Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2006 Öldutúnsskóli

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2006, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 vegna framkvæmda við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.    

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. eigenda íbúða að Víðihvammi 1 í Hafnarfirði, afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 vegna framkvæmda við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.   

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess óskað, telji úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun sé ekki kæranleg, að nefndin láti í ljós álit sitt á því hvort umrædd framkvæmd sé byggingarleyfisskyld.   

Málavextir og rök:    Hinn 25. október 2005 ritaði lögmaður kærenda bréf til Hafnarfjarðarbæjar vegna framkvæmda við gerð sparkvallar á lóð Öldutúnsskóla en skólinn er í næsta nágrenni við hús kærenda.  Í bréfinu var því haldið fram að framkvæmdin væri ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins og að kærendum hafi hvorki verið kynnt breyting á deiliskipulagi né byggingarleyfisumsókn.  Þá var þess óskað að framkvæmdin yrði stöðvuð.  Í svarbréfi bæjaryfirvalda, dags. 7. nóvember s.á., var greint frá því að á árinu 1997 hafi íbúum á svæðinu verið kynnt áform um viðbyggingu við skólann og frágangi lóðar og að hin umdeilda framkvæmd væri í samræmi við skipulag svæðisins.  Í kjölfar þessa ritaði lögmaður kærenda bæjaryfirvöldum bréf á ný þar sem framangreindu var mótmælt og því haldið fram að bæði hafi átt að sækja um leyfi til stækkunar skólalóðarinnar og byggingarleyfi vegna framkvæmdarinnar.  Þá var þess krafist að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdina og að mannvirkin yrðu fjarlægð.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. janúar 2006 var samþykkt svarbréf til lögmanns kæranda þar sem ítrekað var að framkvæmdin væri í samræmi við skipulag.  Var lögmanni kærenda tilkynnt framangreint ásamt upplýsingum um kærustjórnvald.  Hafa kærendur kært þá afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að grenndaráhrif sparkvalla séu umtalsverð og af þeim stafi hávaði og ónæði. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki verði talið að kærendur eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kært svar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 6. janúar 2006 við bréfi lögmanns kærenda, dags. 12. desember 2005, í tilefni framkvæmda við gerð sparkvallar við Öldutúnsskóla.  Umrætt svar felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.  Meint ákvörðun sem kærð er í máli þessu sætir því ekki kæru skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  

Framkvæmd þeirri sem um er deilt í málinu er lokið og verður því ekki séð að kærendur eigi hagsmuni því tengda að fá álit úrskurðarnefndarinnar á því hvort byggingarleyfis hafi verið  þörf vegna framkvæmdarinnar og er beiðni um úrlausn um það álitaefni því einnig vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Beiðni um álit er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

     ____________________________________
             Hjalti Steinþórsson            

 

 _____________________________                   ______________________________
      Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson