Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 119/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. október 2008 um deiliskipulag vegna lóðarinnar að Tunguheiði 8.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. desember 2008, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kæra S og S, til heimils að Tunguheiði 8 í Kópavogi, afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. október 2008 er varðar deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 8 við Tunguheiði.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.
Málavextir og rök: Frá árinu 2001 hafa kærendur, sem búsettir eru að Tunguheiði 8 í Kópavogi, óskað eftir heimild skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi til byggingar þakhýsis á hluta húseignarinnar, án þess að við henni hafi orðið. Með bréfi kærenda til bæjarskipulags, dags. 12. febrúar 2007, lögðu þau enn fram beiðni þessa efnis ásamt samþykki meðeigenda. Samþykkti skipulagsnefnd á fundi 6. maí 2008 að kærendur myndu vinna deiliskipulagstillögu fyrir lóðina. Þá var samþykkt á fundi nefndarinar 20. maí 2008 að hönnuður myndi gera húsakönnun og tillagan í kjölfarið auglýst, sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Var tillagan auglýst og bárust athugasemdir vegna hennar. Á fundi skipulagsnefndar 21. október 2008 var tillögunni hafnað á grundvelli innsendra athugasemda. Var fundargerð skipulagsnefndar afgreidd án umræðu á fundi bæjarstjórnar 28. s.m. Með bréfi arkitekts kærenda til bæjarskipulags, dags. 6. nóvember s.á., var farið fram á rökstuðning skipulagsnefndar og óskað eftir heimild til að vinna tillögu með tilliti til athugasemda nágranna. Á fundi nefndarinnar 18. nóvember 2008 var bréf þetta lagt fram og var formanni hennar falið að rökstyðja synjunina. Með bréfi formanns skipulagsnefndar til kærenda, dags. 2. desember 2008, var rökstuðningur nefndarinnar settur fram.
Hafa kærendur kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður getur.
Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að í nágrenni við þau hafi bæjaryfirvöld veitt heimild til byggingar þakhýsa á tveimur húsum og séu þau þess fullviss að unnt sé að hanna þakhýsi á húsið að Tunguheiði 8 þar sem tekið væri tillit til athugasemda nágranna.
Af hálfu Kópavogsbæjar er m.a. bent á að erindi kærenda um byggingu þakhýsis hafi verið hafnað í skipulagsnefnd á árinu 2001 sem og deiliskipulagstillögu á árinu 2005 er laut að aukinni hæð húsa á svæðinu.
Niðurstaða: Skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði á fundi sínum hinn 21. október 2008 tillögu að deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 8 við Tunguheiði. Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 23. s.m., þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar. Þar er þó ekki að finna bókun ráðsins varðandi afstöðu þess til áðurnefndrar afgreiðslu skipulagsnefndar. Þá var og fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 28. október 2008, þar sem bókað var eftirfarandi: „Fundargerðin afgreidd án umræðu.“
Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag. Þeir annmarkar eru á meðferð málsins að ekki kemur fram í bókunum viljaafstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til þess. Verður framangreind afgreiðsla ekki talin fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og ber því, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá nefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson