Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2008 Lokastígur

Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. apríl 2008, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Á, Lokastíg 26 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs hinn 10. sama mánaðar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gild. 

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkra forsögu og hefur úrskurðarnefndin áður haft til meðferðar kæru vegna Lokastígs 28.  Í febrúar árið 2006 sótti byggingarleyfishafi um leyfi til að innrétta verslun á fyrstu hæð hússins ásamt því að koma fyrir kaffihúsi á fyrstu, annarri og þriðju hæð.  Var umsóknin grenndarkynnt hagsmunaaðilum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 28. júní 2006 var erindið tekið fyrir og því synjað. 

Í ágúst 2006 lagði eigandi hússins inn nýja byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til að innrétta kaffihús á annarri hæð en þriðja hæð yrði áfram nýtt til íbúðar.  Var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. ágúst 2006.  Henni fylgdu undirskriftir 34 nágranna þar sem þeir gáfu yfirlýsingu um að þeir væru því ekki mótfallnir að kaffihúsi yrði komið fyrir á miðhæð hússins.  Var afgreiðslu erindisins frestað og því vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 18. sama mánaðar var samþykkt að grenndarkynna erindið hagsmunaaðilum.  Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 27. september 2006 og því þá synjað.  Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar sem ógilti hana með úrskurði uppkveðnum 25. október 2007.  Í kjölfarið sótti eigandi hússins um leyfi byggingarfulltrúa til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð og koma fyrir fjölskylduherbergi í risi.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. desember 2007 var málinu frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem tók það fyrir á embættisafgreiðslufundi 7. desember 2007 og samþykkti að kynna byggingarleyfisumsóknina hagsmunaaðilum.  Að lokinni grenndarkynningu, sem stóð yfir frá 12. desember 2007 til 14. janúar 2008, var málið aftur tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 18. janúar 2008 þar sem lagðar voru fram athugasemdir hagsmunaaðila.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 25. janúar 2008 var málinu vísað til skipulagsráðs sem tók það fyrir á fundi sínum 30. janúar 2008.  Þar voru athugasemdir kynntar og málinu frestað.  Skipulagsráð tók málið fyrir að nýju á fundi 6. febrúar 2008 þar sem lögð var fram umsögn skipulagsstjóra, dags. sama dag.  Eftirfarandi var bókað á fundinum:  ,,Ráðið gerir ekki athugasemdir við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði með vísan til niðurstöðu í umsögn skipulagsstjóra.  Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“  Byggingarfulltrúi tók málið fyrir á afgreiðslufundi 26. febrúar 2008 þar sem málinu var frestað og eftirfarandi bókað:  ,,Umsækjandi skal óska íbúðarskoðunar byggingarfulltrúa og gera grein fyrir aldri íbúðar, að öðru leyti vísað til athugasemda á umsóknarblaði.“  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. mars 2008 var lögð fram íbúðarskoðun byggingarfulltrúa, dags. 10. mars 2008.  Málinu var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. apríl 2008 var minnisblað lögfræði- og stjórnsýslu, dags. sama dag, lagt fram og eftirfarandi bókað:  ,,Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997 með vísan til minnisblaðs yfirlögfræðings skipulags- og byggingarsviðs, dags. 8. apríl 2008.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.  Áskilin samþykkt heilbrigðiseftirlits.“ 

Hefur kærandi skotið ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fasteignin að Lokastíg 28 sé á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og í fasteignaskrá sé allt húsið skilgreint sem íbúðarhúsnæði auk bílskúrs.  Á íbúðarsvæðum sé atvinnustarfsemi heimiluð sem hvorki valdi óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega umferð.  Því sé ekki fyrir að fara í máli þessu þar sem einkahagsmunir byggingarleyfishafa séu teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar.  Hagsmunaaðilar hafi verið hunsaðir við afgreiðslu málsins og byggingarfulltrúi hafi í óþökk þeirra veitt umrætt leyfi.  Þá bendi kærandi á bílastæðavanda íbúa við Lokastíg, tilkoma veitingahúss skapi enn fleiri vandamál.  Hið kærða leyfi muni auka umgang við Lokastíg að kvöldlagi, hávaði frá fólki og bifreiðum muni aukast sem og umferð leigubifreiða.  Hópar fólks sem komi og fari skapi hávaða.  Kærandi mótmæli innrás í einkalíf íbúa og að friðhelgi einkalífs sé raskað með atvinnustarfsemi að kvöldlagi.  Með tilkomu veitingahúss að Lokastíg 28 sé öruggt að ef fólk neyðist til að selja eignir sínar fáist ekki sama verð sökum veitingastarfsemi í garðinum.  Séu mannréttindi íbúa fótum troðin. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að fasteignin að Lokastíg 28 sé innan skilgreinds íbúðarsvæðis samkvæmt afmörkun og skilgreiningu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024.  Í gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 sé að finna skilgreiningu íbúðarsvæða.  Þar komi fram að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þó megi einnig gera þar ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né draga að sér óeðlilega mikla umferð.  Eins og fram komi í umsögn skipulagsstjóra, dags. 6. febrúar 2008, hafi á jarðhæð hússins verið rekinn söluturn.  Skipulagsstjóri telji óhætt að líta svo á að hávaði, rusl og annar óþrifnaður muni ekki aukast þótt í húsinu verði rekið kaffihús án vínveitinga.  Í sömu umsögn sé bent á að borgarráð hafi samþykkt á fundi 12. júlí 2007 málsmeðferðarreglur um veitinga- og gististaði í borginni þar sem segi svo í 5. gr. reglnanna:  „Óheimilt er að veita áfengisveitingastöðum á skilgreindu íbúðasvæði rekstrarleyfi. Þetta gildir þó ekki um áfengisveitingastaði, sem áður hafa fengið leyfi, enda sé ekki heimilaður lengri veitingatími áfengis en til kl. 23.30 alla daga, þó til kl. 01.00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og almennra frídaga. Um veitingastaði, sem staðsettir eru þar sem gert er ráð fyrir verslun og þjónustu innan íbúðarsvæða, gilda ákvæði 6. gr.“  Með vísan til reglnanna og minnisblaðs yfirlögfræðings, dags. 8. apríl 2008, sem hið kærða byggingarleyfi byggist á, megi sjá að það sé skoðun borgaryfirvalda að það sé með öllu óheimilt að veita vínveitingaleyfi á skilgreindu íbúðarsvæði.  Sé veiting byggingarleyfisins háð því að á staðnum fari fram veitingarekstur í flokki I, kaffihús án vínveitinga. 

Reykjavíkurborg fallist ekki á að umferð um Lokastíg muni aukast vegna samþykktarinnar.  Lokastígur 28 standi á horni Lokastígs og Njarðargötu, á fjölförnu og opnu svæði með fjölsóttum opinberum byggingum.  Gengið sé inn á umrætt kaffihús á horni þessara tveggja gatna.  Ekki sé heldur fallist á að með samþykktinni sé um að ræða innrás í einkalíf íbúa og að friðhelgi einkalífs sé raskað með atvinnustarfsemi að kvöldlagi.  Vísað sé til þess að áður hafi söluturn verið starfræktur í húsnæðinu ásamt því að íbúar miðsvæðis megi gera ráð fyrir einhverju mannlífi í nágrenni sínu, t.d. vegna gangandi vegfarenda og ferðamanna sem leið eigi um svæðið. 

——-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi í tilefni fyrra kærumáls í október 2007. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi. 

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og kusu skipulags- og byggingaryfirvöld að neyta undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Verður að telja að það hafi verið heimilt eins og þarna stóð á, enda verður ekki talið að mynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist við tilkomu hins umdeilda kaffihúss.  Líta verður og til þess að húsið að Lokastíg 28 stendur á horni Lokastígs og Njarðargötu, í jaðri þéttbyggðs svæðis, þar sem bílaumferð er allmikil.  Auk íbúðarhúsa eru m.a. Hallgrímskirkja, Listasafn Einars Jónssonar og Gistiheimili Leifs Eiríkssonar í nágrenni við húsið. 

Kærandi heldur því fram að með hinu kærða leyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum hans, m.a. vegna aukinnar umferðar og hávaða.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreint.  Líta verður til þess að í húsinu að Lokastíg 28 var til langs tíma starfræktur söluturn á jarðhæð og er ólíklegt að rekstur kaffihúss hafi í för með sér aukið ónæði frá því sem áður hafði verið.  Verður og til þess að líta að hið kærða byggingarleyfi var samþykkt með vísan til þess að óheimilt væri að veita rekstrarleyfi til áfengisveitinga á skilgreindum íbúðarsvæðum og að útgáfa byggingarleyfisins væri því bundin við rekstur veitingahúss í flokki I, kaffihúss án vínveitinga.  Rúmast starfsemin, með þessum takmörkunum, innan Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 hvað landnotkunar varðar.

Óveruleg breyting sem gerð var á skilgreiningu rýmis á 3. hæð þykir ekki gefa tilefni til endurskoðunar hinnar kærðu ákvörðunar enda verður ekki séð að hún geti haft áhrif á hagsmuni kæranda eða annarra nágranna. 

Þegar litið er til framanritaðs fellst úrskurðarnefndin ekki á að umdeilt byggingarleyfi hafi slík grenndaráhrif eða sé haldið neinum annmörkum er leiða eigi til ógildingar og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og innrétta kaffihús á 2. hæð hússins að Lokastíg 28 og samþykkja íbúð í risi. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson