Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2008 Suðurhólar

Ár 2010, fimmtudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2008, kæra sex íbúa og eigenda fasteigna við Tröllhóla og Kjarrhóla á Selfossi vegna framkvæmda við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. september 2008, sem barst nefndinni hinn 25. sama mánaðar, kæra V og S, Tröllhólum 41, G og A, Tröllhólum 43 og K og B, Kjarrhólum 32 á Selfossi framkvæmdir við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi. 

Gera kærendur þá kröfu að framkvæmdirnar verði úrskurðaðar ólögmætar.  Þá gerðu kærendur og þá kröfu að úrskurðað yrði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda þar til ákvörðun úrskurðarnefndarinnar í málinu lægi fyrir.  Þóttu ekki efni til að fjalla sérstaklega um þá kröfu kærenda þar sem um er að ræða afturtækar framkvæmdir við frágang bílastæða.  Er málið nú tekið til lokaúrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Í júlí árið 2008 hófust framkvæmdir á vegum Sveitarfélagsins Árborgar við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum vegna þessa og voru framkvæmdir í kjölfarið stöðvaðar en hófust að nýju í lok ágúst sama ár.  Með bréfi kærenda til sveitarfélagsins, dags. 2. september 2008, var framkvæmdunum mótmælt og farið fram á tafarlausa stöðvun þeirra. 

Í bréfi bæjarritara til kærenda, dags. 8. s.m., sagði m.a. eftirfarandi:  „Með deiliskipulagi fyrir Suðurbyggð B sem samþykkt var af bæjarstjórn Árborgar 11. september 2002 er gert ráð fyrir stæði fyrir stóra bíla á þeim stað er framkvæmdir hafa staðið yfir.  Skipulagið var samþykkt að undangengnu lögboðnu ferli og auglýst í Stjórnartíðindum hinn 1. mars 2004. […] Eftir að íbúar gerðu fyrst athugasemdir við framkvæmdir við stæðið fyrr í sumar var ákveðið að minnka það um 40% frá því sem upphaflega er gert ráð fyrir í skipulagi, og færðist stæðið þá um 5 metra frá byggðinni syðst í Suðurhólum. […] Með vísan til þess sem að framan greinir um deiliskipulag fyrir svæðið er kröfu bréfritara um stöðvun framkvæmda hafnað.“ 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ákvörðun bæjarstjórnar um breytta framkvæmd, sem þeim hafi verið kynnt í bréfi bæjarritara, dags. 8. september 2008,  hljóti að teljast stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Að auki séu framkvæmdirnar ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og þar af leiðandi ólögmætar. 

Af hálfu Árborgar er því haldið fram að vísa beri málinu frá sökum þess að gerð hins umdeilda bílastæðis sé hvorki byggingarleyfisskyld, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, né framkvæmdaleyfisskyld skv. 27. gr. laganna.  Ákvörðun um gerð bílastæðisins sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar því aðeins stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga séu kæranlegar til nefndarinnar, sbr. 1. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kæranleg stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tekin af stjórnsýslu sveitarfélagins.  Þau rök kærenda, að breyting á framkvæmdinni sem þeim hafi verið kynnt í bréfi bæjarritara, dags. 8. september 2008, sé kæranleg, standist ekki. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi.  Hvorki hefur verið gefið út framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga né byggingarleyfi samkvæmt IV. kafla laganna fyrir umræddum framkvæmdum.  Telja bæjaryfirvöld þær ekki háðar slíkum leyfum en þær séu í samræmi við skipulag svæðisins er öðlaðist gildi á árinu 2004.  Eftir stendur að bæjarritari hefur í bréfi til kærenda, dags. 8. september 2008, greint frá því að umfang hinna umdeildu framkvæmda hafi verið minnkað, en ákvörðun varðandi það atriði hefur hvorki hlotið afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar né verið samþykkt í bæjarstjórn. 

Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls er sætt getur kæru skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson