Árið 2018, föstudaginn 16. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 57/2018, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2018, er barst nefndinni 20. s.m., framsendir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru eiganda Dröngum í Árneshreppi, dags. 13. mars 2018, að því er varðar þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. janúar 2018 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Hvalárvirkjunar. Tillagan var lagfærð og samþykkti hreppsnefndin deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði 30. september 2018. Verður að líta svo á að sú ákvörðun sé kærð í máli þessu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir landeigendur að Seljanesi og við Ingólfsfjörð sömu ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er nr. 129/2018, sameinað kærumáli þessu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi 30. apríl og 16. nóvember 2018.
Málsatvik og rök: Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 15. ágúst 2017 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu ásamt umhverfisskýrslu fyrir Hvalárvirkjun. Var tillagan auglýst frá 1. september til 16. október 2017 og var athugasemdafrestur gefinn til sama tíma. Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 30. janúar 2018 var samþykkt með breytingum tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun og tekin afstaða til þeirra athugasemda sem borist höfðu á athugasemdatíma. Tillagan mun hafa sætt lagfæringum og á fundi hreppsnefndarinnar 30. september 2018 var deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun ásamt umhverfisskýrslu samþykkt. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 18. október s.á.
Kærendur byggja á því að hið kærða deiliskipulag og afgreiðsla þess sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess af hálfu hreppsnefndar Árneshrepps sé ógild eða ógildanleg.
Af hálfu Árneshrepps er bent á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2018 eða einu ári og tveimur dögum eftir að athugasemdafresti við deiliskipulagstillöguna hafi lokið. Þótt dráttur á auglýsingu skipulags um tvo daga fram yfir ársfrest 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 virðist lítilsháttar formgalli þá verði að telja að í greininni felist afdráttarlaus afstaða löggjafans um að þessi ágalli leiði til ógildis deiliskipulags. Af hálfu Árneshrepps hafi því verið tekin ákvörðun um að endurtaka málsmeðferð um deiliskipulagstillöguna, sbr. ákvörðun hreppsnefndar, dags. 1. nóvember 2018. Líti hreppurinn ekki svo á að deiliskipulagið sé gilt og geti því ekki verið til staðar lögvarðir hagsmunir af því að kæra skipulagsákvörðunina. Geri Árneshreppur því þá kröfu að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun við Ófeigsfjörð.
Í 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti til deiliskipulagsins lauk telst deiliskipulags ógilt og fer þá um það í samræmi við 41. gr. Athugasemdafresti vegna hins kærða deiliskipulags lauk 16. október 2017 og birtist auglýsing um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðina 18. október 2018, eða rúmu ári eftir að athugasemdafresti lauk. Er ljóst með vísan til þess sem rakið hefur verið að hin kærða ákvörðun var ógild þegar auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist deiliskipulagið ekki gildi við birtinguna. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er réttarverkan hefur að lögum og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafa kærendur hafa ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.