Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

152/2016 Rauðarárstígur 1

Árið 2018, miðvikudaginn 6. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 152/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2016, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hostel LV 105 hf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun eignarhluta 0101 og 0102 á 1. hæð hússins að Rauðarárstíg 1, Reykjavík, úr verslunarhúsnæði í gististað í flokki II, tegund E. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að innrétta gististað í flokki II, tegund E, fyrir átta gesti í eignarhlutum 0101 og 0102 á fyrstu hæð í íbúðar- og atvinnuhúsi á lóð nr. 1 við Rauðarárstíg í Reykjavík. Var umsókninni synjað með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. október 2015. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði 20. október 2016.

Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um annað erindi en sótt hafi verið um. Umsótt breyting sé í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags Reykjavíkur og gildandi deiliskipulag umrædds svæðis. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi farið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, laga um mannvirki nr. 160/2010 og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Borgaryfirvöld benda á að í fyrrgreindri umsögn, sem vísað hafi verið til við töku hinnar kærðu ákvörðunar, hafi verið fjallað um sambærilegt tilvik og mál þetta snúist um. Aðalskipulag kveði á um að verslunar- og þjónustustarfsemi hafi forgang á fyrstu hæðum götuhliða húsa á svæðinu. Umsókn kæranda sem synjað hafi verið hafi hvorki verið í samræmi við aðalskipulag né deiliskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti á fasteignum kæranda í húsinu að Rauðarárstíg 1 á árinu 2017 og voru afsöl þess efnis þinglýst 26. maí 2017.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Rauðarárstíg 1. Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Auk þess hafa nýir eigendur eignarhlutanna sótt um og fengið samþykkt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun þeirra samkvæmt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 20. febrúar og 10. apríl 2018. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
  

_________________________________________
Ómar Stefánsson (sign)