Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 23. mars 2017 um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Brekatúni 2, Akureyri, drátt Akureyrarbæjar á að svara erindi hans um aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsinu að Brekatúni 2 ásamt því að óska eftir áliti nefndarinnar á því hvort Akureyrarbæ væri skylt að færa til betri vegar ákveðin atriði er vörðuðu aðgengi hreyfihamlaðra í sameign hússins. Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda 23. mars 2017 og synjaði kröfu hans um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar. Kærandi kom athugasemdum á framfæri við úrskurðarnefndina í kjölfar þess með bréfum, dags. 28. mars, 20. apríl og 7. maí 2017. Eins og málsatvikum er háttað verður málskot kæranda skilið svo að hann fari fram á að nefnd ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 23. mars 2017 verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 25. apríl 2017.
Málavextir: Hinn 28. mars 2007 var samþykkt byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á lóð nr. 2 við Brekatún á Akureyri. Í byggingarlýsingu hússins kom fram að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð miðaði við þarfir fatlaðra, að íbúð nr. 201 á annarri hæð væri hönnuð þannig að hún hentaði hreyfihömluðum í hjólastól og að eitt bílastæði í húsinu og tvö bílastæði á lóð væru ætluð fötluðum. Úttekt á grunni hússins fór fram 2. apríl 2007 en hlé varð á framkvæmdum til ársins 2012. Næsta úttekt á grunni hússins var gerð 22. nóvember 2012 áður en botnplata var steypt og úttektir á botnplötu voru gerðar 18. og 24. júní 2013. Samþykktar voru breytingar á teikningum 12. desember 2012, sem fólu meðal annars í sér að bætt var við nýrri íbúð á 8. hæð, skipulagi 1. hæðar var breytt og bílageymsla stækkuð til vesturs. Þá kom ekki fram í byggingarlýsingu hússins lengur, líkt og hafði gert áður, að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skyldi miðast við þarfir fatlaðra. Byggingu hússins lauk árið 2014 og 29. apríl 2015 var gefið út vottorð í kjölfar lokaúttektar um að byggingu hússins væri lokið án athugasemda og í samræmi við samþykktar teikningar.
Kærandi gerði kaupsamning um kaup á íbúð nr. 401 í fjöleignarhúsinu 31. júlí 2015 og var afsal undirritað 5. nóvember s.á. Hinn 10. nóvember 2015 sendi kærandi bréf til skipulagsnefndar Akureyrarbæjar þar sem hann var ósáttur með útbúnað dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og tveggja dyra inn í bílakjallara. Áleit hann að hurðirnar, sem allar væru með pumpu, væru of þungar og að erfitt væri fyrir hreyfihamlaða að komast inn um dyrnar. Taldi hann uppsetningu þeirra ekki uppfylla þau skilyrði sem gera ætti til aðkomu í sameign hússins samkvæmt ákvæðum gr. 77.1, 104.1 og 104.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og því fengi lokaúttekt ekki staðist. Þá áleit kærandi, með stoð í gr. 14.2 í fyrrnefndri reglugerð, að byggingarreglugerð nr. 112/2012 hefði átt að gilda um húsið þar sem úttekt á botnplötu og plötu yfir fyllingu í bílakjallara hússins hefði farið fram 18. og 24. júní 2013 þegar sú reglugerð hefði tekið gildi. Hins vegar hefði ekki verið sótt um að fylgja eldri reglugerðinni nr. 441/1998, líkt og hægt hefði verið að gera skv. gr. 17.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda frá 10. nóvember 2015 hinn 31. nóvember s.á. Í svari hans kom fram að bærinn teldi reglugerð nr. 441/1998 eiga við um byggingu hússins þar sem teikningar hefðu verið samþykktar 28. mars 2007 og úttekt á hluta grafins grunns verið framkvæmd 2. apríl s.á. Húsið hefði verið byggt og frágengið í samræmi við þær kröfur sem gerðar væru í umræddri byggingarreglugerð, ásamt því að höfð hefðu verið til hliðsjónar Rb-blöð sem reglugerðin vísaði til og bókin „Aðgengi fyrir alla“, sem hann tók þó fram að hvorki væri vísað til í reglugerðinni né hefði reglugerðargildi. Við afgreiðslu teikninga að húsinu hefði því ekki verið hægt að gera frekari kröfur en reglugerðin kvæði á um. Í nefndri reglugerð væri hvergi minnst á að dyr í umferðarleiðum skyldu búnar sjálfvirkum opnunarbúnaði. Hins vegar væri gerð krafa um það í reglugerðinni að eldvarnahurðir skyldu vera sjálflokandi og því þyrftu þær að vera með hurðarpumpu. Pumpurnar þyrftu þó að vera þannig stilltar að auðvelt væri að ganga um dyrnar og samkvæmt bókinni „Aðgengi fyrir alla“ ætti hámark tog- eða þrýstikrafts að vera 2,5 kg til að opna hurðir. Oft væri það einungis stilling á pumpum sem vantaði upp á að dyrnar stæðust þau viðmið. Hefði því hvorki verið hægt að hafna framkvæmd lokaúttektar á húsinu né gera frekari kröfur til aðgengismála.
Hinn 1. desember 2015 sendi kærandi bréf til tæknifulltrúa Akureyrarbæjar, sem hafði framkvæmt lokaúttekt á húsinu. Í bréfinu óskaði kærandi eftir að fá upplýst hver væri skilningur hans á 77. og 104. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, með tilliti til þeirra atriða sem kærandi taldi ekki fullnægjandi í sameign hússins, ásamt því að leita eftir svari hans við því hvort hann áliti hreyfihamlaða falla undir 10. kafla reglugerðarinnar með tilliti til þess orðalags sem þar kæmi fram um aðgang fyrir alla. Þá vildi hann vita, með tilliti til aðbúnaðar í sameign hússins, hvort tæknifulltrúi áliti að aðgengið hefði verið nægilega skoðað í lokaúttekt hússins með tilliti til þeirra krafna sem gerðar væru til lokaúttektar skv. gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og hvort ekki væri rétt að fara yfir þessi mál að nýju með verktakanum með tilliti til ákvæða nefndrar reglugerðar.
Kærandi leitaði álits Mannvirkjastofnunar 15. og 19. janúar 2016 vegna umbúnaðar dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og dyra inn í bílakjallara, ásamt því að hann óskaði eftir upplýsingum um hvaða reglur giltu um bílastæði á lóðinni fyrir fatlað fólk. Í áliti stofnunarinnar, dags. 12. júlí 2016, var tekið fram að þegar byggingarleyfi hefði upprunalega verið gefið út fyrir byggingu fjöleignarhússins hefðu skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 verið í gildi. Krafa um að hreyfihamlaðir gætu farið um útidyr hússins og inn í bílageymslu með góðu móti rúmaðist innan ákvæða 77. og 104. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þegar litið væri til þess sem fram kæmi í byggingarlýsingu hússins og bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Renna mætti enn frekari stoðum undir slíka túlkun með því að líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að ný byggingarreglugerð hafi tekið gildi og hátt í tveimur árum eftir að ný lög um mannvirki hafi tekið gildi, sem væri sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Varðandi bílastæðið tók stofnunin fram að í gr. 6.2.4. í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra væru sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Krafa um lóðrétt skilti hefði ekki verið í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 en væri þó tilgreind í bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Með tilliti til þess að byggingarár hússins væri 2014 og krafa um lóðrétt skilti hefði verið í reglugerð síðan 2012 væri ekki hægt að segja að ómögulegt væri að merkja bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt gildandi reglum, þrátt fyrir að húsið hefði verið hannað 2007 og framkvæmdir þá hafist á lóð. Í framhaldi af áliti Mannvirkjastofnunar óskaði kærandi eftir því að stofnunin myndi fylgja máli hans eftir hjá bænum. Stofnunin sá þó ekki ástæðu til íhlutunar skv. 18. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.
Hinn 4. október 2016 sendi kærandi bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar. Í bréfinu leitaði hann eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda við áliti Mannvirkjastofnunar. Engin svör bárust kæranda frá sveitarfélaginu og leitaði hann því til umboðsmanns Alþingis í þrígang og óskaði eftir aðstoð hans við að fá svör við fyrrnefndu bréfi og bréfi sem hann hafði sent til tæknifulltrúa Akureyrbæjar 1. desember 2015. Hinn 21. mars 2017 sendi kærandi kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hann kærði drátt Akureyrarbæjar á að svara fyrirspurnum hans, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ásamt því að hann óskaði eftir úrskurði nefndarinnar um hvort Akureyrarbæ bæri skylda til að setja upp rafstýrðan búnað á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn innra anddyri og á dyr inn í bílakjallara, sem opnaði og lokaði hurðunum, ásamt því hvort skylda bæri til að merkja bílastæði fyrir fatlaða með skilti í 60-70 cm hæð á staur og merkja flötinn með því að mála hann.
Með bréfi, dags. 23. mars 2017, svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi fyrirspurnum kæranda frá 1. desember 2015 og 4. október 2016. Í bréfinu kom fram að túlkun sveitarfélagsins væri á þann veg að farið hefði verið eftir lögum og engu hefði verið ábótavant, hvorki í tengslum við byggingarleyfið né lokaúttektina. Sveitarfélagið liti svo á að kærandi ætti ekki málsaðild vegna lokaúttektarinnar sem fram fór 27. apríl 2015, þar sem hann hefði eignast hlutdeild í íbúð í húsinu eftir að úttektin fór fram, sbr. c-lið 4. mgr. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Úttektin hefði verið í fullu samræmi við 3. mgr. 36. gr. fyrrnefndra laga og uppfyllt þau skilyrði sem fram kæmu í ákvæðum mannvirkjalaga, reglugerðum og samþykktum hönnunargögnum. Skilyrði endurupptöku lokaúttektarinnar væru því ekki uppfyllt nema í tengslum við byggingarleyfið. Skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru hins vegar ekki uppfyllt. Samkvæmt áliti Mannvirkjastofnunar hefði Akureyrarbær mátt gera kröfu til þess í upprunalegu byggingarleyfi, dags. 29. mars 2007, að tekið væri tillit til aðgengis hreyfihamlaðra inn og út úr húsinu og bílageymslu þess án þess þó að sveitarfélaginu hefði verið skylt að setja byggingarleyfishafa framangreind skilyrði um aðgengi hreyfihamlaðra. Um hafi verið að ræða heimild, en ekki ótvíræða skyldu með beina vísun til laga og reglugerða. Kærandi hefði ekki málsaðild að endurupptöku útgáfu byggingarleyfisins og ákvarðanir um aðgengi í húsinu í umræddu byggingarleyfi hefðu ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eins og gerð sé krafa um í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Breytt lagatúlkun gæti ekki verið grundvöllur endurupptöku máls. Að auki væru skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins ekki uppfyllt þar sem fjögur ár væru frá því að endurskoðað byggingarleyfi hefði verið gefið út 27. febrúar 2013 og athugasemdarlaus lokaúttekt hefði farið fram í apríl 2015.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að aðgengismál í sameign fjöleignarhússins séu ófullnægjandi og í ósamræmi við byggingarlýsingu þess, þar sem fram komi að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skuli miðast við þarfir fatlaðs fólks. Bendir hann á að engar íbúðir séu á jarðhæð hússins hins vegar sé á 2. hæð þess gert ráð fyrir einni íbúð fyrir fatlaða, líkt og komi fram í byggingarlýsingu.
Kærandi krefst þess að settur verði upp rafstýrður opnunarbúnaður á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn í innra anddyrri og á dyr inn í bílakjallara. Jafnframt krefst hann þess að bílastæði ætluð fötluðu fólki verði merkt með merki fatlaðs fólks í um 60-70 cm hæð á staur og að flöturinn verði málaður með slíku merki. Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi í heild sinni til álits Mannvirkjastofnunar, dags. 12. júlí 2016, sem fjallað hefur verið um, þar sem fram komi að þegar eldri skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 séu túlkuð með hliðsjón af bókinni „Aðgengi fyrir alla“ og af byggingarlýsingu umrædds húss hefði átt að haga aðbúnaði í sameign þess á þann hátt sem hann krefjist. Til þess að renna enn frekari stoðum undir slíka túlkun megi líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að byggingarreglugerð nr. 112/2012 og hátt í tveimur árum eftir að lög um mannvirki nr. 160/2010 hafi tekið gildi, en þeim sé sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Því telji kærandi að fullt tilliti eigi að taka til ákvæða um aðgengi í reglugerð nr. 112/2012, enda sé byggingarár hússins 2014.
Varðandi kröfu um bílastæði tekur kærandi fram að sömu sjónarmið gildi og reifuð hafi verið að framan. Í núgildandi reglugerð sé gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra séu sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti, sbr. grein 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
Við áfanga- og lokaúttekt hafi ekki verið kannað hvernig aðgengi fyrir fatlað fólk í húsnæðinu væri, líkt og skylt sé að gera skv. p-lið 48. gr. og gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að þáttum sem varði aðgengi skuli ávallt verið lokið við gerð lokaúttektar. Því beri skipulags- og byggingarfulltrúi ábyrgð á ófullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk í fjöleignarhúsinu. Ekkert komi fram á lokaúttekt um að aðgengi fyrir fatlað fólk hafi verið skoðað né yfirfarið.
Hönnuður teikninganna gæti orðið ábyrgur fyrir því að gera ekki nægilega grein fyrir aðgengi á teikningum sínum skv. gr. 26.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem fram komi að hönnuðir sem leggi uppdrætti fyrir byggingarnefnd skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi þeirra. Einnig gæti ábyrgð legið hjá byggingarstjóra verksins skv. gr. 32.2 í nefndri byggingarreglugerð, þar sem fram komi að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.
Kærandi mótmæli því að hann eigi ekki málsaðild að lokaúttekt skv. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Telji hann sig eiga málsaðild með stoð í e-lið 4. mgr. ákvæðisins, þar sem fram komi að til eiganda samkvæmt greininni teljist eigandi mannvirkis eftir að lokaúttekt hafi farið fram. Sé í því sambandi einnig vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 6242/2010.
Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er litið svo á, með tilliti til aðildar kæranda og skilyrða endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hvorki sé ástæða til að endurupptaka framkvæmd lokaúttektar né útgáfu byggingarleyfis. Farið hafi verið eftir lögum og reglum, en rök bæjaryfirvalda fyrir þessari afstöðu komi fram í bréfi sem sent hafi verið til kæranda 23. mars 2017.
Áður en málið var tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála lést kærandi. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 6. ágúst 2018, staðfesti eftirlifandi maki kæranda, sem hefur leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann, vilja til að ganga inn í kærumálið og gerast aðili að því.
Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun Akureyrarbæjar var synjað um endurupptöku á veitingu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar vegna aðgengis hreyfihamlaðs fólks í sameign fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.
Aðili máls getur ekki gert kröfu um að stjórnvald, sem tekið hefur ákvörðun og birt hana, endurskoði ákvörðunina nema að skilyrði um endurupptöku máls séu fyrir hendi. Ekki er til að dreifa sérstökum lagaákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála sem veita rétt til endurupptöku máls, en 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felur í sér almenna reglu um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana. Samkvæmt nefndri 24. gr. er endurupptaka máls háð þeim skilyrðum að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki verður séð að atvik hafi verulega breyst frá því að ákvörðun um byggingarleyfi var tekin og lokaúttekt framkvæmd og kemur því einungis til álita að taka til skoðunar hvort greind ákvörðun og framkvæmd hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Lögmæti byggingarleyfisins sem samþykkt var 28. mars 2007 sætir ekki endurskoðun í máli þessu þar sem eins mánaðar kærufrestur vegna þess er liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá verður ekki séð að 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við þar sem fram er tekið í greindu lagaákvæði að mál verði ekki tekið upp að nýju ef meira en ár er liðið frá tilkynningu ákvörðunar eða vitneskju um hana nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Í 3. mgr. 36. gr. laga um mannvirki er tekið fram að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við hönnunargögn. Þegar upprunalegt byggingarleyfi var gefið út og framkvæmdir við bygginguna hófust voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í 2. mgr. 37. gr. umræddra laga var tekið fram að í byggingarreglugerð, sem sett sé með stoð í lögunum, skuli mælt fyrir um kröfur sem snúi m.a. að aðgengi fatlaðra. Lög um mannvirki nr. 160/2010 tóku gildi 1. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna, og byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett var með stoð í 1. mgr. 60. gr. nefndra laga og 4. mgr. 24. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000, tók gildi 24. janúar 2012.
Hvorki verður séð að í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 né í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð krafa um að á dyrum í sameign fjölbýlishúss sé rafstýrður opnunarbúnaður. Þá verður ekki séð að ónógar eða rangar upplýsingar um málsatvik hafi legið fyrir þegar lokaúttekt hússins fór fram heldur ber mál þetta með sér að uppi sé ágreiningur um túlkun laga og reglugerðarákvæða er varða aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsum. Verður endurupptökuheimildum 24. gr. stjórnsýslulaga ekki beitt til þess að fá fram nýja stjórnvaldsákvörðun vegna þess eins að deilt hafi verið um lagatúlkun og beitingu réttarheimilda um ágreiningsefni sem fyrir lá þegar ákvörðun var tekin. Slíkur ágreiningur leiðir ekki einn og sér til þess að skilyrði endurupptöku máls séu uppfyllt.
Í gr. 64.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er sett fram sú krafa að við öll fjölbýlishús með sex íbúðum eða fleiri skuli vera eitt gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra, auk þeirra stæða sem séu fyrir sérhannaðar íbúðir fyrir fatlaða í húsinu. Í 1. mgr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er tekið fram að bílastæði hreyfihamlaðra skuli vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Samkvæmt síðarnefndri reglugerðinni var því skylt að merkja bílastæði hreyfihamlaðra á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Það að slíkt hafi ekki verið gert getur ekki leitt til þess að þörf sé á að framkvæma lokaúttekt að nýju vegna áðurnefnds fjölbýlishúss, enda er slík úttekt ekki nauðsynleg forsenda þess að úr annmörkunum verði bætt.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að skilyrði endurupptöku hafi verið fyrir hendi í máli þessu og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun Akureyrarbæjar um endurupptöku veitts byggingarleyfis og lokaúttektar vegna fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.