Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

113/2015 Langabrekka

Árið 2017, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. nóvember 2015 um að synja um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 10. nóvember 2015 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að byggingarfulltrúa verði gert að veita umrætt leyfi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 8. febrúar 2016.

Málavextir: Kærandi hefur um árabil óskað eftir leyfi bæjaryfirvalda Kópavogs fyrir byggingu við bílskúr sinn að Löngubrekku 5. Hefur því erindi hans ítrekað verið hafnað af bæjaryfirvöldum, auk þess sem íbúar á aðliggjandi lóð hafa ætíð andmælt þeim áformum. Kærur vegna þessara byggingaráforma hafa áður borist úrskurðarnefndinni, sbr. úrskurð í máli nr. 8/2013 og úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 97/2006 og 34/2007.

Kærandi lagði fram umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs síns að Löngubrekku 5 hinn 8. júní 2015. Umsókninni fylgdu uppdrættir sem sýndu bílskúrinn ásamt fyrirhugaðri viðbygginu. Af uppdráttum að dæma var áætluð viðbygging um 19 m2 að grunnfleti og 3,3 m há. Með viðbyggingunni var ætlunin að stækka núverandi bílskúrsbyggingu því sem næst að mörkum lóðarinnar Álfhólsvegar 61. Á uppdrættinum er viðbyggingin merkt sem geymsla.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 15. júní 2015, en málinu þá frestað. Nefndin samþykkti á fundi sínum 22. s.m. að grenndarkynna umsótta breytingu, með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi sendi inn greinargerð vegna umsóknarinnar, dags. 13. ágúst 2015, auk þess sem athugasemdir bárust frá íbúum Álfhólsvegar 61, dags. 18. s.m. Kærandi mótmælti þeim athugasemdum með bréfi til skipulagsnefndar, dags. 31. s.m. Íbúar Álfhólsvegar 61 mótmæltu afskiptum umsækjanda af málsmeðferðinni með bréfi, dags. 20. september 2015, og komu á framfæri frekari athugasemdum. Skipulagsnefnd tók umsóknina fyrir að lokinni grenndarkynningu 14. september 2015 og 26. október s.á. og hafnaði henni, að fenginni umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 26. október 2015. Bæjarráð tók afgreiðslu skipulagsnefndar fyrir hinn 29. s.m. og vísaði henni til bæjarstjórnar, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 10. nóvember 2015 með 11 atkvæðum og hafnaði jafnframt erindi kæranda. Byggingarfulltrúi hafnaði í kjölfarið byggingarleyfisumsókn kæranda hinn 12. nóvember s.á., með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar og 44. gr. skipulagslaga.

Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir synjuninni með bréfi, dags. 18. nóvember 2015, sem var svarað af formanni skipulagsnefndar með bréfi, dags. 18. desember s.á. Í rökstuðningnum kemur fram að eftir vettvangsferð á lóð kæranda hafi komið í ljós að athugasemdir lóðarhafa Álfhólsvegar 61 um að bílskúr kæranda væri notaður sem íbúðarhúsnæði hafi átt við rök að styðjast. Einnig er nefnt að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá séu 15 manns til lögheimilis að Löngubrekku 5, í tveimur skráðum íbúðum. Af umsókn kæranda megi hins vegar ráða að sótt sé um viðbyggingu við bílskúr. Ljóst megi vera að í umsókn og framlögðum uppdrætti sé ekki miðað við raunverulega notkun húsnæðisins. Notkun bílskúrsins hafi enda verið breytt án heimildar þar til bærra aðila, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn bæjarskipulags Kópavogs frá 16. mars 2007 sé mælt með að leyfi fyrir stækkun bílskúrsins verði veitt og að í umsögn bæjarskipulags frá 26. október 2015 hafi ekki verið tilgreind nein atriði sem valda ættu synjun umsóknar um byggingarleyfi. Stækkun bílskúrsins falli að stefnumörkun Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024, sem leggi áherslu á góða nýtingu lands og þéttingu byggðar. Þá nái velflestir bílskúrar á umræddu svæði við Löngubrekku, sem sé ódeiliskipulagt, að mörkum aðliggjandi lóða við Álfhólsveg. Óheimilt sé að hafna leyfisumsókn á grundvelli vangaveltna eða gruns um að bygging verði notuð á annan hátt en getið sé um í umsókn.

Kærandi sendi viðbótarupplýsingar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. janúar 2016, eftir að honum barst rökstuðningur Kópavogsbæjar, dags. 18. desember 2015, barst honum. Hann telur afstöðu skipulagsnefndar hafa ráðist af grun um að viðbyggingin yrði notuð undir íbúð og ítrekar að stækkun bílskúrsins sé í samræmi við stefnu aðalskipulags og að staðsetningin sé ekki á skjön við staðsetningu bílskúra á svæðinu við lóðamörk lóða við Álfhólsveg. Engin gögn styðji umkvörtun íbúa Álfhólsvegar 61 um hávaða eða að notkun húsnæðisins samræmist ekki gr. 9.2.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hluti skúrsins sé teiknaður og samþykktur sem tómstundaherbergi, sem eðlilega fylgi nokkur ívera og umgangur. Íbúar Löngubrekku 5 séu 9 en ekki 15 og séu því upplýsingar um lögheimilisskráningar rangar. Ekki verði innangengt í aðra hluta bílskúrsins úr viðbyggingunni, sem torveldi að nýta hana til íbúðar. Synjun á byggingarleyfi á grundvelli vangaveltna um hugsanlega notkun, sem ekki samræmist umsóknargögnum, geti varla verið í anda byggingarlaga eða byggingarreglugerðar.

Kærandi sendi enn viðbótarupplýsingar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. janúar 2017, þar sem fram kemur að hann hafi þá enn á ný lagt fram umsókn um byggingarleyfi vegna stækkunar bílskúrs síns. Hafi því sem fyrr verið mótmælt af íbúum Álfhólsvegar 61.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær vísar til þess að skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sé m.a. óheimilt að reisa eða breyta notkun á mannvirki án þess að fá til þess leyfi hjá byggingarfulltrúa sveitarfélags eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun. Sótt hafi verið um leyfi til að byggja við bílskúr og á meðfylgjandi teikningu hafi viðbyggingin verið sögð geymsla. Hafi á fyrstu stigum málsmeðferðar verið gengið út frá þessum skilgreiningum. Á kynningartíma hafi borist athugasemdir frá nágranna um að notkun bílskúrsins væri önnur en gefin væri upp. Í áliti skipulags- og byggingardeildar hafi komið fram að bílskúrinn væri ekki innréttaður samkvæmt aðaluppdrætti. Vettvangsferð hefði staðfest álit skipulags- og byggingardeildar og hefði það haft úrslitaáhrif á ákvörðun skipulagsnefndar. Að mati nefndarinnar hefðu fylgigögn byggingarleyfisumsóknarinnar ekki samræmst raunverulegri áætlaðri notkun og hefði umsókninni af þeim sökum verið hafnað. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á niðurstöðu skipulagsnefndar.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla laganna að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Tiltekna undanþágu frá deiliskipulagskyldu var að finna í þágildandi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, þar sem skipulagsnefnd gat ákveðið að veita mætti byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að undangenginni grenndarkynningu ef áætluð framkvæmd samræmdist stefnu aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Lóð kæranda að Löngubrekku 5 er í grónu hverfi sem ekki hefur verið deiliskipulagt og var farið með umsókn hans um viðbyggingu við bílskúr á lóðinni samkvæmt fyrrgreindri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þess að synja kæranda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5. Kærandi telur synjunina hafa byggst á ólögmætum sjónarmiðum, en Kópavogsbær byggir lögmæti synjunarinnar á rangri framsetningu á umsókninni af hálfu kæranda.

Kópavogsbær hefur borið því við með vísan í 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að skipulagsnefnd hafi metið það sem svo, að fengnum athugasemdum úr grenndarkynningu og eftir vettvangsferð á umrædda lóð, að byggingarleyfisumsókn kæranda væri ekki í samræmi við raunverulega áætlaða notkun. Skipulagsnefnd hafi því hafnað umsókninni og að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á þeirri niðurstöðu. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 12. nóvember 2015 er sömuleiðis vísað í afgreiðslu skipulagsnefndar til útskýringar á höfnun byggingarleyfisumsóknarinnar og jafnframt vísað í þágildandi 44. gr. skipulagslaga. Í rökstuðningi til kæranda frá formanni skipulagsnefndar með bréfi, dags. 18. desember 2015, eru sömu ástæður nefndar fyrir synjuninni og vísað til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem kveður á um þvingunarúrræði m.a. til að aflétta ólögmætri notkun húsnæðis.

Fyrir liggur að byggingarleyfisumsókn kæranda var í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti fyrir umrædda lóð en höfnun umsóknarinnar var fyrst og fremst studd þeim rökum að bílskúr á lóðinni væri nýttur til íbúðar. Ekki var vísað til þeirra skipulagsforsendna sem tíundaðar eru í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga við afgreiðslu málsins. Komi til þess að húsnæði sé notað á annan hátt en skipulag eða aðaluppdrættir heimila eru byggingarfulltrúa veitt úrræði að lögum til þess að koma málum í lögmætt horf, sbr. 56. gr. laga um mannvirki, sbr. og gr. 2.9.1. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð.

Með hliðsjón af framangreindu er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum annmörkum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. nóvember 2015 um að synja um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson