Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

141/2007 Gnitakór

Ár 2011, fimmtudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 141/2007, kæra á samþykkt bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september 2007 um leyfi til byggingar húss á nefndri lóð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2007, er barst nefndinni 19. sama mánaðar, kæra B og Þ, Fjallakór 14, Kópavogi, ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september 2007 um að veita leyfi til byggingar húss á nefndri lóð. 

Gera kærendur þá kröfu að ofangreindar ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 2006 var sótt um leyfi til byggingar húss að Gnitakór 13 í Kópavogi.  Vísaði byggingarnefnd umsókninni til skipulagsnefndar sem ákvað að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi Hörðuvalla vegna lóðarinnar er m.a. fól í sér stækkun húss og að byggt yrði út fyrir byggingarreit.  Var grenndarkynningin síðar endurtekin vegna mistaka í framsetningu tillögunnar.  Skipulagsnefnd bárust athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar og á fundi nefndarinnar 21. nóvember 2007 var tillögu um breytt deiliskipulag hafnað með vísan til athugasemda er borist höfðu á kynningartíma hennar. 

Á fundi skipulagsnefndar 6. febrúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram erindi lóðarhafa Gnitakórs 13 við Gnitakór, dags. 5. febrúar 2007, um útfærslu deiliskipulags lóðarinnar.  Svalir fara 2,1 meter út fyrir ytri byggingarreit til suðurs og 0,9 til vesturs.  Hús fer 1,2 metra upp úr ytri byggingarreit í suðurhluta húss og á stuttu bili á norður hluta húss.  Hús fer 3,3 m2 upp úr hámarks grunnfleti húss og 5,2 m2 upp úr hámarks heildarflatarmáli. … Skipulagsnefnd samþykkir að senda málið í kynningu til lóðarhafa Gnitakórs 11 og 15 og Fjallakórs 12, 14 og 16.“  Á fundi skipulagsnefndar 3. apríl 2007 var fjallað um athugasemdir er bárust, m.a. frá kærendum, vegna grenndarkynningarinnar.  Var málinu frestað og bæjarskipulagi falið að taka saman gögn varðandi innsendar athugasemdir.  Á fundum skipulagsnefndar 17. apríl, 30. apríl og 15. maí 2007 var enn fjallað um málið en afgreiðslu þess frestað.  Á fundi skipulagsnefndar 29. maí 2007 var eftirfarandi bókað:  „Lagt fram erindi dags. 22. maí 2007 þar sem komið er til móts við innsendar athugasemdir og suðurveggur lækkaður um 20 cm.  Skipulagsnefnd samþykkir erindið og umsögn bæjarskipulags dags. 16. apríl 2007 vísar því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“  Á fundi bæjarráðs 31. s.m. var afgreiðslu skipulagsnefndar vísað að nýju til nefndarinnar til frekari meðferðar.  Á fundi skipulagsnefndar 19. júní s.á. var erindið samþykkt að nýju og á fundi bæjarráðs 28. s.m. var lögð fram umsögn skipulagsstjóra þar sem segir m.a:  „Bæjaryfirvöld hafa beðið um umsögn skipulagsstjóra um þær breytingar sem gerðar hafa verið til að koma til móts við innsendar athugasemdir.  Umsögn:  Verulega hefur verið komið til móts við innsendar athugasemdir samk. teikningum dags. í febrúar 2007 og breytt 12. júní 2007 þar sem hæð suðurveggjar hefur verið lækkuð um 26 cm og svalir á suðurhlið hafa verið færðar inn fyrir byggingarreit. … Undirritaður mælir með að bæjarstjórn samþykki erindið með áorðnum breytingum dags. 12. júní 2007 og umsögn bæjarskipulags dags. 16. apríl 2007.“  Var tillaga skipulagsstjóra samþykkt. 

Í kjölfar þessa var samþykktin send Skipulagsstofnun til yfirferðar og í bréfi stofnunarinnar til Kópvogsbæjar, dags. 14. september 2007, segir m.a:  „Nýr uppdráttur, dags. 3. september 2007, sýnir nú þá breytingu á deiliskipulaginu sem bæjaryfirvöld samþykktu í samræmi við síðustu umsögn skipulagsstjóra og felst breytingin einvörðungu í því að vegghæð og hluti þaks hækkar, en hámarkshæð þaks er óbreytt. … Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og gerir ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Skipulagsstofnun telur hins vegar að vafi geti leikið á um hvort það samræmist gildandi skipulagsskilmálum að heimila hús á þremur pöllum á lóðinni.“  Í bréfi Kópavogsbæjar til Skipulagsstofnunar, dags. 20. september 2007, segir m.a:  „Umrætt hús fer 64 cm upp úr byggingarreit að sunnan. … Hús á þrem pöllum er leyfilegt samkvæmt skipulagsskilmálum á þessu svæði.“  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 20. september 2007. 

Hinn 11. september 2007 veitti byggingarfulltrúi síðan leyfi til byggingar húss á lóðinni að Gnitakór 13 og staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun á fundi 25. s.m. 

Hafa kærendur skotið áðurgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að það geti vart verið eðlilegt að almennir borgarar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að eyða miklum tíma og fjármunum, jafnvel í sérfræðiaðstoð, til að berjast fyrir því að farið sé að skipulagi hverfisins sem þeir búi í. 

Bent sé á að húsið að Gnitakór 13 sé á þremur pöllum.  Þá sé hæðarmunur lóða Gnitakórs 13 og Fjallakórs 14 talsverður og aukist enn með hinum kærðu samþykktum.  Óljós sé hvernig frágangi lóðarinnar að Gnitakór 13 verði háttað og líklegt að hæðarmismunurinn verði tekinn á eins litlu bili og auðið sé.  Húsið að Gnitakór 13 muni gnæfa yfir hús kærenda og gera það að verkum að notkun kærenda á vestur- og norðurhluta lóðar þeirra verði þrúgandi fyrir þá. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að meðferð skipulags- og byggingaryfirvalda bæjarins á málinu hafi verið að öllu leyti í samræmi við lög og reglur.  Gerðar hafi verið breytingar á auglýstri tillögu til að koma enn frekar til móts við kærendur. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 11. janúar 2011. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september sama ár um að veita leyfi til byggingar húss á þeirri lóð. 

Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Hörðuvalla frá árinu 2003.  Samkvæmt skilmálum er gilda fyrir einbýlishús í Gnitakór er heimilt að reisa þar hús á einni eða tveimur hæðum.  Um hæðir húsa segir eftirfarandi í 5. gr. skilmálanna:  „Húshæð er gefin upp sem a) bindandi hæðafjöldi og b) hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta.  Þegar talað er um hæðafjölda er átt við fulla hæð, þ.e. útveggir séu í fullri lofthæð (ekki rishæð eða portbyggð rishæð).  Efsti hluti þaks má ná upp í uppgefna hámarkshæð, en getur verið lægri.  Hæðarkótar fyrir aðkomuhæðir húsa eru sýndir á hæðarblaði (gólfkótar –k).  Hámarkshæð húsa er gefin upp á skilmálateikningu og er hún miðuð við hæð yfir tilgreindum hæðarkóta aðkomuhæðar.  Mesta hæð húss talið frá aðkomuhæð er 7,5 metrar.“  Skilmálamynd sýnir að efri hæð húss ásamt þaki má vera 4,80 m. 

Í bókun skipulagsnefndar 6. febrúar 2007, varðandi beiðni lóðarhafa Gnitakórs 13 um skipulagsbreytingu, sagði m.a. eftirfarandi:  „Hús fer 1,2 metra upp úr ytri byggingarreit í suðurhluta húss og á stuttu bili á norður hluta  húss”, svo og að svalir yrðu byggðar út fyrir byggingarreit og að heildarflatarmál þess yrði aukið um 5,2 m2.  Var tillaga þessi grenndarkynnt og í kjölfarið var áformum breytt á þann veg samkvæmt skilmálamynd deiliskipulags að salarhæð efri hæðar fór úr því að mega vera allt að 3,60 m í 4,24 m.  Eftir breytinguna var hámarkshæð hússins innan þeirra marka sem sett voru í upphaflegu skipulagi.  Með hliðsjón af því verður hin umrædda breyting talin óveruleg og var skipulagsyfirvöldum því heimilt að grenndarkynna hana í samræmi við 2. mgr. 26. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi skal húsið að Gnitakór 13 vera á einni eða tveimur hæðum og stendur það norðan við hús kærenda að Fjallakór 14, en það hús er á einni hæð.  Talsverður hæðarmunum er á milli lóðanna enda landhalli allnokkur.  Umdeild skipulagsbreyting veitir heimild fyrir hækkun hluta hússins að Gnitakór 13 á þeirri hlið er snýr að kærendum, en hámarkshæð og umfang hússins rúmast engu að síður innan marka upphaflegs deilskipulags.  Verða grenndaráhrif breytingarinnar því ekki að marki önnur eða meiri en vænta mátti af byggingu að óbreyttu deiliskipulagi.  Deiliskipulagsbreytingin raskar því ekki hagsmunum kærenda með þeim hætti að leitt geti til ógildingar hennar. 

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi sér stoð í gildu deiliskipulagi og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þess verður ekki fallist á ógildingu byggingarleyfisins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun, en málsgögn bárust úrskurðarnefndinni hinn 30. desember 2010. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september 2007, er bæjarstjórn staðfesti hinn 25. s.m., um veitingu byggingarleyfis fyrir húsi að Gnitakór 13. 

___________________________
Ómar Stefánsson

____________________________     ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson