Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2006 Langabrekka

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 20. júní 2006 um að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóð nr. 5 við Löngubrekku.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. ágúst 2006, er barst nefndinni 17. sama mánaðar, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 20. júní 2006 að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóð nr. 5 við Löngubrekku í Kópavogi.

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði ógilt og að úrskurðað verði að leyfið skuli veitt á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Málavextir:  Á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 7. mars 2006 var lagt fram erindi kæranda um leyfi til að stækka bílskúr á lóð hans.  Var afgreiðslu málsins frestað og óskað eftir umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs bæjarins.

Hinn 4. apríl 2006 var erindið tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd og samþykkt að kynna málið fyrir lóðarhöfum að Löngubrekku 3 og 7 og Álfhólsvegi 59, 61 og 63. Athugasemdir bárust frá lóðarhöfum Álfhólsvegar 61 og á fundi skipulagsnefndar hinn 20. júní 2006 var umsókninni hafnað á grundvelli umsagnar bæjarskipulags sem taldi ljóst að þinglýst samþykki nágranna fyrir byggingu bílskúrs að lóðamörkum myndi ekki fást.  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 22. júní s.á.

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsnefndar frá 20. júní 2006 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Í kæru er vikið að ástæðum þess hversu seint kæra er fram komin og m.a. bent á að í engu sé getið um kærufrest í bréfi skipulagsstjóra þar sem fyrrgreind ákvörðun skipulagsnefndar hafi verið tilkynnt kæranda.

Kærandi bendi á að á umræddu svæði sé ekki í gildi deiliskipulag og því verði að líta til „ríkjandi skipulags“ svæðisins við ákvörðun um veitingu byggingarleyfa en bílskúrar við Löngubrekku og Álfhólsveg séu í nær öllum tilvikum upp við lóðamörk.  Sé þess krafist að jafnræðis sé gætt við úthlutun byggingarleyfa og bent á að veitt hafi verið leyfi til byggingar bílskúrs á Álfhólsvegi 61 við lóðarmörk.  Þá sé bent á að í gr. 75.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segi að ákveða megi í skipulagi að fjarlægð húss frá lóðarmörkum geti verið minni en tilskilin sé í gr. 75.1 í reglugerðinni.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella hafnað.  Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um samþykkt þá sem hann kæri.  Kæranda hafi verið tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 28. júní 2006, en kæra hafi ekki borist fyrr en tveimur mánuðum síðar og kærufrestur því liðinn.

Kópavogsbær byggi varakröfu sína aðallega á því að ákvörðun skipulagsnefndar hafi verið lögmæt og réttmæt.  Ljóst sé að bílageymsla sú sem óskað hafi verið eftir að stækka sé mjög stór.  Tillögunni hafi verið hafnað á grundvelli innsendra athugasemda og einnig með vísan til þess að nefndin hafi talið stærð núverandi bílageymslu hæfilega miðað við aðstæður.  Ekki hafi verið unnt að fallast á breytinguna þar sem ekki yrði séð hvaða rök, sjónarmið, þörf eða nauðsyn lægju að baki stækkuninni sem réttlæta ættu hana og kæmu til móts við þau neikvæðu grenndaráhrif sem hún hefði.

Niðurstaða: Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi.  Ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókn kæranda.  Gildir einu þótt það hafi verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn, enda bar nefndinni þá, að kynningu lokinni, að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með efnislegri afgreiðslu svo sem raunin varð.

Fundargerð skipulagsnefndar frá 20. júní 2006 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 22. júní 2006 en engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindinu eða samþykkja það.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs.  Var þannig ekki bundinn endi á málið með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar.   

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um leyfi til stækkunar bílskúrs að Löngubrekku 5 ekki hlotið lögboðna meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

  ___________________________    
 Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon