Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2010 Lambhóll

Árið 2012, miðvikudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. febrúar 2010 um að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs við húsið Lambhól við Þormóðsstaðaveg í Reykjavík og innrétta sem tómstundaherbergi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar og bílskúrs að Lambhóli við Þormóðsstaðaveg (Starhaga) í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs og innrétta sem tómstundaherbergi. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarfulltrúa verði gert að samþykkja umbeðna breytingu.

Málavextir:  Bílskúr sá er um ræðir stendur á ódeiliskipulögðu svæði við Þormóðsstaðaveg.  Forsaga málsins er sú að árið 2008 sendi kærandi fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort leyft yrði að breyta notkun bílskúrsins í íbúð.  Var fyrirspurnin afgreidd neikvætt hinn 28. október s.á. með vísan í umsögn skipulagsstjóra frá 24. s.m. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 2. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrsins og innrétta hann sem tómstundaherbergi.  Málinu var í kjölfarið vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Erindið, ásamt umsögn skipulagsstjóra, dags. 12. s.m., var síðan lagt fram að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þann sama dag og var niðurstaðan neikvæð með vísan til umsagnarinnar.  Kom fram í henni að ekki væri mælt með að heimila umbeðnar breytingar á notkun skúrsins í „tómstundaherbergi“.  Framlagðar teikningar hefðu á sér yfirbragð sjálfstæðs íverurýmis með snyrtiaðstöðu og afmörkuðu herbergi og mætti því fyrirvaralaust breyta notkun hans í sjálfstæða íbúð.  Hinn 16. s.m. var umsóknin á ný tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og henni synjað með vísan til framangreindrar umsagnar skipulagsstjóra.  Borgarráð staðfesti loks synjun byggingarfulltrúa á fundi sínum hinn 18. febrúar 2010. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að skv. 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé eiganda heimilt að nýta eign sína að vild nema lög eða aðrar réttarheimildir mæli fyrir á annan veg.  Umræddur bílskúr sé séreign kæranda og vandséð hvernig breyting á gluggum hans og innra skipulagi geti raskað lögvörðum hagsmunum annarra eigenda íbúðarhússins eða annarra íbúa í grenndinni.  Bílskúrinn standi allur inni á eignarlóð Lambhóls, sem ekki sé almennt útivistarsvæði. 

Tveir bílskúrar standi við húsið og sé sá sem nær standi eign kæranda.  Standi hann um 10 metra frá íbúðarhúsinu og liggi heimkeyrslan að því þar á milli.  Kærandi hafi fengið leyfi byggingarfulltrúa til að reisa umræddan skúr í stað annars sem þar hafi staðið og hafi hann verið byggður árið 1992.  Byggingarleyfi fyrir hinum skúrnum á lóðinni, og leyfi til niðurrifs eldri skúrs er þar hafi staðið, hafi verið veitt á árinu 1973.  Hafi sá skúr verið endurbyggður árið 2005, en ekki hafi þá verið farið eftir samþykktri teikningu frá árinu 1973.  Sá skúr sé nú ekki nýttur sem bílageymsla, enda hafi aðkeyrsludyr verið fjarlægðar.  Kærandi hafi einnig áhuga á að nýta bílskúr sinn á annan hátt en sem bílageymslu, þ.e. sem tómstunda- eða föndurherbergi og geymslu, enda vanti geymslu við íbúð hans í íbúðarhúsinu.  Vissulega standi bílskúrinn nálægt eða við útivistarsvæði eins og fjölmörg önnur hús í Reykjavík.  Kvöð um niðurrif beggja bílskúranna á lóð Lambhóls sé tilkomin vegna óljóss framtíðarskipulags á svæðinu, m.a. vegna þess að vangaveltur hafi verið uppi um að stækka Reykjavíkurflugvöll á seinni hluta síðustu aldar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé markmið þeirra að „stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða …“ og samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 hafi menn ákveðinn rétt til nýtingar á eignum.  Takmörkun á þeim rétti verði að byggja á málefnalegum rökum og beri að skýra heimildir til slíkra takmarkana þröngt.

Breyting á hagnýtingu húsnæðis sæti ekki sérstakri takmörkun samkvæmt 26. gr. fjöleignarhúsalaga enda sé hún ekki á skjön við lög, þinglýst gögn eða skipulag, eða hafi í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra en fyrir breytingu.  Megi í þessu sambandi vísa í úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 65/2009 um að ekki skuli synja um breytingu á séreign jafnvel þótt stoðveggur í sameign hafi orðið fyrir raski.

Fjölmörgum bílskúrum í Reykjavík, sem upphaflega hafi verið byggðir sem bílageymslur, hafi verið breytt þannig að notkun þeirra sé önnur en upphaflega hafi staðið til.  Megi í því samhengi benda á fjölmarga bílskúra við Hólaberg og Hraunberg í Reykjavík, sem breytt hafi verið í íbúðir með samþykki byggingarfulltrúa.  Séu þeir nú nýttir sem íbúðir, m.a. fyrir skjólstæðinga Reykjavíkurborgar.  Verði að hafa jafnræðisreglu til hliðsjónar við úrlausn máls þessa. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í málinu verði hafnað og að staðfest verði hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 16. febrúar 2010. 

Vísað sé til þess að samkvæmt 114. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé ekki heimiluð búseta í bílskúrum, en óheimilt sé að nota bílageymslu til annars en geymslu á bílum og því sem þeim fylgi. 

Áður hafi verið hafnað að fella niður kvöð um niðurrif á skúrnum og fyrirspurn kæranda um að breyta honum í íbúð hafi verið afgreidd neikvætt af hálfu skipulagsyfirvalda hinn 28. október 2008.  Í umsögn skipulagsstjóra hafi komið fram að ekki væri mælt með því að festa bílskúrinn í sessi og samþykkja í honum íbúð.  Augljóst væri að framlagðar teikningar „tómstundaherbergis“ hefðu á sér yfirbragð sjálfstæðs íverurýmis, með snyrtiaðstöðu og afmörkuðu herbergi, og mætti því fyrirvaralaust breyta notkun hans í íbúð. 

Reykjavíkurborg fallist heldur ekki á að það séu stjórnarskrárvarin réttindi kæranda að fá að breyta bílskúr sínum eftir eigin höfði.  Engin rök séu færð fram til stuðnings staðhæfingu hans hvað þetta varði.  Menn verði þvert á móti að sætta sig við, eins og kærandi reyndar bendi á, að löggjafinn setji eignarréttindum manna tilteknar skorður með lagasetningu.  Fyrirmæli byggingarreglugerðar um notkun bílskúra sem bílageymslna eingöngu séu sett m.a. með tilliti til grenndarhagsmuna og öryggis- og verndarsjónarmiða.  Skuli auk þess bent á að skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögunum skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Verði ekki séð hvaða nauðsyn beri til að breyta umræddum bílskúr eins og óskað hafi verið eftir og hafi því synjun borgarinnar verið fullkomlega heimil.

Andsvör kæranda við sjónarmiðum Reykjavíkurborgar:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umræddur bílskúr sé 30 m2.  Í 114. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé kveðið á um bílageymslur stærri en 100 m2, en 113. gr. sömu reglugerðar fjalli um bílageymslur minni en 100 m2.  Í því ákvæði sé ekkert minnst á takmarkanir um hvernig nýta megi geymsluna.  Bílskúrinn hafi staðið þarna í 18 ár og þar á undan annar bílskúr í 30 ár.  Reykjavíkurborg geti ekki vísað í neinar réttarreglur til stuðnings ákvörðun sinni og reyni ekki að vísa í meginsjónarmið sem hafi verið ráðandi við matið, enda alþekkt að bílskúrar í Reykjavík séu mjög oft notaðir til annars en að geyma bíla.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. febrúar 2010 að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs og innrétta hann sem tómstundaherbergi.

Samkvæmt 114. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem fjallar um  bílageymslur stærri en 100 m2, má ekki nota bílageymslu til annars en geymslu á bílum og því sem þeim fylgir.  Ekki er samsvarandi ákvæði að finna í 113. gr. reglugerðarinnar, en hún fjallar um bílageymslur sem eru undir framangreindum stærðarmörkum. Verður ekki talið að byggingaryfirvöldum hafi verið unnt að byggja synjun sína á umsókn kæranda með vísan til framangreinds ákvæðis 114. gr. enda á það ekki við um bílaskúr þann sem um ræðir í málinu.

Sveitastjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fóru með skipulagsvald skv. 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 6. gr. áður gildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga í máli þessu.  Eru ákvarðanir sveitarstjórna um skipulag bindandi fyrir borgarana og verða þeir að lúta þeim almennu takmörkunum sem af þeim leiðir.

Á svæði því sem hér um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  Ræðst landnotkun því af ákvæðum aðalskipulags Reykjavíkur, en húsið að Lambhóli og tilheyrandi skúrar eru á svæði sem þar er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota.  Veitir sú landnotkun ekki mikið svigrúm til mannvirkjagerðar eða breytinga á mannvirkjum sem kunna að vera fyrir á slíkum svæðum. 

Umræddur skúr er samþykktur sem bílskúr og á kærandi, eins og hér stendur á, ekki lögvarinn rétt til breytinga á þeirri samþykkt.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.  Miðað við þá niðurstöðu kemur krafa kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að samþykkja umbeðna breytingu ekki til álita í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. febrúar 2010 um að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs við húsið Lambhól við Þormóðsstaðaveg og innrétta hann sem tómstundaherbergi.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson