Ár 2011, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 59/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2009 um að synja umsókn um breytta notkun tiltekinna eignarhluta í húsinu nr. 10 við Dugguvog í Reykjavík og dyr á austurhlið fyrstu hæðar hússins.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. september 2009, er barst nefndinni 7. s.m., kærir S, f.h. R S ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst s.á. að hafna umsókn kæranda um að breyta notkun eignarhluta á annarri hæð og koma fyrir dyrum á austurhlið fyrstu hæðar hússins að Dugguvogi 10. Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði 20. s.m. Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 30. júní 2009 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að innrétta níu íbúðir með vinnustofum á annarri hæð og koma fyrir dyrum á austurhlið fyrstu hæðar hússins nr. 10 við Dugguvog. Málinu var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og vísað til umsagnar skipulagsstjóra er tók umsóknina fyrir á fundi hinn 7. s.m. og bókaði svo: „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.“ Hinn 11. s.m. tók byggingarfulltrúi umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi sínum og synjaði henni með vísan til fyrrnefndrar umsagnar.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fjöldi dæma sé um að samþykktar hafi verið á svæðinu íbúðir með eða án vinnustofa. Verði ekki séð að það skilyrði hafi verið sett fyrir umræddum leyfisveitingum að um húsvarðaríbúðir væri að ræða. Vísað sé til þess að hluti umræddra íbúða í vesturálmu annarrar hæðar hússins að Dugguvogi 10 sé nýttur af húsverði og öðrum starfsmönnum fyrirtækis sem sé á fyrstu hæð. Þá sjái eigandi annars fyrirtækis, sem staðsett sé að Dugguvogi 8, sér hag í að nýta íbúðarnálægðina í tengslum við starfsemi sína. Stöku íbúar gangi eða hjóli til vinnu innan svæðisins. Kærandi efist um að jafnræðis sé gætt við afgreiðslu mála á þessu svæði. Telji hann að borgarar geti ef til vill ekki heldur vænst þess að þeir öðlist rétt á grundvelli jafnræðis með vísan til tuga „… tilfella sem kunna að stafa af mistökum eða misskilningi“ embættismanna Reykjavíkurborgar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé lóðin að Dugguvogi 10 á skilgreindu athafnasvæði. Tilgreint sé í greinargerð aðalskipulags hvaða starfsemi sé heimil á svæðinu en fyrst og fremst sé heimilað að vera með léttan iðnað. Skrifstofur og vinnustofur séu leyfðar að öllu jöfnu og íbúðarhúsnæði í tengslum við starfsemi á svæðinu. Jafnframt sé vísað til gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 en þar sé m.a. tekið fram að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum. Þó sé unnt að gera ráð fyrir íbúðum tengdum starfsemi fyrirtækja, svo sem fyrir húsverði. Ljóst þyki að íbúðir þær sem um sé sótt séu ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag né tilvitnað ákvæði reglugerðarinnar. Túlka beri fyrrgreint ákvæði reglugerðar þröngt en um undantekningu sé að ræða frá meginreglunni. Ekki sé um að ræða almenna heimild til að leyfa margar íbúðir í hverju húsi. Hafi synjun byggingarfulltrúa því verið byggð á lagalegum og málefnalegum sjónarmiðum. Þá skuli á það bent að samþykktar hafi verið íbúðir sem tengdar séu starfsemi á svæðinu, svo sem við vinnustofur. Verði ekki séð að umsókn kæranda uppfylli skilyrði aðalskipulags að þessu leyti. Ennfremur skuli á það bent að um sé að ræða þegar gerðar óleyfisframkvæmdir. Borist hafi kvartanir þess efnis að rekið sé gistiheimili á annarri hæð hússins en kæranda hafi verið synjað um leyfi til þeirrar starfsemi árið 2007. Sé því ekki fallist á sjónarmið kæranda varðandi brot á jafnræðisreglu.
Niðurstaða: Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæði það sem fasteignin að Dugguvogi 10 tilheyrir skilgreint sem athafnasvæði en ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu. Er tekið fram í greinargerð aðalskipulagsins að þar skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir léttum iðnaði, skrifstofum, vinnustofum og íbúðarhúsnæði í tengslum við starfsemi á svæðinu. Í gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er athafnasvæði skilgreint svo að þar skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir atvinnustarfsemi, svo sem léttum iðnaði, vörugeymslum, hreinlegum verkstæðum og umboðs- og heildverslunum. Þar er og tekið fram að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum þótt unnt sé að heimila íbúðir tengdar starfsemi fyrirtækja, svo sem fyrir húsverði.
Telja verður að skilgreind landnotkun í gildandi aðalskipulagi, sem túlka ber til samræmis við áðurnefnda skilgreiningu skipulagsreglugerðar á athafnasvæðum, heimili einungis þar íbúðir er fortakslaust tengist starfsemi fyrirtækja sem starfrækt séu í sama húsnæði. Verður og að álykta á þann veg að um undanþágu sé að ræða sem skýra beri þröngt og að sveitafélögin eigi frjálst mat um það hvenær undanþága verði veitt, enda sé við þá ákvörðun gætt málefnalegra sjónarmiða. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að umsókn kæranda hafi ekki fallið að skilgreindri landnotkun svæðisins og að borgaryfirvöldum hafi því verið rétt, með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að synja umsókn hans um að nýta hluta fasteignarinnar að Dugguvogi 10 fyrir níu íbúðir með vinnuaðstöðu. Þykja ekki efni til að endurskoða þá matskenndu ákvörðun þótt þess kunni að finnast dæmi á umræddu svæði að leyfi hafi verið veitt til landnotkunar sem ekki samræmist skipulagi eða ákvæðum skipulagsreglugerðar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2009 um að synja umsókn kæranda um breytta notkun tiltekinna eignarhluta í húsinu nr. 10 við Dugguvog í Reykjavík og dyr á austurhlið fyrstu hæðar hússins.
______________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson