnun hafi litið svo á að sjódælubrunnur á hafsbotni undir fyrirhugaðri landfyllingu væri ekki vinnsla á grunnvatni í skilningi laga nr. 106/2000. Þar af leiðandi hafi verið talið að framkvæmdin fæli í sér vinnslu á allt að 180 l/s af grunnvatni og félli þar af leiðandi undir lið 10.25 í 1. viðauka laganna. Við mat á umhverfisáhrifum hafi fyrst og fremst verið horft til þess hvort nægt grunnvatn væri til staðar án þess að möguleiki til öflunar neysluvatns væri skertur. Forsaga málsins sé sú að Skipulagsstofnun hafi áður tekið ákvörðun um seiðaeldi á Árskógsströnd á vegum sama aðila. Í því tilviki hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar verið sú að framkvæmdin væri matsskyld. Í því máli hefði verið uppi óvissa um vatnsöflun. Þar hefði legið fyrir að Orkustofnun hefði sett umsókn framkvæmdaraðila um nýtingarleyfi á grunnvatni við ósa Þorvaldsdalsár í biðstöðu, en stofnunin hefði talið ólíklegt að hægt væri að afla þess magns af ferskvatni sem sótt hefði verið um, þ.e. 120 l/s, á þeim svæðum þar sem það hefði verið fyrirhugað. Ekki hefði verið fjallað sérstaklega um áhrif á grunnvatnsvinnslu í matsskylduákvörðuninni. Þess í stað hefði verið horft til þess að framkvæmdaraðili hefði ætlað að rannsaka grunnvatnsástand áður en að framkvæmdum kæmi og yrði ekki nóg vatn til staðar þá fari vatnsöflum fram með þeim hætti að drenlögnum yrði komið fyrir í Þorvaldsdalsá. Vegna þessa hefði Skipulagsstofnun talið afar ólíklegt að framkvæmdin myndi skerða möguleika til öflunar neysluvatns á svæðinu.
Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila kemur fram hann telji Skipulagsstofnun hafa vandað mjög til verka og hafa farið í ítarlega greiningarvinnu þar sem fjöldinn allur af fagaðilum, stofnunum og sérfræðingum hafi verið kallaður til. Taki framkvæmdaraðili undir málsrök Skipulagsstofnunar.
Sá munur sé á forsendum fyrri ákvörðunar Skipulagsstofnunar og þeirrar seinni að uppruna-lega hafi verið fyrirhugað að seiðaeldisstöðin myndi vera byggð á bökkum Þorvaldsdalsár. Ætla megi að ástæða kæru sé sú að kærendur telji að fyrirhuguð framkvæmd sé líkleg til að valda þeim einhverskonar skaða. Sú staða komi vart upp nema sjógönguseiði, sem sé lokaafurð framleiðslunnar, sleppi lifandi út í fjörðinn í stórum stíl. Vísað sé til útskýringa í umsögn Skipulagsstofnunar í gr. 2.2. á bls 2. Við þær útskýringar megi bæta að því stærri sem seiðin séu því minni líkur séu á að þau komist fram hjá rist í keri, hreinsibúnaði sem síi fast efni úr frárennslisvökva, og svo rist í frárennsli. Það sé einungis lokaafurðin, þ.e. sjógönguseiðin, sem geti lifað í sjó og þau séu sjaldan minni en 40 g að þyngd en oftast nær 100 g.
Mikil umræða hafi átt sér stað í íslensku þjóðfélagi um að eldi verði fært upp á land til að koma í veg fyrir að laxeldi valdi villtum laxastofnum skaða því tiltölulega auðvelt sé að búa svo um hnútana að útilokað megi teljast að lifandi eldislaxar geti sloppið út í umhverfið frá eldisstöðvum á landi. Fyrirhuguð framkvæmd varði eldisstöð á landi og það verði vissulega búið þannig um hnútana að laxar geti ekki sloppið út í umhverfið. Verði það enda skilyrði í rekstrarleyfi Matvælastofnunar og muni eftirlitsaðilar frá þeirri stofnun taka framkvæmdina út áður en leyfi verði formlega gefið út.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 að allt að 1.200 tonna seiðaeldi á ári á Árskógssandi sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar. Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök, sem fallist er á að uppfylli framangreind skilyrði um kæruaðild í lögum nr. 130/2011, og hins vegar Veiðifélag Fnjóskár og Veiðifélag Eyjafjarðarár. Veiðifélögin rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þau eigi mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa og þar með hinum villtu lax- og silungsstofnum þeirra, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár í Eyjafirði og á Norðurlandi og jafnvel víðar um land.
Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eiga verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu.
Seiðaeldið sem hin kærða matsskylduákvörðun lýtur að mun fara fram á landi við Árskógssand í Eyjafirði. Ár þær sem nefndar eru í kæru renna í Eyjafjörð. Árós Fnjóskár er í um 12 km fjarlægð frá fyrirhugaðri seiðaeldisstöð og árós Eyjafjarðarár í um 35 km fjarlægð. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kemur fram að hún telji litlar líkur á að seiði sleppi til sjávar úr kerjum, enda verði ker útbúin með fiskheldum ristum sem hæfi stærð viðkomandi seiða. Þá verði allt frárennsli leitt í gegnum fiskheldar ristar, auk þess að fara í gegnum tromlur sem fjarlægi korn að stærð yfir 1/1.000 úr millimetra. Ekki sé hægt að útiloka að óhöpp geti átt sér stað með þeim hætti að seiði sleppi við dælingu seiða í brunnbát. Í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að lögn til að flytja seiði í brunnbát verði grafin eða plægð ofan í botn hafnarinnar og muni liggja að gámi á bryggju norðvestan við fyrirhugaða landfyllingu. Unnt sé að lágmarka áhættuna með því að nota þann búnað og viðhafa það verklag sem framkvæmdaraðili lýsi, þ.e. staðlaðan búnað sem sé hvergi opinn nema þar sem hann tengist lest brunnbátsins. Mikilvægt sé að í starfsleyfi sé kveðið á um að notaður verði besti fáanlegi búnaður við flutning seiða yfir í brunnbát og að virkt eftirlit verði haft með búnaði sem notaður verði við flutning seiða. Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á aðra fiskistofna. Réði þar einna mest að um væri að ræða eldisstöð á landi þar sem hætta á að seiði slyppu væri töluvert minni en í sjókvíaeldi.
Í 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er að finna skilgreiningu á m.a. kvíaeldi sem er fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu, sjókvíaeldi sem er eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni, strandeldi sem er eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerum á landi, sem og á skiptieldi þ.e. eldi á fiski í strandeldi upp í 250 til 1.000 g og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð. Einnig er að finna skilgreiningar í 3. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi og er seiðaeldi þar skilgreint sem klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska og strandeldi skilgreint sem eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi þar sem sjó eða ísöltu vatni er dælt í eldiseininguna. Þar er kví enn fremur skilgreind sem netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir eða við yfirborð lagar.
Ljóst er að eldi í kerjum á landi er ekki sambærileg framkvæmd við eldi í sjókvíum þótt um fiskeldi sé að ræða í báðum tilfellum. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felst í eldi seiða í kerjum á landi. Þegar seiðin hafa náð ákveðinni lágmarksstærð er þeim dælt úr kerjunum í brunnbát og þau flutt til kaupanda, sem elur þau áfram í markaðsstærð, eftir atvikum í sjókvíum. Óumdeilt er að á Íslandi, líkt og annars staðar, sleppur fiskur úr sjókvíum þrátt fyrir að fylgt sé norskum staðli, NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanleg), eða öðrum sambærilegum alþjóðlegum stöðlum, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Skilur enda eingöngu net að þegar um sjókvíaeldi ræðir, en í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn í kerjum á landi og komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með tveimur ristum og tromlu. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna sleppi seiði, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur. Að öllum þessum atriðum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni veiðifélaganna að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar að 1.200 tonna seiðaeldi á Árskógssandi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem hagsmunir veiðifélaganna, sem reisa kæruaðild sína á því að lífríki umræddra veiðiáa verði stefnt í hættu, teljast ekki svo verulegir að skapi þeim kæruaðild verður kæru þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni.
Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita er til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita er í ferskvatn fellur undir flokk B í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Segir þar nánar að ákvörðun skuli taka innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist, við ákvörðunina skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og að áður skuli leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd. Í tilkynningunni kemur fram að fyrirhugað sé að framleiða allt að 1.200 tonn af laxaseiðum á ári í seiðastöð á Árskógssandi. Reist verði 3.200 m² skemma á lóð nr. 31 við Öldugötu og muni hún meðal annars hýsa klak-, startfóðurs- og seiðaeldisdeildir ásamt lager, verkstæði og starfsmannaaðstöðu. Jafnframt verði gerð landfylling við höfnina þar sem koma eigi fyrir palli með 10 lokuðum kerjum.
Samkvæmt þeim ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000, sem áður er lýst, ræðst matsskylda af því hvort framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í p-lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið eru svo taldir upp fjöldi annarra liða.
Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en önnur við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Það leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu að einhver þeirra atriða eigi við um fyrirhugaða framkvæmd. Þótt eitt af viðmiðunum um matsskyldu sé eðli framkvæmdar, m.a. með tilliti til stærðar og umfangs hennar, þá veldur stærð eldisins ein og sér ekki matsskyldu, enda hefur löggjafinn ákveðið að metið verði hverju sinni hvort eldi af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir sé líklegt til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er fjallað um fyrirhugaða framkvæmd miðað við tilkynningu framkvæmdaraðila og önnur framlögð gögn, einkum þau er varða fyrirhugaða vatnsöflun til framkvæmdarinnar. Er ljóst af þeirri umfjöllun, sem og af umsögnum umsagnaraðila, s.s. Hafrannsóknastofnunar og Orkustofnunar, að um breytta staðsetningu og tilhögun fram-kvæmdar við vatnstöku sé að ræða og að þær breytingar séu til bóta. Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar voru því ekki þær sömu og við fyrri ákvörðun stofnunarinnar vegna seiðaeldis framkvæmdaraðila.
Í hinni kærðu ákvörðun er enn fremur fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar hvað varðar vatnsöflun, áhrif vatnstöku á rennsli og lífríki Þorvaldsdalsár, áhrif á fiskistofna, áhrif frárennslis og efnistöku á botndýralíf og gróður, áhrif á landnotkun og ásýnd, sem og áhrif á menningarminjar. Þá er að finna umfjöllun um skipulag og leyfisveitingar og tiltekur Skipulagsstofnun hvaða leyfum framkvæmdin er háð og hverjar breytingar þurfi að gera á skipulagsáætlunum, auk þess að benda á atriði sem tilefni væri til að kveða á um í slíkum áætlunum og samráð sem viðhafa þurfi. Í inngangi að niðurstöðu sinni vísar stofnunin til þess að við ákvörðunartöku sína beri henni að líta til viðmiða um eðli og staðsetningu fram-kvæmdar, sem og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Um niðurstöður sínar vísar stofnunin einkum til atriða er lúta að eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar.
Um eðli framkvæmdar tiltekur Skipulagsstofnun að m.a. skuli taka mið af eðli og umfangi framkvæmdar, samlegð með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000, og fjallar svo nánar um áhrif frárennslis, áhrif á fiskistofna og áhrif landfyllingar og efnistöku á samfélög botndýra. Um það síðastnefnda tekur stofnunin fram að áhrif landfyllingar og efnistöku á samfélög botndýra verði staðbundið nokkuð neikvæð, en bendir jafnframt á að verndargildi þeirra hafi verið kannað og að niðurstaða þeirrar rannsóknar sé sú að um sé að ræða algengar tegundir sem finna megi á grunnsævi um allt land. Sér þess og stað við málsmeðferð stofnunarinnar, en svo sem lýst er í málavöxtum veitti framkvæmdaraðili henni nánari upplýsingar um fyrirhugaða efnistöku í sjó vegna landfyllingar, þar sem m.a. var vísað til skýrslu um botndýrarannsóknir við Árskógssand í Eyjafirði.
Í tilkynningu framkvæmdaraðila kemur fram að losun lífrænna næringarefna til sjávar yrði að hámarki 105 tonn af kolefni, 45 tonn af köfnunarefni og 7 tonn af fosfór. Miðað við að lágmark 50% yrði hreinsað færi ekki meira en 78 tonn efnanna á ári í sjóinn. Við umsögn Umhverfisstofnunar var miðað við losun á 45 tonnum af köfnunarefni og 7 tonnum af fosfór, en framkvæmdaraðili miðaði við að losun yrði helmingur þess þegar tillit væri tekið til hreinsunar. Allt að einu taldi Umhverfisstofnun ekki ástæðu til að mat á umhverfisáhrifum færi fram. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar er við það miðað að við hámarksframleiðslu sé áætlað að stöðin losi allt að 78 tonn af lífrænum efnum í viðtaka á ári, en talið sé að frárennsli frá stöðinni muni þynnast út í 1.000.000 m3 af sjó á sólarhring. Bendir stofnunin á að botndýralíf hafi ekki verið kannað þar sem affall frá stöðinni renni út í sjó og ekki liggi fyrir vöktunaráætlun, en framkvæmdaraðili muni hins vegar í samráði við Umhverfisstofnun koma á vöktunaráætlun og ákveða endanlega staðsetningu útrásar frárennslis. Vísar Skipulagsstofnun til umsagnar Umhverfisstofnunar og telur með hliðsjón af henni að vegna þynningaráhrifa séu litlar líkur á því að næringarefni safnist upp í einhverjum mæli og litlar líkur á að áætluð losun valdi verulegum spjöllum á umhverfinu, s.s. botndýralífi og gróðri, sem ekki sé hægt að bæta úr með mótvægisaðgerðum, til dæmis með því að færa útrás frárennslis eða fjölga útrásum. Í umsögn sinni frá maí 2017 gerir Hafrannsóknastofnun ekki athugasemdir við útreikninga á losun í tilkynningu framkvæmdaraðila en bendir á að í lögum um stjórn vatnamála, sem eru nr. 36/2011, sé gert ráð fyrir að meta skuli ástand út frá stöðu lífríkis á viðkomandi svæði og að mikilvægt sé að lífríki við frárennsli sé vaktað svo það valdi ekki óásættanlegri rýrnun vatnsgæða. Ekki hefur verið samþykkt vatnaáætlun á grundvelli greindra laga, en í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að sett verði umhverfismarkmið fyrir vatnshlot. Þá mun, svo sem áður er rakið, verða komið á vöktunaráætlun í samráði við Umhverfisstofnun, sem fer með framkvæmd laganna. Bendir ekkert í gögnum málsins til þess að losun næringarefna verði meiri en að framan getur og hefur kærandi ekki stutt gögnum þá fullyrðingu sína að svo verði.
Fram kemur í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 15. maí 2017, að þrátt fyrir búnað á frárennsli og góð fyrirheit sé sú hætta fyrir hendi að lifandi fiskar „leki“ frá seiðaeldisstöðvum. Það svæði sem um ræði í Eyjafirði hafi ekki áður verið nýtt til eldis á norskum eldislaxi og þurfi að huga að áhrifum þess sérstaklega. Í umsögn Fiskistofu veittri 23. s.m. er lögð á það áhersla að búnaður þurfi að vera með þeim hætti að ekki verði hætta á að fiskur sleppi lifandi frá stöðinni með frárennsli eða vegna dælingar í brunnbát, en jafnframt að það fyrirkomulag frárennslis sem lýst sé í tilkynningu framkvæmdaraðila ætti að koma í veg fyrir að seiði berist lifandi með því. Svo sem áður hefur komið fram var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á aðra fiskistofna og réði þar einna mestu að um væri að ræða eldisstöð á landi þar sem hætta á að seiði slyppu væri töluvert minni en í sjókvíaeldi. Áður hefur verið rakið úr tilkynningu framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun hvernig áformað er að koma í veg fyrir að seiði sleppi. Úrskurðarnefndin hefur enn fremur bent á að því sé ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur, auk þess sem dæling seiða í brunnbát fari ekki fram að staðaldri heldur eingöngu við afhendingu seiða. Að þessu virtu verður ekki fallist á með kæranda að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna geti orðið umtalsverð.
Um staðsetningu framkvæmdar tekur Skipulagsstofnun fram að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af því hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, m.a. með tilliti til landnotkunar sem fyrir sé, magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda og verndarsvæða samkvæmt 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Vegna staðsetningarinnar rekur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð landfylling og eldisstöð muni óumflýjanlega breyta ásýnd hafnarsvæðisins, auk þess sem fyrirhugaðri uppbyggingu fylgi aukin umferð um höfnina. Mögulega muni einhver lykt fylgja söfnunartanki en frágangur á honum verði með þeim hætti að lykt ætti að vera í lágmarki. Einnig segir að starfseminni fylgi ekki lausamunir sem geymdir verði utandyra, bílastæði sjógönguseiðadeildar verði austan við bílastæði fyrir farþega Hríseyjarferju og gestir sjógönguseiðadeildar muni ekki þurfa að aka í gegnum síðarnefndu bílastæðin. Loks fjallar stofnunin nánar um vatnstöku og hverfisvernd.
Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar nýtur svæðið Brúarhvammur, Svínakeldur við Þorvaldsdalsá, sem er vítt gil og hefst um brúna, og Þorvaldsárfoss, hverfisverndar. Svæðið er tæplega 60 ha og nýtur verndar vegna sérstakra landslagsgerða, jarðmyndana, stórbrotins landslags og fjölbreyttra náttúruminja. Svæðið var áður skilgreint sem útivistarsvæði. Í hinni kærðu ákvörðun kom fram hverrar verndar svæðið nyti og í hverju sá hluti framkvæmdarinnar sem félli innan svæðisins fælist. Að því virtu væru framkvæmdirnar hvorki til þess fallnar að hafa neikvæð áhrif á landslag né rýra útivistargildi svæðisins. Má og á það fallast, þegar horft er til eðlis framkvæmda innan verndarsvæðisins, sem felast í gerð borhola og lagna gröfnum úr þeim, svo og með hliðsjón af því að gert er ráð fyrir að frágangi verði þannig háttað að þess sjáist lítil merki. Þá kemur fram að framkvæmdaraðili muni hafa samráð við minjavörð Norðurlands eystra um endanlega staðsetningu vatnslagna til að koma í veg fyrir rask á fornleifum.
Hvað vatnstöku varðar þá kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að Orkustofnun hafi sett umsókn framkvæmdaraðila um leyfi til nýtingar á 120 l/s af grunnvatni í biðstöðu. Framkvæmdaraðili muni í samráði við Orkustofnun og sveitarfélagið kanna frekar forsendur vatnstöku úr borholum áður en framkvæmdir hefjist. Komi í ljós að vatn úr borholum muni ekki fullnægja vatnsþörf framkvæmdaraðila verði vatn tekið úr Þorvaldsdalsá. Framkvæmdaraðili hafi sett fram áætlun um vatnstöku, sem geri ráð fyrir því að vatnsrennsli í Þorvaldsdalsá verði vaktað og vatnstöku hagað eftir rennsli í ánni, en með því að endurnýta vatn muni vatnsþörf seiðaeldisins verða mest 20 l/s við lágrennsli. Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar að boðaðar mótvægisaðgerðir við lágrennsli í Þorvaldsdalsá væru fullnægjandi og fyrirhuguð vatnstaka ekki líkleg til að hafa umtalsverð áhrif á lífríki árinnar. Orkustofnun telur í umsögn sinni að breytt tilhögun frá áður tilkynntri framkvæmd sé til bóta, en Hafrannsóknastofnun bendir í sinni umsögn á að minnsta mælda lágrennsli í Þorvaldsdalsá sé 418 l/s og að mikilvægt sé að tryggja að vatnstakan hafi ekki áhrif. Hafi vatnstakan áhrif til mikillar minnkunar á vatnsrennsli eða ef farvegurinn þorni geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki árinnar. Fyrir liggur að við málsmeðferð Skipulagsstofnunar tóku áætlanir framkvæmdaraðila um vatnsöflun til framkvæmdarinnar nokkrum breytingum. Stofnunin bar undir Hafrannsóknastofnun hvort breyttar áætlanir, sem fælu í sér að aldrei yrði tekið meira en 25% af rennsli árinnar, væru ásættanlegar til að tryggt yrði nægilegt rennsli í ánni yfir veturna. Í svari Hafrannsóknastofnunar var tekið fram að gera mætti ráð fyrir að 25% vatnstaka í lágrennsli hefði áhrif á lífríki og gilti það einnig yfir veturinn. Enn tóku áætlanir framkvæmdaraðila breytingum og kemur skýrlega fram í umfjöllun Skipulagsstofnunar um framkvæmdina hvert hámark vatnstöku er miðað við rennsli í Þorvaldsdalsá hverju sinni. Verður hámark vatnstöku 20 l/s við vatnsrennsli undir 500 l/s, eða innan við 5% af þekktu lágmarksrennsli árinnar. Gáfu fyrirliggjandi upplýsingar því ekki tilefni til þeirrar ályktunar að um umtalsverð umhverfisáhrif gæti orðið að ræða af þessum sökum.
Við meðferð málsins óskaði Skipulagsstofnun frekari upplýsinga frá framkvæmdaraðila vegna fyrirhugaðrar efnistöku og eins og fram kemur í málavaxtalýsingu bárust þær 5. júlí 2017. Þar var gerð grein fyrir því að efnistaka um 30.000 tonna til fyllinga á landi væri fyrirhuguð á sjávarbotni á um 3,5 ha svæði, enn fremur að 6.000-8.000 m³ minna magn verði tekið en ella vegna fyrirhugaðra eldistanka, en tilkynning framkvæmdaraðila gerði grein fyrir þörf fyrir um 47.000 m³ af fyllingarefni. Skilgreind voru þrjú svæði þar sem efnistaka gæti farið fram og gerð grein fyrir botnsvæði þar. Var þannig upplýst um staðsetningu og stærð fyrirhugaðs efnistökusvæðis.
Kærandi tekur fram að ekki sé minnst á náttúruvá í ákvörðun Skipulagsstofnunar, svo sem gert hafi verið í fyrri ákvörðun hennar. Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 er m.a. tekið á atriðum varðandi náttúruvá. Kemur þar fram að skjálftasvæðum Íslands hafi verið skipt niður í fimm hönnunarhröðunarsvæði og flokkist Dalvíkurbyggð að hluta í hæsta áhættuflokk, þar sem beri að miða við ákveðna hönnunarhröðun. Við hönnun á mannvirkjum beri að notast við hönnunarhröðun hvers svæðis. Af sveitarfélagsuppdrætti verður ráðið að hin fyrirhugaða framkvæmd verður staðsett þar sem áhættan er í hæsta flokki og að þar með verði að nota þá hönnunarhröðun sem þar á við þegar að hönnun mannvirkja komi. Hins vegar kemur það fyrst og fremst til skoðunar við veitingu byggingarleyfis og verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að fjalla sérstaklega um þetta atriði við ákvörðun um matsskyldu fyrirhugaðrar framkvæmdar, auk þess sem ekki er sérstaklega vikið að náttúruvá varðandi þá þætti er skoða ber við slíka ákvörðun.
Að virtum aðstæðum öllum er það mat úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðun sína litið til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 og tekið til þeirra afstöðu að teknu tilliti til framkominna umsagna. Skal áréttað í því sambandi að stofnunin er ekki bundin af afstöðu umsagnaraðila til matsskyldu. Af gögnum málsins og því sem áður hefur verið rakið verður jafnframt ráðið að Skipulagsstofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni og rökstutt ákvörðun sína með viðhlítandi hætti. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá úrskurðarnefndinni kærum Veiðifélags Fnjóskár og Veiðifélags Eyjafjarðarár.
Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2017 um að eldi á allt að 1.200 tonnum af seiðum á ári á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.