Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2011 Austurbraut

Árið 2015, fimmtudaginn 30. apríl, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 74/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. september 2011, er barst nefndinni 3. október s.á. kærir H, Austurbraut 8, Reykjanesbæ, ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 14. september 2011 að gefa kærendum frest til 1. október s.á. til þess að fjarlægja hjólhýsi úr innkeyrslu fasteignar þeirra að Austurbraut 8. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar verði frestað þar til úrskurður gangi í málinu. 

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök:  Húsið að Austurbraut 8, Reykjanesbæ er tvíbýlishús og munu vera tvær innkeyrslur inn á lóð hússins, ein fyrir hvora íbúð. í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 14. september 2011, var upplýst að embættinu hefði borist erindi frá meðeiganda að lóðinni Austurbraut 8 þar sem kvartað væri yfir óþægindum sem stöfuðu af notkun kærenda á innkeyrslu að húsinu, þar sem m.a. væri geymt hjólhýsi.  Var kærendum góðfúslega bent á að fjarlægja hjólhýsið innan tiltekins frests þar sem ekki hafi verið veitt stöðuleyfi fyrir hjólhýsinu skv. gr. 71 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og ekki lægi fyrir samkomulag eigenda umræddrar lóðar um að geyma hjólhýsið í innkeyrslunni.

Kærendur vísa til þess að umrædd innkeyrsla tilheyri íbúð þeirra og sé samkvæmt eignaskiptasamningi sérafnotaflötur þeirra. Umrætt hjólhýsi sé lagt í innkeyrsluna þegar það sé ekki í notkun og af því stafi ekkert ónæði eða annað óhagræði gagnvart sameiganda lóðarinnar að Austurbraut 8. 71. gr. byggingarreglugerðar um stöðuleyfi taki aðeins til langvarandi stöðu hjólhýsa í notkun.  

Byggingaryfirvöld Reykjanesbæjar komu því á framfæri við úrskurðarnefndina í tölvupósti hinn 14. nóvember 2014 að ekki hafi komið til aðgerða af bæjarins hálfu í kjölfar bréfs byggingarfulltrúa dags. 14. september 2011. Umrætt hjólhýsi hafi fljótlega verið fært úr innkeyrslu að Austurbraut 8 og ekki sé ástæða til frekari afskipta embættis byggingarfulltrúa af málinu vegna breyttra forsendna.

Niðurstaða: Tilefni kærumáls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 14. september 2011. Í því bréfi er tilmælum beint til kærenda um að fjarlægja umdeilt hjólhýsi úr innkeyrslu að Austurbraut 8 í Reykjanesbæ innan tilgreinds frests en ekki eru þar tilkynntar ákvarðanir bæjaryfirvalda um þvingunarúrræði eða aðrar ráðstafanir til að knýja fram brottflutning hjólhýsisins.  

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 53. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 123/2010 sættu stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nema á annan veg væri mælt í lögum. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að einungis þær ákvarðanir sem binda endi á mál verði bornar undir æðra stjórnvald. Af orðalagi fyrrgreinds bréfs byggingarfulltrúa verður ekki ráðið að þar sé verið að birta kærendum einhliða ákvörðun stjórnvalds í skjóli stjórnsýsluvalds um skyldu til athafna heldur tilmæli eða áskorun um að fjalægja nefnt hjólhýsi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af fram komnum upplýsingum byggingarfulltrúa um framvindu málsins verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson