Árið 2018, fimmtudaginn 7. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Fyrir var tekið mál nr. 164/2016, kæra á ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 11. ágúst 2016, sem staðfest var af bæjarráði 15. s.m., um að afturkalla leyfi fyrir breyttri skráningu matshluta 0201 að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir A þá ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 11. ágúst 2016, sem staðfest var af bæjarráði 15. s.m., að afturkalla leyfi fyrir breyttri skráningu matshluta 0201 að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði, Fjarðabyggð.
Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skráningu umrædds rýmis verði breytt í íbúðarhúsnæði. Verði hin kærða ákvörðun ekki metin ógild er gerð krafa um að Fjarðabyggð greiði kæranda skaðabætur.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 9. janúar 2017 og í maí 2018.
Málavextir: Kærandi er samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skráður eigandi efri hæðar hússins að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði, matshluta 0201, en tveir eignarhlutar eru í húsinu. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 20. apríl 2015 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að breyta notkun umrædds rýmis úr verslunar- og skrifstofuhúsnæði í íbúð. Mótmæltu eigendur neðri hæðar hússins þeirri ákvörðun og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Jafnframt óskaðu þeir eftir áliti kærunefndar húsamála vegna málsins og lá álit nefndarinnar fyrir 11. apríl 2016. Var niðurstaða þess sú að eiganda efri hæðar hússins væri óheimilt að breyta eignarhluta sínum úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði án samþykkis allra eigenda hússins. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 15. júní 2016 var fært til bókar að nefndin teldi að í ljósi fyrrgreinds álits kærunefndar húsamála kynni samþykkt byggingarleyfi um breytta notkun efri hæðar hússins að Búðavegi 35 að vera ógildanlegt. Var byggingarfulltrúa falið að tilkynna eiganda efri hæðarinnar um mögulega ákvörðun nefndarinnar um afturköllun byggingarleyfisins og veita rétt til andmæla áður en ákvörðun yrði tekin. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 23. s.m.
Málið var tekið fyrir að nýju á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 11. ágúst 2016. Á fundinum var lagt fram andmælabréf eiganda efri hæðar Búðavegs 35. Lagði nefndin til að samþykkt byggingarleyfi frá 20. apríl 2015 fyrir breyttri notkun á efri hæð hússins yrði afturkallað. Var fært til bókar að ástæða afturköllunarinnar væri sú að byggingarleyfið teldist ógildanlegt þar sem eigandi efri hæðar hefði ekki haft eignarréttarlegar heimildir til breyttrar notkunar eignarinnar skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. álit kærunefndar húsamála, dags. 11. apríl 2016. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að tilkynna um afturköllunina og færa skráningu eignarinnar til samræmis við skráningu fyrir útgáfu byggingarleyfisins. Staðfesti bæjarráð nefnda afgreiðslu 15. ágúst 2016.
Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að það sé með öllu óásættanlegt að stjórnvald afturkalli byggingarleyfi 16 mánuðum eftir að það hafi verið gefið út. Ekki sé um ógildanlega ákvörðun að ræða skv. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd ákvörðun sé mjög íþyngjandi og ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn hennar eða að veigamiklar ástæður séu fyrir henni. Rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið sinnt. Verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ekki hafi verið sýnt fram á neina þá hagsmuni sem skerðist eða tjón sem eigendur neðri hæðarinnar verði fyrir við það að byggingarleyfi sé veitt. Búið sé að leggja í mikla vinnu og fjármuni við að gera eignina þannig úr garði að hún uppfylli skilyrði til íbúðar. Varðandi kærufrest þá hafi aðili sá sem kæri fyrir hönd dánarbúsins fengið bréf skipulags- og byggingarfulltrúa í tölvupósti 8. nóvember 2016.
Málsrök Fjarðabyggðar. Sveitarfélagið krefst frávísunar málsins en ella að kröfum kæranda verði hafnað. Ljóst sé að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti. Tilkynning um hina kærðu ákvörðun hafi verið send í ábyrgðarbréfi á lögheimili kæranda í ágúst 2016 en kæra hafi ekki borist nefndinni fyrr en 8. desember sama ár. Hinn 8. nóvember 2016 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi náð símleiðis í talsmann dánarbúsins og í kjölfarið sent honum framangreint bréf í tölvupósti.
Þegar álit kærunefndar húsamála í málinu hafi komið fram hafi ein grundvallarforsenda fyrir upphaflegu byggingarleyfi brostið. Hafi efnisleg skilyrði fyrir afturköllun byggingarleyfisins því verið til staðar og við þá ákvörðun hafi verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.
Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.
Með bréfi sínu, dags. 22. ágúst 2016, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi um afturköllun ákvörðunar sinnar frá 20. apríl 2015, um veitingu byggingarleyfis fyrir breyttri notkun á efri hæð Búðavegar 35. Var bréfið sent í ábyrgðarpósti til talsmanns dánarbúsins. Tilgreindur komudagur ábyrgðarsendingarinnar var 30. ágúst 2016 samkvæmt afriti af bréfinu. Var bréfsins ekki vitjað og það endursent 29. september s.á. Liggur fyrir staðfesting frá Þjóðskrá Íslands um að fyrrgreindur aðili hafi verið með skráð lögheimili með því heimilisfangi er bréfið var sent á. Afrit bréfsins var jafnframt sent til einkahlutafélags sem skráð er með aðsetur að Búðavegi 35, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá er fyrrgreindur talsmaður dánarbúsins stjórnarmaður þess félags og forráðamaður. Hafði umræddur talsmaður verið í samskiptum við sveitarfélagið vegna málefna er lutu að Búðavegi 35.
Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún sé komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til stjórnsýslulaga. Kærandi getur því ekki frestað eða afstýrt réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar með því að taka ekki á móti bréfi sem ákvörðunina hefur að geyma. Í samræmi við þetta verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi borist kæranda í skilningi stjórnsýslulaga 30. ágúst 2016 er tilkynning um hana barst á lögheimili talsmanns kæranda. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða næsta dag, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga, og honum lauk 3. október s.á. Svo sem fram hefur komið barst úrskurðarnefndinni kæran 8. desember 2016 og var kærufrestur þá liðinn. Þá verður ekki séð að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. Þá liggur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til kröfu kæranda um greiðslu skaðabóta.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ómar Stefánsson (sign)
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign) Ásgeir Magnússon (sign)