Ár 2008, fimmtudaginn 24. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 4/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. september 2007 um að samþykkja niðurrif bílskúrs og byggingu nýs á lóðinni nr. 24 við Miklubraut í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. janúar 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra Þ, Á og A, stjórnarmenn húsfélagsins Mjóuhlíðar 8 og 10, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. september 2007 að samþykkja að rífa bílskúr og byggja nýjan á lóðinni nr. 24 við Miklubraut. Var framangreint samþykkt á fundi borgarráðs hinn 27. s.m.
Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. Verður ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun frakvæmda heldur er málið nú tekið til efnisúrskurðar.
Málavextir: Árið 1951 samþykkti bæjarráð Reykjavíkur staðsetningu bílskúra á baklóðum húsanna nr. 24-28 við Miklubraut, andspænis Mjóuhlíð 8-10, með aðkomu frá Mjóuhlíð. Árið 1984 veitti byggingarnefnd byggingarleyfi fyrir bílskúrunum en þeir höfðu þá þegar verið byggðir. Samkvæmt leyfunum var og gert ráð fyrir bílastæðum vestan við bílskúrana.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. maí 2005 voru teknar fyrir umsóknir íbúðareigenda að Miklubraut 24, 26 og 28 í Reykjavík, þess efnis að veitt yrðu leyfi til að rífa bílskúra við lóðir þeirra og byggja nýja. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2005 var lagt fram samþykki eigenda Miklubrautar 22 við fyrirhuguðum framkvæmdum og málunum vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 29. júlí 2005 var samþykkt að grenndarkynna erindin fyrir hagsmunaaðilum að Miklubraut 22 og 30 og Mjóuhlíð 8-10. Að lokinni grenndarkynningu bárust athugasemdir frá íbúum við Mjóuhlíð, þ.á.m. frá kærendum.
Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 7. október 2005 var ákveðið að fela hverfisarkitekt að funda með þeim aðilum sem sent höfðu inn athugasemdir og var málinu vísað til skipulagsráðs sem tók það fyrir á fundi hinn 26. október 2005 og samþykkti framlagðar umsóknir. Nánar tiltekið var samþykkt að heimila eigendum að Miklubraut 24 að rífa núverandi bílskúr og byggja nýjan bílskúr, steyptan í plastkubbamót, á austur lóðamörkum ásamt steinsteyptum stoðvegg á austur og vestur lóðarmörkum lóðar nr. 24 við Miklubraut. Jafnframt var samþykkt að heimila eigendum að Miklubraut 26 og Miklubraut 28 að byggja hvor á sinni lóð nýjan bílskúr steyptan í plastkubbamót á austur lóðamörkum lóða sinna ásamt steinsteyptum stoðvegg á lóðunum.
Kærendur skutu ákvörðunum skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 14. desember 2007 vísað kærumálinu frá nefndinni.
Á fundi byggingarfulltrúa hinn 25. september 2007 var sótt um endurnýjun á byggingaleyfi fyrir niðurrifi bílskúrs á lóðinni nr. 24 við Miklubraut og byggingu nýs að stærð 23,4 m² og var erindið samþykkt. Grenndarkynning hafði áður farið fram og gerðu kærendur athugasemdir vegna hennar en af hálfu borgaryfirvalda var þeim ekki svarað.
Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að þeim hafi í engu verið kunnugt um hið kærða leyfi fyrr en hinn 18. desember 2007 enda hafi þeim ekki verið kynnt afdrif umsóknar um byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 24 við Miklubraut. Kærendur telji sig því í fullum rétti til að kæra til úrskurðarnefndarinnar hið kærða leyfi enda hafi kæran borist nefndinni innan mánaðar frá því að þeim hafi orði kunnugt um leyfið.
Því sé einnig haldið fram að bílskúr við Miklubraut 24 sé lítið sem ekkert notaður sem bílskúr og að íbúar hússins nýti sér bílastæði fyrir framan hann. Skerði þetta möguleika íbúa við Mjóuhlíð til að leggja bílum sínum í götunni. Telja kærendur að nýr bílskúr og bílastæði við hlið hans myndi enn auka á bílastæðavanda við götuna. Kærendur telji réttmætt að rífa umræddan skúr sem sé þyrnir í augum allra er í götuna komi. Undirstrikað sé að bílskúr sá sem fyrir hafi verið á lóðinni hafi verið byggður án leyfis á sínum tíma. Fengist hafi leyfi fyrir skúrnum fyrir u.þ.b. 20 árum en án þess að grenndarkynning hafi farið fram. Sé jafnframt tekið fram að nágrannar kærenda leggi gjarna bílum sínum þannig að hættuástand skapist, aðeins minnstu bílar komist um götuna og sé hún ófær slökkvi- eða sjúkrabifreiðum.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag að þeim reit sem umræddur bílskúr standi á. Bílskúr sá er fyrir hafi verið á lóðinni hafi verið samþykktur á fundi byggingarnefndar hinn 12. apríl 1984 en hafi í raun verið byggður nokkru áður. Ekki sé fallist á að bygging bílskúrsins hafi farið fram án leyfis og sé vísað til samþykktar bæjarráðs Reykjavíkur frá 28. júlí 1951 því til stuðnings.
Hin mikla aukning sem orðið hafi á bílaeign hin síðustu ár skapi mikil bílastæðavandamál í eldri hverfum borgarinnar sem oft sé ekki unnt að bæta úr. Ekki verði séð að í tilviki því er hér um ræði sé möguleiki á að koma fyrir gangstétt eða bæta það fyrirkomulag sem ríki varðandi bílastæði á svæðinu.
Hið samþykkta leyfi geri ráð fyrir endurbyggingu bílskúrs sem þegar sé til staðar og samþykktur hafi verið af byggingaryfirvöldum. Sé því hvorki um aukningu á umferð að ræða vegna fyrirhugaðra framkvæmda né á notkun bílastæða, miðað við núverandi ástand. Ekki sé unnt að krefjast þess af eiganda bílskúrsins að skúrinn verði færður innar á lóðina gegn andmælum hans auk þess sem óheppilegt sé að fórna suðurlóð undir bílskúr. Reykjavíkurborg væri í raun óheimilt að synja um endurbyggingu bílskúrsins nema að viðlagðri bótaábyrgð þar sem um samþykktan byggingarrétt sé að ræða og ekki sé talið að málefnalegar ástæður séu fyrir hendi að synja um endurbyggingu hans.
Svo virðist sem farist hafi fyrir að senda þeim, er gert hafi athugasemdir við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar, tilkynningu um samþykkt byggingarfulltrúa skv. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Því sé haldið fram að svo óverulegur ágalli á málsmeðferð geti ekki valdið ógildingu samþykktar byggingarfulltrúa. Brestur á að senda tilkynningu til athugasemdaraðila valdi einungis því að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar framlengist til þess tíma er þeim hafi orðið kunnugt um samþykktina.
Byggingarleyfishafa gafst kostur á að tjá sig um kröfu kærenda en hann hefur ekki gert það.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. Í máli því er hér er til meðferðar liggur fyrir að umsókn um leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 24 við Miklubraut var grenndarkynnt og gerðu kærendur athugasemdir vegna hennar. Hinn 25. september 2007 veitti byggingarfulltrúi hið kærða byggingarleyfi en þeim er gerðu athugasemdir var ekki tilkynnt um þá afgreiðslu svo sem skylt er samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna. Kærendum varð ekki kunnugt um byggingarleyfið fyrr en hinn 18. desember 2007 og var kæra til úrskurðarnefndarinnar móttekin hjá henni 8. janúar 2008. Var kærufrestur samkvæmt framansögðu þá ekki liðinn. Sá ágalli á málsmeðferð að tilkynna ekki um niðurstöðu grenndarkynningar telst aftur á móti ekki þess eðlis að ógildingu varði enda komu kærendur kæru að til úrskurðarnefndarinnar og urðu því ekki fyrir réttarspjöllum vegna þessa ágalla.
Ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til umrædds svæðis og kusu borgaryfirvöld að neyta undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna framkomna umsókn. Verður að telja, með tilliti til þess að um óverulega breytingu var að ræða frá því byggðamynstri sem fyrir var, að skilyrði hafi verið til þess að haga málmeðferð með þessum hætti. Er þá litið til þess að fyrir var á lóðinni að Miklubraut 24 19,5 m² bílskúr sem rifinn var og að bílskúr sá er hið kærða leyfi heimilar er einungis 23,4 m² og því um óverulega stækkun skúrsins að ræða. Verður og að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að byggingarleyfi hafði verið veitt hinn 12. apríl 1984, bæði fyrir eldri bílskúr og bílastæði vestan hans á lóðinni, en það leyfi sætir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.
Í ljósi þess sem að framan greinir, og að teknu tilliti til staðhátta og þeirra hagsmuna lóðareigenda að geta nýtt lóð sína, þykja ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og verður henni því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar byggingarfulltrúa frá 25. september 2007 um að veita leyfi fyrir að rífa bílskúr og byggja nýjan á lóðinni nr. 24 við Miklubraut í Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson