Ár 2006, föstudaginn 6. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 24/2004, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna við Naustabryggju 36-52 í Reykjavík.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2004, er barst nefndinni hinn 15. apríl sama ár, kærir stjórn húsfélagins að Naustabryggju 54-56, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna nr. 36-52 við Naustabryggju í Reykjavík.
Krefst kærandi ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. desember 2003 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 36-52 við Naustabryggju og var samþykkt að grenndarkynna hana hagsmunaaðilum á svæðinu. Grenndarkynningin stóð yfir frá 10. desember 2003 til 9. janúar 2004 og bárust athugasemdabréf frá kæranda máls þessa, eigenda Básbryggju 39, sem og mótmæli 85 einstaklinga. Var tillagan, að lokinni grenndarkynningu, lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. mars 2004, ásamt m.a. umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti tillöguna og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. apríl 2004.
Hið kærða deiliskipulag fól í sér heimild til að breyta níu raðhúsum á lóðinni nr. 36-52 við Naustabryggju í fjölbýlishús með 20 íbúðum. Á fyrstu hæð hússins var gert ráð fyrir 19 bílastæðum og á sameiginlegri bílastæðalóð húss nr. 54-56 við Naustabryggju var gert ráð fyrir níu bílastæðum, eða samtals 28 bílastæðum. Krafa var gerð um tvö bílastæði fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra og 1,25 bílastæði fyrir íbúðir minni en 80 fermetra. Þá var og gerð breyting á byggingarreit hússins og hann breikkaður um 0,5 metra.
Þessari ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagssamþykkt hafi afgerandi áhrif fyrir Naustabryggju 54-56 þar sem öll umferðaraukning sem fylgi auknum íbúafjölda Naustabryggju 36-52 safnist um þau gatnamót sem húsið standi við og inn á bílastæði þess. Einnig sé ljóst að hinn sérstaki arkitektúr Bryggjuhverfisins, þar sem byggðin sé látin sameina nútíma byggingar í þröngu umhverfi gamalla hafnarsvæða, leyfi ekki frekari þéttingu byggðar. Naustabryggja, sem eigi að þjóna öllu umferðarflæði við þá götu auk fjölmennasta hluta Básbryggju, sé einbreið gata sem þoli ekki þéttingu byggðar við fjærsta enda götunnar. Hin kærða ákvörðun hafi í för með sér fjölgun íbúa svæðisins, gífurlega aukningu á umferð og mengun auk skerðingar á bílastæðum. Allt þetta muni rýra eignir á svæðinu verulega.
Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé miðað við að breyta raðhúsum í fjölbýlishús með litlum íbúðum og megi búast við því að mikil hreyfing verði á íbúum þeirra, eins og almennt sé í minni íbúðum, sem hafi í för með sér meira ónæði fyrir aðra íbúa. Þá verði aðkoma að bílastæðum þrengri þar sem í skipulaginu felist heimild til að breikka húsið. Þrengt sé of mikið að aðkomu sjúkrabíla og slökkviliðs.
Bent sé á að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir þremur leiðum í gegnum hverfið. Þegar leyfð hafi verið lokun götunnar við Básbryggju 15 hafi leiðirnar orðið tvær, báðar framhjá Naustabryggju 36-52. Verði ákvörðunin staðfest sé hætta á að heimilin á svæðinu verði oftar innilokuð og það geti ekki verið réttlætanleg áhætta.
Skrifstofa skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar hafi grenndarkynnt íbúum og eigendum fasteigna við Naustabryggju tillögu að breyttu deiliskipulagi Naustabryggju 36-52 í desember 2003 með athugasemdafresti til 9. janúar 2004. Fyrir tilskilinn frest hafi yfir 90% þeirra íbúa, sem samkvæmt grenndarkynningunni hafi haft hagsmuna að gæta, mótmælt tillögu að breyttu deiliskipulagi. Hinn 26. febrúar 2004 hafi umhverfis- og tæknisvið boðað til fundar með íbúum í Bryggjuhverfi þar sem skipulagsmál hverfisins hafi verið skýrð frekar sem og hin kærða deiliskipulagsbreyting. Hafi fundurinn verið fjölsóttur og fundarmenn samhljóða um að mótmæla breytingunni. Því hafi skipulags- og byggingarnefnd, með samþykkt sinni, gengið gegn hagsmunum þess fólks sem deiliskipulagið hafi bein áhrif á og einnig gegn afstöðu annarra íbúa hverfisins.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að þrátt fyrir mótmæli íbúa hafi ekki verið gengið á rétt þeirra. Þeim hafi verið kynntar breytingarnar, en endanlegt skipulagsvald liggi hjá borginni. Mótmælum íbúa hafi verið svarað á málefnalegan hátt og einnig hafi verið komið til móts við óskir þeirra svo sem þannig að Naustabryggja (nyrsta gatan) yrði opin fyrir almennri umferð.
Bent sé á að athugasemdir íbúa hafi einkum lotið að fjölgun íbúa ásamt því að aukin umferð myndi öll lenda á Naustabryggju, þrengt yrði að aðkomu sjúkrabíla og slökkviliðs og þrengt að umferð íbúa. Bílastæði væru yfirleitt vel full fyrir. Þessu sé því til að svara að ekki sé gert ráð fyrir fleiri bílum eða aukinni umferð samfara breytingunni. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að um sé að ræða óverulega aukningu íbúða, sem ekki sé talin hafa áhrif á umferð um Naustabryggju. Í Bryggjuhverfi séu 335 íbúðir, þar af 33 íbúðir í raðhúsum. Heildarfjöldi íbúða yrði með breytingu 346 íbúðir, þar af 24 íbúðir í raðhúsum. Í umsögn skipulagshöfundar komi fram að búast hafi mátt við þremur íbúum á íbúð í raðhúsi að meðaltali samkvæmt eldra skipulagi eða samtals 27 íbúum. Í litlum íbúðum eins og hér um ræði megi búast við mest tveimur íbúum á íbúð að meðaltali eða alls 40 íbúum. Sé því um mjög litla aukningu að ræða sem ekki geti haft tilfinnanleg áhrif á umferð.
Í Bryggjuhverfi eins og í öðrum nýjum hverfum sé almennt gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðum fyrir hverja íbúð í fjölbýli og séu stæðin ýmist í bílgeymslum eða úti. Fyrir íbúðir í raðhúsum sé gert ráð fyrir þremur stæðum fyrir hverja íbúð, þar af tveimur í bílgeymslum. Þá séu að auki bílastæði miðsvæðis í hverfinu opin almenningi. Bílastæðakrafa í hverfinu sé mun hærri en byggingarreglugerð kveði á um, sem séu tvö stæði fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra og eitt stæði fyrir minni íbúðir. Undantekningar hafi verið gerðar á bílastæðafjölda við íbúðir námsmanna við Naustabryggju 9 og 11 og í vesturenda húss við Naustabryggju 35-53, þar sem þremur raðhúsum hafi verið breytt í 11 litlar íbúðir. Á þeim lóðum hafi deiliskipulagi verið breytt og gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð til samræmis við byggingarreglugerð. Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir 16 íbúðum minni en 80 fermetra og fjórum stærri og fylgi þeim samtals 28 stæði, þar af 19 í bílgeymslu. Tvö stæði séu fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra en 1,25 stæði fyrir minni íbúðirnar. Ólíklegt sé talið að litlum íbúðum fylgi sami fjöldi bíla og stærri eignum og því ekki talið að breytingin hafi í för með sér aukningu á umferð. Breytingin sé ekki talin hafa afgerandi áhrif á aðstæður á sameiginlegum bílastæðalóðum fyrir húsin við Naustabryggju 28-56. Réttilega fylgi flest stæðin á fyrrnefndum bílastæðalóðum húsinu við Naustabryggju 54-56, þar sem fá bílastæði fylgi húsinu í bílgeymslum.
Engar upplýsingar liggi fyrir um að meiri hreyfing sé á íbúum minni eigna sem valda muni ónæði. Þá muni jarðhæð hússins dýpka sem nemi 0,5 metrum til að unnt sé að koma fyrir tilskyldum fjölda bílastæða á jarðhæð þess. Breytingin hafi ekki áhrif á bílastæði á sameiginlegri bílastæðalóð.
Á almennum íbúafundi hinn 26. febrúar 2004 hafi verið kynnt útlit og fyrirkomulag hússins. Gerð hafi verið krafa um hönnun og útlit hússins til samræmis við þegar byggð hús í hverfinu og það samræmt byggðum húsum við bryggjukantinn.
Sérstaklega sé nauðsynlegt að minna á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
Niðurstaða: Eins og að framan greinir fól hin kærða ákvörðun í sér heimild til að breyta níu raðhúsum á lóðinni nr. 36-52 við Naustabryggju í fjölbýlishús með 20 íbúðum. Á fyrstu hæð er gert ráð fyrir 19 bílastæðum, auk níu stæða á sameiginlegri bílastæðalóð húss nr. 54-56 við Naustabryggju sem fyrir voru í eldra skipulagi, og fylgja húsinu því samtals 28 stæði. Gerð er krafa um tvö bílastæði fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra og 1,25 bílastæði fyrir íbúðir minni en 80 fermetra. Þá er byggingarreitur 1. hæðar hússins breikkaður um 0,5 metra. Er ekki getið annarra breytinga í greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti og verður að leggja til grundvallar að upptalning greinargerðarinnar á þeim breytingum sem heimilaðar eru sé tæmandi.
Deiliskipulag Bryggjuhverfis við Grafarvog var fyrst samþykkt í borgarráði hinn 8. júlí 1997 og var samkvæmt því gert ráð fyrir að á svæðinu yrðu bæði íbúðir í sérbýli og fjölbýlishúsum, samtals 253 íbúðir ásamt atvinnuhúsnæði. Samkvæmt gögnum er borgaryfirvöld hafa lagt fram í kærumáli þessu var gert ráð fyrir 335 íbúðum á svæðinu áður en hin kærða breyting á deiliskipulagi var samþykkt, þar af 33 íbúðum í raðhúsum. Eftir breytingu er gert ráð fyrir að heildarfjöldi íbúða í Bryggjuhverfi verði 346, þar af 24 í raðhúsum.
Úrskurðarnefndin telur að fjölgun íbúða í Bryggjuhverfi um tæp 3,3%, þar sem tuttugu litlar íbúðir koma í stað níu stærri íbúða samkvæmt hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi, verði að teljast óveruleg. Við hina umdeildu skipulagsbreytingu hefur verið gætt gildandi reglna um lágmarksfjölda bílastæða og verður ekki séð að breytingin hafi í för með sér slíka fjölgun íbúa, aukningu umferðar eða önnur grenndaráhrif er leiða eigi til þess að fallist verði á kröfur kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kæranda um ógildingu því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna við Naustabryggju 36-52 í Reykjavík.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson