Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2012 Grundarstígur

Árið 2013, fimmtudaginn 24. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 84/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2012 að veita leyfi til að byggja við kjallara hússins að Grundarstíg 10, Reykjavík, sal úr steinsteypu með steyptri loftplötu og torfi á þaki, steypa vegg á lóðamörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta notkun einbýlishúsalóðar í lóð fyrir blandaða atvinnustarfsemi. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 10. september 2012.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 var samþykkt umsókn um hið kærða byggingarleyfi en áður hafði verið fjallað um umsóknina á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. s.m.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 26. s.m. og byggingarleyfi gefið út af byggingarfulltrúa 14. mars s.á. 

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar byggingarleyfisins á þeim forsendum að breytingarnar brjóti í bága við 4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar og þróunaráætlun miðborgarinnar. Framkvæmdirnar styðjist við deiliskipulag sem kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í lok árs 2011 með kröfu um ógildingu skipulagsins. Sem eigandi helmingshluta í húseigninni nr. 9 við Grundarstíg eigi kærandi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.  Augljóst sé að breytingarnar sem heimilaðar séu í byggingarleyfinu séu gerðar til að skapa aðstöðu fyrir tónleikahald og veitingarekstur inni í miðju íbúðarhverfi. 

Kærandi tekur fram að kæran sé svo seint fram komin af þeim sökum að byggingarleyfi séu ekki auglýst og því sé torsótt að fylgjast með hvenær slík leyfi séu veitt.  Þá hafi úrskurðarnefndin í svari sínu, dags. 16. janúar 2012, við fyrirspurn um móttöku kæru vegna deiliskipulags frá 12. desember 2011, er taki til umræddrar lóðar, upplýst að úrlausnar væri að vænta eftir sex mánuði og vildi kærandi því ekki flækja málið óþarflega með því að kæra væntanlegt byggingarleyfi að nauðsynjalausu.  Auk þess hafi eftirgrennslan kæranda um kæru deiliskipulagsins með tölvupóstum, dags. 7. júlí, 13. ágúst og 15. ágúst 2012 ekki borið árangur.  Ekki hafi orðið ljóst fyrr en með símtali við starfsmann nefndarinnar 28. ágúst 2012 að ekki væri von á úrskurði vegna kæru deiliskipulagsins á næstunni.  Kærandi búi erlendis og hafi því ekki átt kost á því að fylgjast með framkvæmdum að Grundarstíg 10 undanfarið hálft ár. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé allt of seint fram komin.  Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út hinn 14. mars 2012 og framkvæmdir hafist fljótlega, en úttekt á botni fyrir sökkul hafi farið fram 30. apríl 2012.  Hafi fjölmargar úttektir verið gerðar á byggingunni síðan.  Telja verði því að kæranda hafi fyrir löngu mátt vera kunnugt um framkvæmdirnar.  Breyti engu í því sambandi þó kærandi sé búsettur erlendis, mönnum sé alla jafna í lófa lagið að fylgjast með framkvæmdum með einum eða öðrum hætti þrátt fyrir búsetu annars staðar.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 og byggingarleyfið var gefið út 14. mars s.á.  Í máli þessu liggur fyrir úrtak úr færslubók þar sem fram kemur að úttekt fór fram 30. apríl s.á. á botnplötu viðbyggingar.  Verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákörðun frá þeim tíma.  Kæra barst úrskurðarnefndinni um fjórum mánuðum eftir greint tímamark eða 3. september 2012 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Ekki þykja efni til að taka kærumál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti.  Fyrrgreind undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimila að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, ber að túlka þröngt og verða þau ekki talin eiga við um persónulegar ástæður á borð við ferðir eða dvöl aðila fjarri eigin fasteign.  Ber því að vísa  máli þessu frá úrskurðarnefndinni skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson