Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

119/2014 Furuvellir

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 119/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Fífuvöllum, Hafnarfirði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis frá 27. október 2014 að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 18. desember 2014.

Málavextir: Kærandi býr að Fífuvöllum og liggur lóð hans að lóð Furuvalla þar sem leyfishafi heldur hunda. Kærandi sendi tölvupóst 7. september 2014 til heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og kvartaði yfir hundahaldinu, fullyrti að um starfsleyfisskylda starfsemi væri að ræða og krafðist þess að þvingunarúrræðum hundasamþykktar yrði beitt gagnvart hundaeiganda. Kærandi hafði áður kvartað yfir endurteknu ónæði af hundahaldinu. Hinn 27. október s.á. var haldinn fundur hjá heilbrigðisnefndinni og eftirfarandi bókun gerð vegna málsins: „Lögð fram kvörtun íbúa í Hafnarfirði vegna hundahalds nágranna. Skoðun á aðstæðum hefur ekki leitt í ljós að starfsleyfisskyld starfsemi sé rekin á umræddum stað og ekki hefur heldur verið hægt að staðfesta kvörtun um ónæði.“ Var ekki aðhafst frekar vegna málsins. Kærandi skaut þessari afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 25. nóvember s.á., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst telja ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar, sem komi fram í bókun hennar, hlægilega miðað við aðstæður. Fram fari mikil hundarækt á íslenska fjárhundinum að Furuvöllum og hafi áður verið kvartað yfir því símleiðis. Leyfi sé fyrir fjóra hunda en með ólíkindum sé að veitt hafi verið leyfi fyrir svo mörgum hundum af þessari tegund, sem sé þekkt fyrir gelt í mannabyggð. Leyfishafinn sé að spila með yfirvöld því hann stundi hundarækt á fasteigninni og sé með fleiri en 10 hunda einu sinni til tvisvar á ári. Samkvæmt leyfishafa sjálfum séu geltandi hundar merki um óánægju og megi því gera ráð fyrir að umræddum hundum líði ekki vel. Einnig hafi ítrekað komið fyrir að hundunum sé sleppt út í garð um miðja nótt til viðrunar og þegar þeim sé hleypt inn sé einhver skilinn eftir úti og gelti. Þetta sé óþolandi í þéttbýli. Ólíðandi sé að heilbrigðisyfirvöld, sem séu vel meðvituð um stöðu mála, hafi hvorki úrræði né getu til að kynna sér málið náið, t.d. með spjalli við nágranna í næstu húsum. Nábýlisréttur sé sterkari en svo að ánægja eins af hundahaldi geti verið yfirsterkari óánægju allra eða flestra nágranna. Þess sé krafist að viðurkennd sé sú staðreynd að hundaræktun eigi sér stað og að um starfsleyfisskylda starfsemi sé að ræða. Ljóst sé að starfsleyfi verði ekki gefið út á þessum slóðum og því beri að stöðva hundaræktunina. Til vara sé þess krafist að leyfið verði takmarkað við eitt dýr.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis:
Heilbrigðisnefndin bendir á að þrír hundar séu skráðir að Furuvöllum í Hafnarfirði. Um hundahald í Hafnarfirði gildi samþykkt um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 en samkvæmt 4. gr. hennar séu allir hundar sem haldnir séu á svæðinu skráningarskyldir. Í sömu grein sé tekið fram að „… séu fleiri en 5 skráningarskyldir hundar á sama heimili gilda ákvæði viðauka 8 í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum“. Reglugerð sú hafi verið felld úr gildi með reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar sé ákvæði um hunda- og kattageymslur í tl. 6.7 í fylgiskjali 2. Telji heilbrigðisnefndin að hinu kærða hundahaldi verði ekki jafnað saman við hundageymslur né dýrarækt, sem um sé fjallað í reglugerðinni.

Kvartanir hafi verið með hléum vegna hundahalds að Furuvöllum og í september 2014 hafi verið farið í vettvangsskoðun á staðinn vegna kvörtunar kæranda. Eigandi hundana hafi verið upplýstur um kvartanir og farið hafi verið fram á að hann skoðaði framkvæmd síns hundahalds. Viðbrögð hefðu borist frá eigandanum um umbætur vegna kvartana. Heilbrigðisnefnd hefði ekki talið ástæðu til frekari aðgerða varðandi kvörtunina í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og niðurstöðu vettvangsskoðunar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að auk skráðra hunda hennar séu þrír hundar í eigu barna hans oft gestkomandi á heimilinu. Hafi fjögur got átt sér stað á árunum 2012, 2013 og 2014, sem hafi gefið af sér alls 16 hvolpa. Hvolpar séu ekki skráningarskyldir fyrr en fjögurra mánaða gamlir en þá séu þeir jafnan fluttir á önnur heimili.

Niðurstaða: Kært er í máli þessu vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 27. október 2014 um að aðhafast ekki frekar vegna hundahalds að Furuvöllum, Hafnarfirði.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar segir í 1. gr. að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. segir að allir hundar sem haldnir eru á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir og í 2. gr. segir að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í umboði heilbrigðisnefndar sjái um skráningu og annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu. Samkvæmt 10. gr. samþykktarinnar er hundeiganda eða umráðamanni hunds skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri. Í 14. gr. er fjallað um valdsvið heilbrigðisnefndar og þvingunarúrræði. Þar segir að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds geti heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila, eða látið fjarlægja hundinn.
Heilbrigðisnefndir starfa skv. áðurnefndum lögum nr. 7/1998. Samkvæmt 13. gr. laganna ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar.

Ljóst er af gögnum málsins að grundvöllur kvartana kæranda vegna hundahalds var kannaður. Farið var á vettvang og rætt við leyfishafa, sem ræddi mögulegar úrbætur við starfsmann heilbrigðisnefndar. Í kjölfar þessa var ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu, enda væri ekki um starfsleyfisskylda starfsemi að ræða. Verður ekki annað séð en að sú niðurstaða hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum, málið verið rannsakað og meðalhófs gætt við afgreiðslu þess og málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson