Árið 2013, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.
Fyrir var tekið mál nr. 127/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. Þ, Bergstaðastræti 54, í Reykjavík, þá ákvörðum byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.
Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun og útgáfa byggingarleyfis verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun yfirvofandi framkvæmda. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.
Umbeðin gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg hinn 14. maí 2013.
Málsatvik og rök: Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og mynda vinkil en standa hvort á sinni lóð. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að setja svalir á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar ásamt samþykki fyrir „áður gerðri stækkun íbúðar 2. hæðar um hluta af 3. hæð og fyrir stiga á milli 2. og 3. hæðar“ fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti. Ódagsett samþykki meðeigenda að Bergstaðastræti 56 fylgdi erindinu ásamt samþykki hluta eigenda að Bergstaðastræti 54. Leyfisumsóknin var grenndarkynnt fyrir íbúum Bergstaðastrætis 54, 53-55 og íbúum að Laufásvegi 49-51 og bárust nokkrar athugasemdir við áformaðar framkvæmdir. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulagsráði sem gerði ekki athugasemdir við að byggingarleyfi yrði veitt þegar teikningar hefðu verið lagfærðar og breytingar gerðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og umsögn skipulagsstjóra.
Málið var til umfjöllunar á fundum byggingarfulltrúa á árunum 2005, 2006 og 2011, en á afgreiðslufundi hans 28. ágúst 2012 var erindinu vísað að nýju til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 31. ágúst 2012 var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Bergstaðastræti 54, Laufásvegi 49-51 og 53-55. Í kjölfar grenndarkynningarinnar var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 24. október 2012 þar sem fyrir lágu fram komar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og umsögn skipulagsstjóra, dags. 11. október 2012. Skipulagsráð bókaði að ekki væru gerðar athugasemdir við erindið og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti byggingaráformin á fundi sínum hinn 30. október 2012. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 1. nóvember s.á.
Kærandi vísar til þess að með tilkomu svala þeirra sem hin kærða ákvörðun heimili verði friðhelgi einkalífs og heimilis hennar raskað með óásættanlegum hætti og verðmæti fasteignar hennar að Bergstaðastræti 54 skert. Svalirnar muni skerða útsýni úr stofu kæranda mót suðri og bein sjónlína verði frá þeim í vistarverur hennar. Á skorti að lögboðið samþykki eigenda húseignanna að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi legið fyrir. Þá eigi umdeildar framkvæmdir ekki stoð í skipulagi og reglna nábýlis- og grenndarréttar hafi ekki verið gætt.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að meðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið í samræmi við lög og reglur. Ekkert deilskipulag sé til fyrir umrædda lóð og hafi umsóknin því verið grenndarkynnt í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda með því að stytta fyrirhugaðar svalir miðað við upprunaleg áform. Húsin á lóðunum nr. 54 og 56 standi hvort á sinni lóð og séu ekki eitt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaga. Eigi reglur þeirra laga um samþykki meðeigenda því ekki við í máli þessu. Rétt sé að taka fram að kærandi sé sjálf með svipaðar svalir og hér um ræði á 2. hæð hússins nr. 54 við Bergstaðastræti og því megi ætla að flest þau rök sem hún tefli fram gegn umþrættum svölum eigi við um hennar svalir. Jafnræðis að þessu leyti hafi verið gætt við umdeilda leyfisveitingu. Engin rök séu til þess að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og víkja með því frá meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
Byggingarleyfishafi andmælir kröfum kæranda og bendir á að um sé að ræða þéttbýlasta svæði borgarinnar og sé nánd milli fasteigna því mikil. Kæranda ætti að vera þetta ljóst og taka verði mið af þessum aðstæðum við mat á grenndarsjónarmiðum. Ekki sé fallist á að umdeildar svalir muni rýra verðgildi fasteignar kæranda heldur megi færa rök fyrir því að endurbætur á húsinu að Bergstaðastræti 56 muni virka á hinn veginn. Umdeildar svalir hafi m.a. þann tilgang að uppfylla kröfur um flóttaleiðir vegna bruna og verið sé að færa gamalt hús að nútímakröfum.
Niðurstaða: Í málinu er einungis deilt um leyfi fyrir svölum á húsinu að Bergstaðastræti 56 en ekki um þær breytingar innanhúss sem í hinu kærða byggingarleyfi felast.
Samkvæmt samþykktum teikningum verða umræddar svalir reistar úr stálvirki sem eru boltaðar við útvegg. Er því um að ræða afturkræfa framkvæmd sem auðvelt væri að fjarlægja bæri nauðsyn til þess. Með hliðsjón af því verður ekki talið að hagsmunir kæranda knýi á um að framkvæmdirnar verði stöðvaðar en þær eru á áhættu leyfishafa á meðan mál þetta er óútkljáð fyrir úrskurðarnefndinni.
Verður kröfu um stöðvun framkvæmda af þessum ástæðum hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu um stöðvun framkvæmda við Bergstaðastræti 56 í Reykjavík samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.
__________________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Hildigunnur Haraldsdóttir