Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2009 Vogar

Ár 2009, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2009, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 11. maí 2005 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Heiðardal, Miðdal, Lyngdal og Leirdal í Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:      

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2009, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl., f.h. R, Fagradal 12, Vogum, þá ákvörðun hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 11. maí 2005 að samþykkja deiliskipulag fyrir Heiðardal, Miðdal, Lyngdal og Leirdal.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Í febrúar 2005 var auglýst tillaga að breytingu að deiliskipulagi í Vatnsleysustrandarhreppi er tók til Heiðardals, Miðdals, Lyngdals og Leirdals.  Var tillagan til kynningar frá 23. febrúar til 23. mars 2005 og barst athugasemd vegna hennar, en þó ekki frá kæranda máls þessa.  Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti tillöguna hinn 8. apríl 2005 og hreppsnefnd 12. sama mánaðar.  Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar tekin fyrir að nýju í hreppsnefnd 11. maí 2005 og eftirfarandi m.a. bókað:  „Fundargerðin er samþykkt.  Varðandi 2. mál fundargerðarinnar um nýtt deiliskipulag við Heiðardal, Miðdal, Lyngdal og Leirdal, þá samþykkir hreppsnefnd skipulagið eins og fram kemur í samþykkt Skipulags- og byggingarnefndar“.  Birtist auglýsing um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. maí 2005.

Hefur kærandi nú skotið hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kærandi byggir á því að málmeðferð hafi ekki verið lögum samkvæmt.  Um verulega breytingu hafi verið að ræða og hafi borið að kynna tillöguna í ítarlegri grenndarkynningu.  Hafi breytingar sem gerðar hafi verið m.a. á hæðarpunktum verið með þeim hætti að erfitt hafi verið að gera sér grein fyrir áhrifum þeirra fyrr en þær hafi komið til framkvæmda og því sérlega mikilvægt að kynna tillöguna sérstaklega.  Hafi kærandi þannig enga grein gert sér fyrir áhrifum breytinganna fyrr en vinna hófst við lóðir á svæðinu.  Þá hefði verið eðlilegt að leita eftir sérstöku samþykki kæranda, sér í lagi vegna þess að breytingarnar hafi bein og veruleg áhrif á notkun fasteignar kæranda og verðgildi hennar.  Þegar kæranda hafi orðið ljóst hver áhrifin yrðu hafi hún haft samband við sveitarfélagið til að reyna að fá úrlausn sinna mála.  Enn fremur hafi kærandi óskað eftir því að samkomulagi yrði náð um bótagreiðslur vegna tjóns kæranda, en sveitarfélagið hafi ekki brugðist við þeim óskum hingað til og vísar kærandi til 33. gr. laga nr. 73/1997.  

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsákvörðun var samþykkt í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hinn 11. maí 2005 og tók skipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. maí 2005.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er einn mánuður samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast sá frestur við birtingu ákvörðunar.  Rann kærufrestur vegna hinnar umdeildu ákvörðunar því út 21. júní 2005, að teknu tilliti til útreiknings frests samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. janúar 2009 eða rúmum þremur og hálfu ári eftir lok kærufrests og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________            ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir