Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2009 Hafnarfjörður, aðalskipulag

Ár 2009, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2009, kæra á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. september 2009, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir Á, Smárahvammi 9, Hafnarfirði, breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa.  Gerir kærandi þá kröfu að gildandi aðalskipulag standi óhaggað. 

Málsatvik og rök:  Á fundi sínum hinn 17. mars 2009 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er tók til kafla 2.2.10 sem fjallar um frístundabyggð á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Var þar gert ráð fyrir takmarkaðri uppbyggingu innan svæðisins.  Auglýsing um breytingartillöguna birtist í Fjarðarpóstinum hinn 20. ágúst 2009. 

Bendir kærandi á að í gildandi aðalskipulagi segi að ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á umræddu svæði en í breytingartillögu komi fram að „… takmörkuð uppbygging verði innan svæðisins.“  Nú virðist því vera gert ráð fyrir þeim möguleika að reisa mörg hús á svæðinu í stað þess eina sem úrskurðað hafi verið ólögmætt í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 4/2008.  Ekki komi fram í aðalskipulagstillögunni hversu „takmörkuð“ ráðgerð uppbygging verði og engir uppdrættir fylgi tillögunni.  Það væri vafasamt fordæmi fyrir sveitarfélag ef breyta mætti staðfestu skipulagi vegna þess eins að túlkun í úrskurði úrskurðarnefndarinnar sé ekki í samræmi við ásetning sveitarfélagsins eins og haldið sé fram í greinargerð aðalskipulagstillögunnar.  Rétt sé að úrskurðarnefndin úrskurði um lagalega rétta túlkun á þeim kafla aðalskipulagsins er breytingin taki til. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild aðalskipulagstillaga hefur ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í nefndu lagaákvæði er einnig kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina og verður af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson