Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2006 Lyngbrekka

Ár 2006, þriðjudaginn 15. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 58/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar frá 12. júlí 2005 um að veita heimild til stækkunar bílgeymslu og byggingar sólstofu að Lyngbrekku 10, Húsavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. júlí 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir G, f.h. Vélaleigu Húsavíkur ehf., lóðarhafa lóðarinnar að Lyngbrekku 13, Húsavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar frá 12. júlí 2005 að veita heimild til stækkunar bílgeymslu og byggingar sólstofu að Lyngbrekku 10, Húsavík.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar og þær grenndarkynntar.  Verður að skilja þessa kröfugerð svo að krafist sé ógildingar framangreindrar ákvörðunar og að umsókn byggingarleyfishafa verði tekin til meðferðar að nýju.

Málsatvik og rök:  Hinn 12. júlí 2005 veitti skipulags- og byggingarnefnd Húsavíkurbæjar heimild til stækkunar bílgeymslu og byggingar sólstofu að Lyngbrekku 10, Húsavík.  Í undirritaðri, ódagsettri yfirlýsingu þáverandi eigenda hússins að Lyngbrekku 12 var ekki gerð athugasemd við stækkun bílgeymslunnar.  Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var afgreidd á fundi bæjarráðs hinn 21. júlí 2005. 

Núverandi bílgeymsla er 5 metra frá lóðamörkum en eftir stækkun hennar verður fjarlægðin 1,5 metri.  Heildarflatarmál húss að Lyngbrekku 10 verður 232 m² eftir stækkun og nýtingarhlutfall lóðar 0,22.

Kæranda var úthlutað byggingarlóð að Lyngbrekku 13 í janúar 2006, en sú lóð er andspænis lóðunum nr. 10 og 12 við Lyngbrekku.  Verður ekki ráðið af málsgögnum að  honum hafi verið kunnugt um umrætt byggingarleyfi fyrr en í lok maí 2006.  Beindi kærandi erindi til bæjaryfirvalda er honum varð kunnugt um tilvist leyfisins og fór fram á að umsókn leyfishafa yrði grenndarkynnt og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið fengi lögboðna meðferð.  Erindi þessu var hafnað með bréfi, dags. 3. júlí 2006, og skaut kærandi málinu þá til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 17. sama mánaðar, svo sem að framan greinir.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að viðbygging bílgeymslunnar muni skerða verulega útsýni, hún sé öll utan byggingarreits og því ekki í samræmi við deiliskipulag.  Engin breyting hafi verið gerð á deiliskipulagi við Lyngbrekku þó að þessi bygging hafi verið heimiluð.  Þá hafi engin formleg grenndarkynning farið fram á þessari viðbyggingu, en til grundvallar hafi verið lagt samþykki eins nágranna, eiganda Lyngbrekku 12.  Loks gerir kærandi athugasemd vegna nálægðar húsanna Lyngbrekku 10 og 12, sem uppfylli ekki reglur um brunavarnir.  

Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að gatan Lyngbrekka sé gerð í kringum árið 1985 og hafi  ekki enn byggst að fullu.  Á þeim tíma hafi ekki tíðkast að gera deiliskipulag heldur hafi aðeins verið stuðst við gatnahönnun og lóðir teiknaðar við götuna.  Gerðir hafi verið byggingarskilmálar fyrir hús sem hafi komið að mestu í stað skilmála sem nú fylgi deiliskipulagsuppdráttum. 

Byggingarnefnd hafi fjallað um málefni Lyngbrekku hinn 11. janúar 1995.  Þar hafi byggingarfulltrúi kynnt tvær tillögur að deiliskipulagi fyrir götuna.  Deiliskipulag þetta hafi farið í kynningu og hafi komið fram athugasemdir frá lóðarhafa við Lyngbrekku 1, en þær hafi fengið sína afgreiðslu í fullri sátt.  Byggingarnefnd hafi síðan samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu á fundi hinn 19. júní 1995.  Ekki verði annað séð en að málið hafi eftir þetta dagað uppi í kerfinu og að samþykkt byggingarnefndar frá 19. júní 1995 hafi ekki hlotið þá málsmeðferð sem ætla hefði mátt.  Deiliskipulagið hafi hvorki verið sent Skipulagsstofnun né heldur auglýst í Stjórnartíðindum.  Skipulagið hafi því ekki fengið formlega staðfestingu þótt unnið hafi verið samkvæmt því allar götur síðan.

Það að heimila stækkun bílskúrs út fyrir byggingarreit, með samþykki nágranna, sé að öllu leyti réttætanlegt og í fullu samræmi við reglugerðir.  Skipulags- og byggingarnefnd sé ekki bundin af þeirri deiliskipulagstillögu sem áður sé getið þar sem hún hafi ekki fengið lokameðferð. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar frá 12. júlí 2005 um að veita heimild til stækkunar bílgeymslu og byggingar sólstofu að Lyngbrekku 10 á Húsavík.  Á þeim tíma er umdeilt leyfi var veitt hafði kærandi ekki öðlast réttindi yfir lóðinni að Lyngbrekku 13 og gat því ekki þá átt hagsmuna að gæta við ákvörðun bæjaryfirvalda um leyfisveitinguna.  Hefði kærandi þannig ekki getað átt aðild að grenndarkynningu hefði hún farið fram í tilefni af umsókn byggingarleyfishafa.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var umdeilt byggingarleyfi enn í gildi er leyfishafi hóf framkvæmdir samkvæmt leyfinu.  Studdist hann því við formlega gilt, ívilnandi leyfi stjórnvalds þótt undirbúningi þess kunni að hafa verið áfátt að einhverju leyti.  Verður ekki fallist á að úthlutun byggingarlóðar að Lyngbrekku 13 til kæranda mörgum mánuðum eftir útgáfu hins umdeilda leyfis hafi skapað honum rétt til aðildar að kærumáli til að fá leyfinu hnekkt heldur verður að telja að hann hafi orðið bundinn af þeim ráðstöfunum sem bæjaryfirvöld höfðu gert og snert gátu rétt hans sem lóðarhafa, m.a. vegna heimilda til framkvæmda í nágrenni lóðarinnar.  Hins vegar kann það að skapa kæranda rétt til bóta eða afsláttar úr hendi bæjarfélagsins hafi honum ekki verið gert kunnugt um tilvist leyfisins við úthlutun lóðarinnar en það fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr um þau álitaefni.

Samkvæmt framansögðu telst kærandi ekki eiga lögvarinn rétt til að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.  Af sömu ástæðu verður ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðbirgða.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

   ___________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                 _____________________________               Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson