Ár 2008, mánudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 69/2006, krafa um að skorið verði úr vafa um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum séu háðar framkvæmdaleyfi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. ágúst 2006, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, krefst Oddgeir Einarsson hdl., f.h. Olíudreifingar ehf. þess að úrskurðað verði að framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum séu ekki háðar framkvæmdaleyfi.
Málavextir: Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2006, sagði m.a. eftirfarandi: „Olíudreifing ehf. og áður Olíufélagið hf. hefur haft svartolíugeymi á lóð sinni við Garðaveg til fjölda ára. Geymir þessi hefur verið undir svartolíu fyrir verksmiðju Vinnslustöðvarinnar og aðra svartolíuafgreiðslu félaganna í Vestmannaeyjum. Til að uppfylla reglugerð um mengunarvarnir þarf að ganga frá lekavaraþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við ofangreindan geymi. Meðfylgjandi er teikning … þar sem fram kemur fyrirkomulag og búnaður sem fyrirhugað er koma upp við geyminn til að uppfylla mengunarvarnarreglur … Hér með er óskað eftir samþykki viðkomandi nefnda bæjarins fyrir framkvæmd þessari.“
Á fundi umhverfis– og skipulagsráðs hinn 26. júlí 2006 var erindi kæranda hafnað með eftirfarandi bókun:
Framkvæmdaleyfi
Garðavegur 13
Árni Ingimundarson f.h. Olíudreifingar ehf. sækir um leyfi fyrir eftirfarandi framkvæmdum á lóð Olíudreifingar Garðavegi 13. skv. meðfylgjandi teikningum.
• Lekavarnarþró
• Áfyllingaraðstöðu
• Fráveitu við svartolíugeymi.
Afgr.ráðs
Ráðið hafnar umsókn og bendir á að samkvæmt ákvæðum í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 er framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-6 (Eiði).
Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997“
Með bréfi til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst 2006, mótmælti kærandi ofangreindri afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs. Sama dag var afgreiðsla ráðsins samþykkt á fundi bæjarstjórnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var fyrrgreint bréf kæranda, dags. 24. ágúst s.á., lagt fram. Var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Ráðið vísar til bókunar dags. 06.07.2006 (sic) sem tekin var með vísan í Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014.“
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þurfi framkvæmdarleyfi teljist framkvæmd vera meiriháttar og hún breyti ásýnd umhverfis eða sé matsskyld samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Kærandi telji framkvæmdina ekki vera meiriháttar heldur sé um eðlilegar breytingar að ræða vegna hertra umhverfiskrafna. Jafnvel þótt framkvæmdirnar teldust vera meiriháttar verði varla talið að um sé að ræða meiriháttar breytingu á ásýnd umhverfisins.
Telji kærandi að ekki þurfi sérstakt framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar þrátt fyrir að um það hafi verið sótt. Tilkynning skipulags- og byggingarfulltrúa um að umsókn kæranda hafi verið hafnað bendi til þess að vafi kunni að vera á ferðinni. Af þeim sökum beri að úrskurða í málinu, sbr. 8. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er bent á að kærandi óski eftir úrlausn úrskurðarnefndarinnar um hvort framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum séu háðar framkvæmdaleyfi og sé staðhæft að erindi hans hafi verið meðhöndlað sem umsókn um framkvæmdaleyfi. Um misskilning sé að ræða hjá kæranda sökum þess að efst á útskriftarblaði tilkynningar um hina kærðu ákvörðun hafi verið ritað Framkvæmdaleyfi. Aftur á móti sé ekkert í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs sem gefið hafi ástæðu til að álykta með þessum hætti. Þvert á móti hafi verið sérstaklega bent á að ekki væri gert ráð fyrir framtíðaruppbyggingu olíubirgðastöðva á umræddu svæði heldur úti á Eiði. Þá hafi kæranda einnig verið í lófa lagið að óska eftir frekari upplýsingum eins og fram komi á tilkynningarblaðinu.
Samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé um að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir og í 1. mgr. 43. gr. laganna komi fram að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falli undir IV. kafla laganna nema að fegnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.
Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar í máli þessu.
Niðurstaða: Úrlausnarefni máls þessa lýtur að því hvort frágangur við lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg séu framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt greindu lagaákvæði eru þær framkvæmdir leyfisskyldar sem teljast meiri háttar og hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku. Nánar er fjallað um framkvæmdaleyfi í gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Af framangreindum réttarreglum verður ráðið að einungis þær framkvæmdir sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfið séu framkvæmdaleyfisskyldar. Hvort svo sé verður að meta í hverju tilfelli fyrir sig, m.a. með hliðsjón af staðháttum.
Samkvæmt teikningu sem fylgdi beiðni kæranda til byggingarfulltrúa var ætlunin m.a. sú að gengið yrði þannig frá mengunarvörnum að birgðastöð sem fyrir er á lóðinni nr. 13 við Garðaveg uppfyllti kröfur mengunarvarnarreglugerðar og að gengið yrði frá steinsteyptri varnarþró um geymi sem er með steinsteyptum botni og veggjum.
Með hliðsjón af eðli og umfangi umræddra framkvæmda telur úrskurðarnefndin að þær geti hvorki talist meiri háttar né að þær hafi umtalsverð áhrif á umhverfið. Verður því ekki talið að þær séu leyfisskyldar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Eins og kröfugerð kæranda er háttað verður ekki í máli þessu tekin afstaða til þess hvort umrædd framkvæmd sé háð byggingarleyfi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Framkvæmdir við lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum eru ekki háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
__________________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson