Ár 2004, þriðjudaginn 23. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 41/2004, kæra eigenda húseignarinnar að Bessahrauni 15, Vestamannaeyjum á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 2. júní 2004 á deiliskipulagi Bessahrauns 1 – 15.
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júlí 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir Hrund Kristinsdóttir hdl., f.h. I og J, Bessahrauni 15, Vestmannaeyjum, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar frá 2. júní 2004 um deiliskipulag lóðanna nr. 1 – 15 við Bessahraun.
Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hinn 30. júní 2004.
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vestamannaeyjabæjar hinn 11. apríl 2000 var lögð fram umsókn kærenda um lóð undir einbýlishús í Bessahrauni og af því tilefni var eftirfarandi bókað: „Jónas Þór Þorsteinsson og Ingunn Ársælsdóttir sækja um lóð til skipulags- og byggingarnefndar að Bessahrauni 25-31 til byggingar íbúðarhúss. Jafnframt er sótt um að fá að breyta fyrirhugaðri lóð fyrir raðhús, skv. aðalskipulagi, í lóðir fyrir tvö einbýlishús. Meðfylgjandi er staðsetning umsóttrar lóðar á afstöðumynd, þ.e. eystri lóðin á fyrirliggjandi hugmynd að lóðarskiptingu. Nefndin samþykkti á fundi sínum þann 14. febrúar sl. að gera breytingu á aðalskipulagi sbr. 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingalaga, þ.e. að breyta raðhúsalóð í einbýlishúsalóðir. Nefndin fól einnig skipulags- og byggingarfulltrúa að athuga hvort hægt sé að koma fyrir þremur einbýlishúsalóðum á ofangreindu svæði. Nefndin samþykkir að úthluta umsækjendum ofangreindri lóð þegar stærð og staðsetning hennar liggur fyrir. Nefndin samþykkir að gera breytingu á Aðalskipulagi Vestmannaeyja sbr. 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga, þ.e. að breyta raðhúsalóð í einbýlishúsalóðir. Skipuleggja skal tvær einbýlishúsalóðir hvoru megin í götunni, alls fjórar lóðir.“ Á fundi nefndarinnar hinn 12. desember 2000 var eftirfarandi fært til bókar: „Bessahraun 15… Jónas Þór Þorsteinsson sækir um leyfi skipulags- og byggingarnefndar að byggja íbúðarhús að Bessahrauni 15, skv. teikningum Sigurjóns Pálssonar byggingatæknifræðings. Stærð húss: 176,8 m² og 710,0 m³. Nefndin hefur móttekið erindi og teikningar umsækjanda og samþykkir að senda aðaluppdrætti í grenndarkynningu til íbúa að Bessahrauni 24 og 26 og að Áshamri 49-55. Að þeirri kynningu lokinni, sem tekur fjórar vikur, mun erindið verða afgreitt frá nefndinni. Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingalögum nr. 73/1997.“
Hinn 22. janúar 2001 var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar og var þá eftirfarandi bókað: „Nefndin sendi aðaluppdrætti í grenndarkynningu til íbúa að Bessahrauni 24 og 26 og að Áshamri 49-55 og rann athugasemdafrestur út þann 17. janúar sl. Alls barst ein skrifleg athugasemd f.h. íbúa að Áshamri 49-55. Nefndin samþykkir erindið og skulu framkvæmdir hefjast innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í lóðarleigusamningi. Varðandi athugasemd húseigenda að Áshamri 49-55 þá vill nefndin benda á að skv. Aðalskipulagi Vestmannaeyja 1988-2008 er umrætt svæði skipulagt fyrir íbúðabyggð. Gert var ráð fyrir tveimur botnlöngum með lóðum fyrir raðhús en nefndin hefur, eins og kom fram í grenndarkynningu, ákveðið að breyta þeim nyrðri nú þegar í lóðir fyrir einbýlishús. Á aðalskipulagsuppdrætti er gert ráð fyrir að fjarlægð frá raðhúsum að Áshamri í raðhús að Bessahrauni sé um 15 metrar en eftir breytinguna verður fjarlægðin a.m.k. 20 metrar og gæti orðið meiri ef húsbygging á lóð nr. 13 fyllti ekki út í byggingarreitinn. Nefndin telur því að tekið hafi verið tillit til raðhúss að Áshamri 49-55 með því að færa byggingarreitinn fjær húsinu. Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingalögum nr. 73/1997.“
Í kjölfar þessa var kærendum veitt byggingarleyfi hinn 19. mars 2001 og hinn 29. ágúst sama ár var lóðarleigusamningur gefinn út. Aðalskipulagsbreyting sú sem fyrirhuguð var samkvæmt áður tilvitnuðum bókunum mun aldrei hafa verið gerð. Þá var ekki heldur á þessum tíma gert deiliskipulag fyrir svæðið.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 var lögð fram umsókn um lóðina nr. 13 við Bessahraun til byggingar einbýlishúss og var hún samþykkt. Í október 2003 var lóðarhafa Bessahrauns 13 veitt heimild til könnunar jarðvegs og í kjölfarið leituðu kærendur sér upplýsinga um framkvæmdina þar sem þeir töldu að staðsetning hússins yrði norðar en þeir hefðu átt von á og ekki innan byggingarreits. Vegna deilna um staðsetningu hússins innan byggingarreits var málið nokkrum sinnum á dagskrá skipulags- og byggingarnefndar en hinn 30. mars 2004 samþykkti nefndin að auglýsa deiliskipulagstillögu vegna Bessahrauns 1-15. Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 1. apríl 2004. Tillagan var auglýst frá 16. apríl til 14. maí 2004 með fresti til athugasemda til 28. maí sama ár. Ein athugasemd barst, frá lóðarhöfum Bessahrauns 13, sem kröfðust þess að byggingarreitur lóðarinnar færðist um einn metra í norður frá áður auglýstri tillögu.
Á fundi skipulags- og byggingarefndar hinn 2. júní 2004 var eftirfarandi fært til bókar: „Í ljósi innsendra athugasemda lóðarhafa að Bessahrauni 13, og málavöxtu alla vegna umræddra lóðar, gerum við það að tillögu okkar að byggingarreitur Bessahrauns 13 verði færður til norðurs um einn metra. Þannig að fjarlægð frá lóðarmörkum að sunnan verði 6 m. í stað 5 m., byggingarreitur verði óbreyttur að öðru leyti hvað varðar stærð og legu austur-vestur.“
Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hinn 30. júní 2004.
Í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar var Skipulagsstofnun tilkynnt um afgreiðsluna og í bréfi stofnunarinnar, dags. 28. júlí 2004, segir að stofnunin hafi yfirfarið framlögð gögn og ekki séu gerðar ekki athugasemdir við að Vestmannaeyjabær birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Hin kærða ákvörðun birtist í B- deild Stjórnartíðinda hinn 20. ágúst 2004.
Kærendur eru ósáttir við framangreinda ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar og hafa kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur krefjast ógildingar hins kærða deiliskipulags með vísan til þess að þegar þau hafi fengið byggingarleyfi fyrir húsi sínu að Bessahrauni 15 hafi legið fyrir útfærsla á byggingarreit lóðarinnar sem og aðliggjandi lóðar nr. 13. Einnig hafi legið fyrir lóðarblað þar sem byggingarreitur Bessahrauns 13 hafi verið afmarkaður með ákveðnum hætti. Útfærsla þessi komi fram á teikningu, dags. 22. maí 2000. Síðar hafi gatan verið færð um fimm metra til suðurs, sbr. ódagsetta teikningu þar að lútandi.
Kærendur hafi byggt hús sitt við Bessahraun á þeirri forsendu að aðliggjandi hús nr. 13 myndi ekki hafa óæskileg grenndaráhrif vegna útsýnis o.fl. Þau hafi átt möguleika á að breyta staðsetningu eigin húss eða hönnun þess, en hafi talið að deiliskipulag lægi fyrir þar sem réttur þeirra í þessu efni væri tryggður, sbr. það sem fram komi í lóðarleigusamningi.
Mótmæli kærenda lúti aðallega að því að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi skagi húsið að Bessahrauni 13 út fyrir byggingarreit að norðanverðu sem sé í andstöðu við forsendur þeirra þegar þau hafi byggt hús sitt. Hið kærða deiliskipulag skerði útsýni sem kærendur hafi gert ráð fyrir þegar þau hafi byggt húsið og hafi stofa þess verið hönnuð sérstaklega vegna þessa. Hið kærða deiliskipulag leiði til þess að verðmæti fasteignar þeirra muni rýrna vegna útsýnisskerðingarinnar.
Kærendur mótmæla því sérstaklega að breyting sú sem skipulags- og byggingarnefnd hafi gert eftir að deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst sé minniháttar og sanngjörn sáttatillaga eins og nefndin hafi haldið fram.
Kærendur benda á að á árinu 2000 hafi verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd að gera breytingu á aðalskipulagi Bessahrauns en sú breyting hafi aldrei verið send til Skipulagsstofnunar eins og lög geri ráð fyrir. Áætlunum um framkvæmdir hafi síðan aftur verið breytt árið 2001 og þá byggð parhús í stað einbýlishúsa. Þetta hafi verið gert án grenndarkynningar. Kærendur byggi á því að ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum varðandi grenndarkynningar, undirbúning og samþykkt aðal- og deiliskipulags.
Þá telji kærendur að skipulags- og byggingarnefnd hafi brotið ákvæði stjórnsýslulaga enda hafi ítrekað borið á því að nefndin hafi ekki svarað athugasemdum þeirra og þeim neitað um afrit af fundargerðum nefnda á þeim tíma sem málið hafi staðið yfir.
Á fundi bæjarstjórnar hinn 30. júní 2004, þegar ákveðið hafi verið að samþykkja endanlega tillögu skipulags- og byggingarnefndar frá 2. júní s.á., hafi bréf Húseigendafélagsins f.h. kærenda verið lagt fram. Í fundargerð komi aftur á móti hvorki fram að farið hafi verið yfir þau sjónarmið sem þar séu fram sett né að tekin hafi verið rökstudd afstaða til þeirra. Þetta telji kærendur ámælisverð vinnubrögð.
Kærendur hafi ekki gert athugasemdir við tillögu deiliskipulagsins þegar hún hafi verið auglýst enda hafi þeim verið kynnt að byggingarreitir á lóðum við Bessahraun yrðu 15×20 m á miðri lóð. Krafa þeirra hafi verið sú að fimm metrar yrðu frá norðurmörkum lóðar nr. 13 við Bessahraun að byggingarreit. Þá hafi þau talið að með því að fallast á framangreinda stærð byggingarreits sem væri fimm metra frá norðurmörkum lóðar væri byggt á þeim forsendum sem í gildi hafi verið þegar þau hafi fengið lóð sína afhenta.
Varðandi lögrök vísi kærendur fyrst og fremst til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega 15. gr. um upplýsingaskyldu stjórnvalda.
Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestamannaeyjabæjar er vísað til þess að svæði það sem hér um ræði sé skipulagt samkvæmt aðalskipulagi sem íbúðarsvæði en deiliskipulag hafi ekki verið gert er hafist hafi verið handa við úthlutun lóða við Bessahraun.
Vinna við gerð hins kærða deiliskipulags hafi hafist í mars 2004 og sé málsmeðferð þess í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Eins og sjá megi á afgreiðslu nefndarinnar hafi það verið mat bæjarins að um minniháttar breytingu á auglýstu deiliskipulagi hafi verið að ræða og að ekki hafi verið gerð slík grundvallarbreyting á tillögunni að nauðsyn hafi borið að auglýsa hana upp á nýtt, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna.
Á það sé bent að þegar bæjarstjórn hafi staðfest deiliskipulagið hafi bréf lögmanns kærenda legið fyrir enda hafi á fundi bæjarráðs hinn 28. júní 2004 verið bókað að erindið yrði lagt fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar hinn 30. júní 2004, samhliða afgreiðslu fundargerðar skipulags- og byggingarnefndar hinn 2. júní sama ár. Afgreiðsla nefndarinnar hafi endanlega verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 30. júní 2004 og hafi bréf kærenda legið fyrir við afgreiðslu málsins.
Af hálfu Vestamannaeyjabæjar sé gerð athugasemd við að kröfugerð kærenda hafi á síðari stigum tekið breytingum og af þeim sökum sé eðlilegast að úrskurðarnefndin einblíni á þá kröfugerð sem upphaflega hafi verið sett fram af hálfu kærenda.
Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að aðalskipulagi umrædds svæðis hafi átt að breyta þá sé bent á að í gildi sé aðalskipulag frá árinu 1988 þar sem gert sé ráð fyrir íbúðabyggð á umræddu svæði og því ljóst að ekki hafi þurft að gera breytingar á gildandi aðalskipulagi. Aftur á móti sé rétt að byggð hafi verið parhús í stað einbýlishúsa án grenndarkynningar en því hafi ekki verið mótmælt og sé ekki til úrlausnar í þessu máli.
Vísað sé á bug fullyrðingu kærenda þess efnis að vinnubrögð skipulags- og byggingarnefndar hafi einkennst af hlutdrægni. Almenn afstaða nefndarinnar sé sú að ítrekaðar málamiðlanir hafi verið reyndar til að sætta ólík sjónarmið án árangurs og að við afgreiðslu nefndarinnar hafi allir þurfi að gefa eftir af sínum ítrustu kröfum. Það sé mat nefndarinnar að farið hafi verið að lögum og reglum við gerð deiliskipulagsins. Þá sé því mótmælt að skipulags- og byggingarnefnd hafi brotið ákvæði stjórnsýslulaga, s.s. með því að nefndin hafi ekki svarað athugasemdum kærenda og að þeim hafi verið neitað um afrit af fundargerðum. Þetta sé rangt enda séu allar fundargerðir skipulags- og byggingarnefndar á vef bæjarins og séu almennt settar á netið innan við sólarhring frá fundi nefndarinnar. Þá hafi kærendur haft óhindraðan aðgang að starfsmönnum nefndarinnar og nefndarmönnum sjálfum, ásamt því að haldnir hafi verið margir fundir með öllum málsaðilum, þ.á.m. kærendum.
Á það sé bent að við gerð deiliskipulagsins hafi legið fyrir bréf frá fjölda íbúa á svæðinu, þ.á.m. kærendum, og hafi tillögur þeirra verið hafðar til hliðsjónar við gerð deiliskipulagsins. Því hafi umfjöllun nefndarinnar um deiliskipulagið verið í alla staði lýðræðisleg og öllum hlutaðeigandi hafi verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Ljóst sé að kærendur séu fyrst og fremst ósáttir við tilfærslu á byggingarreitnum enda hafi þeir ekki sett fram athugasemdir þegar deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst. Það hafi verið mat skipulags- og byggingarnefndar að sú tilfærsla sem gerð hafi verið teljist ekki vera slík grundvallarbreyting á fyrirliggjandi skipulagi að nauðsynlegt hafi verið að auglýsa það aftur. Þá sé breytingin ekki þess eðlis að hún geti valdið ógildingu á samþykktu deiliskipulagi. Líta verði til þeirra hagsmuna sem um sé deilt í málinu og verði ekki séð að hagsmunir kærenda séu svo miklir vegna tilfærslu byggingarreitsins að Bessahrauni 13 um einn metra að slíkt geti valdið ógildingu skipulagsins.
Í 73. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segi að hæðir húsa og afstaða þeirra á lóð skuli ákveðin í deiliskipulagi, og í b-lið 75. gr. segi að hús skuli ekki vera nær lóðarmörkum en þrjá metra. Ljóst sé því að sú minniháttar breyting sem gerð hafi verið sé vel innan marka laga og almennra viðmiðana um staðsetningu byggingarreita.
Að lokum sé á það bent af hálfu Vestmannaeyjabæjar að teikningar þær er kærendur vísi í máli sínu til stuðnings varðandi byggingarreit o.fl. séu aðeins óstaðfest vinnuplögg bæjarins.
Andsvör kærenda við málsrökum Vestmannaeyjabæjar: Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um framkomna greinargerð Vestmannaeyjabæjar og lögðu þau fram frekari athugasemdir ásamt því að ítreka fyrri kröfur. Kærendur benda á að teikningar þær sem af hálfu bæjarins séu skilgreindar sem óstaðfest vinnuplögg séu allar komnar frá skipulags- og byggingarfulltrúa. Ætlast hafi verið til að eftir þeim yrði unnið og hvergi komi fram á þeim að um ófullgerðar teikningar sé að ræða. Kærendur hafi verið í góðri trú þegar þau hafi tekið við teikningum frá Vestmannaeyjabæ og ekki hafi hvarflað að þeim að þær væru ómarktækar. Hafi svo verið hafi bæjaryfirvöldum verið skylt að gera þeim grein fyrir því. Val þeirra á lóðinni nr. 15 við Bessahraun hafi m.a. ákvarðast af þessum teikningum og eftir þeim hafi verið farið við hönnun húss þeirra.
Kærendur færa fram fleiri rök fyrir kröfu sinni sem ekki verða rakin frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við afgreiðslu máls þessa.
Niðurstaða: Kærendur í máli þessu krefjast ógildingar á samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 30. júní 2004 um deiliskipulag Bessahrauns 1-15 í Vestmannaeyjum. Byggja kærendur í meginatriðum annars vegar á því að málsmeðferð hafi verið áfátt við gerð og undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og hins vegar að auglýstri deiliskipulagstillögu hafi verið breytt á þann veg að byggignarreitur hússins nr. 13 við Bessahraun hafi verið færður um einn metra í norður og þannig hafi verið gengið gegn lögvörðum grenndarhagsmunum þeirra.
Eins og að framan er rakið vísa kærendur til þess að þegar þeim hafi verið úthlutað lóðinni nr. 15 við Bessahraun hafi þau treyst því, m.a. á grundvelli teikninga sem skipulags- og byggingaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafi fengið þeim í hendur, að hús sem síðar yrðu reist í nágrenni við þau myndu ekki valda þeim tjóni vegna grenndaráhrifa sem ekki væru fyrirsjáanleg.
Þegar þessi sjónarmið eru virt verður að líta til þess að á þeim tíma sem hér um ræðir hafði Aðalskipulag Vestmannaeyja 1988-2008 þegar tekið gildi. Samkvæmt aðalskipulaginu hefur svæði þar sem hér um ræðir lit íbúðarsvæðis auk þess sem greina má byggingarreiti á uppdrætti aðalskipulagsins sem benda til þess að þar hafi verið gert ráð fyrir raðhúsum. Ekki verður þó talið að í aðalskipulaginu felist bindandi ákvörðun um húsagerð á einstökum lóðum íbúðarsvæðisins þrátt fyrir ráðagerðir á uppdrætti og í greinargerð og verður að telja að með úthlutun einbýlishúsalóða við Bessahraun, m.a. til kærenda, hafi verið fallið frá fyrri áformum skipulagsyfirvalda um raðhús á umræddum lóðum. Má ætla að sú ákvörðun hafi verið til hagsbóta fyrir íbúa hverfisins, enda til þess fallin að draga úr þéttleika byggðarinnar. Telst bygging einbýlishúsa á svæðinu því samræmast landnotkun þess samkvæmt aðalskipulagi og er hið umdeilda deiliskipulag því í samræmi við aðalskipulag að þessu leyti.
Þegar kærendum var úthlutað lóð sinni nr. 15 við Bessahraun var ekki í gildi deiliskipulag svæðisins. Eigi að síður var af hálfu bæjaryfirvalda hafist handa við úthlutun lóða og bygging húsa heimiluð. Slík skipan mála er í andstöðu við ákvæði 43. gr. skipulags- og byggingarlaga um að framkvæmdir verði að styðjast við samþykkt deiliskipulag. Það er ekki fyrr en með hinni kærðu samþykkt sem endanleg ákvörðun um deiliskipulag svæðisins liggur fyrir en þá hafði m.a. hús kærenda risið. Eldri samþykktir bæjaryfirvalda vegna þessa máls voru á sínum tíma ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar og verður því ekki um þær fjallað hér.
Ekki verður á það fallist að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt. Þegar skipulagstillagan var fullmótuð var hún auglýst og jafnframt hlaut hún þá málsmeðferð sem áskilin er í 1. mgr. 26. gr., sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Einnig liggur fyrir að skipulagsyfirvöld héldu fund með hagsmunaaðilum þar sem þeim gafst kostur á að reifa sjónarmið sín varðandi staðsetningu húss á lóðinni nr. 13 við Bessahraun.
Í 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að ef sveitarstjórn ákveði að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að skipulags- og byggingarnefnd hafi verið óheimilt að breyta auglýstri tillögu á þann veg sem gert var, enda felur breytingin aðeins í sér færslu byggingarreits hússins nr. 13 við Bessahraun um einn metra sem engan veginn getur talist vera grundvallarbreyting.
Úrskurðarnefndin tekur ekki undir sjónarmið kærenda þess efnis að hin kærða ákvörðun hafi í för með sér svo aukin grenndaráhrif gagnvart kærendum vegna breyttrar staðsetningar hússins nr. 13 við Bessahraun að ógildingu varði. Þvert á móti telur úrskurðarnefndin að hæð, umfang og staðsetning hússins samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé ekki meiri en almennt megi búast við á íbúðarsvæði.
Ekki verður heldur tekið undir sjónarmið kærenda þess efnis að hugsanleg verðrýrnun á eignum þeirra vegna skipulagsbreytingarinnar eigi að leiða til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. Slík verðrýrnun gæti aftur á móti leitt til þess að kærendur öðluðust rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en um þann bótarétt fjallar úrskurðarnefndin ekki.
Samkvæmt öllu framangreindu er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sú að hafna beri kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu samþykktar skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar um deiliskipulag Bessahrauns 1-15.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar frá 2. júní 2004, sem staðfest var í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hinn 30. júní 2004, um að samþykkja deiliskipulag fyrir Bessahraun 1-15.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
_____________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir