Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2012 Túnsberg

Árið 2012, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 29. nóvember 2011 um að hafna umsókn kæranda um niðurfellingu sorpgjalds fyrir árið 2011 vegna eldra íbúðarhúss, fastanúmer 216-0435 að Túnsbergi í Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2012, er barst nefndinni 12. s.m., framsendi innanríkisráðuneytið þann þátt stjórnsýslukæru S, Grund, Akureyri, dags. 20. mars s.á., er laut að synjun Svalbarðsstrandarhrepps á umsókn hans um niðurfellingu álagðs sorpgjalds fyrir árið 2011 vegna eldra íbúðarhúss að Túnsbergi.  Gerir kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í máli þessu frá Svalbarðsstrandarhreppi hinn 29. maí 2012 og viðbótargögn hinn 30. ágúst s.á. 

Málsatvik:  Kærandi mun vera eigandi fasteigna að Túnsbergi í Svalbarðsstrandarhreppi.  Var honum gert að greiða sorpgjald samkvæmt álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2011 vegna svonefnds eldra húss að Túnsbergi.

Með bréfi til sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 7. nóvember 2011, fór kærandi fram á niðurfellingu fasteignaskatta vegna jarðarinnar Túnsbergs fyrir árin 2008-2012 auk niðurfellingar álagðs sorpgjalds af eldra íbúðarhúsi, sem á jörðinni stendur, vegna ársins 2011 og áfram.  Erindið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 29. s.m. og því synjað.  Var kæranda tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 27. desember s.á.  Kærandi skaut þeirri ákvörðun til innanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 20. mars 2012, og framsendi ráðuneytið þann þátt kærunnar er laut að sorpgjaldinu til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að ekki sé búið að staðaldri í eldra íbúðarhúsinu að Túnsbergi og komi þaðan afskaplega lítið sorp.  Sé sorpinu skilað í sorpgám á Svalbarðseyri og nýti kærandi sér því ekki þá þjónustu sveitarfélagsins að hirða sorp frá húsinu. Það hafi hann ekki gert sl. 14 ár.  

Málsrök Svalbarðsstrandahrepps:  Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps tekur fram að ekki verði séð að gjaldskrá sveitarfélagsins gefi heimild til lækkunar eða niðurfellingar á sorpgjaldi þegar svo hátti til sem í tilviki kæranda.  Sorpgjaldið sé lagt á hverja íbúðareiningu samkvæmt skráningu í fasteignaskrá en sé ekki miðað við magn sorps frá hverju húsi eða hvernig nýtingu húsnæðis sé háttað.  Samningur sveitarfélagsins við verktaka um sorphirðuna sé miðaður við fjölda íbúða og inna þurfi verktakagreiðslur af hendi án tillits til þess hvort þjónustan sé nýtt eða ekki.  Á umræddri jörð séu tvö íbúðarhús og sorpgjald lagt á í samræmi við það.  Losun kæranda á heimilissorpi í gáma valdi sveitarfélaginu auknum kostnaði og fari gegn gildandi reglum um flokkun þess.  Hafi kærandi notið afsláttar af gjaldinu árið 2011 í samræmi við heimild gjaldskrárinnar um afslátt af gjaldi til elli- og örorkulífeyrisþega. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, en undir meðhöndlun fellur m.a. söfnun úrgangs skv. 3. gr. sömu laga.  Í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis segir að sveitarfélögum sé heimilt að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafi á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila.  Einnig er sveitarfélögum veitt heimild til að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.  Skal sveitarfélag láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda skv. 4. mgr. 11. gr. sömu laga. 

Fyrir liggur gjaldskrá nr. 67/2011 um sorphirðu og förgun úrgangs í Svalbarðsstrandarhreppi, er birt var í B- deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2011 og gilti fyrir það ár.  Samkvæmt gjaldskránni skal lagt sorpgjald á hverja íbúð en skv. 3. gr. gjaldskrárinnar er heimilt að veita 50% afslátt til elli- og örorkulífeyrisþega vegna íbúða.  Fyrir liggur að kæranda hefur verið boðinn þessi afsláttur en ekki er heimild í gjaldskrá til að veita afslátt af sorpgjaldi, eða fella það niður, á öðrum grundvelli en að framan greinir.  Var sveitarstjórn því rétt að synja kæranda um niðurfellingu álagðs sorpgjalds og verður kröfu hans um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað. 

Uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Svalbarðsstrandarhrepps frá 19. nóvember 2011 um að synja beiðni um niðurfellingu álagðs sorpgjalds vegna ársins 2011 á eldra íbúðarhús að Túnsbergi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson