Ár 2004, þriðjudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 68/2003, kæra eiganda húseignarinnar að Sunnuvegi 1, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Hverfisgötu 57, Hafnarfirði.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. nóvember 2003, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Ó, Sunnuvegi 1, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 að veita leyfi til að byggja við húsið nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Úrskurðarnefndin stöðvaði framkvæmdir við gerð svala og frágang utanhúss sem þeim tengjast með úrskurði kveðnum upp hinn 22. desember 2003 og er málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar.
Málavextir: Í húsinu nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði eru tvær íbúðir, lítil íbúð í kjallara og önnur stærri á aðalhæð hússins og í risi. Bílskúr er áfastur húsinu og stendur hann í sömu hæð og kjallarinn. Umrædd fasteign liggur að lóð kæranda og er svæðið ekki deiliskipulagt.
Í maí árið 2001 fóru eigendur stærri íbúðarinnar að Hverfisgötu 57 fram á heimild byggingarnefndar Hafnarfjarðar til að byggja við húsið. Beiðni þeirra laut að stækkun hússins á þann veg, að ofan á bílskúrinn yrði byggð 18,4 m² stofa og í henni miðri yrði lokað eldstæði. Beiðninni var vísað til skipulags- og umferðarnefndar sem grenndarkynnti hana frá 10. september 2002 til 9. október sama ár. Engar athugasemdir bárust og með vísan til þess gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 23. október 2002.
Hinn 28. mars 2003 veitti byggingarfulltrúi heimild til þess að þak viðbyggingarinnar yrði nýtt sem svalir samkvæmt ósk byggingarleyfishafans og var af því tilefni gefið út nýtt byggingarleyfi. Við staðfestingu byggingarnefndar á embættisafgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 8. apríl 2003 sagði að lagt hafi verið fram bréf nágranna, dags. 23. október 2002, vegna málsins.
Eigendaskipti urðu á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september 2003, en þá eignaðist kærandi máls þessa fasteignina.
Með bréfi, dags. 17. nóvember 2003, kærði kærandi samþykkt byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að staðsetning viðbyggingar þeirrar sem hér um ræði sé í andstöðu við IV. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, nánar tiltekið 1.– 6. tl. 75. gr., þar sem kveðið sé á um fjarlægð húsa frá lóðarmörkum, bil milli húsa o.fl. Staðsetning viðbyggingarinnar brjóti gegn kvöð lóðarleigusamnings, sem þinglýst sé á fasteignina nr. 57 við Hverfisgötu, þess efnis að ekki verði byggð viðbygging eða sambærileg mannvirki nær Sunnuvegi 1 en nemi 6,30 metrum. Kvöð þessari hafi ekki verið þinglýst á Sunnuveg 1.
Kvörtun kæranda beinist einnig að svölum sem ætlunin sé að byggja og hafin sé bygging á en þær hafi ekki verið á þeirri teikningu sem lögð hafi verið fram í grenndarkynningu. Svalir þessar hafi því hvorki verið kynntar nágrönnum né hlotið samþykki þeirra og því sé tilvísun byggingarnefndar í fundargerð hinn 8. apríl 2003 í bréf nágranna markleysa, enda sé í því bréfi hvergi fjallað um svalir á viðbyggingunni.
Kærandi heldur því fram að skorsteinn vegna arins í viðbyggingunni hafi verið færður og sé ekki byggður samkvæmt samþykktu byggingarleyfi.
Þá bendir kærandi á að samkvæmt teikningu vegna viðbyggingarinnar, dags. 23. október 2002, verði samþykktin ekki virk fyrr en eftir skráningu eignaskiptayfirlýsingar hjá Fasteignamati ríkisins og þinglýsingu hennar. Af veðbókarvottorðum fyrir Hverfisgötu 57 verði ekki séð að sú þinglýsing hafi átt sér stað.
Kærandi bendir ennfremur á að framkvæmdir séu samþykktar hinn 28. mars 2003 á lóð sem sé 225 m2. Með lóðarleigusamningi, dags. 22. september 2003, sé lóðin stækkuð að því er virðist á kostnað lóðar Sunnuvegar 1, sem rýri eign hans að miklum mun.
Varðandi framkvæmdirnar almennt fullyrðir kærandi að gluggi á brunavegg rýri nýtingarmöguleika lóðar hans auk þess sem hann auki eldhættu. Frá svölum viðbyggingarinnar sjáist vel inn í íbúð hans, skorsteinninn valdi reykmengun í garði hans, svefnherbergi og stofu auk þess sem af honum stafi brunahætta. Svalir á viðbyggingunni gnæfi yfir steyptan pall við útgang úr stofu hans út í garðinn og gjörbreyti því möguleikum til útivistar á þeim palli.
Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar: Embætti byggingarfulltrúa í Hafnarfirði hefur komið til úrskurðarnefndarinnar gögnum vegna málsins en ekki greint sérstaklega frá sjónarmiðum bæjarins vegna kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfisins.
Sjónarmið byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafinn krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem kærandinn hafi, á þeim tíma sem byggingarleyfið hafi verið veitt, ekki átt lögvarða hagsmuni. Þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni hafi framkvæmdum við viðbygginguna verið að mestu lokið og hið sama eigi við þegar kærandi hafi keypt fasteignina í september 2003. Fyrir verslunarmannahelgi það ár hafi þakdúkur verið lagður ásamt festingum fyrir svalahandriðið, hluti skorsteinsins verið kominn og fyrir ágústlok hafi gluggi og hurð á gafli verið sett og öllum mátt vera ljóst á þeim tíma að svalir væru fyrirhugaðar á þaki viðbyggingarinnar. Þessu til sönnunar hafi verið lagt fram tilboð í efni og vinnu við viðbygginguna, staðfesting á rafrænum greiðslum reikninga vegna glugga og svalahurðar og tveir reikningar vegna sama verks. Upphaflegir reikningar sýni annars vegar greiðslu fyrir hurð og glugga og hins vegar innborgun á glugga. Síðasti reikningurinn vegna glugga og svalahurðar sé greiddur hinn 3. október 2003, enda hafi verkinu þá verið lokið, utan þess að eftir hafi verið að ganga frá lausafögum.
Frestur til að kæra samþykktir byggingarnefnda eða sveitarstjórna sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 aðeins mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt um samþykktina og því hafi kærufrestur verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni.
Hvað nýgerðan lóðarleigusamning varði þá heldur byggingarleyfishafinn því fram að með honum hafi aðeins verið staðfest lóðaskipting sem alla tíð hafi verið viðhöfð milli lóðanna að Hverfisgötu 57 og Sunnuvegar 1 og því löngu komin hefð á skiptinguna.
Í engu hafi verið vikið frá samþykktum teikningum eða byggingarleyfi í þá veru að umrædd viðbygging sé á einhvern hátt verri fyrir kærendur. Skorsteinninn hafi verið færður að ráði sérfræðinga þar sem talið hafi verið að mun öruggara væri að hafa skorsteininn á brunavegg.
Byggingarleyfishafinn bendir á að umræddur gluggi á suðurvegg hafi verið hafður eins vestarlega á veggnum og unnt hafi verið, en fyrir hafi legið samþykki fyrrverandi eiganda Sunnuvegar 1 fyrir staðsetningu hans.
Þeirri fullyrðingu kæranda sé mótmælt að hinar umdeildu svalir rýri nýtingarmöguleika á fasteign hans enda komi svalirnar til með að snúa að þeim hluta lóðar Sunnuvegar 1 sem sé minnst notaður. Þeirri fullyrðingu kæranda sé einnig mótmælt að hinar umræddu svalir séu yfir steyptum palli við útgang úr stofu yfir í garð kæranda. Byggingarleyfishafinn bendi á að hann hljóti að eiga rétt til að hagnýta sér eign sína á eðlilegan hátt, þ.m.t. réttinn til að byggja svalir og nýta þær. Svalirnar komi einnig til með að nýtast sem neyðarútgangur.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi og óskaði í kjölfarið umsagnar Brunamálastofnunar á því hvort hið kærða byggingarleyfi og bygging hússins fullnægði kröfum um eldvarnir og brunatæknilegan frágang.
Umsögn Brunamálastofnunar: Úrskurðarnefndin óskaði eftir umsögn Bunamálastofnunar vegna kærunnar og barst hún nefndinni með bréfi, dags. 11. júní 2004. Þar kemur fram að mat stofnunarinnar sé að hvorki byggingarleyfið né byggingin sjálf fullnægi kröfum um eldvarnir og brunatæknilegan frágang, en með brunahönnun hússins væri hægt að kanna hvort byggingarleyfið félli að ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir bygginga.
Athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar vegna umsagnar Brunamálastofnunar: Hafnarfjarðarbær tekur undir umsögn Bunamálastofnunar og bendir m. a. á ábyrgð byggingarstjóra og aðalhönnuðar hússins.
Athugasemdir byggingarleyfishafa vegna umsagnar Brunamálastofnunar: Byggingar-leyfishafi gerir athugasemdir bæði við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar og umsögn Brunamálastofnunar en ekki þykir þörf á að rekja þær frekar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við afgreiðslu málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort ógilda eigi byggingarleyfi vegna viðbyggingar hússins nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði, sem gefið var út hinn 28. mars 2003, þar sem leyfið feli í sér óhæfilega hagsmunaröskun gagnvart kæranda, vegna annmarka á málsmeðferð og efnislegs ólögmætis leyfisins. Fól umdeilt leyfi í sér heimild til að nýta þak bílskúrs byggingarleyfishafa sem svalir, en að öðru leyti var það í samræmi við byggingarleyfisumsókn þá sem grenndarkynnt hafði verið og samþykkt hinn 23. október 2002.
Í málinu er sett fram krafa af hálfu byggingarleyfishafa um frávísun þess þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti.
Fyrir liggur að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi hófust eftir útgáfu leyfisins og var þeim að mestu lokið þegar kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 18. nóvember 2003. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Fram er komið að kærandi eignaðist fasteignina að Sunnuvegi 1 í september 2003 en að eigin sögn fluttist hann þangað hinn 24. október sama ár og skömmu síðar hafi hann orðið þess áskynja að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu stefndu í þá átt að þak viðbyggingar yrði hagnýtt sem svalir. Hafi hann þá þegar leitað upplýsinga um heimildir fyrir framkvæmdinni hjá byggingaryfirvöldum í Hafnarfirði sem hafi orðið til þess að hann kærði útgáfu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar hinn 18. nóvember 2003.
Byggingarleyfishafi hefur lagt fyrir úrskurðarnefndina gögn er benda til þess að í ágústlok hafi framkvæmdum við glugga og hurð á austurgafli hússins verið lokið. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 9. ágúst 2004, var honum gefinn kostur á að tjá sig um framangreinda fullyrðingu byggingarleyfishafa fyrir hinn 23. sama mánaðar. Það hefur kærandi ekki gert og verður því að leggja til grundvallar frásögn byggingarleyfishafa um verklok framkvæmda við viðbygginguna og þau gögn þar að lútandi sem hann lagði fyrir úrskurðarnefndina.
Með vísan til þessa hefði kæranda mátt vera ljóst, er hann festi kaup á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september árið 2003, að fyrirhugað væri að nýta þak viðbyggingarinnar sem svalir og telst kæra hans af þessum sökum of seint fram komin, er hún barst úrskurðarnefndinni hinn 18. nóvember 2003, og ber því að vísa henni frá, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki þykja fram komnar þær ástæður er heimili frávik frá framangreindum kærufresti skv. 1. og 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir