Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

95/2011 Útey II

Árið 2012, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2011, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 6. janúar 2011 um deiliskipulag lóðar fyrir fjarskiptamannvirki í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. nóvember 2011, er barst nefndinni hinn 24. s.m., kæra S og M, eigendur lóða nr. 2 og 4 í landi Úteyjar I, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 6. janúar 2011 að samþykkja deiliskipulag lóðar fyrir fjarskiptahús og fjarskiptamastur í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 28. október 2011.  Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar deiliskipulagsins.  Þá krefjast kærendur þess að undanþága frá ákvæðum skipulags reglugerðar nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkja frá vegi, sem umhverfisráðherra veitti hinn 22. ágúst 2011, verði einnig felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 23. september 2010 var á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi lóðar fyrir fjarskiptamannvirki í landi Úteyjar II.  Fól tillagan í sér að afmörkuð yrði 15 m² lóð í landi Úteyjar II og þar heimilað að reisa fjarskiptahús og allt að 24 m hátt fjarskiptamastur.  Samþykkti byggðaráð Bláskógabyggðar fundargerð nefndarinnar á fundi sínum hinn 7. október s.á.  Sveitarstjórn samþykkti síðan fundargerð þess fundar byggðaráðs hinn 11. s.m.  Bárust athugasemdir við framlagða tillögu þar sem m.a. var á það bent að framkvæmdin félli undir tilskipun Evrópuráðsins frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kynnu að hafa á umhverfið.

Að loknum kynningartíma var tillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps hinn 17. desember s.á. og afgreidd með eftirfarandi bókun:  „Lögð fram að lokinni kynningu tillaga að deiliskipulagi lóðar fyrir fjarskiptamastur í landi Úteyjar II, á svæði sunnan þjóðvegar nr. 364 á móts við aðkomuvegi að frístundabyggð úr landi Úteyjar I.  Tillagan var auglýst til kynningar 14. október sl. með athugasemdafresti til 26. nóvember. Á kynningartíma barst athugasemdabréf, dags. 10. nóvember, með undirskrift 60-70 eigenda frístundahúsa í landi Úteyjar I.  Þá liggur einnig fyrir sameiginleg yfirlýsing norrænna geislavarnastofnana frá 16. nóvember 2009 og bréf frá framkvæmdaraðila NOVA. Með vísun í upplýsingar sem fram koma í bréfi frá framkvæmdaraðila og yfirlýsingu geislavarnastofnana á norðurlöndum er deiliskipulagið samþykkt skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum.“  Samþykkti byggðaráð fundargerð nefndarinnar á fundi sínum hinn 30. desember 2010.  Hinn 6. janúar 2011 samþykkti sveitarstjórn fundargerð framangreinds fundar byggðaráðs.

Í framhaldi af því var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu.  Gerði stofnunin athugasemd við að skipulagið yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þar sem m.a. fyrirhuguð staðsetning masturs samræmdist ekki ákvæðum gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er varðar fjarlægð mannvirkja frá þjóðvegi.  Var skipulagsfulltrúa falið, á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. febrúar 2011, að fara þess á leit við umhverfisráðuneytið að veitt yrði undanþága frá umræddu reglugerðarákvæði í samræmi við heimild 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar um.  Með bréfi umhverfisráðuneytisins, dags. 22. ágúst 2011, var fallist á að veita undanþáguna, en leitað hafði verið umsagnar Skipulagsstofnunar og Vegagerðarinnar um erindið.  Var skipulagið að því búnu sent Skipulagsstofnun að nýju, sem gerði nú ekki athugasemd við birtingu þess að því tilskildu að gögn yrðu lagfærð.  Voru ný gögn send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 28. september 2011, og auglýsing um skipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. október s.á.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. nóvember s.á., svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að hvorki hafi verið leitað álits hjá lóðareigendum aðlægrar sumarhúsabyggðar í landi Úteyjar I áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt né þegar veitt hafi verið undanþága frá gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þá má af gögnum málsins ráða að kærendur telji að fjarskiptamastrið sé staðsett of nálægt sumarhúsabyggð.  Rafsegulgeislar frá því geti haft heilsuspillandi áhrif, það valdi sjónmengun og um verulega breytingu á umhverfinu sé að ræða.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu skipulagsyfirvalda Bláskógabyggðar er bent á að ekki hafi verið óskað eftir undanþágu á gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð í upphafi ferilsins þar sem ekki hafi verið talin nauðsyn á undanþágu, en ekki sé um hefðbundið mannvirki (hús) að ræða.  Að öðru leyti er í greinargerð sveitarfélagsins rakið hvernig meðferð málsins var háttað og vísað til málsgagna þar um.

Málsrök framkvæmdaraðila:  Sjónarmið framkvæmdaraðila liggja fyrir í málsgögnum.  Bendir hann á að nauðsynlegt sé að koma upp fjarskiptamastri á umræddu svæði til að tryggja góða þjónustu.  Ekki hafi fengist staðfest nein atvik sem bendi til þess að hætta geti stafað af farsímamöstrum.  Sendistyrkur frá slíkum loftnetum sé 20W að hámarki og minnki styrkur eftir því sem fjær dragi.  Fjarlægð frá umræddu mastri að næsta húsi sé margfalt meiri en almennt gerist í þéttbýli.  Einnig sé umgjörð í kringum fjarskiptamannvirkin eins lítil og unnt sé og framkvæmdin afturkræf.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 16. júlí 2012.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð, en með hinu samþykkta skipulagi var heimilað að reisa fjarskiptahús og fjarskiptamastur á 15 m² lóð í um 200 m fjarlægð frá mörkum frístundabyggðar þar sem kærendur eiga tvær lóðir.  Þá er krafist ógildingar á undanþágu er umhverfisráðherra veitti frá reglum um fjarlægð mannvirkja frá vegi.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála endurskoðar ekki lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfisráðherra að veita undanþágu frá grein 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, enda fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um ákvarðanir sem umhverfisráðherra tekur á grundvelli skipulagslaga eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.  Verður kröfu kærenda er undanþáguna varðar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 er umrædd lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði.  Samkvæmt gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð skal á landbúnaðarsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri.  Er jafnframt kveðið á um í 2. tl. gr. 4.14.2 sömu reglugerðar að í deiliskipulagi landbúnaðarsvæða skuli gera grein fyrir byggingarreitum fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði, vatnsveitu, fráveitu, byggingarmagni, aðkomu og öðru hliðstæðu.  Telja verður að fjarskiptamastur geti fallið þar undir og er hið kærða deiliskipulag því ekki í andstöðu við gildandi aðalskipulag hvað landnotkun varðar.

Heimilt er samkvæmt deiliskipulaginu að reisa á lóðinni fjarskiptahús allt að 2,5×3 m að grunnfleti og er mesta leyfileg hæð þess 2,4 m.  Jafnframt er heimilt að reisa mastur úr stáli, allt að 18 m hátt, og ofan á það allt að 1,5 m hátt loftnet.  Einnig er gert ráð fyrir því í skipulaginu að gróðri verði plantað umhverfis húsið.  Þá kemur fram í fyrirliggjandi gögnum að mastrið sé svokallaður prjónn eða ljósamastur og að allir kaplar verði inni í mastrinu.

Umrædd fjarskiptamannvirki eru í töluverðri fjarlægð frá lóðum kærenda.  Þó svo að sjónræn áhrif vegna þeirra séu nokkur verður að telja að umfang þeirra og umgjörð sé innan þeirra marka sem eigendur fasteigna í nágrenninu þurfi að sæta.  Þá liggur fyrir álit frá norrænu geislavarnarstofnununum frá árinu 2009 þar sem m.a. kemur fram að geislun frá búnaði eins og þeim sem hér um ræði sé langt undir viðmiðunarmörkum og að ekki liggi fyrir vísindalegar sannanir um heilsutjón vegna útvarpsgeislunar í umhverfinu við venjulegar aðstæður.  Verður því ekki fallist á að mannvirkin hafi slík áhrif í umhverfinu að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga í málinu, var kveðið á um það að þegar frestur til athugasemda við tillögu að deiliskipulagi væri liðinn skyldi sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar.  Í þeirri umfjöllun skyldi taka afstöðu til athugasemda sem borist hefðu og þess hvort gera skyldi breytingar á tillögunni.  Þá sagði enn fremur að ef engar athugasemdir væru gerðar við tillöguna væri ekki skylt að taka hana til annarrar umræðu í sveitarstjórn heldur skyldi senda hana Skipulagsstofnun skv. 3. mgr.

Fyrir liggur í máli þessu að sveitarstjórn tók hina umdeildu tillögu ekki til umfjöllunar á nýjan leik, þrátt fyrir að athugasemdir hefðu borist.  Þess í stað var látið við það sitja að samþykkja í byggðaráði fundargerð skipulags og byggingarnefndar þar sem bókuð hafði verið samþykkt nefndarinnar um tillöguna meðal fjölda annarra dagskrárliða.  Var fundargerð byggðaráðs síðan samþykkt í sveitarstjórn en hvorki var tekin efnisleg afstaða í sveitarstjórn til tillögunnar né fram kominna athugasemda.  Samræmdist þessi málsmeðferð ekki 25. gr. þágildandi skipulags og byggingarlaga, en engin samþykkt var í gildi um skipulags og byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps sem hefði getað fært nefndinni vald til fullnaðarafgreiðslu mála.

Samkvæmt framansögðu skortir á að hin kærða skipulagsákvörðun hafi hlotið lögboðna samþykkt sveitarstjórnar og að sveitarstjórn hafi tekið afstöðu til fram kominna athugasemda, svo sem henni var skylt.  Leiða þessir annmarkar til þess að fella verður hina kærðu deiliskipulagsákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á undanþágu umhverfisráðherra í máli þessu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkja frá vegi er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samþykkt Bláskógabyggðar um deiliskipulag 15 m² lóðar fyrir fjarskiptamannvirki í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð er felld úr gildi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson