Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2009 Klausturvegur

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a, Kirkjubæjarklaustri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, mótt. 22. maí 2009, kærir S, sem eigandi risíbúðar að Klausturvegi 3, Kirkjubæjarklaustri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a.  Sveitarstjórn staðfesti ákvörðunina hinn 9. febrúar sama ár. 

Með ódagsettu bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, sem móttekið var hinn 6. júlí 2009, er ennfremur kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 29. júní 2009, sem sveitarstjórn staðfesti 2. júlí s.á., um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi fyrrgreinds eignarhluta í húsinu að Klausturvegi 3-3a.  Þar sem sami aðili stendur að báðum kærumálunum sem snúast um byggingarleyfi fyrir breytingum á sama eignarhluta í nefndu fjöleignahúsi verður seinna kærumálið, sem er nr. 48/2009, sameinað máli þessu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 2. febrúar 2009 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi og nýtingu séreignarhluta á fyrstu hæð Klausturvegar 3-3a, auk efri hæðar Klausturvegar 3a, í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Sú afgreiðsla var staðfest í sveitarstjórn 9. s.m.  Vegna deilna kæranda og byggingarleyfishafa um eignarhald og umráð á stiga frá annarri hæð í risíbúð kæranda var veiting byggingarleyfisins afturkölluð og nýtt leyfi veitt 29. júní s.á. og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn eins og að framan greinir. 

Byggir kærandi á því að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi verið gengið á rétt hans til áðurnefnds stiga.  Hafi aðgangur hans að nefndri risíbúð verið hindraður auk þess sem hann hafi ekki samþykkt þá breyttu notkun sem hinar kærðu ákvarðanir heimiluðu.  Byggingarleyfishafi skírskotar hins vegar til þess að hann hafi keypt eignarhluta á 2. hæð að Klausturvegi 3-3a og hafi umræddur stigi verið í séreignarhluta hans.  Skaftárhreppur telur að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi engin afstaða verið tekin til staðsetningar umdeilds stiga eða umráðaréttar yfir honum. 

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna umdeilds byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda að eignarhluta í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Fyrir liggur að hið kærða byggingarleyfi, sem skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps samþykkti hinn 2. febrúar 2009, var afturkallað með samþykkt nefndarinnar hinn 29. júní s.á., þegar veitt var nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum.  Einnig liggur fyrir afrit af afsali kæranda til byggingarleyfishafa fyrir eignarhluta hans í umræddu húsi dags. 2. júní 2010 og þinglýst 4. s.m.  Frá þeim tíma hefur kærandi ekki hagsmuna að gæta vegna breytinga á nýtingu eða innra fyrirkomulagi eignarhluta í nefndri fasteign eða íhlutunarrétt í þeim efnum samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994. 

Með hliðsjón af greindum atvikum hefur kærandi nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinna kærðu ákvarðana og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson