Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2016 Hvanneyrardalsvirkjun

Árið 2016, fimmtudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2016, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 15. mars 2016 um að veita rannsóknarleyfi á vatnasviði Hvanneyrardalsár í Ísafirði vegna áætlana um Hvanneyrardalsvirkjun við Ísafjörð í Súðavíkurhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. apríl 2016, er barst nefndinni 15. s.m., kærir Orkubú Vestfjarða ohf. þá ákvörðun Orkustofnunar frá 15. mars 2016 að veita Vesturverki ehf. rannsóknarleyfi á vatnasviði Hvanneyrardalsár í Ísafirði vegna áætlana um Hvanneyrardalsvirkjun við Ísafjörð í Súðavíkurhreppi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun Orkustofnunar frá 5. apríl 2016 um að veita Vesturverki ehf. rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjun á vatnasviði Hundsár í Skötufirði og Hestár í Hestfirði við Ísafjarðardjúp.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun yfirvofandi rannsókna. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru sama eðlis, sömu aðilar tengjast báðum kærumálunum og málsatvik og rök þeirra eru á sömu lund, verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 44/2016, sameinað máli þessu. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um stöðvun yfirvofandi rannsókna.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 11. maí 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfum, dags. 18. janúar og 4. febrúar 2016, er bárust Orkustofnun 26. janúar og 9. febrúar s.á., sótti Vesturverk ehf. um leyfi til rannsókna á hagkvæmni þess að nýta rennsli, annars vegar Hvanneyrardalsár í Ísafirði við Ísafjarðardjúp, vegna áætlana um Hvanneyrardalsvirkjun í Súðavíkurhreppi, og hins vegar rannsóknarleyfis vegna möguleika á virkjun Hundsár í Skötufirði og Hestár í Hestfirði við Ísafjarðardjúp. Að fengnum umsögnum Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Súðavíkurhrepps, sem landeiganda, veitti stofnunin leyfishafa rannsóknarleyfi vegna virkjunar Hvanneyrardalsár, dags. 15. mars 2016, til þriggja ára og vegna virkjunar Hundsár og Hestár, dags. 5. apríl s.á., til fjögurra ára.   Fólu leyfin í sér heimild til að framkvæma mælingar og rannsóknir á viðkomandi svæði á leyfistímanum í samræmi við 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sbr. 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Kærandi vísar til þess að hann hafi hinn 5. febrúar 2016 sótt um rannsóknarleyfi á vatnasviði í Kjálkafirði, Vattarfirði og Ísafirði á grundvelli innsendra gagna til Orkustofnunar frá 28. nóvember 2013 vegna Glámuvirkjunar. Hin kærðu leyfi og umsókn kæranda taki að hluta til sama vatnasviðs. Hefði borið að meta fyrirliggjandi umsóknir með tilliti til þjóðfélagslegrar hagkvæmni áður en hin kærðu leyfi hafi verið veitt en ekki sé unnt að veita tveimur aðilum rannsóknarleyfi á sama svæði. Hefði átt að auglýsa eftir umsóknum um rannsóknir á svæðinu með hliðsjón af atvikum máls. Veita hefði átt kæranda rannsóknarleyfi á svæðinu vegna þeirra miklu rannsókna og vinnu sem hann hafi þegar stundað á svæðinu og kostað miklu til. Hafi leyfishafi nýtt sér niðurstöður rannsókna kæranda án leyfis í eigin þágu. Við málsmeðferð hinna kærðu leyfa hafi ekki verið gætt rannsóknarreglu 10. gr. og andmælaréttar kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem ekki hafi verið leitað umsagnar Veiðimálastofnunar í samræmi við 4. og 5. gr. laga nr. 78/1998.

Orkustofnun bendir á að þegar umsóknir um hin kærðu leyfi hafi borist hafi hvorki legið fyrir aðrar  umsóknir um leyfi til rannsókna né hafi stofnuninni verið kunnugt um gilt eða áður útgefið rannsóknarleyfi á umræddu svæði. Undirbúningur og málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana hafi verið lögum samkvæmt og í samræmi við markmið laga um vernd og orkunýtingu landsvæða nr. 48/2011. Rannsóknir þær sem unnar hafi verið á Vestfjarðahálendinu hafi verið unnar fyrir opinbert fé og séu aðgengilegar öllum. Ekki liggi fyrir að kærandi hafi haft einkarétt á þeim gögnum sem leyfishafi vísi til í umsóknum sínum. Þá hafi kærandi ekki haft stöðu aðila við meðferð umsóknanna og hafi því ekki verið brotinn á honum andmælaréttur. Rannsóknarleyfi feli í sér heimild til að rannsaka umfang, magn og afkastagetu auðlindar. Það veitir leyfishafa hins vegar hvorki heimild til framkvæmda né forgang að virkjanaleyfi. Kærandi sé samkeppnisaðili leyfishafa á raforkumarkaði, en hinar kærðu ákvarðanir séu til þess fallnar að skapa forsendur fyrir samkeppni á þeim markaði í samræmi við 1. gr. raforkulaga. Af atvikum máls verði ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum og beri því að vísa máli þessu frá skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi vísar til þess að hvorki standi lög til þess né efnisrök að Orkustofnun hafi átt að meta umsóknir bæði kæranda og leyfishafa áður en hin kærðu leyfi hafi verið veitt. Þvert á móti hafi stofnuninni borið samkvæmt málshraða- og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að afgreiða umsóknir leyfishafa án tillitis til annarra umsókna sem síðar hafi borist. Þá sé því andmælt að borið hefði að auglýsa eftir umsóknum til rannsókna á svæðinu skv. 15. gr. laga nr. 78/1998, enda um heimildarákvæði að ræða. Sú túlkun kæranda að leyfi til rannsókna á svæði útiloki rannsóknir á öðrum virkjanakostum, sem að hluta nái til sama svæðis, eigi ekki við rök að styðjast. Kærandi hafi engan forgangsrétt til rannsókna á umræddu svæði, enda færi það í bága við markmið um samkeppni og afnám einkaréttar á orkumarkaði. Málsmeðferð hina kærðu leyfa hafi verið í samræmi við lög, ekki hafi verið þörf á umsögn Veiðimálastofnunar og kærandi hafi ekki átt andmælarétt við meðferð umsókna leyfishafa.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu leyfisveitingum í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærandi telur hins vegar að hann eigi hagsmuna að gæta í málinu, m.a. sökum þeirra kostnaðarsömu rannsókna sem hann hafi stundað á umræddu svæði og leyfishafi hafi nýtt sér án heimildar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er úrskurðarnefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum. Þá er og tekið fram í 3. mgr. 4. gr. laganna að þeir einir geti borið stjórnvaldsákvarðanir undir nefndina sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á eða að fyrir hendi sé bein kæruheimild í lögum. 

Það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til réttarágreinings um hvort réttindum kæranda hafi verið raskað vegna notkunar rannsóknargagna er stöfuðu frá honum í umsóknum leyfishafa. Ágreiningur um slíka notkun snertir eftir atvikum svið eigna- eða höfundaréttar og á undir dómstóla að leysa úr honum. Getur ágreiningur þessi af framangreindum ástæðum ekki veitt kæranda aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni. Þá liggur ekki fyrir að kærandi eigi einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni með stoð í lögum, samningum eða veittum leyfum, sem væri raskað með veitingu hinna kærðu leyfa.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið og að kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum, aðra en þá er varða kunni fyrrgreind eignarréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson