Ár 2007, fimmtudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 131/2007, kæra á ákvörðunum byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 um að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 á orlofs- og sumarhúsasvæði í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2007, er barst nefndinni með símbréfi samdægurs, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, til heimilis að Glaðheimum 14 í Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóðinni nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi þær ákvarðanir byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. september 2007 að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112. Voru framangreindar ákvarðanir staðfestar á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007.
Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.
Málsatvik og rök: Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 4. júlí 2007 voru felld úr gildi leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 á orlofs- og sumarhúsasvæði í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem þau voru talin vera í andstöðu við deiliskipulag svæðisins. Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 12. júlí 2007 var ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagsskilmálum svæðisins er vörðuðu stærð og útlit húsa og var hún auglýst í kjölfarið. Var tillögunni andmælt af hálfu kærenda. Á fundi hreppsnefndar hinn 6. september 2007 var tillagan samþykkt. Með bréfi Skipulagsstofnunar til hreppsnefndarinnar, dags. 21. september 2007, lagðist stofnunin gegn auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Eigi að síður birtist auglýsing um gildistökuna í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. september 2007. Skutu kærendur ákvörðun hreppsnefndar um breytt deiliskipulag svæðisins til úrskurðarnefndarinnar og er það mál nú til meðferðar hjá nefndinni.
Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 25. september 2007 var samþykkt að heimila byggingu sumarhúsa á lóðunum nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs og staðfesti hreppsnefnd þær ákvarðanir á fundi hinn 4. október 2007. Kærendur hafa nú skotið þeim ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun hreppsnefndar um breytt deiliskipulag er m.a. taki til lóðanna nr. 109 og 112 í landi Kiðjabergs og krafist ógildingar hennar. Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að jafnframt beri að fella hin kærðu byggingarleyfi úr gildi. Að auki séu hin kærðu byggingarleyfi ekki í samræmi við hina áður kærðu samþykkt um breytt deiliskipulag.
Þá liggi fyrir að húsin á lóðunum nr. 109 og 112 hafi verið reist í andstöðu við deiliskipulag. Óheimilt sé, samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að breyta deiliskipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Húsin hafi ekki verið fjarlægð, þvert á móti hafi verið unnið í og við þau þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndarinnar er fellt hafi byggingarleyfi þeirra úr gildi.
Kröfu sína um stöðvun framkvæmda byggi kærendur á 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. Hinar leyfðu framkvæmdir séu augljóslega verulega frábrugðnar gildandi skipulagi, hvort sem miðað sé við eldri eða nýrri skilmála. Framkvæmdir á svæðinu hafi þegar verið látnar ganga allt of langt á grundvelli ólögmætra skipulagsákvarðana, ólögmætra byggingarleyfa og vegna ólögmæts afskiptaleysis sveitarstjórnaryfirvalda.
Nauðsynlegt sé í ljósi forsögu málsins og háttsemi sveitarstjórnar og byggingaraðila að stöðva þegar allar framkvæmdir við húsin þar til efnislega hafi verið leyst úr ágreiningnum. Með nútímatækni geti byggingarframkvæmdir gengið mjög hratt fyrir sig. Verði framkvæmdir ekki stöðvaðar nú þegar geti það leitt til enn frekari réttarspjalla fyrir kærendur og hugsanlega haft áhrif á niðurstöðu málsins að lokum.
Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði synjað enda séu hin kærðu byggingarleyfi í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins svo sem því hafi nú verið breytt.
Þá geri kærendur ekki grein fyrir því með skýrum hætti að hvaða leyti þeir telji leyfin andstæð gildandi skipulagi og/eða skilmálum.
Byggt sé á því að gildandi deiliskipulag sé lögmætt og málsmeðferð við afgreiðslu þess í samræmi við skipulags- og byggingarlög. Hið sama gildi um skilmála skipulagsins.
Því sé mótmælt að breyting á skipulagsskilmálum hafi verið ólögmæt með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þ.e. að rífa hefði þurft byggingar á lóðum nr. 109 og 112 áður en unnt hefði verið að breyta skipulagi svæðisins.
Vakin sé athygli á því að umræddar byggingar séu í samræmi við deiliskipulagsbreytingu þá er öðlast hafi gildi hinn 23. ágúst 2006. Ágreiningurinn nú standi einungis um skilmálana sem slíka, þ.e. stærðir húsa á öllum sumarhúsalóðum í landi Kiðjabergs. Það eitt leiði til þess að hafna beri þessum sjónarmiðum.
Framkvæmdir við hús á umræddum lóðum hafi verið taldar í samræmi við gildandi skipulag. T.d. megi benda á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi farið í gang eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006. Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi verið framkvæmt í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag. Ennfremur megi nefna að neikvæð áhrif framkvæmda á lóðunum fyrir hagsmuni kærenda séu óveruleg. Ljóst sé einnig að framkvæmdir verði ekki stöðvaðar með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Leyfishafar hafi í höndunum útgefin byggingaleyfi af þar tilbærum byggingaryfirvöldum. Á grundvelli þeirra leyfa hafi byggingarleyfishafar hafið framkvæmdir á ný við húsin en framkvæmdir hafi legið niðri frá því í sumar og þar til nýtt deiliskipulag svæðisins hafi tekið gildi. Það deiliskipulag hafi ekki verið fellt úr gildi og meðan svo sé ástatt standi engin rök til þess að fella byggingarleyfin úr gildi.
Fyrir úrskurðarnefndinni liggi krafa kærenda um að nýsamþykkt deiliskipulag verði fellt úr gildi. Þar til niðurstaða liggi fyrir í því þrætumáli telji byggingarleyfishafar, að teknu tilliti til hagsmuna kærenda annars vegar og hagsmuna þeirra sjálfra hins vegar, að úrskurðarnefndin eigi að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda. Framkvæmdir séu það langt á veg komnar og hafi kostað það mikið fé að hagsmunir þeirra séu miklu ríkari en hagsmunir kærenda.
Bent sé á að húsið á lóð nr. 109 sé komið upp með frágengnu þaki að mestu leyti. Það sé krossviðarklætt. Gluggar og gler sé komið í húsið, en þó ekki að öllu leyti. Búið sé að einangra og klæða geymslu, en einangrun hússins sé ekki að fullu lokið. Kalt vatn og rafmagn sé komið í húsið. Búið sé að steypa gólfplötu með hitalögn. Hætta sé á skemmdum verði framkvæmdir stöðvaðar nú.
Áætla megi að búið sé að framkvæma 80% af vinnu við smíði hússins á lóð nr. 112 og að það yrði fullfrágengið á næstu þremur vikum, fengju menn að vinna óáreittir. Búið sé að klára klæðningu allra innveggja og lofts. Vatns- og rafmagnsinntak sé komið í hús. Allar rafmagnslagnir séu komnar og búið sé að draga í þær og setja upp bráðabirgðalýsingu. Allar pípulagnir séu komnar og búið að ganga frá öllu í kringum böð. Rotþró sé komin á sinn stað. Öll eldhústæki, blöndunartæki og þess háttar séu komin í hús og tilbúin til uppsetningar. Allri innréttingasmíði sé lokið. Utanhúsklæðning sé komin á staðinn og bíði uppsetningar. Búið sé að kaupa þakklæðningu og bíði hún uppsetningar af fagaðilum. Þakkantur sé frágenginn og lokið sé klæðningu undir hann. Búið sé að grófjafna lóð. Hætta sé á skemmdum verði ekki gengið frá utanhúsklæðningu og þakklæðningu hið fyrsta.
Niðurstaða: Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni. Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar, án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls. Felur ákvæðið hins vegar ekki í sér viðurlög af neinu tagi enda um þau fjallað í VI. kafla laganna.
Í máli þessu liggur fyrir að sumarhús þau, sem hinar kærðu samþykktir heimila, eru risin og að unnið er að frágangi þeirra utanhúss og má fallast á með byggingarleyfishöfum að stöðvun framkvæmda nú gæti leitt til óþarfra eignaspjalla. Þá verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umræddar byggingar að teljast unnar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfanna og deiliskipulag umrædds svæðis eru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er vandséð að byggingarleyfishafar vinni nokkurn rétt þótt þeir haldi framkvæmdum áfram við þessar aðstæður.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda, um að framkvæmdir á lóðunum nr. 109 og 112 á orlofs- og sumarhúsasvæði í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi skuli stöðvaðar, meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
____________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson