Fyrir var tekið mál nr. 61/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 10. maí 2017 um að láta ekki fjarlægja hundinn X, af heimili hans.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir A, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 10. maí 2017 að láta ekki fjarlægja hundinn X, af heimili hans. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 28. júní 2017.
Málavextir: Kærandi býr á efri hæð tvíbýlishúss ásamt tveimur hundum sínum. Á neðri hæð eru fjórir hundar á heimilinu. Sameiginleg lóð er bak við húsið. Hundum kæranda lenti hinn 22. mars 2017 saman við hunda neðri hæðar á baklóðinni. Var kærandi við það tilefni bitinn af hundinum X, sem einnig beit annan hund kæranda. Kærandi gaf lögregluskýrslu vegna atviksins og lagði fram kvörtun hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 27. s.m.
Í niðurlagi ákvörðunar heilbrigðiseftirlits, dags. 10. maí 2017, kemur fram að þegar hið kærða atvik hafi átt sér stað hafi ekki nægilega verið gætt að ákvæðum samþykktar nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, þar sem segi m.a. að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu eða óþægindum. Ástæða hafi verið til sérstakrar varkárni gagnvart öðrum dýrum í ljósi fyrri hegðunar. Vitað hafi verið að aðrir hundar væru haldnir í húsinu og að garðurinn væri einnig nýttur til útiveru fyrir þá. Í ljósi þessa var lagt fyrir hundaleyfishafa að sjá til þess að hundur hans væri ávallt í öruggri gæslu utan dyra. Þar sem gera yrði ráð fyrir að hundurinn hitti aðra hunda eða dýr yrði að múlvenja hann. Nauðsynlegt væri að hundurinn fengi þjálfun undir leiðsögn og að leyfishafi tæki hegðun hans gagnvart öðrum hundum alvarlega. Skilyrðislaust yrði því að vera með hundinn í taumi á göngu utan dyra meðan þjálfun væri á fyrstu stigum. Heilbrigðiseftirlitið féllst hins vegar ekki á þá kröfu kæranda að hundurinn yrði fjarlægður af heimili sínu. Hefur kærandi kært þá ákvörðun, eins og áður segir.
Málsrök kæranda: Kærandi krefst þess að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði felld úr gildi. Hundur leyfishafa hafi ráðist á og bitið illa hund í eigu kæranda. Hafi hann og bitið kæranda í höndina í sama skipti og fellt hann í jörðina. Þetta hafi gerst 22. mars 2017, en sex mánuðum áður hafi umræddur hundur einnig bitið annan hund í eigu kæranda. Eftir að kærandi hafi verið bitinn hafi hann leitað aðstoðar lögreglu og sjúkraliða.
Kærandi búi á efri hæð í tvíbýlishúsi og sé sameiginleg lóð bak við húsið. Kærandi noti hluta lóðarinnar til að leika við hunda sína, en íbúar á neðri hæðinni noti lóðina til að hleypa sínum fjórum hundum út. Kærandi hafi ítrekað kvartað við íbúa neðri hæðarinnar vegna óþrifnaðar og lélegrar umgengni um lóðina. Eftir að hundur kæranda hafi verið bitinn í október 2016 hafi hann ávallt athugað vel hvort aðrir hundar séu á lóðinni áður en hans hundum sé hleypt þangað. Íbúar neðri hæðar hleypi hinsvegar sínum hundum út án aðgæslu með þeim afleiðingum sem að ofan greini.
Eftir árás viðkomandi hunds á kæranda og hund hans hafi kærandi kært atvikið til lögreglu og tilkynnt það til heilbrigðiseftirlitsins og Matvælastofnunar. Áverkavottorð, ljósmyndir, lögregluskýrslur og önnur gögn hafi fylgt. Hin kærða ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins sé byggð á þeim gögnum, viðtali við eiganda hundsins, sem ekki hafi verið á staðnum þegar umrædd atvik hafi átt sér stað, mati dýralæknis á hundinum og einni vettvangsheimsókn. Ekki hafi verið rætt við kæranda í þeirri heimsókn. Í niðurstöðu heilbrigðiseftirlitsins virðist ekki vera tekið tillit til þess að kæranda, sem eigi rétt á að nýta eign sína, standi ógn af hundinum. Kærandi geri athugasemdir við mat dýralæknisins á hundinum, þar sem eingöngu sé byggt á frásögn eiganda hans, sem ekki hafi verið á staðnum, eins og áður segi. Það sé rangt að kærandi hafi hleypt sínum hundum inn á lóðina án þess að athuga hvort einhver væri þar fyrir.
Kærandi þori ekki inn á lóðina nema hann viti að enginn sé heima á neðri hæðinni þar sem íbúar þar hafi haldið áfram að hleypa hundunum eftirlitslausum út, einnig hundinum sem hafi bitið kæranda. Kærandi hafi nú sett upp girðingu sem skipti lóðinni í tvennt til að reyna að halda umræddum hundi af þeim hluta lóðarinnar sem tilheyri kæranda. Íbúar neðri hæðar hafi ekki tekið tilmæli heilbrigðiseftirlitsins varðandi hundinn alvarlega. Honum sé ítrekað sleppt lausum á lóðina án þess að athugað sé hvort aðrir séu þar. Kærandi upplifi mikla hættu af hundinum og hafi umrædd atvik haft mikil áhrif á hann, bæði líkamlega, fjárhagslega og andlega.
Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Af hálfu heilbrigðis-nefndar er þess krafist að hafnað verði kröfu kæranda um að nefndin komi frekar að málinu. Aðkoma Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi hafist með því að kærandi hafi haft samband við eftirlitið símleiðis 23. mars 2017 vegna árásar hunds á hann á lóð við heimili hans daginn áður. Hafi kæranda verið bent á að leita til lögreglu vegna málsins og hafi hann síðan komið með lögregluskýrslu til heilbrigðiseftirlitsins 27. s.m. Skýrslunni hafi fylgt gögn um áverka hans og á hundum hans.
Heilbrigðiseftirlitið hafi tekið málið til meðferðar með vísan til 10. gr. samþykktar nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, en þar segi að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna. Framgangur málsins hafi verið með þeim hætti að 29. mars 2017 hafi framkvæmdarstjóri eftirlitsins haft samband við skráðan eiganda umrædds hunds, en hundurinn sé skráður hjá eftirlitinu samkvæmt gildandi reglum. Hafi leyfishafi komið að vörmu spori á skrifstofu heilbrigðiseftirlitsins til viðtals og hafi honum verið kynnt gögn málsins. Hafi komið fram hjá honum að á umræddum tíma hafi fimm hundar verið lausir í garðinum, þar af þrír sem tilheyrðu hans fjölskyldu og tveir hundar kæranda. Hafi honum verið tjáð að rannsókn heilbrigðiseftirlitsins myndi beinast að því hvort hundur hans teldist grimmur og gæti verið hættulegur umhverfi sínu. Hafi honum verið leiðbeint um að láta fara fram atferlismat á hundinum. Hafi nánar tilgreind dýralæknastofa upplýst síðar að hún hefði tekið það verkefni að sér og sé skýrsla dýralæknis um matið frá 12. apríl 2017.
Tveir starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafi farið í vettvangsheimsókn að heimili leyfishafa 10. maí s.á. Aðstæður hafi verið skoðaðar, þ. á m. baklóðin, og örmerki hundsins lesið. Jafnframt hafi heimsóknin miðað að því að kanna hvernig umræddur hundur hagaði sér. Ekkert óeðlilegt hafi komið fram hjá hundinum. Hann hafi verið rólegur og tekið vinsamlega á móti viðkomandi. Í framhaldinu hafi þeim hluta málsins er snúið hafi að heilbrigðiseftirlitinu og heilbrigðisnefnd verið lokið með bréfi til lögreglu og kæranda, dags. 10. maí s.á.
Heilbrigðisnefnd byggi afstöðu sína í málinu á því að ekki hafi komið til meðferðar hjá heilbrigðiseftirlitinu ítrekuð eða alvarleg brot á samþykkt nr. 154/2000 af hálfu leyfishafa. Til álita hafi því ekki komið að afturkalla skráningu hundsins eða beita öðrum þvingunarúrræðum, sbr. 14. gr. samþykktarinnar. Við ákvörðun í málinu hafi verið gætt ákvæða 11. gr. samþykktarinnar og gætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, þar sem lögð sé áhersla á að ekki sé gengið lengra í íþyngjandi aðgerðum en nauðsyn beri til.
Heilbrigðisnefnd leggi áherslu á að nefndin fari ekki með eftirlit samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús og tjái sig ekki um hvort mál séu löglega tekin til afgreiðslu samkvæmt þeim. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar fari heilbrigðisnefnd aðeins með eftirlit samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að enginn annar en kærandi hafi verið viðstaddur þegar kærandi hafi verið bitinn og því sé hann einn til frásagnar um að hundur leyfishafa hafi bitið. Hundar kæranda séu ekki skráðir til heimilis í húsinu.
Umræddur hundur leyfishafa sé aldrei án eftirlits og alltaf í taum á opnum svæðum. Honum standi ógn af öðrum hundum og bregðist við á árásargjarnan hátt sýni þeir honum ögrandi hegðun. Kæranda hafi verið gert þetta ljóst á sínum tíma og í kjölfarið hafi því verið ákveðið að hundarnir yrðu ekki saman á baklóðinni. Þó hafi verið rætt í upphafi um að venja hundana saman, en kærandi hafi sýnt því lítinn áhuga. Í bæði skiptin sem óhöpp hafi orðið hafi hundar neðri hæðar verið fyrir á baklóðinni, en kærandi hafi samt sem áður sleppt sínum hundum þangað. Ávallt sé athugað hvort kærandi sé á lóðinni áður en hundum neðri hæðar sé sleppt út. Leyfilegt sé að hafa hunda lausa á afgirtum einkalóðum svo framarlega sem þeir séu ávallt undir eftirliti. Í fyrra skiptið sem hundur leyfishafa hafi glefsað í hund kæranda hafi hundur kæranda verið laus utan girðingar og stungið höfðinu í gegnum girðinguna. Leyfishafi hafi þá greitt helming af dýralæknakostnaði.
Niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins byggi á rannsókn eftirlitsins og atferlismati dýralæknis, sem sé hundinum kunnugur. Matið hafi ekki farið fram á heimili hundsins, heldur í hlutlausu umhverfi með ókunnugum hundi. Niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins hafi verið tekin mjög alvarlega af leyfishafa og öðru heimilisfólki. Ávallt hangi múll á taumi hundsins þannig að hægt sé að grípa til hans. Þegar hundinum sé hleypt út í garð sé ávallt fylgst með honum. Hundurinn hafi einnig farið á hlýðninámskeið.
Niðurstaða: Í þágildandi 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, nú 59. gr., sbr. lög nr. 66/2017, er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar segir í 1. gr. að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. segir að allir hundar sem haldnir eru á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir og í 2. gr. segir að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í umboði heilbrigðisnefndar sjái um skráningu og annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu. Samkvæmt 10. gr. samþykktarinnar er hundeiganda eða umráðamanni hunds skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri. Í 14. gr. er fjallað um valdsvið heilbrigðisnefndar og þvingunarúrræði. Þar segir að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds geti heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila, eða látið fjarlægja hundinn.
Heilbrigðisnefndir starfa skv. áðurnefndum lögum nr. 7/1998. Samkvæmt þágildandi 13. gr. laganna, nú 47. gr., ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Heilbrigðiseftirlit starfar í umboði heilbrigðisnefndar, sbr. þágildandi 15. gr. laga nr. 7/1998, nú 49. gr.
Ljóst er af gögnum málsins að grundvöllur kvartana kæranda vegna hundahalds leyfishafa var kannaður. Farið var á vettvang, aðstæður skoðaðar og rætt við leyfishafa og hegðun umrædds hunds metin. Jafnframt fór fram atferlismat dýralæknis, sem er sérfræðingur í meðferð hunda og katta, og liggur skýrsla hans frá 12. apríl 2017 fyrir í málinu. Samkvæmt skýrslunni hefur hundurinn verið áður til meðferðar á dýralæknastofunni og aldrei stafað af honum nein vandræði. Hundurinn var bæði metinn við skoðun en einnig voru settar upp aðstæður þar sem ókunnugur hundur nálgaðist hann utan húss. Kom í ljós að hundurinn var var um sig gagnvart öðrum hundum og fljótur að sýna merki um andúð og spennu en hefur aldrei sýnt fólki merki um óöryggi eða fjandskap. Niðurstaða skýrslunnar er sú að eigendur umræddra hunda hafi auðveldlega átt að geta komið í veg fyrir þann atburð. Þeir hafi báðir vitað um vandamálið sem verið hafi til staðar í samskiptum hundanna og hefðu áður upplifað rimmur á milli þeirra. Hefðu þeir mátt vita að ef hundarnir hittust myndi ekki fara vel. Sá hundur sem um væri deilt hefði ekki sýnt að hann væri hættulegur fólki, þar sem bitið sem kærandi hefði orðið fyrir hefði orðið í hita slagsmála á milli margra hunda. Mælti dýralæknirinn með því að umræddur hundur væri ávallt í taumi utandyra svo auðvelt væri að hafa stjórn á honum. Einnig væri hægt að nota munnkörfu á fyrstu stigum þjálfunar. Þá var á meðal gagna þeirra sem niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar byggðist á lögregluskýrsla um hundsbit og hnjask sem kærandi varð fyrir og var kærandi jafnframt í samskiptum við heilbrigðiseftirlitið á meðan á málinu stóð. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið var hvorki brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins né andmælarétti kæranda, enda hafði hann tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að í málinu.
Á grundvelli framangreindra gagna var tekin sú ákvörðun að ekki skyldi láta fjarlægja hundinn af heimili sínu, enda um talsvert íþyngjandi þvingunarráðstöfun að ræða. Var farin sú leið að leggja fyrir leyfishafa að gæta betur að því að hundur hans væri ávallt undir eftirliti og þess gætt að af honum stafaði ekki hætta. Jafnframt var lagt fyrir leyfishafa að sjá til þess að hundur hans fái þjálfun undir leiðsögn vegna atferlis síns. Verður ekki annað séð en að framangreind niðurstaða hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum og það mat að ekki væri um alvarlegt brot að ræða í skilningi 14. gr. samþykktar nr. 154/2000 hafi verið forsvaranlegt, svo sem atvikum var háttað.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 10. maí 2017 um að láta ekki fjarlægja hundinn X, af heimili hans að.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Ásgeir Magnússon