Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2010 Þverklettar

Ár 2011, miðvikudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 17. febrúar 2010 um deiliskipulag fyrir Fagradalsbraut á Egilsstöðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. maí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Brávöllum 16, Egilsstöðum, deiliskipulag fyrir Fagradalsbraut á Egilsstöðum. 

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn  17. október 2009 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Fagradalsbraut, Egilsstöðum.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. október 2009 til 11. nóvember s.á. og var veittur frestur til athugasemda til 25. nóvember s.á.  Bárust tvær athugasemdir við tillöguna og laut önnur m.a. að fjarskiptamastri sem fyrir var á lóðinni nr. 3 við Þverkletta.  Gerð var athugasemd við að hvergi væri minnst á mastrið í skipulags- og byggingarskilmálum með hinni auglýstu tillögu.  Mastrið væri um 20-25 metra hátt og og væri það of hátt til að falla undir byggingarskilmála fyrir umrædda lóð.  Þá sagði svo í athugasemdinni:  „Hægt væri að skilja deiliskipulagstillöguna á þann veg að farsímamastrið eigi að hverfa og þá óskað eftir staðfestingu á því að sá skilningur sé réttur.“  Í svari skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 8. desember 2009, kom fram að farsímamastrið hefði verið samþykkt í skipulags- og byggingarráði 2. mars 1995 og hefði sú samþykkt verið staðfest í bæjarstjórn 21. mars s.á.  Hefði mastrið verið sett upp sumarið 1996.  Samkvæmt upplýsingum frá eiganda þess hefði það ekki verið hækkað og engar athugasemdir hefðu borist vegna þess fyrr en nú.  Að lokum sagði í svarinu:  „Mastrið var ekki sett inn á deiliskipulagsuppdráttinn þar sem álitið var að það stæði utan lóðarinnar Þverklettar 3.  Þetta verður leiðrétt.“  Sama dag samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs deiliskipulagið á fundi sínum með svohljóðandi bókun: „… Loftnetsmastur að Þverklettum 3 verði fært inn á deiliskipulagið. … Jafnframt eru samþykkt framlögð svör við athugasemdum dags. 08.12.2009.  Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt þegar gögn hafa verið lagfærð til samræmis við samþykkt þessa og send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Málsmeðferð verði í samræmi við 3. og 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.“  Samþykkti bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs tilgreinda bókun 16. desember s.á.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 9. febrúar 2010 var lagt til við bæjarstjórn að leiðrétt tillaga að deiliskipulagi fyrir Fagradalsbraut yrði samþykkt þegar orðalag í umhverfisskýrslu hefði verið lagfært og hún send Skipulagsstofnun.  Samþykkti bæjarstjórn framlagða tillögu á fundi hinn 17. febrúar s.á. og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. apríl 2010.

Skaut kærandi framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að fjarskiptamastrið sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag Fljótsdalshéraðs.  Mastrið sé annað hvort á skilgreindu verslunar- og þjónustusvæði eða grænu svæði samkvæmt aðalskipulagi og hafi það staðið þar sem það sé nú frá því fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga.  Telja verði að eðlilegt væri að fjarskiptamastrið stæði á svæði er skilgreint hefði verið sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi.  Því til stuðnings megi benda á að fjarskiptamastur langbylgjustöðvarinnar á Eiðum sé á svæði sem skilgreint sé sem athafnasvæði.  Það megi því álykta af aðalskipulagi sveitarfélagsins sem nýlega hafi tekið gildi að ekki hafi verið gert ráð fyrir að umrætt mastur að Þverklettum 3 stæði þar til frambúðar.  Jafnframt verði að telja að sú ákvörðun bæjarstjórnar að færa mastrið inn á deiliskipulagið eftir að fresti til athugasemda hafi verið lokið sé ólögmæt þar sem það hafi verið gert án undangenginnar breytingar á aðalskipulagi.  Þá sé vísað til 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveði á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu að deiliskipulagi í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.  Megi líta svo á að um grundvallarbreytingu á deiliskipulagi sé að ræða þegar staðfest sé tilvist mannvirkis sem hafi veruleg sjónræn áhrif um allt þéttbýlið á Egilsstöðum og hafi að auki veruleg óþægindi í för með sér vegna rafmengunar, m.a. á nærliggjandi íbúðarbyggð. 

Ennfremur sé bent á að mastrið hafi þegar verið reist en skv. 4. mgr. 56. gr. fyrrnefndra laga sé óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hafi verið fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Af þeirri ástæðu verði að telja deiliskipulagið ólögmætt.  Þá sé vísað til þeirra grenndaráhrifa sem mastrið hafi, en samkvæmt mælingum sem gerðar hafi verið um áramót 2009/2010 hafi ellefu geislar stafað frá mastrinu og sökum staðsetningar þess, þ.e. inni í miðri byggð, fari allir geislarnir í gegnum hús af einhverju tagi.  Meðal annars fari geisli í gegnum framhluta hússins að Miðvangi 1-3 en þar eigi kærandi eignarhluta.    

Málsrök Fljótsdalshéraðs:  Byggingaryfirvöldum Fljótsdalshéraðs var tilkynnt um framkomna kæru.  Hefur ekki borist greinargerð í máli þessu frá sveitarfélaginu en umbeðin gögn og upplýsingar bárust nefndinni frá byggingarfulltrúa.

Niðurstaða:  Kærandi er eigandi að hluta hússins að Miðvangi 1-3, sem er ekki fjarri umræddu fjarskiptamastri.  Er ekki unnt að útiloka að mastrið geti haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda sem eiganda eignarhluta í nefndu húsi.  Verður því að játa honum kæruaðild um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 er svæði það sem hér um ræðir auðkennt sem verslunar- og þjónustusvæði og stendur fjarskiptamastið í jaðri þess.  Í greinargerð aðalskipulags er í kafla 8.2.3 fjallað um framfylgd stefnu sveitarfélagsins um fjarskipti.  Þar er tekið fram að það teljist eðlileg landnotkun á landbúnaðarsvæðum og óbyggðum svæðum að þar sé komið fyrir mannvirkjum í þágu fjarskipta almennings, þó með þeim takmörkunum að slík mannvirki rúmist innan 300 m² lóðar og að möstur séu innan við 30 m að hæð.  Jafnframt er áskilið að rökstyðja skuli í deiliskipulagi að staðsetning og fyrirkomulag slíkra mannvirkja verði ekki til að rýra verulega umhverfisgæði. 

Nefnt fjarskiptamastur er sýnt á uppdrætti hins kærða deiliskipulags, en hvorki er að því vikið í greinargerð skipulagsins né í umhverfisskýrslu er því fylgdi, þrátt fyrir þann áskilnað sem gerður er í aðalskipulagi um rökstuðning, sem fyrr var lýst.  Verður að telja að framsetning deiliskipulagsins hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við skilmála aðalskipulags, en á skorti að gerð væri athugun á grenndaráhrifum mastursins og að þeim væri lýst í deiliskipulaginu.

Með tilliti til þess að leyfi var veitt fyrir mastrinu á árinu 1995 og það reist ári síðar, fyrir gildistöku núgildandi aðalskipulags og í tíð eldri laga, og einnig með hliðsjón af því að ekkert liggur fyrir um að leyfi fyrir mastrinu hafi ekki fullnægt þágildandi lagaskilyrðum, verður ekki fallist á að framangreindir annmarkar eigi að leiða til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.  Af sömu ástæðu verður ekki litið svo á að það að setja mastrið inn á skipulagsuppdrátt eftir á hafi falið í sér breytingu í grundvallaratriðum þannig að skylt hefði verið að  auglýsa skipulagstillöguna að nýju. 

Ekki verður séð að ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem kærandi vitnar til, eigi við í hinu kærða tilviki, enda var mastur það sem um ræðir reist fyrir gildistöku tilvitnaðra laga auk þess sem ekki liggur fyrir að bygging þess hafi verið í andstöðu við gildandi skipulag þegar það var reist.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 17. febrúar 2010 um deiliskipulag fyrir Fagradalsbraut, Egilsstöðum. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson