Árið 2013, miðvikudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 31/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps um álagningu sorphirðu- og rotþróargjalds fyrir árin 2012 og 2013 vegna fasteignarinnar Reykjaness, lóð 1, í Súðavíkurhreppi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2013, er barst nefndinni 20. s.m., kærir M, þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps að leggja sorphirðu- og rotþróargjald á fasteignina Reykjanes, lóð 1, fnr. 212-7416, Súðavíkurhreppi. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að álagningin verði felld úr gildi.
Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Súðavíkurhreppi 30. apríl 2013.
Málavextir: Álagningarseðill fasteignagjalda í Súðavíkurhreppi fyrir árið 2013 er dagsettur 15. febrúar 2013. Í bréfi sem fylgdi álagningarseðlinum kemur fram að kærufrestur álagningar sé til 20. mars 2013 en ekki er tiltekið hvert skuli kæra. Kæranda var gert að greiða 18.631 krónu í sorpgjald og 15.500 krónur í rotþróargjald vegna Reykjaness, lóðar 1, fnr. 212-7416. Fasteignin er sumarhús kæranda. Kærandi kveður enga þjónustu hafa verið veitta á móti gjöldunum og snýst málið um það hvort álagningin hafi verið heimil.
Málsrök kæranda: Fram kemur í kæru að sorpgjöld fyrir árin 2012 og 2013 hafi numið 18.631 krónu hvort ár, og rotþróargjöld 15.500 krónum á ári. Þjónusta af þessu tagi hafi þó ekki verið veitt. Enginn ruslagámur sé við Hveravík og rotþróin þar hafi aldrei verið hreinsuð af aðilum á vegum Súðavíkurhrepps. Kærandi hafi beðið hreppinn um skýringar á umræddum gjöldum en þær hafi ekki fengist. Vísað sé til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, um að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Þá sé vísað til samþykktar um fráveitur og notkun og hreinsun rotþróa í Súðavíkurhreppi.
Málsrök Súðavíkurhrepps: Af hálfu Súðavíkurhrepps er vísað til þess að samþykkt hafi verið á fundi sveitarstjórnar 23. nóvember 2011 að leggja rotþróargjald á allar fasteignir fyrir árið 2012 sem ekki séu tengdar frárennsliskerfi. Jafnframt hafi verið samþykkt gjaldskrá fyrir fráveitur í Súðavíkurhreppi.
Verkferlum við hreinsun rotþróa hafi verið breytt og áætlað að sumarið 2012 yrði gerð úttekt á aðgengi að rotþróm, sem og stærð og fjölda þeirra. Þær yrðu síðan hreinsaðar. Vorið 2012 hafi verið ákveðið að fresta því að hefja kerfisbundna tæmingu rotþróa í sveitarfélaginu til sumarsins 2013.
Miðað sé við að kerfisbundin hreinsun fari fram á tveggja ára fresti, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru. Álögð rotþróargjöld tveggja ára eigi að standa undir þeim kostnaði, auk kostnaðar vegna viðbótarútkalla við hreinsun stakra rotþróa. Skv. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sé heimilt að setja ákvæði um gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu í samþykktir.
Súðavíkurhreppur hafi greitt 26.165 krónur fyrir hverja hreinsaða rotþró á árinu 2013 þegar allar þrær hafi verið hreinsaðar, auk kostnaðar við gistingu og fæði verktaka. Gert hafi verið ráð fyrir að hreinsun tæki nokkra daga, en 72 af 75 rotþróm séu í dreifbýli.
Álögð rotþróargjöld og beinn kostnaður við hreinsun rotþróa sé sem hér segi:
Ár Álögð heildargjöld Heildarkostnaður við hreinsun
2012 1.162.500 kr. 905.619 kr.
2013 1.165.500 kr. 2.162.375 kr. áætlað
Fyrir árið 2013 hafi verið lagt á rotþróargjald í lægsta gjaldflokki, 15.500 krónur. Fyrirhugað sé að endurskoðun álagðra rotþróargjalda fari fram við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2014. Komi í ljós að kostnaður vegna hreinsunar hafi verið hærri en álögð gjöld sé gert ráð fyrir hækkun gjalda og að sama skapi sé gert ráð fyrir lækkun, sé kostnaður lægri en álögð gjöld.
Álagt gjald á sumarhús í dreifbýli vegna sorphirðu- og eyðingar hafi verið 18.631 króna á árinu 2013.
Álögð gjöld og beinn kostnaður við sorphirðu og eyðingu sorps vegna fyrirtækja, sumarhúsa og lögbýla í dreifbýli Súðavíkurhrepps sé sem hér segi:
Ár Álögð heildarsorpgjöld Heildarkostnaður við sorphreinsun
2011 2.022.246 kr. 2.202.241 kr.
2012 2.117.216 kr. 1.679.731 kr.
2013 2.244.207 kr. 2.200.000 kr. áætlað
Sumarið 2013 sé fyrirhugað að yfirfara sorpgáma í dreifbýli og lagfæra og mála þá sem þurfi.
Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að sorpgjald og rotþróargjald vegna fasteignarinnar Reykjanes, lóð 1, fnr. 212-7416, Súðavíkurhreppi, fyrir árin 2012 og 2013 verði felld úr gildi.
Álagningarseðill ársins 2012 er dagsettur 21. febrúar 2012. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana. Kærufrestur vegna álagðra gjalda á fasteign kæranda fyrir árið 2012 var því löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2013. Verður þeim þætti málsins vísað frá nefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga, en kæra álagningar fyrir árið 2013 verður tekin til efnislegrar meðferðar.
Í málinu er í fyrsta lagi deilt um álagningu sorpgjalds. Um sorphirðu gilda ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Í Súðavíkurhreppi hefur verið sett samþykkt nr. 816/2003 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Samþykktin var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 2003. Þá hefur hreppurinn sett gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorphirðingu í Súðavíkurhreppi nr. 1141/2011, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember 2011.
Í 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað sveitarfélagsins, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 11. gr. Í greinargerð með ákvæðinu segir að eðlilegt þyki að greitt sé mismunandi gjald eftir tegundum fasteigna. Þar sem umfang þjónustunnar sé eðli máls samkvæmt mismunandi sé ljóst að heildartekjur sveitarfélags á grundvelli gjaldsins megi ekki vera hærri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangsins.
Í samþykkt hreppsins segir að heimilt sé að ákveða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta eða þjónustustig og að gjöld skuli vera sem næst meðalraunkostnaði við þá þjónustu sem veitt sé, sbr. 2. mgr. 7. gr. Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustunnar, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í gjaldskrá segir að á hvert sumarhús í dreifbýli Súðavíkurhrepps skuli lagt gjald að fjárhæð 18.631 króna.
Heimilt er skv. framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 2. og 3. mgr. 7. gr. samþykktar sveitarfélagsins að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hans. Þá verður að telja að ekki hafi verið slíkur munur á heildarútgjöldum og heildartekjum vegna meðhöndlunar sorps að fari í bága við 3. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.
Í öðru lagi er deilt um álagningu rotþróargjalds. Losun og hirðing seyru úr rotþróm telst vera meðhöndlun úrgangs í skilningi laga um meðhöndlun úrgangs, en þau lög ganga sem yngri sérlög framar lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Samþykkt um fráveitur og notkun og hreinsun rotþróa í Súðavíkurhreppi nr. 813/2003 var sett á grundvelli 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og X. kafla vatnalaga nr. 15/1923. Samþykktin var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 2003. Gjaldskrá fyrir fráveitur í Súðavíkurhreppi nr. 1140/2011 var sett með vísan til X. kafla vatnalaga og 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember 2011.
Skv. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs skal sveitarfélag ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimils- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Þá ber sveitarstjórn ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs, en seyra úr rotþróm við sumarhús telst vera heimilisúrgangur í skilningi laga nr. 55/2003. Var sveitarfélaginu þannig heimilt og skylt að ákveða fyrirkomulag á hirðingu seyru úr rotþróm við fasteignir í sveitarfélaginu, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, en þar segir að sveitarfélög skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.
Samkvæmt 8. gr. samþykktar um fráveitur og notkun og hreinsun rotþróa í Súðavíkurhreppi skulu rotþrær tæmdar reglulega og ekki sjaldnar en annað hvort ár, en húseigandi skal sjá um að aðgangur sé greiður með hreinsitæki að rotþrónni. Í 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs segir m.a. að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og að heimilt sé að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við þjónustustig.
Um gjaldtöku segir í 9. gr. nefndrar samþykktar að hreppsnefnd sé heimilt að innheimta gjöld vegna hreinsunar rotþróa samkvæmt gjaldskrá. Gjöld megi ekki vera hærri en sem nemi röstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöldin skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti framangreindrar þjónustu. Í gjaldskrá segir að rotþróargjald skuli vera 15.500 krónur á ári fyrir rotþró sem er undir 4.000 lítrum, sbr. 4. gr., en heimilt er skv. 11. gr. samþykktarinnar að lækka gjaldið sé um að ræða einstaklinga með takmarkaða greiðslugetu.
Telja verður heimilt, skv. framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 9. gr. samþykktar sveitarfélagsins, að byggja gjöldin á eðlilegri áætlun heildarkostnaðar, sem jafnað er niður á ætlaðan fjölda notenda, en fyrir liggur að heildartekjur eru nálægt því að vera þær sömu og heildarútgjöld í málaflokknum, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.
Með vísan til þess sem hér er rakið teljast umdeild álögð gjöld vera lögum samkvæmt og verður kröfu um ógildingu álagningarinnar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps um að leggja sorphirðu- og rotþróargjald á fasteignina Reykjanes, lóð 1, fnr. 212-7416, Súðavíkurhreppi.
____________________________________
Ómar Stefánsson
_______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson