Ár 2010, fimmtudaginn 3. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 39/2009, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og stækkun rishæðar ásamt breytingum innan annarrar hæðar fjölbýlishúss á lóð nr. 3 við Hrefnugötu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. maí 2009, er barst nefndinni 29. sama mánaðar, kæra K og R, Flókagötu 14, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og stækkun rishæðar ásamt breytingum innan annarrar hæðar fjölbýlishúss á lóð nr. 3 við Hrefnugötu. Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 24. apríl 2009. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða veiting byggingarleyfis verði felld úr gildi.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júní 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir jafnframt Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. E, Flókagötu 14, nefnda ákvörðun um veitingu byggingarleyfis vegna Hrefnugötu 3 og er gerð krafa um ógildingu ákvörðunarinnar. Með hliðsjón af málatilbúnaði kærenda þykir ekkert standa því í vegi að sameina málin og verður því kærumálið, sem er nr. 41/2009, sameinað hinu fyrra.
Málsatvik og rök: Hinn 22. apríl 2009 samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur, í kjölfar grenndarkynningar, umsókn um byggingu bílskúrs og stækkun rishæðar ásamt breytingum innan annarrar hæðar fjölbýlishúss á lóð nr. 3 við Hrefnugötu. Við grenndarkynninguna komu fram athugasemdir, m.a. frá kærendum. Borgarráð staðfesti ákvörðun skipulagsráðs hinn 24. apríl 2009. Skutu kærendur ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Kærendur benda á að óskiljanlegt sé að fyrirhugaður bílskúr verði staðsettur í línu aftan við húsið að Hrefnugötu 3, að suðurmörkum lóðar kærenda að Flókagötu 14. Stór hluti bílgeymslunnar verði fyrir aftan húsið að Flókagötu 3 og geti sá hluti ekki nýst fyrir bifreið, enda ekki unnt að aka inn í þann hluta byggingarinnar. Í raun sé um að ræða viðbyggingu við íbúðarhús það sem fyrir sé á lóðinni, sem hljóti að vera ætluð til annarra nota en geymslu bifreiðar, enda muni verða innangengt úr einni geymslu íbúðarhússins í nýbygginguna. Þá sé hækkun á þaki íbúðarhússins mótmælt. Sú hækkun muni valda verulegu skuggavarpi og raska lögvörðum hagsmunum íbúa í kjallaraíbúð að Flókagötu 14 og fari breytingin gegn sjónarmiðum sem fram komi í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.
Niðurstaða: Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. maí 2010, upplýsti byggingarfulltrúinn í Reykjavík að samþykkt skipulagsráðs fyrir veitingu umdeilds byggingarleyfis hefði verið til umfjöllunar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. maí 2010. Fram kemur í bókun þess fundar að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út innan tilskilins frests skv. byggingarreglugerð nr. 441/1998 og sé því úr gildi fallið. Óheimilt sé að endurnýja byggingarleyfið óbreytt. Borgarráð staðfesti umrædda fundargerð byggingarfulltrúa hinn 27. maí 2010.
Samkvæmt 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og gr. 13.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, fellur staðfesting sveitarstjórnar á ákvörðun um veitingu byggingarleyfis úr gildi hafi byggingarleyfi skv. nefndri 44. gr. ekki verið gefið út innan 12 mánaða frá staðfestingunni. Samkvæmt áðurgreindum upplýsingum embættis byggingarfulltrúa liggur fyrir að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út eftir staðfestingu borgarráðs á veitingu þess frá 24. apríl 2009. Hefur hin kærða ákvörðun því fallið úr gildi samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar vegna þess að meira en tólf mánuðir eru liðnir frá staðfestingu borgarráðs á umdeildu byggingarleyfi.
Af framangreindum sökum hafa kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________
Hjalti Steinþórsson
_______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson