Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2012 Langamýri

Árið 2012, miðvikudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 um að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. íbúa að Löngumýri 2-12 og 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 14. mars 2012 var þeirri kröfu hafnað. 

Málsatvik og rök:  Hinn 3. janúar 2012 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn eiganda hússins að Löngumýri 14 um leyfi til breytinga á innra skipulagi þess.  Útgáfa byggingarleyfisins var staðfest með samþykkt bæjarráðs hinn 6. mars 2012 og loks á fundi bæjarstjórnar hinn 15. s.m. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekkert gilt deiliskipulag sé til af svæðinu og því hafi borið að grenndarkynna framkvæmdirnar.  Með hinu kærða leyfi sé í raun verið að heimila fjölgun íbúða í umræddu húsi sem telja verði óheimilt að óbreyttu skipulagi. 

Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi vegna framkvæmda við Löngumýri 14 verði úrskurðað lögmætt.  Í umsókn um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafi komið fram að verið væri að sækja um leyfi til að breyta innra skipulagi í viðkomandi eign og hafi sérstaklega verið tekið fram í umsókninni að ekki hafið verið að sækja um skiptingu eignarinnar.  Samkvæmt uppdráttum sé augljóst að verið sé að gera innanhússbreytingar á viðkomandi húsi og að alls ekki sé verið að sækja um leyfi til að breyta ytra byrði eða útliti þess á nokkurn hátt.  Í umsókninni hafi verið sótt um leyfi fyrir færslu lagna á jarðhæð í þvottahúsi og þá sýni uppdrættir nýtt hurðarop á jarðhæð, færslu raflagna á 1. og 2. hæð, færslu vatnslagna á 1. hæð vegna stækkunar á baðherbergi, færslu vatnslagna á 2. hæð, aðallega vegna nýs eldhúss, og breytingar á burðarvirki á 2. hæð þar sem burðarveggur sé fjarlægður við gerð nýs hurðarops fyrir baðherbergi.  Eiganda húsnæðisins sé frjálst að ákveða með hvaða hætti hann hagi innra skipulagi fasteignar sinnar að uppfylltum ákvæðum byggingarreglugerðar um kröfur til íbúðarhúsnæðis.  Kærendur geti varla talist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.  Hið kærða leyfi snúi eingöngu að breytingum innanhúss.  Þær séu ósýnilegar kærendum og geti því ekki á nokkurn hátt raskað hagsmunum þeirra. 

Af hálfu bæjaryfirvalda sé einnig á það bent að samkvæmt skipulagsuppdráttum frá 1975 og 1980 sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð í Hofstaðamýri.  Í samþykktu deiliskipulagi frá árinu 1981 sé þeirri byggð nánar lýst og verði að telja að deiliskipulagið ásamt uppdráttum fullnægi í einu og öllu þeim kröfum sem á sínum tíma hafi verið gerðar til skipulagsuppdrátta skv. 11. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.  Við mat á gildi deiliskipulags og uppdrátta verði því að horfa til framkvæmdar í skipulagsmálum.  Óyggjandi sé að ávallt hafi verið gengið út frá því af hálfu húsbyggjenda, og einnig bæjaryfirvalda og annarra skipulagsyfirvalda, að um útgáfu byggingarleyfa vegna framkvæmda við húsbyggingar í Hofstaðamýri færi samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið fyrir svæðið á árinu 1981 og þeim breytingum sem gerðar hafi verið á því síðar.  Í þessu sambandi megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 17. apríl 2008, í máli nr. 444/2007, en þar komi fram það sjónarmið að þegar skipulag sem sannanlega hafi verið samþykkt í sveitarstjórn hafi verið lagt til grundvallar í áratugi verði að telja að það sé í fullu gildi þrátt fyrir minni háttar ágalla að formi til, nema hægt sé að sanna hið gagnstæða.  Deiliskipulag fyrir Hofstaðamýri frá árinu 1981 sé því gildandi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og fari hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við það. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá.  Ekki felist í hinni kærðu ákvörðun skipting fasteignar eins og kærendur haldi fram.  Leyfið varði breytingar á innra fyrirkomulagi, sem í engu snerti hagsmuni nágranna. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ hinn 27. mars 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ.  Er um að ræða breytingar á herbergjaskipan og lögnum í húsinu.  Engar breytingar eru gerðar á ytra byrði hússins og ekki er í leyfinu veitt heimild til fjölgunar íbúða. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstakingbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur aðeins í sér leyfi til breytinga innanhúss og verður ekki talin raska grenndarhagsmunum kærenda eða öðrum lögvörðum hagsmunum þeirra sem veiti þeim kæruaðild í máli þessu.  Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í málinu og stafar hann af önnum hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson