Árið 2012, miðvikudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 13/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. ágúst 2010 um að veita leyfi fyrir áður gerðri stækkun á neðri hæð sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2011, sem barst nefndinni sama dag, kærir J, eigandi fasteignarinnar að Fannafold 65 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans að veita leyfi fyrir áður gerðri stækkun á neðri hæð sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold í Reykjavík.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta að álitum vegna tjóns sem kærandi hafi orðið fyrir auk málskostnaðar samkvæmt reikningi eða mati úrskurðarnefndarinnar.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. júlí 2010 var tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur á neðri hæð sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold. Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og vísaði því til umsagnar skipulagsstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 16. s.m. var málið tekið fyrir og bókað að ekki væru gerðar athugasemdir við að skilmálum fyrir lóðina yrði breytt svo hægt væri að heimila nýtingu á kjallararýmum. Var jafnframt bókað að tillagan yrði grenndarkynnt bærist hún.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 20. júlí 2010 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðri stækkun á kjallara sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur á neðri hæð (kjallara) sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold. Þar kom fram að samþykkt stærð var 291,6 fermetrar en stækkun væri 58,9 fermetrar og samtals því 350,5 fermetrar. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 23. s.m. var málið tekið fyrir á ný og þá lagt fram minnisblað skipulags- og byggingarsviðs, dags. 21. júlí 2010 og svofelld bókun gerð: „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagstjóra dags. 16. júlí 2010. Rétt bókun er: Ekki eru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið, samræmist deiliskipulagi.“ Umsóknin var loks samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. ágúst 2010 en það gert að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að eignaskiptayfirlýsingu yrði þinglýs vegan breytinga á húsinu.
Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 12. ágúst 2010. Byggingarleyfi fyrir breytingum að Fannafold 63 var síðan gefið út hinn 29. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 13. janúar 2011, fékk kærandi yfirlit yfir umfjallanir skipulags- og byggingarsviðs um afgreiðslu málsins.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ekkert samráð hafi verið haft við kæranda vegna umdeildra breytinga en hann hafi orðið þess fyrst var í desember 2010 að framkvæmdir hafi verið hafnar á húsinu að Fannafold 63. Í ágúst 2010 hafi eigandi hússins að nefndrar fasteignar óskað eftir samþykki kæranda á teikningu með breytingum að húsinu en hann hafi hafnað því. Telja verði að grenndarkynna hafi átt fyrirhugaðar breytingar, eins og fram hafi komið á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 16. júlí 2010 og kveðið sé á um í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 enda samræmist þær ekki deiliskipulagi svæðisins. Þá þyki kæranda eðlilegt að honum hafi verið gefinn andmælaréttur við meðferð málsins. Hin kærða leyfisveiting fari því í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlög auk þess sem andmælaréttur samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hafi ekki verið virtur.
Ljóst sé að umræddar breytingar muni valda kæranda mikilli röskun auk umtalsverðs tjóns. Breytingarnar muni koma til með að rýra söluverðmæti fasteignar hans að Fannafold 65 vegna aukins ónæðis. Með breytingunum sé og gengið á friðhelgi einkalífs hans og framkvæmdirnar hafi orðið til þess að gróður á lóð hans hafi eyðilagst.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í málinu verði hafnað og að úrskurðarnefndin staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa í máli þessu. Reykjavíkurborg telji að byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að samþykkja hina umþrættu byggingarleyfisumsókn í máli þessu. Í minnisblaði skipulags- og byggingarsviðs, dags. 21. júlí 2010, hafi komið fram að bókun skipulagsstjóra á afgreiðslufundi hinn 16. s.m. hafi verið byggð á röngum upplýsingum, þ.e. að talið hafi verið að umrædd lóð væri innan deiliskipulags „Foldahverfi neðri hluti; Íbúðarhús norðan Grafarvogs – Suðurhluti 1. áfangi, sem samþykkt var í skipulagsnefnd 19.11.1984, endurskoðaður 1988.“ Rétt sé að lóðin væri innan deiliskipulags Foldahverfis efri hluta „Íbúðarhús norðan Grafarvogs – norðurhluti 3.-6. áfangi“, sem samþykkt var í borgarráði þann 3.12.1984. Í skilmálum þess síðarnefnda sé að finna ákvæði um einbýlishús, raðhús og fjölbýlishús. Í kafla 1.1.11 Raðhús segir: „Innan byggingarreits er heimilt að reisa raðhús á 1 ½ -2 hæðum. Bílgeymslur skulu vera innbyggðar. Mesta leyfilegt gólfflatarmál hverrar raðhúsaíbúðar er 200 m2 brúttó.“
Í minnisblaði skipulags- og byggingarsviðs segir ennfremur: „Embætti byggingarfulltrúa samþykkti parhús á lóð Fannafoldar 63, 14. febrúar 1985 og ekki hafa verið samþykktar neinar breytingar á þessum eignum frá þeim tíma. Nú er sótt um að fá samþykkt rými, sem á fyrri samþykktum byggingarfulltrúa voru sögð óútgrafin. Tvær íbúðir eru í húsinu og samkvæmt eldri upplýsingum FSÍ eru stærðir þeirra: íbúð merkt 0201 205,7 fermetrar og íbúð merkt 0202 154,8 fermetrar. Með byggingarleyfisumsókn sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júlí s.l. fylgir skráningartafla, yfirfarin og samþykkt 19. júlí 2010. Þar kemur fram að birt flatarmál íbúðar 0101 með bílgeymslu er 199,8 fermetrar og íbúðar merkt 0102 með bílgeymslu er 150,7 fermetrar. Samanlagður brúttóbotnflötur þessara eigna er alls 350,5 fermetrar. Sú viðbót sem nú er sótt um samþykkt fyrir er því innan þeirra marka sem skilmálar fyrir „Íbúðarhús norðan Grafarvogs – norðurhluti 3.-6. áfangi“ heimila.“ Ljóst sé samkvæmt framansögðu að byggingarleyfisumsóknin hafi samræmst deiliskipulagi og því hafi ekki þurft að grenndarkynna hana.
Hvað varði bótakröfu kæranda skuli á það bent að það sé ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að kveða á um bótaskyldu og sé nefndinni óheimilt að taka afstöðu til slíkra krafna. Sama gildi að þessu leyti um málskostnaðarkröfu kæranda. Skuli henni einnig vísað á bug. Skuli þó sérstaklega á það bent að kröfur kæranda að þessu leyti séu með öllu órökstuddar og ósannaðar.
————————————
Eiganda Fannafoldar 63 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum.
Niðurstaða: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Foldahverfis efri hluta „Íbúðarhús norðan Grafarvogs – norðurhluti 3.-6. áfangi“ sem samþykkt var í borgarráði 3. desember 1984. Samkvæmt skipulaginu er lóðin nr. 63 við Fannafold á reit þar sem heimilt er að reisa einbýlishús af gerinni E-1, E-2 eða E-3 en nánar ræðst gerð húss af aðstæðum á hverri lóð fyrir sig. Er mesta leyfilegt gólflatarmál húsa af þessari gerð 300 m² brúttó.
Fyrir liggur að á umræddri lóð var á sínum tíma reist parhús með tveimur aðskildum íbúðum. Fór sú bygging í bága við skilmála deilskipulags hvað húsagerð varðaði en heildarflatarmál hennar var innan við 300 m² samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum.
Við byggingu hússins var lokuðu rými, samtals 58,9 m² að stærð, breytt í opið rými og mun það hafa verið nýtt sem geymslur. Er með hinni kærðu ákvörðun verið að samþykkja umrætt rúmi og heimila að setja á það glugga og nýta sem íbúðarrými.
Með þeirri viðbót sem samþykkt var með hinni kærðu ákvörðun er brúttóflatarmál hússins að Fannafold 63 sagt vera alls 350,5 sem er verulega umfram heimildir skipulags, enda verður ekki fallist á að skilmálar um raðhúsalóðir geti átt við um lóðina þó á henni hafi verið reist parhús, andstætt heimildum skipulags. Er ekki gert ráð fyrir parhúsum á umræddu svæði í skipulagi og lóðir fyrir raðhús eru sérstaklega merktar á skipulagsuppdrætti og þær eru með allt öðru sniði og á öðrum stað en lóð sú sem hér um ræðir.
Af framansögðu leiðir að kærandi mátti ekki vænta þess að heimiluð yrði nýting umrædds rýmis og gerð glugga á gafl hússins að Fannarfold 63, enda fór sú samþykkt í bág við gildandi deiliskipulag eins og að fram er lýst. Verður því fallist á kröfu hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kærenda um málskostnað því ekki til álita. Um rétt til skaðabóta vegna verðrýrnunar skv. 33. gr. þágildandi skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 fjallar úrskurðarnefndin ekki.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. ágúst 2010 um að veita leyfi fyrir áður gerðri stækkun á neðri hæð sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold í Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson