Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2014 Fálkaklettur

Árið 2016, mánudaginn 30. maí 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 39/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. apríl 2014, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 28. s.m., kærir Þ, Fálkakletti 5, Borgarnesi, ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. apríl 2014, um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna byggingar sem standi við lóðamörk Fálkakletts 5 og 7. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Með bréfi til byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, dags. 11. desember 2013, sendi kærandi kvörtun í tilefni af byggingu sem staðsett var á lóðinni Fálkakletti 7 við lóðarmörk fasteignar kæranda að Fálkakletti 5. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. janúar 2014 og bókað: „Þórdís Arnardóttir er með fyrirspurn er varðar byggingu á Fálkakletti 7 fyrir fiðurfénað. Málið var lagt fram og byggingarfulltrúa falið að svara erindinu.“ Við könnun á vettvangi kom í ljós að umræddur hænsnakofi stóð nær lóðamörkum Fálkakletts 5 og 7 en sem nam 3 metrum. Í svarbréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 2. apríl 2014, var sú niðurstaða tilkynnt að það væri mat byggingarfulltrúa að ekki væri ástæða til að fara í þvingunaraðgerðir vegna málsins þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir við staðsetningu kofans fyrr en löngu eftir að honum hafi verið komið fyrir.

Kærandi vísar til þess að umdeild bygging standi innan við 3 metra frá mörkum lóðar hans og hefði því þurft að koma til samþykki kæranda skv. 6. tl. g liðar gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Staðsetning byggingarinnar og notkun hafi truflandi áhrif gagnvart kæranda enda standi hún alveg á mörkum nefndra lóða.

Niðurstaða: Í umsögn byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. maí 2016, kemur fram að eigandi umdeilds hænsnakofa, sem staðsettur var á lóðinni Fálkakletti 7, sé fluttur og hafi tekið hænsnakofann með sér, en kærumálið snýst um lögmæti staðsetningar nefnds kofa nærri mörkum lóðar kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem tekið hefur við þeim málum sem áður áttu undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, er sett það skilyrði fyrir aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni að viðkomandi eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra skal nema að lög kveði sérstaklega á annan veg. Þar sem umdeildur kofi hefur verið fjarlægður af lóðinni Fálkakletti 7 á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson