Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2009 Flúðabakki

Ár 2009, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2009, erindi Fasteigna ríkisins um úrlausn um réttmæti þess að leggja skipulagsgjald á húsnæði Heilsugæslunnar á Blönduósi, mathluta nr. 2136788. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 20. mars 2009, er barst úrskurðarnefndinni 24. sama nánaðar, óskar Snævar Guðmundsson þess f.h. Fasteigna ríkisins að úrskurðað verði um það hvort heimilt hafi verið í upphafi árs 2009 að leggja á og hefja innheimtu skipulagsgjalds af húsnæði Heilsugæslustöðvarinnar á Blönduósi, matshluta nr. 2136788.  Um kæruheimild vísast til 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald. 

Málavextir:  Hinn 30. janúar 2009 gaf sýslumaðurinn á Blönduósi út reikning að fjárhæð kr. 1.261.384,- á hendur Fasteignum ríkisins fyrir skipulagsgjaldi af 85% eignarhluta ríkissjóðs í Heilsugæslustöðinni á Blönduósi, matshluta nr. 2136788.  Af málsgögnum verður ráðið að langt sé um liðið síðan bygginu umræddrar heilsugæslustöðvar var lokið en svo virðist sem farist hafi fyrir að tilkynna réttum yfirvöldum um lokaúttekt mannvirkisins.  Er byggingarár hússins sagt vera 1984 í fasteignaskrá en í bréfi Fasteignaskrár Íslands, dags. 17. febrúar 2009, kemur fram að kjallari og 1. hæð umrædds matshluta hafi verið virt til brunabóta 20. október 1993.  Ekki liggur fyrir hvort skipulagsgjald hafi þá verið innheimt af þeim húshlutum sem metnir voru til brunabóta á þessum tíma samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 167/1980. 

Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúans á Blönduósi er langt um liðið síðan öll byggingin var tekin í notkun, en ekki liggja þar fyrir lokaúttektir eða önnur gögn um það hvenær byggingu hússins hafi að fullu verið lokið. 

Málsrök:  Málshefjandi styður erindi sitt þeim rökum að skipulagsgjald verði ekki í byrjun árs 2009 lagt á byggingu sem byggð hafi verið á árinu 1984.  Ekki liggi fyrir að stuðst hafi verið við gögn frá byggingarfulltrúa við ákvörðun um byggingarstig hússins, en lögum samkvæmt sé það á verksviði hans að láta þær upplýsingar í té.  Stærð matshlutans sé hin sama fyrir og eftir endurmat brunabótamats og ekkert gefi til kynna að hluti hússins sé ótryggður.  Matshlutinn, sem er 3.020,8 m² að flatarmáli, sé brunatryggður hjá viðurkenndu tryggingarfélagi án athugasemda eða fyrirvara eins og um heildartryggingu matshlutans sé að ræða. 

Af hálfu Fasteignskrár Íslands er tekið fram að brunabótamat 2. og 3. hæðar auk rishæðar matshlutans hafi verið ákveðið 31. desember 2008 og byggt á stærðum úr eldri brunabótamatsgerðum vegna kjallara og 1. hæðar auk teikninga.  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.  Eftir brunabótamat 2. og 3. hæðar, auk rishæðar, hafi borið að tilkynna um virðingu þeirra til innheimtumanns til álagningar skipulagsgjalds þar sem brunabótamat þeirra hafi numið 55% af heildarmati matshlutans.  Ekki skipti máli í þessu sambandi þótt langt sé um liðið frá byggingu umræddra húshluta, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 25/2002. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs. 

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Er í 7. gr. þeirrar reglugerðar kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma um álagningu og innheimtu gjaldsins.  Verður erindi málshefjenda samkvæmt því tekið til efnisúrlausnar í nefndinni. 

Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 737/1997 fellur skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hefur farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignaskrá Íslands hefur tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.  Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á. 

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því að búast að hún fari að jafnaði fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á alllöngu eftir að byggingu mannvirkis lyki.  Á hitt er að líta að við það er miðað að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar.  Verður ekki á það fallist að umræddur matshluti, sem hefur skráð byggingarár 1984, og metinn var að hluta til brunabóta fyrir fullum 15 árum, verði talinn nýreist hús eða ný viðbygging.  Þótt bygginu hússins kunni að hafa verið skipt í áfanga verður ekki heldur fallist á að líta megi á 2. og 3. hæð og rishæð sem viðbyggingu við kjallara og 1. hæð eins og helst verður ráðið af málsgögnum að lagt hafi verið til grundvallar við ákvörðun um gjaldskyldu í málinu. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi hina umdeildu álagningu skipulagsgjalds á húsnæði Heilsugæslunnar á Blönduósi, mathluta nr. 2136788. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða álagning skipulagsgjalds á húsnæði Heilsugæslunnar á Blönduósi, matshluta nr. 2136788. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir