Fyrir var tekið mál nr. 61/2015, kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2015, sem barst nefndinni 5. ágúst s.á., kærir G, Sævangi 7, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði uppkveðnum 28. ágúst 2015.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Hafnarfirði 29. apríl 2015 voru teknar fyrir kvartanir sem borist höfðu vegna framkvæmda á lóðinni nr. 5 við Sævang, við lóðarmörk Sævangs 7. Var lóðarhafa Sævangs 5 gert að stöðva framkvæmdir þar sem þær samræmdust ekki deiliskipulagi og samþykktum uppdráttum, auk þess sem hafa skyldi samráð við nágranna um frágang á lóðamörkum.
Hinn 30. júní 2015 sótti lóðarhafi Sævangs 5 um byggingarleyfi til að reisa sólpall og skjólveggi skv. teikningum, dags. 24. s.m. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2015 og afgreiðslu hennar frestað með vísan til athugasemda. Nýjar teikningar voru lagðar fram 13. júlí s.á. og hinn 22. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Hefur sú samþykkt verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að gert sé ráð fyrir að staurar og sólpallur á lóð Sævangs 5 verði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð heimili. Þá skuli sorpskýli ekki vera á lóðamörkum þar sem það hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7. Frárennslislagnir frá Sævangi 7 liggi rétt innan við lóðarmörkin og ógerlegt gæti orðið að komast að þeim vegna fyrirhugaðra mannvirkja. Gluggar séu á bílskúr Sævangs 7, u.þ.b. 1,5 m frá lóðamörkum, og eldvarnarkröfum sé ekki fullnægt þegar timburmannvirki standi svo nálægt skúrnum.
Kærandi hafi ítrekað komið mótmælum sínum gegn framkvæmdinni á framfæri við byggingarfulltrúann í Hafnarfirði. Þess hafi þó ekki verið getið í fundarbókun frá 22. júlí 2015 er framkvæmdin var samþykkt. Hins vegar hafi komið þar fram að samþykki íbúa að Sævangi 3 og 8 lægi fyrir, en þeir hefðu engra sýnilegra hagsmuna að gæta varðandi framkvæmdina. Þá sé bókun byggingarfulltrúa mjög óljós varðandi það hvaða teikningar hafi verið samþykktar.
Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er skírskotað til þess að hinn 16. desember 2009 hafi byggingarfulltrúi samþykkt erindi lóðarhafa að Sævangi 5 er hafi m.a. lotið að frágangi lóðarinnar. Kærandi hafi ekki gert athugasemd við þá samþykkt. Er hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi samþykktur uppdráttur frá 2009 verið hafður til hliðsjónar, ásamt deiliskipulagi svæðisins. Þá sé vísað til þess að á mæliblaði komi fram að engar kvaðir séu á lóðum hvað varði lagnir eða gröft.
Meginbreytingin sem í hinni kærðu ákvörðun felist sé sú að heitur pottur sé færður til á lóðinni, bílastæðum á lóðinni fjölgað úr tveimur í þrjú og staðsetning sorpskýlis sé færð inn á lóðaruppdrátt. Á samþykktum uppdrætti frá 22. júlí 2015 sé ekki gert ráð fyrir girðingu á lóðarmörkum heldur komi stakir staurar í stað þeirrar girðingar sem gert hafi verið ráð fyrir árið 2009 og síðar í breyttri útfærslu árið 2015. Á staurunum sé hengibúnaður til að setja upp tjöld á góðum dögum. Þessi útfærsla sé á 7,5 m kafla á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Bifreiðageymsla Sævangs 7 sé í 1,5 m fjarlægð frá lóðamörkunum en á henni sé röð glugga sem staðsettir séu upp undir loftplötu bílskúrsins. Ekki sé fyrirsjáanleg nein birtu- eða útsýnisskerðing að Sævangi 5 vegna framkvæmdanna.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að teikningar sem sýnt hafi framtíðarskipulag lóðar Sævangs 5 hafi verið samþykktar árið 2009. Kærandi hafi þá lýst andstöðu sinni vegna staðsetningar á heitum potti en ekki hreyft öðrum mótmælum. Ekkert hafi orðið af framkvæmdum þá, en ákveðið hafi verið að hefja þær vorið 2015. Leitast hafi verið við að ná samkomulagi við kæranda og hafi leyfishafi talið að samkomulag hefði tekist í apríl 2015. Það hafi verið handsalað og undirritað af beggja hálfu en kærandi hafi hins vegar neitað að afhenda það. Samkomulagið heimili leyfishafa að reisa trévegg á lóðamörkum, ákveðin hafi verið ný staðsetning á heitum potti og leyfishafi hafi samþykkt að greiða kostnað við að losa upp vegg og pall á lóð sinni og ganga frá tréverki ef bilun yrði á frárennslislögn frá Sævangi 7 og ekki yrði komist að lögninni með öðrum hætti.
Eftir að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar á lóðinni hafi enn verið reynt að ná samkomulagi við kæranda, en án árangurs. Því hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og hafi það verið veitt 22. júlí 2015. Samkvæmt samþykktum uppdráttum séu nánast engin mannvirki á lóðamörkum, en sótt hafi verið um leyfi til að láta staura á lóðamörkunum standa svo hengja mætti á þá laus tjöld og nýta sólpallinn á sumardögum. Þá sé því mótmælt að sorpskýli á lóð Sævangs 5 hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.
Auk mannvirkja taka lög nr. 160/2010 um mannvirki m.a. til gróðurs á lóðum, frágangs og útlits lóða og til girðinga í þéttbýli, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Á grundvelli 60. gr. sömu laga hefur verið sett byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd þeirra og er þar m.a. að finna ákvæði um girðingar og sorpskýli. Þá er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. nefndra laga.
Kveðið er á um í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð að girðing eða skjólveggur á mörkum lóða sé alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð girðingar eða skjólveggs, og skal samþykkis leitað áður en hafist er handa við slíkar smíðar. Samkvæmt þeim uppdrætti sem samþykktur var 22. júlí 2015 er gert ráð fyrir sex staurum á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Staurarnir eru 1,4 m háir og er tekið fram á uppdrættinum að hægt verði „…að hengja tjöld á súlurnar á góðum dögum“. Úrskurðarnefndin er þeirrar skoðunar að eins og hér hátti til verði að telja að um skjólvegg eða girðingu sé að ræða í skilningi framangreinds reglugerðarákvæðis, þótt einungis hluti hans sé varanlega skeyttur við landið. Leyfishafi vísar til þess að samkomulag hafi tekist með lóðahöfum Sævangs 5 og 7 um að reisa mætti trévegg á lóðamörkum, en ekkert slíkt samkomulag liggur fyrir úrskurðarnefndinni. Verður því að miða við að samþykki lóðarhafa Sævangs 7 hafi ekki legið fyrir er hið kærða byggingarleyfi var veitt. Leyfið var því veitt í andstöðu við fortakslaust ákvæði byggingarreglugerðar.
Svo sem áður segir er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Kemur nánar fram í e-lið tilvitnaðs ákvæðis að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að sólpallur á lóð Sævangs 5 nái að lóðarmörkum Sævangs 7 á nokkurra metra kafla og verður ráðið af málsgögnum að pallurinn verði úr timbri. Um sorpskýli á lóð gilda ákvæði gr. 6.12.8. í byggingarreglugerð sem kveða nánar á um gerð og frágang sorpskýla án þess að um staðsetningu þeirra innan lóðar sé kveðið. Lóðin á Sævangi 5 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Íbúðarhverfi í Norðurbæ sem endurgert var á árinu 2012 og öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. september það ár. Í skipulagsskilmálunum kemur m.a. fram að lóðarhafi skuli hafa samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og að sorpgeymslur skuli vera staðsettar þannig að ekki valdi óþægindum fyrir nágranna. Verður ekki séð að þess hafi verið gætt að leyfið væri í samræmi við nefnda skipulagsskilmála svæðisins.
Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun háða slíkum annmörkum að ekki verði komist hjá ógildingu hennar.
Felld er úr gildi sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson