Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2006 Gullengi

Ár 2006, mánudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagsfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2006, að veita leyfi fyrir byggingu þrílyfts fjölbýlishúss með níu íbúðum ásamt geymslukjallara undir hluta hússins nr. 6 við Gullengi ásamt veitingu takmarkaðs byggingarleyfis fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna sömu byggingar sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 7. febrúar 2006.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. febrúar 2006, og með rafrænu bréfi, dags. 17. febrúar 2006, er bárust nefndinni sömu daga, kærir G, formaður húsfélagsins að Gullengi 11, Reykjavík, þá ákvörðun  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2006 að veita leyfi fyrir byggingu þrílyfts fjölbýlishúss með níu íbúðum ásamt geymslukjallara undir hluta hússins nr. 6 við Gullengi ásamt veitingu takmarkaðs byggingarleyfis fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna sömu byggingar sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 7. febrúar 2006.  Þessar ákvarðanir voru staðfestar í borgarráði hinn 26. janúar og 9. febrúar 2006.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð sú krafa að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar þar til að efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu.

Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn og umsögn Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð lögmanns byggingarleyfishafa vegna stöðvunarkröfunnar ásamt fylgigögnum og þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka það til efnismeðferðar.  Verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Þann 17. mars 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur að kynna fyrir hagsmunaaðilum framlagða tillögu Tekton ehf., dags. 25. febrúar 2004, að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 2-6 við Gullengi.  Mun tillagan hafa falið í sér byggingu þriggja fjölbýlishúsa á lóðinni en í upphaflegu skipulagi var lóðin, sem er um 6000 fermetrar, ætluð undir bensínstöð og bílastæði fyrir stóra bíla. 

Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 28. júlí 2004 að lokinni kynningu tillögunnar fyrir hagsmunaaðilum og var þá lögð fram breytt skipulagstillaga, dags. 21. júlí 2004, ásamt athugasemdabréfum þeim er borist höfðu við fyrrgreinda kynningu.  Jafnframt var lögð fram umsögn forstöðumanns verkfræðistofu Reykjavíkurborgar og samantekt skipulagsfulltrúa á athugasemdum, dags. 14. maí 2004, með breytingum frá 26. júlí 2004. Á þeim fundi var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og málinu vísað til borgarráðs sem samþykkti á fundi hinn 10. mars 2005 greinda bókun nefndarinnar um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi að Gullengi 2-6.

Hinn 8. júní 2005 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs að lokinni auglýsingu með athugasemdafresti til 2. maí 2005.  Fjöldi athugasemda barst þar sem fyrirhugaðri skipulagsbreytingu var andmælt og þar á meðal af hálfu kærenda.  Fyrir fundinum lá jafnframt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní 2005.  Skipulagsráð samþykkti að vísa skipulagstillögunni ásamt framkomnum athugasemdum og umsögn skipulagsfulltrúa til umsagnar hverfisráðs Grafarvogs. 

Á fundi skipulagsráðs þann 21. september 2005 var málið tekið fyrir að nýju ásamt bókun hverfisráðs Grafarvogs, dags. 8. september 2005, og var deiliskipulagstillagan samþykkt með svofelldri bókun:

„Samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Vísað til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti og óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir vel rökstudd mótmæli íbúa á svæðinu og greiða atkvæði gegn tillögunni.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Fulltrúar Reykjavíkurlistans vísa til umsagnar hverfisráðs Grafarvogs og ítreka þær ábendingar sem þar koma fram. Íbúðir fara betur á þessum reit en bensínstöð og stæði fyrir stóra bíla.“

Afgreiðslunni var vísað til borgarráðs sem samþykkti erindið með fjórum atkvæðum gegn tveimur á fundi sínum hinn 29. september 2005 og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu hinn 4. október s.á. með 13 samhljóða atkvæðum.  Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu gildistökuauglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þar um hinn 20. október 2005.

Kærandi, ásamt nokkrum öðrum íbúum á svæðinu, skutu þessari deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 24. janúar 2006 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík síðan byggingarleyfi fyrir þrílyftu fjölbýlishúsi að Gullengi 6, sem fyrirhugað er að reisa á lóðinni að Gullengi 2-6, með stoð í hinu kærða deiliskipulagi og hinn 7. febrúar sl. var veitt svonefnt takmarkað byggingarleyfi fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna fyrirhgaðrar byggingar.  Hefur kærandi skotið þessum ákvörðunum til úrskurðar-nefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfur sínar við sömu málsástæður og tíundaðar eru í kæru á skipulagi því sem var undanfari hinna kærðu ákvarðana.  Þar er byggt á sjónarmiðum um stöðugleika í skipulagsmálum og væntingum íbúa út frá skipulagsákvörðunum.  Telur kærandi byggingar þær sem fyrirhugaðar séu á lóðinni að Gullengi 2-6 óhóflega stórar og nýtingarhlutfall of hátt sem leiði til skerðingar á útsýni, aukinnar umferðar og ónæðis gagnvart nágrönnum sem muni rýra verðmæti nágrannaeigna.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Bent er á að hin kærðu byggingarleyfi séu ekki háð neinum efnislegum annmörkum og eigi þau stoð í skipulagi því sem sett hafi verið á árinu 2005.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Í greinargerð lögmanns byggingarleyfishafa í tilefni af kröfu um stöðvun framkvæmda er tekið fram að umdeild byggingarleyfi séu í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag.  Ekkert liggi fyrir um að málsmeðferð, efni eða form hinna kærðu ákvarðana sé ábótavant eða andstætt lögum.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða:   Eins og rakið hefur verið byggir kærandi ógildingarkröfu sína á sömu rökum og færð eru fram í kæru hans og annarra íbúa á deiliskipulagsbreytingu þeirri er m.a. heimilar byggingu umdeilds húss að Gullengi 6.  Engar sjálfstæðar málsástæður hafa verið færðar fram af hálfu kæranda er snerta undirbúning og efni umdeildra byggingarleyfisákvarðana.

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð í kærumálum nr. 80 og 83/2005 er snúast um fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun fyrir lóðina að Gullengi 2-6 og var í þeim úrskurði hafnað kröfu um ógildingu skipulagsins.  Eru sjónarmið kæranda og Reykjavíkurborgar vegna umþrættra byggingaráforma gerð þar ítarleg skil.

Hinar kærðu ákvarðanir eru í samræmi við deiliskipulagsákvörðun sem ekki hefur verið hnekkt og ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð umdeildra  byggingarleyfa.  Eru því ekki skilyrði til þess að taka ógildingarkröfu kæranda til greina.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2006, að veita leyfi fyrir byggingu þrílyfts fjölbýlishúss með níu íbúðum ásamt geymslukjallara undir hluta hússins nr. 6 við Gullengi, ásamt veitingu takmarkaðs byggingarleyfis fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna sömu byggingar sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 7. febrúar 2006, er hafnað.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

_____________________________      ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson              Geirharður Þorsteinsson