Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2010 Hellisheiðarvirkjun

Ár 2011, föstudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2010, kæra á útgáfu vottorðs um lokaúttekt á starfsmannahúsi Orkuveitu Reykjavíkur við Hellisheiðarvirkjun sem skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfus gaf út hinn 4. maí 2010. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. maí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir D, byggingarstjóri starfsmannahúss Orkuveitu Reykjavíkur við Hellisheiðarvirkjun, útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna nefnds starfsmannahúss sem skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfus gaf út hinn 4. maí 2010.  Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða úttektarvottorð verði fellt úr gildi.  Auk kröfu sinnar um ógildingu umrædds vottorðs óskar kærandi þess að úrskurðarnefndin kanni og gefi álit á atriðum sem hann setur fram í sjö tölusettum liðum og segir varða starfsmannahús Hellisheiðarvirkjunar.  Fellur það utan verksviðs úrskuðarnefndarinnar að lát í té slíkt álit og verður ekki í úrskurði þessum fjallað um þau atriði sem álitsbeiðni kæranda tekur til.   

Málsatvik og rök:  Kærandi var skráður byggingarstjóri og húsasmíðameistari við byggingu starfsmannahúss Orkuveitu Reykjavíkur við Hellisheiðarvirkjun.  Hinn 23. september 2009 gaf kærandi út yfirlýsingu um verklok við byggingu hússins og 28. sama mánaðar kom hann á framfæri beiðni við skipulags- og byggingarfulltrúa um lokaúttekt á greindu húsi.  Lokaúttektin fór fram hinn 21. október 2009 og voru nokkrar athugasemdir gerðar við frágang hússins.  Kærandi lýsti því síðar yfir við skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirlýsing hans um verklok væri ógild.  Umrædd bygging var að nýju skoðuð af skipulags- og byggingarfulltrúa og gaf hann út vottorð um lokaúttekt hinn 4. maí 2010. 

Kærandi vísar til þess að hann hafi á sínum tíma verið byggingarstjóri og húsasmíðameistari að umræddri byggingu hjá þáverandi byggingarverktaka.  Hinn 22. mars 2007 hafi Orkuveita Reykjavíkur yfirtekið verkið með samkomulagi þar um.  Ágreiningslaust sé að skipta hafi átt um byggingarstjóra við yfirtöku verksins en það hafi ekki gengið eftir þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kæranda í þá veru.  Umrætt hús hafi verið tekið í notkun fyrir starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar á árinu 2007 án þess að stöðuúttekt skv. gr. 55.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi farið fram og hafi kærandi talið sig knúinn til að hlutast til um lokaúttekt á verkinu sem byggingarstjóri þess. 

Eftir lokaúttekt hafi komið í ljós að samningur hafi verið gerður milli Orkuveitunnar og skipulags- og byggingarfulltrúa um hönnun og eftirlit með framkvæmdunum þar sem vikið hafi verið frá ákvæðum laga og reglugerða.  Uppdrættir hafi ekki verið gefnir út á pappír og á þá hafi skort áritun arkitekta og hönnuða auk staðfestingar byggingarfulltrúa.  Á eyðublöð fyrir áfangaúttektir hafi skort reit fyrir undirskrift byggingarstjóra og áfangaúttektir farið fram án aðkomu hans eða iðnmeistara, heldur hafi verið látin nægja undirskrift iðnaðarmanna á staðnum undir hluta áfangaúttektarblaða.  Í ljósi þessa hafi kærandi afturkallað yfirlýsingu sína um verklok og farið fram á úttekt skv. gr. 36.1 í byggingarreglugerð, sem fram skuli fara við byggingarstjóraskipti fyrir verklok, en við því hafi byggingarfulltrúi ekki orðið.

Af hálfu Sveitarfélagsins Ölfus er farið fram á að kröfum kæranda verði hafnað eða eftir atvikum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Ekkert hafi komið fram í málatilbúnaði kæranda sem styðji það að fullnægjandi gögn hafi ekki legið fyrir við útgáfu vottorðs um lokaúttekt eða að farið hafi verið á svig við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða byggingarreglugerðar við útgáfu þess.  Yfirlýsing byggingarstjóra um verklok hafi legið fyrir, þeir aðilar hafi verið viðstaddir úttektina sem þar hafi átt að vera og allar nauðsynlegar yfirlýsingar hafi legið fyrir, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar.  Atriði þau sem gerðar hafi verið athugasemdir við í lokaúttekt hafi verið lagfærð áður en vottorðið hafi verið gefið út og starfsmannahúsið hafi uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar séu í byggingarreglugerð og í staðli ÍST-51.  Þá hafi verið staðreynt að byggingin hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti.  Geti kærandi því ekki dregið til baka yfirlýsingu um verklok í því skyni að ógilda vottorð skipulags- og byggingarfulltrúa um lokaúttekt. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru við útgáfu umdeilds vottorðs, annaðist byggingarfulltrúi úttektir og eftirlit einstakra þátta byggingarframkvæmda og lokaúttekt fullbyggðs mannvirkis og gaf út vottorð þar um.  Í máli þessu er uppi krafa um ógildingu vottorðs byggingarfulltrúa um lokaúttekt. 

Hluti af lögmæltu eftirliti byggingaryfirvalda með mannvirkjagerð er framkvæmd lokaúttektar.  Með henni er gengið úr skugga um að mannvirki sé í samræmi við samþykkta uppdrætti og ákvæði laga og reglugerða sem um þau gilda.  Vottorð um lokaúttekt er skrifleg yfirlýsing um að slík úttekt hafi farið fram og eftir atvikum að bætt hafi verið úr ágöllum sem fram hafi komið við úttektina. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Með stjórnvaldsákvörðun er átt við einhliða ákvörðun stjórnvalds um rétt eða skyldu manna sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds.  Vottorð um lokaúttekt felur ekki í sér slíka ákvörðun heldur staðfestingu þess að lokaúttekt hafi farið fram eins og að framan greinir.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson