Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2009 Njálsgata

Árið 2014, miðvikudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. mars 2009 um að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir gerð sólpalls við einbýlishúsið að Njálsgötu 28 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2009, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Hvítsól ehf., eigandi fasteignarinnar að Frakkastíg 17, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. mars 2009 að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir gerð sólpalls við einbýlishúsið að Njálsgötu 28 í Reykjavík með því skilyrði að leyfishafi fjarlægi óleyfisgirðingu og girðingarstaura í lóðarmörkum og að frágangur á lóðarmörkum verði háður samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu hinn 2. apríl 2009.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 20. febrúar 2009 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að útbúa sólpall á lóð einbýlishússins að Njálsgötu 28 í samræmi við útlitsteikningu sem erindinu fylgdi.  Málinu var vísað til umsagnar skipulagsstjóra og á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. febrúar 2009 var bókað að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Í kjölfar þess var sótt um byggingarleyfi fyrir sólpallinum sem samþykkt var á fundi byggingarfulltrúa hinn 31. mars 2009 með svofelldri bókun:  „Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Skilyrt er að umsækjandi fjarlægi óleyfisgirðingu og girðingarstaura á lóðamörkum.  Frágangur á lóðamörkum er háður samþykki aðliggjandi lóðarhafa.“  Borgarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 2. apríl s.á., eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að umdeildum sólpalli með tilheyrandi girðingu sé komið fyrir í það mikilli hæð að skyggi á sól í garði kæranda sem liggi að lóð  byggingarleyfishafa.  Þar að auki hafi leyfishafi reist allt of háa tvöfalda girðingu á lóðamörkunum í óþökk kæranda, sem valdi skuggavarpi á lóð kæranda langt fram yfir hádegi.  Girðingin virki sem fangelsismúr umhverfis lóð hans en kærandi hafi stundað þar ræktun sér til ánægju og notið þar útivistar í mörg ár eða þar til nýbygging að Njálsgötu 28 hafi verið reist.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að hið kærða byggingarleyfi snúi einungis að gerð sólpalls á lóð Njálsgötu 28 og verði ekki séð hvernig hann raski möguleikum kæranda til að njóta sólar í garði sínum.  Deilur um hæðarsetningu palls og girðingar stafi af því að yfirborði beggja lóða hafi verið breytt og hafi yfirborð lóðar kæranda verið lækkað á um það bil 8 m kafla um 40-50 cm.  Að óbreyttu lóðaryfirborði hefði umræddur pallur ekki risið hærra en næmi grasflöt á lóð kæranda.

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti á fasteignum kæranda í húsinu að Frakkastíg 17 á árinu 2012.

Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem eiga við í máli þessu, er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Frakkastíg 17.  Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
  

_________________________________________
Ómar Stefánsson

_________________________________                   _________________________________
Ásgeir Magnússon                                                        Hildigunnur Haraldsdóttir